Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 237. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 424  —  237. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um kjararáð, nr. 47/2006, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnar Björnsson og Björn Rögnvaldsson frá fjármálaráðuneyti og Guðrúnu Zoëga frá kjararáði. Þá hafa umsagnir borist frá Hagstofu Íslands, kjararáði, Félagi forstöðumanna ríkisstofnana, Starfsmannaráði flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustunnar, Félagi starfsmanna Alþingis, Félagi prófessora, Prestafélagi Íslands, Landssambandi lögreglumanna, Alþýðusambandi Íslands, Viðskiptaráði, Bjarna Vestmann sendifulltrúa, Ólafi Sigurðssyni sendifulltrúa, Hauki Ólafssyni sendifulltrúa, Garðari Garðarssyni hrl. Nefndinni hefur einnig borist tilkynning frá Seðlabanka Íslands.
    Meginrökin fyrir framlagningu frumvarpsins eru þau að viðmið gildandi laga sem kjararáð hefur til hliðsjónar við mat á því til hvaða ríkisstarfsmanna úrskurðarvald þess tekur sé ekki nægilega skýrt. Með frumvarpinu er lagt til að nánar verði útlistað í upphafsgrein laganna til hverra úrskurðarvald kjararáðs taki með því að bæta við starfsheitum ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands og forstöðumenn ríkisstofnana.
    Rökin fyrir þeirri tilhögun að láta kjararáð úrskurða um kjör skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands eru þau að þeir koma í mörgum tilvikum fram sem fulltrúar ríkisins í kjaraviðræðum við starfsmenn þess. Á fundum nefndarinnar kom fram að skrifstofustjórar séu um 60 manns og eru þá ekki taldir með sendiherrar og sendifulltrúar sem gegna tímabundið starfi skrifstofustjóra á aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Störfin sem skrifstofustjórar inna af hendi geta þó verið nokkuð mismunandi og því mikilvægt að innan og meðal ráðuneyta fari fram vinna sem miði að því að skilgreina verk- og ábyrgðarsvið þeirra.
    Nefndin fjallaði einnig um sendifulltrúa en í úrskurði kjararáðs frá 7. júní sl. var staða þeirra borin saman við skrifstofustjóra í Stjórnarráðinu, sbr. 8. gr. laga nr. 39/1971, um utanríkisþjónustu Íslands. Fulltrúar fjármálaráðuneytis hafa bent á að störfin geti ekki talist sambærileg þótt þau teljist til sama flokks í skilningi umræddrar lagagreinar og jafnframt að innan utanríkisráðuneytisins standi til að gera skýrari greinarmun á skrifstofustjórum og sendifulltrúum.
    Það er skilningur meiri hluta nefndarinnar á frumvarpinu að þeir sem skipaðir eru í embætti skrifstofustjóra í Stjórnarráðinu falli undir úrskurðarvald kjararáðs. Jafnframt felst meiri hlutinn á þau sjónarmið ráðuneytisins að staða sendifulltrúa sé ekki hin sama og skrifstofustjóra í þessu tilliti.
    Það er skoðun meiri hlutans að skírskotun frumvarpsins til forstöðumanna ríkisstofnana sé eðlileg þar sem þeir fara almennt með fyrirsvar stofnunar, sbr. 5. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þó benda úrskurðir kjararáðs til þess að á sérsjónarmið geti reynt við mat á því hvort forstöðumenn falli undir vald þess. Um þetta má m.a. vísa til úrskurðar kjararáðs frá 11. apríl 2007 sem varðar laun og starfskjör framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að þrátt fyrir breytingar frumvarpsins verði þeirri stefnu viðhaldið að sem flestir hópar semji um kjör sín. Meiri hlutinn vill einnig taka fram að með frumvarpinu stendur ekki til að hrófla við úrskurðum kjararáðs varðandi framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og forstöðumenn fangelsanna á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri, á Kvíabryggju og á Litla-Hrauni.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Bjarni Benediktsson skrifar undir álit þetta með fyrirvara.
    Gunnar Svavarsson og Katrín Jakobsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Grétar Mar Jónsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 6. des. 2007.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Bjarni Benediktsson,


með fyrirvara.



Lúðvík Bergvinsson.


Ólöf Nordal.