Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 476  —  1. mál.




Breytingartillögur



við frv. til fjárlaga fyrir árið 2008.

Frá Jóni Bjarnasyni, Árna Þór Sigurðssyni og Dýrleifu Skjóldal.



Skv. frv.
m.kr.

Breyting
m.kr.

Tillaga
m.kr.

Breytingar á sundurliðun 2:
    1.     Við 07-207 Varasjóður húsnæðismála
        6.21 Varasjóður húsnæðismála vegna félagslegra
             íbúða sveitarfélaga          60,0     225,0     285,0
    2.     Við 09-999 Ýmislegt
        1.25 Endurgreiðslur til sveitarfélaga á virðisaukaskatti
             vegna kaupa á slökkvibifreiðum og búnaði slökkviliða     0,0     70,0     70,0
    3.     Við 10-801 Jöfnunarsjóður sveitarfélaga
        1.12 Sameining sveitarfélaga          0,0     235,0     235,0
    4.     Við 14-211 Umhverfisstofnun
        1.11 Endurgreiðslur til sveitarfélaga
             vegna veiða á ref og mink          30,6     29,4     60,0
         Greitt úr ríkissjóði           586,3     29,4     615,7
    5.     Við 14-281 Styrkir til fráveitna sveitarfélaga
        6.51 Styrkir til fráveitna sveitarfélaga          200,0     590,0     790,0

Greinargerð.


    Ýmis sveitarfélög áforma sölu félagslegra íbúða á næsta ári og lítið mun draga úr umsóknum um rekstrarframlög. Til að veita þeim sveitarfélögum sams konar aðstoð og sveitarfélög hafa notið á undanförnum árum þarf Varasjóður húsnæðismála að hafa til ráðstöfunar sem nemur 285 m.kr. á fjárlögum ársins 2008. Hér er því lagt til að hækka framlag til hans um 225 m.kr.
    Sveitarfélögin fá endurgreiddan virðisaukaskatt vegna kaupa á slökkvibifreiðum og búnaði slökkviliða. Undanfarin ár hefur 30 m.kr. verið ráðstafað til þessa verkefnis á fjárlögum, en það dugar hvergi nærri til endurgreiðslu á þeim virðisaukaskatti sem sveitarfélögin eiga rétt á. Á fjárlögum ársins 2008 þarf framlag til umræddrar endurgreiðslu að nema a.m.k. 70 m.kr. eins og hér er lagt til.
    Eðlilegt er að þau sveitarfélög sem sameinast í framtíðinni njóti sömu fjárhagslegu fyrirgreiðslu og þau sveitarfélög sem sameinast hafa á undanförnum árum og kann það í raun að vera forsenda þess að sameining umræddra sveitarfélaga gangi eftir. Á fjárlögum ársins 2008 þarf því að gera ráð fyrir sérstöku framlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að fjárhæð 235 m.kr., eins og hér er lagt til.
    Til að endurgreiðsluhlutfall ríkisins vegna kostnaðar við refa- og minkaveiðar verði um 50% eins og ráð var fyrir gert á sínum tíma þarf framlag á fjárlögum ársins 2008 að nema um 60 m.kr. Hér er því lagt til hækkað framlag um 29,4 m.kr.
    Samkvæmt upplýsingum fráveitunefndar þurfa sveitarfélögin 790 m.kr. til framkvæmda vegna fráveitna á árinu. Hér er því lögð til hækkun framlags um 590 m.kr.