Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 458  —  1. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2008.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



    Núverandi ríkisstjórn tók við afar góðu búi en um leið vandasömum aðstæðum í þjóðarbúinu vegna viðvarandi uppgangs og góðæris í efnahagslífinu en margt bendir til að nú sjái fyrir endann á því. Mörg mál sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu horfa til framfara. Sérstaklega ber að fagna því að ríkisstjórnin ætlar að standa við það samkomulag sem síðasta ríkisstjórn gerði um að bæta kjör aldraðra og öryrkja. 2. minni hluti telur ýmsar forsendur frumvarpsins vafasamar og telur að bregðast þurfi við breyttum aðstæðum í efnahagslífinu, eins og fram kom við 2. umræðu. Mikilvægt er að efnahagsstjórn, þar sem fjárlögin eru eitt mikilvægasta stjórntækið, sé ávallt viðbúin að takast á við þær sveiflur sem verða á hverjum tíma. Með hátt stemmdu fjárlagafrumvarpi, eins og hér er lagt fram, er þetta svigrúm ríkissjóðs afar lítið, ef nokkuð, og hagstjórnarmöguleikar eftir því litlir.
    Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs yrðu um 461 milljarðar kr., þar af næmu skatttekjur um 422 milljörðum kr. Fyrir 2. umræðu um frumvarpið kom fram ný tekjuáætlun fjármálaráðuneytis sem gerði ráð fyrir því að tekjur ríkisins hækkuðu um 8 milljarða kr. og yrðu 469,4 milljarðar kr. Munaði þar mest um 5 milljarða kr. hækkun á virðisaukaskatti en einnig var gert ráð fyrir að tekjuskattur hækkaði um 1,5 milljarða kr. og stimpilgjöld um milljarð. Fyrir 3. umræðu er gert ráð fyrir tekjuauka sem nemur um 4 milljörðum kr. Að öllu samanlögðu er gert ráð fyrir að tekjur ríkisins árið 2008 verði 473.439,55 m.kr. Gjöldin í frumvarpi til fjárlaga 2008 voru áætluð 430 milljarðar kr. en hækkuð við 2. umræðu um tæplega 1,3 milljarða kr. og við 3. umræðu er enn gert ráð fyrir auknum útgjöldum sem nema 2.608,6 m.kr. Að öllu samanlögðu eru því fjárheimildir ársins 434.231,5 m.kr. Tekjujöfnuður ársins er samkvæmt þessu rúmlega 39 milljarðar kr.
    Nauðsynlegt er að ríkisstjórnin taki fast á efnahagsmálum með aðhaldssömum fjárlögum og undirbúningi skattalækkana sem grípa má til með skömmum fyrirvara ef og þegar til þess kemur að samdráttur verður í einkaneyslu og atvinnulífi. Sterk staða ríkissjóðs samfara mikilli skuldasöfnun almennings og atvinnulífs kallar á aðgerðir í þá veru út frá almennum reglum um sanngirni og þjóðarsátt. Framundan er erfiður tími kjarasamninga þar sem takast á miklar væntingar í kjölfar góðæris og horfur á minnkandi þenslu á mörgum sviðum atvinnulífsins. Sem fyrr segir er staða ríkissjóðs sterk og þegar litið er á hagræna skiptingu útgjalda í fjárlagafrumvarpinu sést að hækkun einstakra liða er afar mismunandi og langmest munar um nærri tvöföldun útgjalda til samgöngumála. Við 2. umræðu kom fram sú skoðun 2 minni hluta að þau fyrirheit sem felast í umræddri hækkun séu langt frá því að vera raunhæf vegna skipulagsmála, hönnunar og umhverfismats og ekki síður vegna takmarkana sem ákvarðast af getu íslensks atvinnulífs til framkvæmda.
    Helstu breytingar á frumvarpinu sem liggja fyrir við 3. umræðu snúa að tillögum ríkisstjórnarinnar til að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Fagna má mörgum atriðum í þeim tillögum en rétt er að vekja athygli á að mikið af því sem þar kemur fram var þegar ráðgert með tillögum sem Siv Friðleifsdóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra, kynnti ásamt Árna Mathiesen, þáverandi og núverandi fjármálaráðherra, fyrir réttu ári síðan eða 6. desember 2006. Endurnýting gamalla fyrirheita með þessum hætti hlýtur að orka tvímælis. Þá er tímasetning ákvarðana um aukin útgjöld gagnrýniverð þar sem frumvarpið hefur þegar farið í gegnum 1. og 2. umræðu. Síðan frumvarpið var lagt fram í byrjun október hafa Seðlabankinn, alþjóðlegar eftirlitsstofnanir, OECD og innlendir hagfræðingar varað við þeirri þenslu sem boðuð er í frumvarpinu og hvatt til aðhalds. Nýjasta spá OECD sem kynnt var í byrjun desember hvetur stjórnvöld til enn frekara aðhalds en annars er spáð harðri lendingu hagkerfisins. Hræringar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafa mikil áhrif á íslenskt efnahagslíf og ástandið á mörkuðum gefur tilefni til að ætla að skatttekjur ríkisins geti orðið minni en áður var gert ráð fyrir. Það skiptir miklu að koma böndum á verðbólguna því að framundan er gerð kjarasamninga og raunverulegar kjarabætur felast m.a. í lágri verðbólgu.
    Það er mat 2. minni hluta fjárlaganefndar að ekki séu að sinni efnahagslegar ástæður til útgjaldaaukningar umfram það sem þegar var ákveðið 6. desember 2007. Það sem umfram er miðað við fyrri tillögur er einkanlega að tryggja kjarabót til þeirra sem geta jafnhliða hinu opinbera bótakerfi aflað sér tekna eða notið tekna frá maka. Sú breyting miðar ekki að auknum jöfnuði í landinu og almannatryggingakerfið er jafnfjarri því og áður að tryggja þeim sem minnst hafa lífeyri sem dugar til framfærslu. Aukin ríkisútgjöld bitna með beinum hætti á afkomumöguleikum almennings vegna vaxtahækkana og þyngri greiðslubyrði húsnæðislána og lausaskulda.

Niðurstaða.
    2. minni hluti fjárlaganefndar fagnar þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur ákveðið til að bæta kjör aldraðra og öryrkja að því marki sem þar er verið að efna loforð fyrri ríkisstjórnar. 2. minni hluti gagnrýnir hins vegar harðlega þau lausatök sem eru á efnahagsstjórninni og bendir á að grípa þurfi til aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum. Jafnframt því þarf ríkisvaldið að vera búið undir skattalækkanir ef til niðursveiflu kemur í hagkerfinu.

Alþingi, 11. des. 2007.

Bjarni Harðarson.