Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 163. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 523  —  163. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004.

Frá minni hluta viðskiptanefndar.



    Með frumvarpinu er lögð til breyting á 82. gr. laga um vátryggingarsamninga sem fjallar um upplýsingaöflun vátryggingafélaga við töku persónutrygginga.
    Minni hlutinn vill taka undir þau sjónarmið sem koma fram í umsögn Persónuverndar, dags. 19. nóvember 2007, og í áliti Persónuverndar nr. 2005/103 frá 1. júní 2006.
    Í umsögn Persónuverndar sem barst viðskiptanefnd við umfjöllun hennar um málið kemur m.a. fram að sú upplýsingaskylda sem í frumvarpinu felst byggist á samþykki sem gengur skemur en svokallað „upplýst samþykki“. Í 7. tölul. 2. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er hugtakið „samþykki“ skilgreint sem sérstök, ótvíræð yfirlýsing sem einstaklingur gefur af fúsum og frjálsum vilja um að hann sé samþykkur vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig og að honum sé kunnugt um tilgang hennar, hvernig hún fari fram, hvernig persónuvernd verði tryggð, um að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt o.s.frv.
    Persónuvernd telur efni frumvarpsins í betra samræmi við grunnreglu persónuréttarins um sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins en ef samþykkis væri ekki leitað. Stofnunin lýsir hins vegar áhyggjum af því hvernig ákvæði frumvarpsins um það sem stofnunin kallar „einfalt samþykki“ komi til með að virka í framkvæmd. Í umsögninni er til að mynda nefnt atriði varðandi sönnun ef svo færi að ágreiningur yrði milli vátryggingartaka og skyldmennis um heimild hins fyrrnefnda til að veita vátryggingafélagi upplýsingar um þann síðarnefnda. Þá er nefnt sem dæmi tilvik þar sem skyldmenni neitar að veita samþykki til þeirrar vinnslu upplýsinga sem um ræðir. Álitaefni af þessu tagi voru rædd á fundum viðskiptanefndar.
    Ágreiningur hefur verið milli Fjármálaeftirlitsins annars vegar og Persónuverndar hins vegar um hvernig túlka beri 82. gr. gildandi laga um vátryggingarsamninga. Persónuvernd barst árið 2005 fyrirspurn þar sem óskað var álits á vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við sölu á líf- og sjúkdómatryggingum í tilteknu tilviki. Eftirfarandi atriði voru meðal þeirra sem lögð voru til grundvallar í þeirri fyrirspurn sem Persónuvernd barst og stofnunin veitti álit á. Í fyrsta lagi hvort lögmætt væri að afla heilsufarsupplýsinga um umsækjanda frá þriðja aðila (t.d. læknum eða sjúkrastofnunum). Í öðru lagi var spurt um lögmæti þess að afla heilsufarsupplýsinga um foreldra og systkini umsækjenda. Í niðurstöðuorðum Persónuverndar kemur fram að öflun upplýsinga hjá þriðja aðila um einstakling sem sækir um líf- og sjúkdómatryggingu sé óheimil nema fyrir liggi skriflegt, upplýst samþykki hans og honum hafi verið veitt fræðsla í samræmi við 21. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þá segir að öflun upplýsinga um arfgenga sjúkdóma foreldra og systkina sé óheimil.
    Minni hlutinn tekur fram að frumvarpið er sagt vera málamiðlun milli sjónarmiða Persónuverndar annars vegar og Fjármálaeftirlitsins hins vegar. Að mati minni hlutans eiga sjónarmið Persónuverndar, sem hefur það hlutverk að gæta einkalífsverndar að vera ráðandi við breytingu á lögunum. Minni hlutinn telur að Fjármálaeftirlitið gangi með áliti sínu inn á verksvið Persónuverndar og skipti sér af málefnum sem ekki heyri undir það.
     Minni hlutinn leggur til breytingartillögu í þá veru að í stað þess að fyrir liggi svonefnt „einfalt samþykki“ þess sem upplýsingar eru veittar um skuli liggja fyrir skriflegt samþykki þess aðila.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    4. málsl. 1. efnismgr. 1. gr. orðist svo: Vátryggingartaki, eða eftir atvikum vátryggður, skal leggja fram skriflegt samþykki foreldra eða systkina er hann veitir upplýsingar um sjúkdóma þeirra.

Alþingi, 13. des. 2007.



Atli Gíslason.