Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 206. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 416  —  206. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sóleyju Ragnarsdóttur og Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneytinu. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá ríkisskattstjóra, Ríkisendurskoðun, Fasteignamati ríkisins, Útlendingastofnun, Félagi löggiltra endurskoðenda, Viðskiptaráði, Krabbameinsfélagi Íslands og Alþjóðahúsi ehf.
    Í frumvarpinu eru lagðar til fjórar breytingar. Í fyrsta lagi er því ætlað að taka af öll tvímæli um rétt íslenska ríkisins til að leggja erfðafjárskatt á fasteignir hér á landi án tillits til þess hvar búskipti fara fram. Önnur breytingin varðar það hvernig álagningu erfðafjárskatts skuli háttað við þær aðstæður þegar erfingi afsalar sér arfi eða hafnar. Í þriðja lagi eru í frumvarpinu nánar útfærð þau viðmið sem koma til skoðunar við ákvörðun á fjárhagslegu verðmæti hlutabréfa í félagi sem ekki er skráð á skipulegum verðbréfamarkaði. Í fjórða lagi er tekið fram að tilgreindur skiptakostnaður skuli teljast frádráttarbær frá skattstofni erfðafjárskatts.
    Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn ríkisskattstjóra og áréttar að breyting frumvarpsins varðar kostnað sem fellur til á grundvelli 17.–21. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Kostnaður tengdur ráðstöfunum sem erfingjar stofna til persónulega vegna eigin hagsmunagæslu við skiptin telst ekki frádráttarbær.
    Nefndin vekur athygli á því sem fram kom við meðferð málsins að tekjur af erfðafjárskatti hafa vaxið frá því að gildandi lög voru sett.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Bjarni Benediktsson, Gunnar Svavarsson og Katrín Jakobsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. des. 2007.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Ögmundur Jónasson.



Magnús Stefánsson.


Ragnheiður E. Árnadóttir.


Lúðvík Bergvinsson.