Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 95. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 358  —  95. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 19/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

Frá viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Örn Guðleifsson frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Jónas Fr. Jónsson og Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu, Guðmund Bjarnason frá Íbúðalánasjóði, Guðjón Rúnarsson og Ólaf Pál Gunnarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Kjartan Gunnarsson frá viðskiptaráðuneyti.
    Í frumvarpinu er kveðið á um álagningarstofna eftirlitsskyldra fjármálastofnana. Fjármálaeftirlitið og samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila skila viðskiptaráðherra á hverju ári skýrslu um umfang og útgjöld eftirlitsins. Gefi niðurstaða skýrslunnar tilefni til breytinga á eftirlitsgjaldi leggur viðskiptaráðherra fram frumvarp þar að lútandi.
    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að álagningarhlutföll viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, rekstrarfélaga, kauphalla og verðbréfamiðstöðva lækki og álagningarhlutföll annarra aðila, þ.e. vátryggingafélaga, vátryggingamiðlara, verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana, lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs, hækki. Lögð er til einföldun á álagningarstofni vátryggingafélaga þannig að eftirlitsgjald verður einungis reiknað af einum álagningarstofni í stað þriggja stofna samkvæmt gildandi lögum. Í frumvarpinu er lagt til að sérstakt eftirlitsgjald verði lagt á útgefendur fjármálagerninga sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagt er til að í stað orðsins „álagningargrunnur“ í 3. efnismgr. 2. gr. frumvarpsins komi „álagningarstofn“ en gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að síðarnefnda hugtakið komi alfarið í stað hins fyrra.
     2.      Þá er lögð til önnur skipting álagningarstofns viðskiptabanka annars vegar og vátryggingafélaga hins vegar. Breytingartillagan hefur þau áhrif að eftirlitsgjald viðskiptabanka hækkar um samtals 13,6 millj. kr. en eftirlitsgjald vátryggingafélaga lækkar um samsvarandi fjárhæð.
     3.      Þá er lagt til að hugtakið „skipulegir tilboðsmarkaðir“ í 5. tölul. 1. efnismgr. 3. gr. falli brott í samræmi við lög nr. 107/2007.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Árni Páll Árnason, Höskuldur Þórhallsson og Jón Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Atli Gíslason skrifar undir álit þetta með fyrirvara en hann sat fund fyrir Jón Bjarnason.
    Jón Magnússon er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 27. nóv. 2007.



Ágúst Ólafur Ágústsson,


form., frsm.


Guðfinna S. Bjarnadóttir.


Atli Gíslason,


með fyrirvara.



Birgir Ármannsson.


Birkir J. Jónsson.


Björk Guðjónsdóttir.