Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 142. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 536  —  142. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



     1.      Við 2. gr. 1. tölul. orðist svo: Bein mismunun: Þegar einstaklingur fær óhagstæðari meðferð en annar af gagnstæðu kyni við sambærilegar aðstæður.
     2.      Við 4. gr. 5. mgr. orðist svo:
                  Hafi Jafnréttisstofa rökstuddan grun um að stofnun, fyrirtæki eða félagasamtök hafi brotið gegn lögum þessum skal hún kanna hvort ástæða er til að óska eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki málið til meðferðar. Hlutaðeigandi stofnun, fyrirtæki eða félagasamtökum er skylt að láta Jafnréttisstofu í té upplýsingar og gögn sem hún telur nauðsynleg til að upplýsa um málsatvik. Verði viðkomandi aðilar ekki við þessari beiðni Jafnréttisstofu innan hæfilegs frests getur hún ákveðið að þeir greiði dagsektir þar til upplýsingarnar og gögnin hafa verið látin í té. Sé það mat Jafnréttisstofu að umræddar upplýsingar og gögn renni frekari stoðum undir að brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna skal hún óska eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki málið til meðferðar og jafnframt tilkynna hlutaðeigandi stofnun, fyrirtæki eða félagasamtökum skriflega um þá ákvörðun sína.
     3.      Við 5. gr. Eftirfarandi breytingar verði á greininni.
                  a.      Í stað orðanna: „njóta gjafsóknar“ í 5. mgr., er verði 6. mgr., komi: fá greiddan málskostnað bæði í héraði og fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði.
                  b.      Við 1. málsl. 6. mgr., er verði 5. mgr., bætist: fyrir kærunefndinni enda sé niðurstaða nefndarinnar kæranda í hag.
                  c.      2. málsl. 6. mgr. verði ný málsgrein, 7. mgr., og orðist svo:
                     Ef kæra er bersýnilega tilefnislaus að mati kærunefndarinnar getur nefndin úrskurðað kæranda til að greiða gagnaðila málskostnað. Aðför má gera án undangengins dóms til fullnustu málskostnaðar.
     4.      Við 6. gr. Lokamálsliður 1. mgr. falli brott.
     5.      Við 8. gr. Greinin orðist svo:
             Eftir hverjar alþingiskosningar skipar félagsmálaráðherra tíu manna Jafnréttisráð. Ráðherra skipar formann án tilnefningar, tvo fulltrúa sem tilnefndir eru sameiginlega af samtökum launafólks, tvo fulltrúa sem tilnefndir eru sameiginlega af samtökum atvinnurekenda, tvo fulltrúa sem tilnefndir eru sameiginlega af Femínistafélagi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands og Kvenréttindafélagi Íslands, einn fulltrúa sem tilnefndur er sameiginlega af Samtökum um kvennaathvarf og Stígamótum, einn fulltrúa sem tilnefndur er af Félagi um foreldrajafnrétti og einn fulltrúa sem tilnefndur er af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
     6.      Við 18. gr. Eftirfarandi breytingar verði á 2. mgr.:
                  a.      Í stað orðsins„aðgerðir“ í 2. málsl. kemur: gerð áætlun um hvernig þeim skuli náð.
                  b.      Lokamálsliður orðist svo: Jafnréttisáætlun og jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu skal endurskoða á þriggja ára fresti.
     7.      Við 26. gr. Eftirfarandi breytingar verði á greininni:
                  a.      4. mgr. falli brott.
                  b.      6. mgr. orðist svo:
                     Við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu.
     8.      Við 27. gr. Lokamálsgrein falli brott.
     9.      Við bætist fjögur ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
         a. (I.)
             Ákvæði 1. mgr. 4. gr. um skipun framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu gildir frá og með fyrstu skipun í starfið eftir gildistöku laga þessara.Við gildistöku laga þessara heldur framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu starfi sínu til loka skipunartíma síns.
        b. (II.)
             Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal ráðherra skipa nýtt Jafnréttisráð, sbr. 8. gr.
         c. (III.)
             Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal ráðherra skipa nýja kærunefnd jafnréttismála skv. 5. gr. og fellur þá niður skipun kærunefndar jafnréttismála sem skipuð var samkvæmt lögum nr. 96/2000.
         d.(IV.)
             Félagsmálaráðherra skal sjá til þess að þróað verði sérstakt vottunarkerfi á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og framkvæmd stefnu um jafnrétti við ráðningar og uppsagnir í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins. Verkefninu skal lokið fyrir 1. janúar 2010 og skal þá fara fram endurskoðun á lögum þessum.