Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 67. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 478  —  67. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um fyrningu kröfuréttinda.

Frá viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingvar Sverrisson frá Alþýðusambandi Íslands, Evu Bryndísi Helgadóttur frá Lögmannafélagi Íslands, Hildigunni Hafsteinsdóttur og Jóhannes Gunnarsson frá Neytendasamtökunum, Guðrúnu J. Jónsdóttur frá embætti ríkisskattstjóra, Guðrúnu Björk Bjarnadóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Gísla Tryggvason, talsmann neytenda, Eddu Símonardóttur, Jóhönnu Láru Guðbrandsdóttur, Guðfinnu H. Þórsdóttur og Snorra Olsen frá embætti tollstjórans í Reykjavík, Áslaugu Árnadóttur og Sigríði Rafnar Pétursdóttur frá viðskiptaráðuneyti, Benedikt Bogason og Óskar Sigurðsson, sem komu að samningu frumvarpsins, og Viðar Má Matthíasson, prófessor í lögum. Einnig bárust nefndinni umsagnir um málið.
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögum um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14/1905 (fyrningarlög). Lögin eru orðin meira en hundrað ára gömul og þykir kominn tími til að færa þau til nútímans. Samhliða fyrningarlögum eru einnig í gildi sérreglur í ýmsum lögum um fyrningu tiltekinna tegunda kröfuréttinda.
    Að meginstefnu takmarkast gildissvið frumvarpsins við kröfuréttindi. Þegar skorið er úr um hvort reglur um fyrningu samkvæmt frumvarpinu eigi við um tiltekin réttindi verður að skera úr um hvort þau séu kröfuréttareðlis. Hins vegar gildir einu hvernig krafa hefur stofnast. Skv. 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins nær frumvarpið til krafna um peninga og aðrar greiðslur. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að samningur þess efnis að krafa sé ófyrnanleg sé ógildur en ekki eru lagðar hömlur við því að semja um styttri eða lengri fyrningarfrest.
    Í II. kafla frumvarpsins eru ákvæði um fyrningarfrest. Helsta nýmæli frumvarpsins er að í 3. gr. er lagt til að almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda verði fjögur ár. Er í raun um að ræða lögfestingu á gildandi meginreglu í framkvæmd. Jafnframt er lagt til að ábyrgðarskuldbindingar fyrnist eftir sömu reglum og krafa á hendur aðalskuldara og að reglur um það efni verði einfaldaðar. Þá er í frumvarpinu ákvæði um fyrningu flestra skaðabótakrafna og m.a. tekið mið af kröfum vegna tjóns sem gerist á löngum tíma.
    Í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins kemur fram að fyrningarfrestur krafna sem stofnast vegna vanefnda reiknist frá þeim degi er samningur var vanefndur. Um það var rætt á fundi nefndarinnar að þessi regla gæti leitt til vandkvæða ef kæmi að ákvörðun upphafstíma fyrningarfrests í málum sem varða galla á fasteign. Mundi upphafstími fyrningarfrests þá miðast við afhendingu fasteignar sem gæti verið bagalegt þegar um leyndan galla á fasteign er að ræða sem kaupandi getur ekki kynnt sér þegar hann fær eign afhenta. Nefndin telur þó ekki tilefni til breytinga á framangreindu ákvæði enda er í 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins mælt fyrir um viðbótarfrest í þeim tilvikum er kröfuhafa skortir nauðsynlega vitneskju um kröfuna eða skuldarann. Fyrnist þá krafa ekki fyrr en einu ári eftir þann dag sem hann fékk eða bar að afla sér slíkrar vitneskju.
    Í 4. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um 20 ára fyrningarfrest krafna vegna innláns eða verðmæta sem hafa verið lögð inn hjá fjármálafyrirtæki, opinberum sjóði eða öðrum aðila. Í 2. mgr. 4. gr. er kveðið á um að vekja verði athygli kröfuhafa eða erfingja hans á því að krafa sé að fyrnast. Nefndin leggur til breytingu á þessu ákvæði í þá veru að gera það skýrara en fram kom við umfjöllun málsins í nefndinni að ákvæðið þætti ekki alls kostar skýrt. Leggur nefndin því til að 2. mgr. ákvæðisins verði orðuð á þann veg að viðtakandi fjármuna veki athygli kröfuhafa eða erfingja hans, tímanlega og á sannanlegan hátt, á því að krafa sé að fyrnast. Með „sannanlegum hætti“ mundi t.d. teljast tilkynning send með ábyrgðarbréfi, símskeyti eða öðrum sannanlegum hætti.
    Talsvert var rætt um 9. gr. frumvarpsins á fundum nefndarinnar. Í 1. mgr. er lagt til það nýmæli að skaðabótakröfur fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgur er fyrir því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Skv. 2. mgr. 9. gr. fyrnist krafa þó ávallt í síðasta lagi tuttugu árum eftir að tjónsatburði lauk en frá þessu gilda undantekningar hvað varðar líkamstjón. Í a-lið 2. mgr. er annars vegar mælt fyrir um að 20 ára fyrningarfrestur eigi ekki við þegar tjón hefur orðið í atvinnustarfsemi eða starfsemi sem má jafna við hana og hins vegar gildir 20 ára fyrningarfrestur ekki á meðan tjónþoli er undir 18 ára aldri. Annað hvort þeirra skilyrða sem talin eru upp í a-lið 2. mgr. skulu vera til staðar til að undantekningin geti átt við. Auk þess þurfa að vera fyrir hendi skilyrði b-liðar 2. mgr. um að sá sem ábyrgur er fyrir tjóni, eða einhver sem hann ber ábyrgð á, þurfi að hafa vitað eða mátt vita, áður en tjónsatburði lauk, að háttsemin gæti leitt til hættu á lífi eða alvarlegs heilsutjóns. Nefndin leggur til breytingu á 1. mgr. 9. gr. í þá veru að krafa um skaðabætur vegna líkamstjóns, þ.m.t. fyrir ófjárhagslegt tjón, fyrnist á tíu árum. Samkvæmt breytingartillögu nefndarinnar er því gert ráð fyrir að tíu ára fyrningarfrestur gildi um kröfur um skaðabætur fyrir líkamstjón og kröfur um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón. Breytingu þessari er ætlað að ná til alls ófjárhagslegs tjóns sem fjallað er um í 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, þ.m.t. miskabætur fyrir ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns.
    Í III. kafla frumvarpsins eru reglur um viðbótarfresti og eru þessar reglur gerðar skýrari í frumvarpinu. Það er nýmæli í frumvarpinu að ekki þarf að vera um sviksamlega háttsemi að ræða hjá skuldara til að kröfuhafi geti fengið viðbótarfrest til að sækja kröfu sína. Í 2. mgr. 12. gr. er sérregla um fyrningu kröfu sem hvílir á félagsmanni til að leggja framlag í eignasafn félagsins. Fyrningarfrestur slíkrar kröfu hefst þegar félagsaðild lýkur og félagið hefur fengið tilkynningu þar að lútandi.
    Í IV. kafla frumvarpsins eru ákvæði um slit fyrningar. Í 15. gr. er fjallað um þau tilvik er fyrningu er slitið með málsókn. Eins og fram kemur í athugasemdum með 2. mgr. 15. gr. er við mat á því hvenær mál telst höfðað litið til 93. gr. laga um meðferð einkamála þar sem lagt er til grundvallar að mál teljist höfðað þegar stefna er birt eða árituð um viðtöku samrits hennar eða stefndi mætir að öðrum kosti fyrir dóm þar sem stefnandi afhendir honum samrit stefnu og þingfestir mál. Í 22. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um viðbótarfresti í þeim tilvikum að máli er vísað frá eða það fellur niður án þess að leyst sé efnislega úr því.
    Í 3. mgr. 15. gr. er fjallað um slit fyrningar þegar ágreiningur er lagður í gerð. Við umfjöllun nefndarinnar um málið var rætt um það hvort ákvæðið ætti ekki við um gerðardóma samkvæmt lögum. Til skýringar leggur nefndin til að 1. málsl. 3. mgr. 15. gr. orðist á þann veg að í þeim tilvikum þegar heimilt er eða skylt að leggja ágreining í gerð sé fyrningu slitið þegar kröfuhafi gerir það sem nauðsynlegt er til að hrinda málinu af stað.
    Í 16. gr. frumvarpsins er lagt til það nýmæli að unnt sé að slíta fyrningu kröfu með því að leggja mál til ákvörðunar fyrir stjórnvald sem hefur sérstakt ákvörðunarvald til að ljúka deilu um ágreining. Nefndinni þykir rétt að skýra orðalag 2. mgr. 16. gr. betur og leggur til breytingartillögu í þeim efnum.
    Reglur um réttaráhrif þess að fyrningu er slitið eru í V. kafla frumvarpsins. Athugasemdir komu frá embætti tollstjórans í Reykjavík um 3. mgr. 21. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að nýr tíu ára fyrningarfrestur hefjist frá þeim degi sem fullnustugerð lýkur án þess að krafa fáist að fullu greidd. Í umsögn embættisins og í máli fulltrúa þess á fundum nefndarinnar kom fram að óbreytt frumvarp kæmi illa við skuldara skattkrafna auk þess sem það hefði í för með sér aukna vinnu fyrir embættið. Nefndin telur rétt að bregðast við réttmætum athugasemdum tollstjóra. Leggur hún því til breytingu á 3. mgr. 21. gr. þess efnis að orðin „tíu ára“ falli brott. Þetta þýðir að ef krafa fæst ekki að fullu greidd við aðfarargerð miðast nýr fyrningarfrestur við eðli kröfunnar í samræmi við gildandi lög og ákvæði laga um gjaldþrotaskipti. Sem dæmi má nefna að nýr fyrningarfrestur vegna skattkröfu yrði þannig fjögur ár, vegna dómkröfu tíu ár og frestur vegna kröfu um innlán eða verðmæti sem hafa verið lögð inn hjá fjármálafyrirtæki tuttugu ár.
    Í VI. kafla frumvarpsins er fjallað um réttaráhrif fyrningar en meginreglan er sú að fyrning kröfu hefur í för með sér að krafan fellur niður. Í VII. kafla er gildistökuákvæði. Gert er ráð fyrir því að verði frumvarpið að lögum eigi ákvæði þeirra aðeins við um þær kröfur sem stofnast eftir gildistöku þeirra.
    Björk Guðjónsdóttir og Höskuldur Þórhallsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Jón Magnússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 5. des. 2007.



Ágúst Ólafur Ágústsson,


form., frsm.


Guðfinna S. Bjarnadóttir.


Atli Gíslason.



Birgir Ármannsson.


Árni Páll Árnason.


Birkir J. Jónsson.



Jón Gunnarsson.