Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 208. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 451  —  208. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um happdrætti fyrir Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, nr. 18 22. apríl 1959, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Hjalta Zóphóníasson frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Sigurð Ágúst Sigurðsson frá Happdrætti DAS og Pétur Bjarnason frá Happdrætti SÍBS.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimild Sambands íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga til að reka happdrætti verði framlengd um 11 ár eða til loka árs 2018. Framlenging þessi er í samræmi við gildistíma heimildar Happdrættis Háskóla Íslands til einkareksturs peningahappdrættis hér á landi en sú heimild gildir til 1. janúar 2019, sbr. lög nr. 127/2003.
    Nefndin telur rétt að vekja athygli á því að í júní 2007 skipaði dóms- og kirkjumálaráðherra fastanefnd á sviði happdrættismála. Störf nefndarinnar skiptast í þrennt, að fylgjast með þróun á sviði happdrættismála í Evrópurétti, að gera tillögur til dóms- og kirkjumálaráðherra um framkvæmd vísindarannsókna um spilafíkn, ólögleg fjárhættuspil o.fl. og gera tillögur til dóms- og kirkjumálaráðherra um réttarbætur á sviði happdrættismála.
    Ágúst Ólafur Ágústsson, Karl V. Matthíasson, Ólöf Nordal og Siv Friðleifsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 5. des. 2007.



Birgir Ármannsson,


form., frsm.


Atli Gíslason.


Sigurður Kári Kristjánsson.



Ellert B. Schram.


Jón Magnússon.