Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 269. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 397  —  269. mál.




Nefndarálit



um til. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2007, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Nínu Björk Jónsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Sigríði Auði Arnardóttur, Kristínu Lindu Árnadóttur og Gunnar Stein Jónsson frá umhverfisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2007 frá 26. október 2007, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 13. október 2003 um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins og um breytingu á tilskipun ráðsins 96/61/EB; tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/101/EB frá 27. október 2004 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins að því er varðar verkefniskerfi Kýótóbókunarinnar; reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2216/2004 frá 21. desember 2004 um staðlað og varið skráningarkerfi samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB og ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 280/2004/EB; ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2004/156/EB frá 29. janúar 2004 um að setja viðmiðunarreglur fyrir vöktun á losun gróðurhúsalofttegunda og skýrslugjöf um losunina samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB og ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2006/780/EB frá 13. nóvember 2006 um að komast hjá því að tvíreikna skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda í kerfi Bandalagsins um viðskipti með heimildir til losunar, að því er varðar verkefnistengdar aðgerðir samkvæmt Kýótóbókuninni, í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB.
    Innleiðing tilskipana Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 13. október 2003 og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/101/EB frá 27. október 2004 kalla á lagabreytingar.
    Nefndin leggur áherslu á að mikilvægt sé að mál af þessum toga komi framvegis fyrr fyrir Alþingi. Þótt hið nýja losunarkerfi muni nú hafa óveruleg áhrif hér á landi er ljóst að stefnt er að því innan Evrópusambandsins að fella flug og jafnvel skipasamgöngur undir kerfið. Nefndin telur mikilvægt að hún og viðkomandi fagnefndir, samgöngunefnd og umhverfisnefnd, verði upplýstar reglulega um stöðu mála að því leyti.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
         Bjarni Benediktsson, Lúðvík Bergvinsson og Kristinn H. Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Steingrímur J. Sigfússon skrifar undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 5. des. 2007.



Árni Páll Árnason,


varaform., frsm.


Steingrímur J. Sigfússon,


með fyrirvara.


Ragnheiður E. Árnadóttir.



Ásta R. Jóhannesdóttir.


Magnús Stefánsson.


Guðfinna S. Bjarnadóttir.