Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 359. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 653  —  359. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um stöðu vélhjólaaksturs á Íslandi.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hyggst ráðherra nýta nýlega skýrslu um mat á stöðu vélhjólaaksturs á Íslandi og þá með hvaða hætti?
     2.      Telur ráðherra koma til greina að skilgreina vegtegundir innan fjallvega/ferðamannavega í gerð F4 og F5 eins og fram kemur í skýrslunni?
     3.      Ef svo er, hvaða ferli telur ráðherra að þurfi innan stjórnsýslunnar svo að slíkt fyrirkomulag komist á?


    Akstur utan vega hefur verið viðvarandi vandamál á Íslandi um langt skeið, erfitt vandamál sem þarf að finna lausn á. Ástæður utanvegaaksturs eru vafalaust margar, svo sem takmarkaðar merkingar á vegum og vegslóðum, en einnig er oft um að ræða hugsunarleysi eða virðingarleysi gagnvart náttúru landsins.
    Augljóst er að stjórnvöld og almenningur verða að taka höndum saman svo að stöðva megi utanvegaakstur og koma í veg fyrir skemmdir og eyðileggingu landsins sem af slíkum akstri getur hlotist. Mikilvægt er að setja skýrari ákvæði um akstur utan vega. Einnig er nauðsynlegt að bæta merkingar og efla fræðslu til almennings.
    Í nýlegri skýrslu um stöðu vélhjólaaksturs á Íslandi koma fram tillögur vélhjólamanna um að auðvelda þeim að ferðast um landið. Þeir leggja til að skilgreiningum á fjallvegum og ferðamannavegum verði breytt en einnig að skráningu vélhjóla verði breytt á þann hátt að leyfilegt verði að aka fleiri gerðum vélhjóla um vegi og slóða landsins.
    Stjórnsýsla umhverfisráðuneytis nær ekki til vegagerðar eða veghalds samkvæmt vegalögum. Að mati ráðuneytisins orkar sú tillaga mjög tvímælis að bæta við F4 og F5 skilgreiningu Vegagerðarinnar á fjallvegum. Umferð gangandi fólks og ríðandi á slóðum samrýmist ekki umferð vélhjóla. Umferð vélhjóla samrýmist hins vegar vel annarri umferð farartækja.
    Fagna ber þeim áhuga á verndun náttúrunnar og samstarfsvilja sem kemur fram í umræddri skýrslu af hálfu vélhjólamanna. Vélhjólaklúbbar hafa rekið áróður gegn utanvegaakstri og kennt ábyrgan akstur vélhjóla og er það til fyrirmyndar.
    Landmælingar Íslands hafa lokið kortlagningu vega og slóða miðhálendisins. Framundan er úrvinnsla þeirra upplýsinga. Ákvarða þarf hvaða slóðar og vegir eigi að vera opnir fyrir umferð farartækja og hvort loka eigi einhverjum slóðum, alfarið eða tímabundið. Vinna þarf vandað rafrænt kort af vegum og slóðum til upplýsingar fyrir almenning og sem grunn fyrir frekari kortagerð.
    Gefa þarf út reglugerð sem bannar akstur utan þeirra slóða og vega sem ákveðið hefur verið að megi vera opnir. Þessi verkefni þarf að vinna í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög, samgönguráðuneytið og Vegagerð ríkisins.
    Þessi vinna verður einnig unnin í samráði við hagsmunaaðila, vélhjólamenn og aðra þá sem ferðast um landið. Það er jákvætt að vita til þess áhuga sem vélhjólamenn hafa á upplýsingagjöf og fræðslu um ábyrgan akstur í náttúru Íslands í baráttunni gegn landspjöllum af völdum vélhjóla.
    Það er ljóst að forusta vélhjólamanna og þorri vélhjólamanna vill ganga vel um landið sitt. Því miður hafa þó orðið spjöll á gróðri og náttúru af völdum torfæruhjóla og annarra vélknúinna farartækja á sumum svæðum á undanförnum missirum. Það er skylda okkar allra að reyna að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig og væntir ráðuneytið góðs samstarf um það við vélhjólamenn sem aðra í þeim verkefnum sem liggja fyrir og hér hefur verið lýst.