Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 294. máls.

Þskj. 334  —  294. mál.



Frumvarp til laga

um nálgunarbann.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Heimilt er að leggja bann við því að maður komi á tiltekinn stað eða svæði, veiti eftirför, heimsæki eða setji sig með öðru móti í samband við annan mann ef rökstudd ástæða er til að ætla að hann muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þess manns sem í hlut á.

2. gr.

    Lögregla gerir kröfu um nálgunarbann. Heimilt er þeim sem telur fullnægt skilyrðum 1. gr. fyrir nálgunarbanni sér til verndar að beina rökstuddri beiðni til lögreglu um að þess verði krafist. Lögreglu ber að taka afstöðu til slíkrar beiðni svo fljótt sem verða má og ekki síðar en innan tveggja vikna frá því að hún berst. Hafni lögregla að krefjast nálgunarbanns skal þeim sem þess hefur beiðst tilkynnt um það og getur hann kært þá ákvörðun eftir sömu reglum og gilda um kæru ákvörðunar lögreglu um að fella niður rannsókn sakamáls.
    Eftir að dómara hefur borist krafa um nálgunarbann ákveður hann þinghald til að taka kröfuna fyrir og gefur út kvaðningu á hendur þeim sem krafan beinist að. Í kvaðningu skal greina stað og stund þinghalds ásamt áskorun til viðtakanda um að sækja þing.
    Heimilt er að handtaka þann sem krafan beinist að ef hann sækir ekki þing að forfallalausu. Skal tekið fram í kvaðningu til viðtakanda að lögregla megi færa hann fyrir dóm með valdi ef með þarf.
    Skylt er dómara að verða við ósk manns um að skipa honum verjanda ef þess er krafist að hann sæti nálgunarbanni.

3. gr.

    Þegar krafa um nálgunarbann er tekin fyrir kynnir dómari hana þeim sem hún beinist að. Skal honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfuna. Heimilt er í því skyni að veita frest sem ekki skal vera lengri en tveir sólarhringar. Að svo búnu leggur dómari úrskurð á kröfuna.
    Nálgunarbanni skal markaður ákveðinn tími, þó ekki lengur en eitt ár. Nálgunarbann verður ekki framlengt nema til komi nýr dómsúrskurður.
    Dómari ákveður sakarkostnað í úrskurði sínum.
    Kæra má til æðri dóms úrskurð um kröfu um nálgunarbann. Um þá kæru gilda sömu reglur og um kæru úrskurðar héraðsdómara samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

4. gr.

    Nú er sá sem sætir nálgunarbanni ekki viðstaddur þegar úrskurður er kveðinn upp og skal þá úrskurður birtur honum á sama hátt og dómur í sakamáli.
    Þegar ástæður þær sem lágu til grundvallar nálgunarbanni eru ekki lengur fyrir hendi getur lögregla fellt bannið úr gildi. Ákvörðun lögreglu um að fella úr gildi bann verður ekki borin undir dómara, en heimilt er að kæra hana á sama hátt og mælt er fyrir um í 1. mgr. 2. gr.
    Lögregla skal tilkynna þeim sem njóta á verndar með nálgunarbanni um að krafa verði lögð fyrir dóm, um lyktir máls og lok nálgunarbanns.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2008.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt samhliða frumvarpi til laga um meðferð sakamála en það frumvarp er afrakstur heildarendurskoðunar laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.
    Reglur um nálgunarbann urðu fyrst til með lögum nr. 94/2000, um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála og almennum hegningarlögum, en þar var reglum um þetta úrræði bætt við lög um meðferð opinberra mála. Að baki því bjuggu þær röksemdir að nálgunarbann ætti sér nokkra samsvörun með þvingunarúrræðum þeirra laga. Hjá því verður hins vegar ekki litið að nálgunarbann hefur ekki það sameiginlega einkenni þvingunarúrræða samkvæmt þeim lögum að tengjast rannsókn eða meðferð sakamáls í tilefni af tilteknu broti. Er því eðlilegra að reglum um þetta úrræði verði komið fyrir í sérstökum lögum, svo sem lagt er til með þessu frumvarpi. Ákvæði þess eru í flestum atriðum samhljóða gildandi reglum um nálgunarbann, en veigamestu breytingarnar, sem hér eru lagðar til, koma fram í reglum 1. mgr. 2. gr. um aðdraganda kröfu lögreglu um slíkt bann og heimildir þess, sem leitar til hennar í þessu skyni, til stjórnsýslukæru ef lögreglu þykja ekki efni til að bera kröfuna fram.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Ákvæði þetta er samhljóða 110. gr. a laga um meðferð opinberra mála og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 2. gr.


    Á sama hátt og í 1. mgr. 110. gr. b laga um meðferð opinberra mála er tekið fram í 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins að lögregla geri kröfu um nálgunarbann. Í gildandi reglum um þetta úrræði er ekki lýst frekar hvaða aðdraganda slík krafa geti átt, en af augljósum ástæðum er hún að jafnaði sett fram að undangenginni beiðni þess sem sætt hefur ógn eða ónæði af hendi annars manns, þótt lögregla geti einnig borið fram kröfu að eigin frumkvæði. Rétt þykir að gera reglur um nálgunarbann mun ítarlegri að því er þetta varðar með því að taka upp ákvæði um stöðu þess sem leitar til lögreglu með beiðni um að þess verði krafist, svo sem lagt er til með nýmælum í 2., 3. og 4. málsl. 1. mgr. 2. gr. Nánar tiltekið er þar ráðgert að mælt verði beinlínis fyrir um heimild manns til að leita til lögreglu með rökstuddri beiðni um að krafist verði nálgunarbanns og beri lögreglu að taka afstöðu til beiðninnar svo fljótt sem verða megi, en þó aldrei síðar en innan tveggja vikna eftir að hún berst. Í lokamálslið 1. mgr. eru síðan gerðar tillögur um málsmeðferð í tilvikum þar sem lögregla teldi ekki efni til að setja fram kröfu, en þetta er gert til að tryggja betur réttarstöðu þess sem óskar eftir vernd með nálgunarbanni. Er þar miðað við að lögreglu beri að tilkynna þeim sem beðið hefur um kröfu um nálgunarbann um niðurstöðu sína ef ekki þykja efni til að gera kröfuna og njóti hann þá heimildar til að kæra ákvörðun um þetta eftir sömu reglum og gilda um kæru ákvörðunar lögreglu um að fella niður rannsókn sakamáls. Með fyrirmælum um þessa kæruheimild er vísað á þennan hátt til ákvæða í 6. og 7. mgr. 52. gr. frumvarps til laga um meðferð sakamála. Í sambandi við þessar reglur er að öðru leyti rétt að taka fram að í tilvikum þar sem lögregla yrði við beiðni um að krefjast nálgunarbanns yrði þeim sem setti beiðnina fram tilkynnt um framvindu máls eftir ákvæðum 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. 2. gr. eru tekin efnislega óbreytt úr 2. mgr. 110. gr. b laga um meðferð opinberra mála. Í 4. mgr. 2. gr. er ráðgert að dómari skipi þeim manni verjanda, sem krafa um nálgunarbann beinist að, ef hann óskar eftir því. Samsvarandi regla er nú í 3. mgr. 34. gr. fyrrnefndra laga.

Um 3. gr.


    Ákvæði 1.–3. mgr. eru samhljóða 110. gr. c laga um meðferð opinberra mála. Í 4. mgr. er tekin upp regla um heimild til að kæra úrskurð héraðsdómara um kröfu um nálgunarbann til æðra dóms og er þar ráðgert að sömu reglur gildi um slíka kæru, þar á meðal um fresti, form hennar, efni og meðferð, og kæru úrskurðar héraðsdómara samkvæmt lögum um meðferð sakamála. Með þessu er vísað um þessi atriði til ákvæða XXX. kafla frumvarps til laga um meðferð sakamála. Þess skal getið að í 1. mgr. 142. gr. laga um meðferð opinberra mála felst nú samsvarandi kæruheimild vegna úrskurða um þetta efni.

Um 4. gr.


    Þessi grein er sama efnis og 110. gr. d laga um meðferð opinberra mála að öðru leyti en því að í 2. mgr. er lagt til að þeim sem nálgunarbann hefur verið sett til hagsbóta fyrir verði heimilað að kæra ákvörðun lögreglu um að fella bannið niður áður en liðinn er sá tími sem því hefur verið markaður með dómsúrskurði. Er þetta gert til samræmis við þá kæruheimild sem lögð er til í áðurnefndum reglum 1. mgr. 2. gr.

Um 5. gr.


    Í þessari grein er miðað við að lög um nálgunarbann taki gildi á sama tíma og lög um meðferð sakamála, verði frumvarp til þeirra laga samþykkt. Rétt er að benda á að hér er ekki kveðið á um afdrif gildandi reglna um þetta efni í XIII. kafla A og 3. mgr. 34. gr. laga um meðferð opinberra mála, enda er mælt fyrir um brottfall þeirra laga í heild í frumvarpi til laga um meðferð sakamála. Með þessu hefur verið gengið út frá því að þetta frumvarp verði ekki að lögum nema á sama veg fari um frumvarp til laga um meðferð sakamála.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um nálgunarbann.

    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að ákvæði um nálgunarbann verði færð yfir í sérstakan lagabálk en þau ákvæði eru nú í lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Í frumvarpinu eru ekki gerðar neinar efnisbreytingar á reglum um nálgunarbann.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum.