Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 351  —  1. mál.




Breytingartillögur



við frv. til fjárlaga fyrir árið 2008.

Frá Jóni Bjarnasyni, Katrínu Jakobsdóttur og Ögmundi Jónassyni.



Skv. frv.
m.kr.

Breyting
m.kr.

Tillaga
m.kr.

Breytingar á sundurliðun 1:
    1.     Við I Skatttekjur
        1.1.5.1 Skattur á fjármagnstekjur einstaklinga          35.000,0     11.000,0     46.000,0
Breytingar á sundurliðun 2:
    2.     Við 03-213 Varnarmál
        a. 1.01 Varnarmál          491,8     -491,8     0,0
        b. 6.01 Tæki og búnaður          42,0     -42,0     0,0
    3.     Við 03-217 Ratsjárstofnun
        1.01 Ratsjárstofnun          822,3     -411,1     411,2
    4.     Við 03-300 Sendiráð Íslands
        1.01 Sendiráð Íslands          1.829,0     -49,1     1.779,9
    5.     Við 06-303 Ríkislögreglustjóri
        1.01 Ríkislögreglustjóri          1.336,2     -214,1     1.122,1
         Greitt úr ríkissjóði           1.201,3     -214,1     987,2

Greinargerð.


    Hér eru lagðar til auknar tekjur ríkissjóðs og sparnaður í ríkisrekstri. Í annarri breytingartillögu sömu flutningsmanna er samhliða lagt til að aukið fé verði veitt til annarra málaflokka.
    Lagt er til að skattur af fjármagnstekjum hækki úr 10% í 14% en að komið verði á frítekjumarki sem nemur 120.000 kr. á ári. Varlega er áætlað að það auki tekjur ríkissjóðs um 11 milljarða kr. Þá er lagt til að öll þau útgjöld til hermála sem eru nýjung í fjárlagafrumvarpinu verði felld brott. Þar er um að ræða allan liðinn sem nefnist „Varnarmál“ og að auki helming þeirrar fjárhæðar sem ætlað er að renni til Ratsjárstofnunar, enda yrði hún m.a. notuð í hernaðarlegum tilgangi. Auk þess er lagt til að sendiráðum Íslands verði gert að komast af með sömu fjárveitingu að krónutölu og á árinu sem er að líða, og sé þar með í reynd gert að hagræða í rekstri sem nemur verðlagshækkunum.
    Loks er lögð til sú breyting á starfi lögreglunnar að sú raunhækkun fjárveitingar til ríkislögreglustjóra sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu falli niður og í staðinn er lagt til í annarri breytingartillögu sömu flutningsmanna að upphæðin skiptist jafnt á milli lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni til að efla almennt löggæslustarf.