Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 91. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 454  —  91. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 116 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson, Kolbein Árnason og Arndísi Steinþórsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Björgu Thorarensen frá Háskóla Íslands, Guðrúnu Gauksdóttur frá Háskólanum í Reykjavík, Elliða Vignisson frá Vestmannaeyjabæ, Sigurgeir B. Kristgeirsson frá Vinnslustöðinni hf., Friðrik J. Arngrímsson og Björgólf Jóhannsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda og Helga Laxdal frá Félagi vélstjóra og málmtæknimanna.
    Málið var sent út til umsagnar og bárust umsagnir um það frá Byggðastofnun, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnuninni, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landssambandi smábátaeigenda, Samtökum fiskvinnslu án útgerðar, Samtökum fiskvinnslustöðva og Sjómannasambandi Íslands. Þá bárust nefndinni viðbótargögn frá sjávarútvegsráðuneyti og Vestmannaeyjabæ.
    Markmið frumvarpsins er að koma til móts við þær útgerðir sem verða fyrir skerðingu veiðiheimilda vegna niðurskurðar aflamarks í þorski og að framlengja undantekningarreglu bráðabirgðaákvæðis IV hvað varðar úthlutun, veiðar og greiðslu veiðigjalds af aflamarki í úthafsrækju. Vegna slæmrar stöðu rækjuiðnaðarins var með lögum nr. 42/2006, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, lögfest tímabundin undanþága frá veiðiskyldu á úthafsrækju ella hefði aflahlutdeild verið felld niður í samræmi við ákvæði 5. mgr. 15. gr. laga um stjórn fiskveiða. Með frumvarpinu er hin tímabundna undanþága framlengd um eitt fiskveiðiár til viðbótar eða til loka fiskveiðiársins 2008/2009. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að ekki skuli lagt veiðigjald á veiðiheimildir í þorski á yfirstandandi og næsta fiskveiðiári en það stafar af verulegum niðurskurði á aflamarki í þorski á yfirstandandi fiskveiðiári en ekki er útlit fyrir að veiðiheimildir aukist á því næsta.
    Nefndin athugaði sérstaklega hvort það stæðist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að undanþiggja eina fisktegund veiðigjaldi umfram aðrar en þær breytingar sem frumvarpið felur í sér eru ívilnandi fyrir ákveðinn hluta atvinnugreinarinnar umfram aðra. Meiri hlutinn telur að þar sem ákveðinn hluti atvinnugreinarinnar verður fyrir umtalsverðum búsifjum umfram aðra vegna nauðsynlegra aðgerða stjórnvalda til að tryggja vöxt og viðhald fiskstofna þjóni það lögmætum og málefnalegum tilgangi að fella niður veiðigjald í ákveðinni tegund enda sé um að ræða tímabundna aðgerð, ákvæðið nái jafnt til allra þeirra sem eins er ástatt um og gangi ekki lengra en nauðsynlegt er.
    Nefndin tók til sérstakrar skoðunar álagningarhlutfall veiðigjalds á útgerðina, m.a. með hliðsjón af því að frumvarpið gerir ráð fyrir að fella niður veiðigjald í þorski fyrir yfirstandandi og næsta fiskveiðiár. Samkvæmt gildandi lögum er álagningarhlutfall veiðigjalds 8,0% árið 2007, 8,7% árið 2008 og loks skal veiðigjald koma að fullu til framkvæmda árið 2009 með 9,5% álagningarhlutfalli. Vegna mikils samdráttar í úthlutun á veiðiheimildum í þorski á yfirstandandi fiskveiðiári telur meiri hlutinn nauðsynlegt að lækka enn frekar en fyrirhugað var það sérstaka veiðigjald sem útgerðin greiðir í ríkissjóð og leggur til að álagningarhlutfall verði 4,8% fyrir fiskveiðiárin 2007/2008 og 2008/2009. Með þessari breytingu verður veiðigjald á útgerðir á fiskveiðiárinu 2007/2008 lækkað um tæplega 300 millj. kr. til viðbótar þeim 275 millj. kr. sem frumvarpið gerði ráð fyrir. Má því gera ráð fyrir að útgerðir greiði um 440 millj. kr. í veiðigjald á fiskveiðiárinu 2007/2008 en það er sama fjárhæð og innheimt var á síðasta fiskveiðiári.
    Gunnar Svavarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Við 2. gr. er verði 1. gr. Greinin orðist svo:
    Ákvæði til bráðabirgða II í lögunum orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 21. gr. skal við ákvörðun veiðigjalds miða við 4,8% í stað 9,5% fiskveiðiárin 2007/2008 og 2008/2009.
    Á fiskveiðiárunum 2007/2008 og 2008/2009 skal ekki innheimta veiðigjald vegna úthlutunar veiðiheimilda í þorski. Fiskistofa skal endurgreiða veiðigjald sem innheimt hefur verið á fiskveiðiárinu 2007/2008 vegna úthlutunar í þorski og ofgreitt veiðigjald vegna úthlutunar í öðrum tegundum sem þegar hefur verið innheimt. Skiptist veiðigjaldið á fleiri gjalddaga, sbr. 1. mgr. 23., gr. skal ofgreitt gjald koma til frádráttar á næsta gjalddaga.

Alþingi, 10. des. 2007.




Arnbjörg Sveinsdóttir,


form., frsm.


Kjartan Ólafsson.


Helgi Hjörvar.


Jón Gunnarsson.


Karl V. Matthíasson.