Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 293. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Prentað upp.

Þskj. 498  —  293. mál.
Leiðréttur texti.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, sbr. lög nr. 74/1992, 102/1993, 68/2007 og 102/2007.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helga Bernódusson skrifstofustjóra Alþingis og Hafdísi Ólafsdóttur aðallögfræðing skrifstofu Alþingis. Nefndinni barst einnig umsögn um málið frá Félagi starfsmanna Alþingis.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um þingsköp Alþingis. Frumvarpið er afrakstur starfs á vegum forseta, forsætisnefndar og formanna þingflokka og hefur þessi hópur unnið að því að móta ný vinnubrögð í þinginu.
    Meginmarkmið frumvarpsins eru dregin saman í fimm liðum í athugasemdum með því. Í fyrsta lagi er reglulegur starfstími Alþingis lengdur og er gert ráð fyrir því að þingið hefji störf í byrjun september að hausti og reglulegum þingstörfum ljúki í lok maí eða byrjun júní. Þingfundadögum verður hins vegar ekki fjölgað en þeir hafa jafnan verið um hundrað á hverjum vetri. Í öðru lagi er stefnt að því að efla eftirlitshlutverk þingsins, þ.e. að auka tækifæri þingmanna til að hafa eftirlit með störfum framkvæmdarvaldsins. Í þriðja lagi er ætlunin að fækka kvöld- og næturfundum. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að þingfundir standi almennt ekki lengur en fram að kvöldmat. Sé hins vegar þörf á lengri fundartíma verði kvöldfundir á þriðjudagskvöldum. Þar fyrir utan verði kvöldfundir ekki haldnir nema í undantekningartilvikum. Þingmenn geta þá haft það í huga þegar þeir skipuleggja störf sín. Í fjórða lagi er stefnt að því að ráðherrar komi oftar á fundi hjá nefndum þingsins. Í fimmta lagi er með frumvarpinu stefnt að því að gera umræður í þingsal markvissari og styttri en verið hefur með breyttum reglum um ræðutíma.
    Með hliðsjón af þeim markmiðum sem að er stefnt með frumvarpinu eru í því ýmis nýmæli. Í 2. og 3. gr. frumvarpsins er annars vegar lagt til að þriðjungur þingmanna geti óskað eftir því að ráðherra komi á fundi nefndar í þinghléum og hins vegar að ráðherrar komi að jafnaði á fund þingnefnda að hausti og kynni þau frumvörp sem þeir hyggjast leggja fram á löggjafarþinginu. Með þessu er ætlunin að efla tengsl milli ráðherra og þingnefnda og styrkja stöðu nefndanna. Í 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ef frumvarp breytist við 2. umræðu skuli nefnd fjalla um það að nýju áður en 3. umræða hefst óski þingmaður eða ráðherra þess. Með þessu fyrirkomulagi gefst tækifæri til að fara á ný yfir frumvarp milli 2. og 3. umræðu hafi verið samþykktar breytingar á því við 2. umræðu. Með þessari breytingu er stefnt að því að tryggja betur gæði lagasetningar.
    Í 16. gr. frumvarpsins eru lagðar til breyttar reglur um ræðutíma. Meginmarkmið þessara breytinga er að gera umræður markvissari, draga úr löngum ræðum og stytta umræðutímann frá því sem nú er. Með ákvæðinu er auk þess lögð til sú formbreyting að sett eru í eina töflu öll ákvæði um ræðutíma og ræðufjölda. Slík ákvæði hafa hingað til verið á víð og dreif í lögunum. Meiri hlutinn vill af þessu tilefni vekja athygli á að þrátt fyrir ákvæði 16. gr. er forseta heimilað skv. 2. mgr. 12. gr. að rýmka ræðutíma um þingmál við hverja umræðu ef það telst svo umfangsmikið eða mikilvægt að ekki sé hægt að ræða það á fullnægjandi hátt samkvæmt þeim reglum sem annars gilda. Einnig er gert ráð fyrir því að forseti geti rýmkað ræðutíma þingmanns ef sérstaklega stendur á og nauðsyn krefur. Í athugasemdum með 12. gr. frumvarpsins kemur fram að forseti meti í hverju tilfelli hvort beita skuli þessu ákvæði en ætlast sé til þess að hann ráðgist um það við formenn þingflokka og að þeir komi óskum sínum í þessum efnum til forseta. Þá er í 3. mgr. 12. gr. mælt fyrir um heimild þingflokks til að óska eftir því að ræðutími verði tvöfaldaður við 2. umræðu. Slíka heimild getur þingflokkur nýtt tvisvar á hverju þingi. Samkvæmt þessu er unnt að fara fram á lengri ræðutíma um stærri mál og umdeild, með takmörkunum þó. Sem dæmi um mál sem einkum kæmi til álita að lengja ræðutíma í væru frumvörp til stjórnarskipunarlaga, langtímaáætlanir eða sérstaklega umfangsmikil lagafrumvörp. Jafnframt væri eðlilegt að taka tillit til óska þingnefnda um lengdan ræðutíma.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um ýmis atriði, bæði þau sem fjallað er um í þessu frumvarpi og önnur atriði sem ekki er tekið á í frumvarpinu en tengjast störfum þingsins. Má í þessu sambandi nefna að fram fóru umræður um fyrirkomulag umræðna um frumvarp til fjárlaga. Rætt var um þann möguleika að þeirri umræðu í þingsal yrði skipt eftir málaflokkum. Slíkt fyrirkomulag ætti að skila hnitmiðaðri umræðu um fjárlagafrumvarpið. Þá yrðu einnig meiri líkur á að umræða um frumvarpið yrði aðgengilegri þeim þingmönnum sem ekki eiga sæti í fjárlaganefnd en eiga t.d. sæti í þeirri fastanefnd sem fjallar um þann málaflokk sem rætt er um hverju sinni. Breyting í þá átt gæti byggst á samkomulagi þingflokka um fyrirkomulag umræðunnar. Einnig var rætt um það hvort ekki þyrfti lengri ræðutíma til umræðu um frumvarp til fjárlaga en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Leggur meiri hlutinn til breytingu á ræðutíma um fjárlagafrumvarpið þannig að ræðutíminn verði tvöfaldur frá því sem venjulega gildir samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.
    Fram komu hugmyndir í nefndinni um enn frekari styttingu á ræðutíma í 1. umræðu en kveðið er á um í frumvarpinu. Kom m.a. fram í umræðum í nefndinni að slíkt gæti leitt til þess að auknar líkur yrðu á því að þingmannafrumvörp og -tillögur kæmust á dagskrá og yrði vísað til nefndar. Meiri hlutinn telur að þetta atriði þarfnist nánari skoðunar og telur ekki rétt að svo stöddu að leggja til breytingu í þessa veru. Má enda leiða líkur að því að verði frumvarpið að lögum muni þær breytingar á ræðutíma sem þar er gert ráð fyrir leiða til þess að umræður verði styttri og störf þingsins skipulagðari og því ættu fleiri mál þingmanna að komast á dagskrá.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu.
    Lögð er til viðbót við b-lið 1. gr. í þá veru að gert verði ráð fyrir því í starfsáætlun þingsins að sérstakir dagar verði áætlaðir fyrir fundi í þingflokkum. Þannig gefist ráðrúm fyrir þingflokka til að halda lengri fundi sem unnt sé að nota til stefnumótunar og samráðs.
    Lagt er til að við 12. gr. bætist ný málsgrein í þá veru að tvöfaldur ræðutími gildi um umræður um frumvarp til fjárlaga nema fyrir liggi samkomulag milli þingflokka um annað fyrirkomulag umræðunnar. Með því er tryggður lágmarksréttur við umræðuna ef ekki er samkomulag um annað.
    Meiri hlutinn leggur einnig til breytingar á reglum 16. gr. um ræðutíma. Í fyrsta lagi felst í þeim breytingum að ræðutími ráðherra og þingmanna verði jafnaður frá því sem nú er samanborið við gildandi þingskapalög og ákvæði frumvarpsins. Áfram munu þó flutningsmenn frumvarpa, bæði ráðherrar og þingmenn, hafa rýmri ræðutíma við 1. umræðu og framsögumenn nefndarálita sömuleiðis við 2. og 3. umræðu. Við 1. umræðu er lagt til að ræðutími ráðherra í annað sinn verði 5 mínútur í stað 10 mínútna eins og mælt er fyrir um í frumvarpinu. Með þessu verður ræðutími annarra ráðherra en þeirra sem eru flutningsmenn og þing manna jafn. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra og flutningsmaður máls og sömuleiðis aðrir þingmenn geti við 2. umræðu talað í fyrsta sinn í 20 mínútur og í annað sinn í 10 mínútur. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að ráðherra og flutningsmaður geti við 2. umræðu talað í fyrsta sinn í 30 mínútur og í annað sinn í 15 mínútur og aðrir þingmenn geti í fyrsta sinn talað í 15 mínútur og í annað sinn í 5 mínútur. Samkvæmt þessari breytingu er ræðutími þingmanna rýmkaður nokkuð frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu án þess að vikið sé frá þeim meginatriðum sem lagt var upp með. Að sama skapi er ræðutími ráðherra skertur. Áfram verður gert ráð fyrir því að ræðutími verði 5 mínútur ef þingmaður eða ráðherra tekur oftar til máls.
    Þá leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar í þá veru að laga tæknileg atriði og skýra orðalag í öðrum ákvæðum. Lögð er til breyting á 1. gr. laganna til að árétta að sá þingmaður sem hefur lengstan starfsaldur skuli aðeins stjórna fyrsta fundi á kjörtímabili enda var sú breyting gerð á þingsköpum með lögum nr. 68/2007 að kosning forseta, varaforseta, fastanefnda og alþjóðanefnda gildi fyrir allt kjörtímabilið. Þá er lögð til breyting á 3. gr. laganna í því skyni að staðfesta þá framkvæmd og hefð sem verið hefur að hlutað er um sæti þingmanna í upphafi hvers löggjafarþings en ekki eingöngu í upphafi kjörtímabils eins og skilja má ákvæðið nú eftir breytingar sem gerðar voru á þingsköpum í vor. Einnig er lögð til breyting á 4. gr. laganna sem leiðir af breytingum í frumvarpinu um ræðutíma. Þá er lögð til leiðrétting á tilvísun í 29. gr. laganna. Loks er lögð til breyting á 1. mgr. 63. gr. laganna í þeim tilgangi að hnykkja á því að forseti þings boðar til þingfunda.
    Meiri hlutinn telur rétt að geta þess að frumvarp þetta er áfangi á þeirri leið að móta ný vinnubrögð þingsins þannig að þau verði í meira samræmi við tíðaranda og tæknibreytingar síðustu ára. Gert er ráð fyrir því í ákvæði til bráðabirgða að verði frumvarpið að lögum muni þau sæta endurskoðun innan þriggja ára frá gildistöku þeirra með hliðsjón af því hvernig hefur tekist til. Með frumvarpinu er stefnt að því að efla þingið og bæta starfsumhverfi þess. Meiri hlutinn telur rétt að áfram verði hugað að endurskoðun á öðrum atriðum, svo sem starfi og starfsaðstöðu nefnda.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 12. des. 2007.



Birgir Ármannsson,


form., frsm.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Sigurður Kári Kristjánsson.



Ellert B. Schram.


Siv Friðleifsdóttir.


Ólöf Nordal.



Karl V. Matthíasson.


Jón Magnússon.