Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 319. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Prentað upp.

Þskj. 494  —  319. mál.
Leiðréttur texti.




Tillaga til þingsályktunar



um skipun rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka sölu Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. á fasteignum á Keflavíkurflugvelli og kaup félagsins á þjónustu, vörum og verkefnum.

Flm.: Atli Gíslason, Grétar Mar Jónsson.



    Alþingi ályktar að kjósa sjö manna rannsóknarnefnd samkvæmt ákvæðum 39. gr. stjórnarskrárinnar.
    Verkefni nefndarinnar verði að rannsaka sérstaklega eftirfarandi:
     1.      Allt sem viðkemur sölu Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. á fasteignum á Keflavíkurflugvelli.
     2.      Allt sem viðkemur kaupum Þróunarfélagsins á þjónustu, vörum og verkum.
     3.      Öll samskipti ráðuneyta og Þróunarfélagsins, þar með talið hvernig staðið var að stofnun félagsins.
     4.      Allt sem viðkemur tengslum málsaðila, mögulegum hagsmunaárekstrum og spurningum um vanhæfi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Nefndin kanni einnig aðra þætti þessara mála eftir því sem henni þykir ástæða til. Hún hafi fullan rétt til allra upplýsinga frá opinberum aðilum og einstaklingum eftir því sem nauðsynlegt reynist. Fundir nefndarinnar verði haldnir í heyranda hljóði. Nefndin hraði störfum sínum eins og kostur er og skili niðurstöðum til Alþingis. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Greinargerð.


    Í þeim umræðum sem fram hafa farið um viðskipti Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. hefur mikið skort á að Alþingi fengi nauðsynlegar upplýsingar um stöðu mála þótt ítrekað hafi verið leitað eftir því.
    Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. var stofnað til að hafa umsjón með og eftir atvikum ráðstafa fasteignum sem Bandaríkjaher skildi eftir við brottför sína og ýmis verkefni því tengd. Fjármálaráðuneytið, fyrir hönd ríkisins, telst vera einkaeigandi þessa félags og var undirritaður sérstakur samningur milli fjármálaráðuneytisins og Þróunarfélagsins. Í honum kemur skýrt fram að Þróunarfélagið teljist vera opinber aðili í skilningi laga og þurfi því m.a. að uppfylla útboðsskyldu samkvæmt lögum svo og ákvæði stjórnsýslulaga um hæfi.
    Nú er ljóst að misbrestur hefur orðið á því að ákvæðum þessa samnings sé fylgt. Eignir hafi verið seldar án útboðs til manna sem nátengdir eru Sjálfstæðisflokknum og meiri hluta bæjarstjórnar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ og jafnvel flokksmönnum í fleiri nærliggjandi sveitarfélögum. Starf rannsóknarnefndarinnar, sem tillagan gerir ráð fyrir að kosin verði, þarf m.a. að beinast að því að upplýsa til fulls hvernig staðið var að auglýsingu eigna, hvernig staðið var að upplýsingagjöf til áhugasamra aðila, jafnt þeirra sem gerðu tilboð sem annarra, hvort jafnræðis var gætt með fullnægjandi hætti og hvort greiðsluskilmálar og önnur ákvæði í samningum endanlegra kaupenda eru í samræmi við það sem kynnt var öðrum. Ýmsir gerendur hafa setið báðum megin við borðið og selt eignir, í sumum tilvikum til nátengdra aðila eða samstarfsmanna, langt undir markaðsverði svo að milljörðum skiptir. Kanna verður til fulls þetta tengslanet og svara, þannig að hafið sé yfir vafa, spurningum um hvort hagsmunaárekstrar hafi átt sér stað, hvort einhverjir málsaðilar hafi verið vanhæfir sökum persónulegra hagsmuna, starfa sinna vegna eða sökum tengsla við venslamenn eða nána samstarfsmenn. Seldar hafa verið 1.700 íbúðir fyrir 14 milljarða kr. og er markaðsverð þeirra miðað við fermetraverð íbúða í Reykjanesbæ sagt vera 29,5 milljarðar. Sala á atvinnuhúsnæði virðist, ef eitthvað er, hafa verið á verði sem er enn fjær því að endurspegla markaðsverð og raunverulegt verðmæti viðkomandi eigna en þegar íbúðarhúsnæði á í hlut. Einn sá þáttur sem nefndin þarf að kanna sérstaklega er hvernig farið hefur verið með skipulagsmál á svæðinu og hvernig samskiptum Þróunarfélagsins og viðkomandi sveitarfélaga hefur verið háttað að því leyti og almennt.
    Stjórn Þróunarfélagsins hefur brugðist mjög treglega við margítrekuðum tilmælum um að afhenda einstökum þingmönnum umbeðin gögn og gera þannig hreint fyrir sínum dyrum. Sömuleiðis hefur þingnefndum sem málið varðar, fjárlaganefnd og efnahags- og skattanefnd, gengið seint að fá gögn í málinu, þau sem afhent hafa verið ekki verið tæmandi og sumt bundið trúnaði sem þýðir að aðeins nefndarmenn en ekki aðrir alþingismenn hafa gagn af.
    Ljóst er að yfir viðskiptum Þróunarfélagsins hvílir mikil leynd. Ógerningur hefur verið að fá fram nauðsynlegar upplýsingar um stöðu mála þannig að hægt sé að leggja fullnægjandi mat á lögmæti þeirra samninga sem félagið hefur gert og á málsmeðferð alla.
    Sú leynd sem yfir öllu þessu máli hefur hvílt er einungis til þess fallin að vekja tortryggni um viðskipti Þróunarfélagsins og ýta undir grunsemdir um að farið hafi verið á svig við lög og gott viðskiptasiðferði. Þar sem félagið er alfarið í eigu ríkisins og miklir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi hvílir sú skylda á herðum Alþingis að hafa eftirlit með og tryggja að lögum og reglum um meðferð opinberra fjármuna sé fylgt í hvívetna. Á því virðist hafa orðið mikill misbrestur og þegar svo er komið málum er nauðsynlegt að Alþingi grípi í taumana með skipun rannsóknarnefndar til að allir þættir þessa máls verði upplýstir. Það er að sjálfsögðu gagnlegt að Ríkisendurskoðun fyrir sitt leyti framkvæmi stjórnsýsluathugun á fyrirtækinu en rétt er að hafa í huga að Ríkisendurskoðun er fyrir endurskoðandi Þróunarfélagsins. Það er mat flutningsmanna að stjórnsýsluendurskoðun Ríkisendurskoðunar leysi Alþingi ekki undan þeirri skyldu sinni að upplýsa málið til fulls og kanna alla þætti þess en sjálfgefið er að rannsóknarnefndin eigi gott samstarf við Ríkisendurskoðun í sinni vinnu.