Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 444. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 707  —  444. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2007.

1. Inngangur.
    Það sem bar hæst á árinu var einkum fernt. Í fyrsta lagi 10 ára afmæli Vestnorræna ráðsins. Í tilefni þess var gerð tillaga að stofnun afmælissjóðs sem hafi það að markmiði að auka vestnorræn ungmennasamskipti. Í öðru lagi ályktun um aukið samstarf um björgunarmál á Norður-Atlantshafssvæðinu, sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins og tekin á dagskrá hjá Norðurlandaráði að frumkvæði Vestnorræna ráðsins á grundvelli samstarfssamnings ráðanna frá árinu 2006. Í þriðja lagi fundur formanna Vestnorræna ráðsins og sendinefndar Evrópuþingsins gagnvart m.a. Norðurlandaráði og þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál (SIN-EEA Delegation) á Norðurlandaráðsþingi þar sem Vestnorræna ráðið óskaði eftir formlegu samstarfi við Evrópuþingið. Fundurinn varð til þess að formaður sendinefndarinnar mælti með því við forseta Evrópuþingsins að nefndin sinnti einnig samskiptum við Vestnorræna ráðið. Í fjórða lagi þemaráðstefna um fríverslun og Vestur-Norðurlöndin. Ráðstefnan var upplýsandi og hvatti til skoðanaskipta um gildi fríverslunar fyrir einstök vestnorræn lönd og sameiginlega hagsmuni svæðisins og var hún liður í því að stofnað var til aukins samráðs milli utanríkisráðherra Íslands og Grænlands.

2. Almennt um Vestnorræna ráðið.
    Þjóðþing Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk á Grænlandi hinn 24. september 1985. Með því var formfest samstarf landanna þriggja, sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur í þjóðþingum aðildarlandanna. Við þær breytingar voru einnig samþykktar nýjar vinnureglur og markmið samstarfsins skerpt.
    Markmið ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, gæta auðlinda og menningar Norður-Atlantshafssvæðisins, fylgja eftir samvinnu ríkisstjórna og landstjórna landanna og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfis-, auðlinda- og samgöngumál, aukið menningarsamstarf og íþrótta- og æskulýðsmál, svo að fátt eitt sé nefnt.
    Í Vestnorræna ráðinu sitja átján þingmenn, sex frá hverju aðildarríki. Vestnorræna ráðið kemur saman til ársfundar sem fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Þriggja manna forsætisnefnd, skipuð þingmanni frá hverju aðildarríki, stýrir starfi ráðsins á milli ársfunda. Ráðið heldur árlega þemaráðstefnu þar sem sérstakt málefni er tekið fyrir og getur auk þess skipað vinnunefndir um tiltekin mál. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum sínum með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landstjórna, virkri þátttöku í norrænu samstarfi, samvinnu við norðurheimskautsstofnanir og skipulagningu á ráðstefnum og fundum.

3. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Í upphafi árs 2007 skipuðu Íslandsdeildina eftirtaldir þingmenn: Halldór Blöndal, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Hjálmar Árnason, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Guðrún Ögmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Sigurjón Þórðarson, þingflokki Frjálslynda flokksins, Anna Kristín Gunnarsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Sigurrós Þorgrímsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Pétur H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Helgi Hjörvar, þingflokki Samfylkingarinnar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Magnús Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks, Magnús Þór Hafsteinsson, þingflokki Frjálslynda flokksins, og Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Eftir kosningar til Alþingis 12. maí og kosningu í alþjóðanefndir 31. maí skipuðu eftirtaldir þingmenn Íslandsdeild, sem aðalmenn: Karl V. Matthíasson, þingflokki Samfylkingarinnar, Árni Johnsen, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðni Ágústsson, þingflokki Framsóknarflokks, Guðjón A. Kristjánsson, þingflokki Frjálslynda flokksins, Guðbjartur Hannesson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn eru Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Herdís Þórðardóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Bjarni Harðarson, þingflokki Framsóknarflokks, Jón Magnússon, þingflokki Frjálslynda flokksins, Katrín Júlíusdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Kristján Þór Júlíusson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Í upphafi fundar Íslandsdeildar 4. júní var Karl V. Matthíasson kosinn formaður og Árni Johnsen varaformaður. Í upphafi árs gegndi Arna Gerður Bang starfi ritara Íslandsdeildar en Magnea Marinósdóttir tók við af henni í apríl.
    Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hélt þrjá fundi á árinu. Á fyrri hluta árs bar hæst undirbúningur fyrir þemaráðstefnu um fríverslun og Vestur-Norðurlönd. Fyrir ársfundinn í ágúst lagði Íslandsdeildin fram fjórar ályktunartillögur, sem allar voru samþykktar á fundinum. Á sama tíma tók Ísland við formennsku Vestnorræna ráðsins af Grænlandi.

4. Fundir Vestnorræna ráðsins 2007.
    Vestnorræna ráðið hélt að venju þemaráðstefnu í júní og ársfund í ágúst. Auk þess voru haldnir fjórir forsætisnefndarfundir á árinu. Halldór Blöndal, formaður Íslandsdeildar, sat fyrir hönd Íslandsdeildar forsætisnefndarfundi Vestnorræna ráðsins í Kaupmannahöfn 27. febrúar. Karl V. Matthíasson sat forsætisnefndarfundina sem haldnir voru eftir það þann 14. júní samhliða þemaráðstefnu ráðsins um fríverslun, 28. ágúst samhliða ársfundi ráðsins í Nuuk og 29. október samhliða þátttöku forsætisnefndar á Norðurlandaráðsþingi í Osló.
    Fundi forsætisnefndar sátu formenn allra landsdeilda að fundinum 29. október undanskildum sem Jonathan Motzfeldt gat ekki sótt vegna veikinda. Auk þess sátu á fundunum ritarar landsdeildanna og framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Þórður Þórarinsson.

Forsætisnefndarfundur 27. febrúar í Kaupmannahöfn.
    Fyrsti fundur forsætisnefndar undir forsæti Jonathan Motzfeldt var haldinn í Kaupmannahöfn 27. febrúar. Fyrsta mál á dagskrá voru vestnorrænar áherslur í norrænu samstarfi. Framkvæmdastjórinn Þórður Þórarinsson gerði grein fyrir skýrslu sem Norræna ráðherranefndin gaf út árið 2003 þar sem áskoranir, sem Vestur-Norðurlöndin standa frammi fyrir, eru skilgreindar. Í kjölfarið var hugmyndin að samstarfsráðherrar Vestur-Norðurlandanna legðu fram verkefnaáætlun árið 2007 sem svar við þeim áskorunum. Að sögn framkvæmdastjórans hafði það ekki gengið eftir en vonir væru bundnar við samstarfssamning Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs frá árinu 2006 til að koma hreyfingu á málið. Formaður Vestnorræna ráðsins, Jonathan Motzfeldt, lagði það til að stofnaður yrði vinnuhópur innan ráðsins sem skoðaði umrædda skýrslu og skilgreindi helstu áskoranir sem Vestur-Norðurlöndin stæðu frammi fyrir og hvernig Norræna ráðherranefndin gæti komið að úrlausn mála í samstarfi við ráðið. Fundurinn samþykkti að veita framkvæmdastjóranum heimild til að undirbúa stofnun slíks vinnuhóps í samvinnu við landsdeildarritara ráðsins. Formaður Íslandsdeildar gerði það að tillögu sinni að Guðrún Ögmundsdóttir tæki sæti í vinnuhópnum fyrir hönd Íslands.
    Næst á dagskrá var 10 ára afmælisfundur Vestnorræna ráðsins sem haldinn var í Nuuk á Grænlandi 20.–24. ágúst. Formaður tilkynnti að gefin hefðu verið út frímerki í tilefni afmælisins á öllum Vestur-Norðurlöndunum. Jafnframt var kynnt hugmynd um stofnun afmælissjóðs í samræmi við ályktun ráðsins nr. 4/2006. Markmið sjóðsins yrði að efla ungmennasamskipti á Vestur-Norðurlöndum með reglulegum heimsóknum skólabarna. Sjóðnum mundi svipa til NordPlus Junior-sjóðsins sem rekinn er á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Sá sjóður sé opinn ungmennum frá Vestur-Norðurlöndunum en umsækjendur frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi óski oftast eftir að fara til hinna stóru Norðurlanda en sjaldnast til Vestur-Norðurlanda. Drög að fjárhagsáætlun sjóðsins gerðu ráð fyrir að veita þyrfti 240 þúsund dönskum krónum til hans árlega. Komu fram efasemdir um að það mundi nægja og var lagt til að gerð yrði ítarleg fjárhagsáætlun fyrir næsta forsætisnefndarfund. Jafnframt var samþykkt að óska eftir því við aðildarlöndin að hlutur Íslands í framlagi til sjóðsins yrði 50% en hlutur Færeyja og Grænlands 25% hvor. Formaðurinn lagði það til að drög að reglum fyrir sjóðinn og fjárlög yrðu unnin fyrir næsta forsætisnefndarfund. Tillaga formanns var samþykkt.
    Framkvæmdastjórinn greindi frá því að beiðni Vestnorræna ráðsins til Norrænu ráðherranefndarinnar um að hluti upplýsingaefnis á vef ráðherranefndarinnar yrði á færeysku og grænlensku hefði verið vel tekið og væru þýðingar þegar hafnar. Eftir að búið var að yfirfara stöðu ályktana Vestnorræna ráðsins frá árinu 2006 í meðförum þinga Vestur-Norðurlandanna var tillaga framkvæmdastjóra um að bjóða fulltrúum frá öllum skrifstofum samstarfsráðherra Vestur-Norðurlanda (NSK) til ársfundar samþykkt. Markmiðið er að tryggja betur upplýsingaflæði milli þeirra og Vestnorræna ráðsins.
    Að lokum var rætt hvernig Hoyvíkur-samningurinn hefði styrkt samband Íslands og Færeyja og formaður ráðsins spurði formann Íslandsdeildar hvort utanríkismálanefnd Alþingis hefði ekki hug á því að koma í heimsókn til Grænlands. Svaraði formaður Íslandsdeildar því til að verið væri að skoða málið.

Þemaráðstefna um fríverslun og Vestur-Norðurlönd 14.–17. júní á Húsavík.
    Vestnorræna ráðið hélt árlega þemaráðstefnu sína á Húsavík dagana 14.–17. júní 2007. Vestur-Norðurlönd og fríverslun, fríverslunarsamningur Íslands og Færeyja og möguleg aðild Grænlands að þeim samningi var þema ráðstefnunnar.
    Ráðstefnuna sóttu þingmenn landsdeilda Vestnorræna ráðsins auk ráðherra og fyrirlesara, alls um 40 manns. Fyrir hönd Íslandsdeildar sóttu fundinn Karl V. Matthíasson formaður, Árni Johnsen varaformaður, Bjarni Harðarson, varamaður Guðna Ágústssonar, Guðbjartur Hannesson, Jón Gunnarsson og Guðjón A. Kristjánsson.
    Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra, Magni Laksafoss, fjármálaráðherra Færeyja og Aleqa Hammond, ráðherra utanríkismála á Grænlandi, ávörpuðu fundinn.
    Fyrirlesarar á fundinum voru dr. Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem fjallaði almennt um alþjóðavæðingu; Herluf Sigvaldsson, forstöðumaður utanríkismáladeildar forsætisráðuneytis Færeyja, sem fjallaði um forsendur og reynsluna af fríverslunarsamningi Íslands og Færeyja; Magnús Árni Magnússon, fyrrum aðstoðarrektor Viðskiptaháskólans á Bifröst, sem gerði grein fyrir tilurð og stofnanagerð ESB; Tore Myhre, forstöðumaður framkvæmdaskrifstofu EFTA í Genf, sem fjallaði um tilurð, stofnanagerð og núverandi hlutverk EFTA; Kristján Andri Stefánsson, sendiherra og fulltrúi Íslands í stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA, sem gerði grein fyrir samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, skyldum EFTA-landanna og hlutverki eftirlitsstofnunar EFTA; Mads Helleberg Dorff Christiansen, fulltrúi utanríkismálaskrifstofu Grænlands, sem fjallaði um Grænland og Alþjóðaviðskiptastofnunina; María Erla Marelsdóttir, sendiráðunautur á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, sem f.h. Berglindar Ásgeirsdóttur sendiherra gerði grein fyrir fríverslunarsamningum og tvíhliða samningum; og Hermann Oskarsson, forstöðumaður Hagstofu Færeyja, sem ræddi kosti og galla fríverslunar.
    Karl V. Matthíasson, formaður Íslandsdeildar, setti fundinn. Í setningarávarpi sínu benti hann á mikilvægi vestnorrænnar samvinnu í ljósi sameiginlegra hagsmuna, sögu og menningar auk áskorana sem Vestur-Norðurlöndin eiga við að glíma. Tók hann vestnorræna fríverslun og áhrif loftslagsbreytinga sem dæmi um sameiginleg hagsmunamál og áskoranir. Karl lýsti yfir ánægju með framtak Jonathans Motzfeldts, formanns Vestnorræna ráðsins, sem í heimsókn sinni til Evrópuþingsins gerði það að tillögu sinni að innan Evrópusambandsins yrði sett á stofn sérstök upplýsingaskrifstofa um norðurskautsmál. Karl lofaði að fylgja því frumkvæði eftir í formennskutíð sinni en Ísland tók við formennsku Vestnorræna ráðsins af Grænlandi á ársfundi ráðsins í ágúst. Að lokum lagði Karl áherslu á samvinnu og samráð Vestur-Norðurlanda og annarra Norður-Atlantshafsþjóða um öryggis- og björgunarmál á hafi
úti sem framtíðarverkefni.
    Erindi framsögumanna tóku við af ávarpi formanns. Þar kom fram greinargott yfirlit yfir fríverslun og þær fjölþjóðlegu stofnanir sem að þeim standa. Niðurstaða framsögumanna var sú að fríverslun væri til hagsbóta fyrir viðkomandi ríki og að vestnorrænt fríverslunarsvæði stuðlaði til að mynda að aukinni hagkvæmni í sjávarútvegi eða eins og forstöðumaður Hagstofu Færeyja komst að orði með vísan til þess að 95% af útflutningi Færeyja eru sjávarafurðir: „Það er ekki fiskurinn sem skapar ríkidæmi heldur verslun með fisk.“ Þingmaðurinn Høgni Hoydal gerði það að tillögu sinni að Vestur-Norðurlöndin mundu stofna sambærileg hagsmunasamtök sjávarútvegs á við þau sem OPEC-ríkin eiga um olíu.
    Í máli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra kom fram að Færeyjar væru eitt helsta viðskiptaland Íslands. Auk þess hefði samstarf milli fyrirtækja á vestnorrænu löndunum færst í vöxt. Nefndi hún sem dæmi í því sambandi samstarf Eimskips og Royal Arctic Line um sjóflutninga til og frá Grænlandi og innflutning hreindýrakjöts frá Grænlandi til Húsavíkur. Hvað snerti hugsanlega aðild Grænlands að fríverslunarsamningi Íslands og Færeyja benti utanríkisráðherra á að samkomulag um verslun og viðskipti milli Íslands og Grænlands væri í gildi samkvæmt samkomulagi sem gert var milli Íslands og Danmerkur árið 1985. Árið 1993 hefðu Ísland og Færeyjar gert með sér fríverslunarsamning um ákveðna vöruflokka. Það samkomulag hefði verið útvíkkað með Hoyvíkur-samningnum sem gekk í gildi árið 2006. Um væri að ræða víðtækasta fríverslunarsamning sem Ísland hefur gert þar sem hann tekur til gagnkvæmra réttinda á sviði vöru- og þjónustuviðskipta, fjármagnsflæðis
og vinnuafls.
    Í máli Alequ Hammond, ráðherra utanríkismála Grænlands, kom fram að hagsmunahópar þeirra, sem m.a. reka fyrirtæki í landinu og sem mörg hver eru í ríkiseigu að hluta eða öllu leyti, teldu að efnahagslíf á Grænlandi væri ekki reiðubúið fyrir aðild að fríverslunarsamningnum að svo stöddu. Kom fram í máli ráðherrans að viss ótta gætti um að fyrirtæki á Grænlandi mundu verða tekin yfir af hinum vestnorrænu löndunum, ekki síst Íslendingum. Það gæti leitt til annars konar nýlenduhlutskiptis Grænlands sem nokkurs konar nýlendu vestnorrænna viðskiptamanna.
    Í pallborðsumræðum sem Guðbjartur Hannesson stjórnaði var m.a. bent á að ótti við erlenda yfirtöku í kjölfar aðildar að fríverslunarsamningum væri vel þekktur en í flestum tilvikum ástæðulaus. Fyrirtæki yrðu ekki keypt upp af erlendum aðilum nema ef um arðsaman rekstur eða vænlegan fjárfestingarkost væri að ræða. Magni Laksafoss, fjármálaráðherra Færeyja, lagði áherslu á að Vestur-Norðurlöndin væru ekki eins. Hins vegar væri markmið þeirra allra eitt og hið sama: Að skapa hagvöxt og þar með bæta lífskjör, ekki síst menntun. Lykillinn að því væri að auka samkeppni og einkavæðingu og fjölga fríverslunarsamningum þar sem slíkt opnaði fyrir beina erlenda fjárfestingu sem skilaði sér í uppbyggingu á sviði iðnaðar og auknum vöru- og þjónustuviðskiptum. Slík þróun fæli ekki endilega í sér yfirtöku heldur viðbót við það sem fyrir væri. Hvatti fjármálaráðherrann Grænlendinga til að gerast aðilar að fríverslunarsamningnum sem allra fyrst. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók undir orð fjármálaráðherrans þar sem aðild mundi að öllum líkindum styrkja efnahagslífið þar í landi og gera Grænland óháðara Danmörku, samhliða auknum viðskipta- og atvinnutækifærum sem yrði ávinningur fyrir neytendur. Ósk um aðild væri hins vegar undir Grænlendingum sjálfum komið. Í kjölfar umræðunnar óskaði Alequ Hammond eftir því að sá möguleiki yrði kannaður hvort Grænland gæti tekið upp hluta af fríverslunarsamningnum en verið undanþegið öðrum, a.m.k. til að byrja með, og þannig aðlagað sig að breyttum aðstæðum. Hvatti hún stjórnvöld í öðrum vestnorrænum löndum til að íhuga þann möguleika.
    Spurt var út í áhuga Norðmanna á að gerast aðili að fríverslunarsamningi Íslands og Færeyja en gert er ráð fyrir því í samningnum að nágrannaríki Vestur-Norðurlandanna geti gerst aðilar að honum. Herluf Sigvaldsson, forstöðumaður utanríkismáladeildar forsætisráðuneytis Færeyja, svaraði því til að það væri ákvörðun viðkomandi nágrannaríkis og að hvorki hefði verið óskað eftir því við Norðmenn né af Norðmönnum sjálfum að þeir gerðust aðilar að samningnum.
    Nokkrir þingmenn vildu fá svar við þeirri spurningu hvort Færeyjar og Grænland gætu fengið aðild að EFTA en það er á dagskrá stjórnmálanna í Færeyjum þrátt fyrir að aðild að Evrópska efnahagssvæðinu sé það ekki. Ástæðan er sá ávinningur sem í því gæti falist fyrir Færeyjar, þar með talið aðild að þeim 51 fríverslunarsamningi sem EFTA hefur gert við þriðja land. Enginn fundarmanna gat veitt óyggjandi svar við spurningunni en Tore Myhre, forstöðumaður framkvæmdaskrifstofu EFTA, benti á að engin formleg umsókn hefði borist frá Færeyjum. Hugsanleg aðild Færeyja að EFTA hefði því ekki verið tekin fyrir með formlegum hætti á ráðherrafundi en hins vegar hefði málið verið rætt óformlega meðal æðstu embættismanna EFTA. Eitt skilyrðanna fyrir aðild væri að viðkomandi umsóknarland væri sjálfstætt ríki, sem Færeyjar og Grænland eru ekki. Það væri hins vegar ekki loku fyrir það skotið að finna lausn fram hjá þeim formlega vanda ef óskað yrði eftir því enda EFTA frekar sveigjanleg stofnun.

Forsætisnefndarfundur 14. júní á Húsavík.
    Annar forsætisnefndarfundur ársins var haldinn 14. júní samhliða þemaráðstefnu um Vestur-Norðurlöndin og fríverslun. Í upphafi fundar bauð Jonathan Motzfeldt, formaður Vestnorræna ráðsins, Karl V. Matthíasson, nýkjörinn formann Íslandsdeildar, velkominn. Framkvæmdastjóri kynnti tillögu formanns Vestnorræna ráðsins að ályktun ársfundar ráðsins þar sem skorað yrði á Evrópuþingið og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að opna upplýsingaskrifstofu um málefni norðurslóða í Brussel.
    Framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Þórður Þórarinsson, kynnti því næst drög að reglum um afmælissjóð ráðsins. Henrik Old sagði að vaknað hefðu upp spurningar í þinginu um hvort Vestnorræna ráðið hefði umboð til að stofna sjóð sem kallaði á fjárheimild frá þinginu og jafnframt hver mundi bera ábyrð á sjóðnum. Framkvæmdastjórinn svaraði því til að fyrirmyndin væri sótt til Barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins þar sem fjárframlög til Vestnorræna ráðsins voru hækkuð og eyrnamerkt verðlaunasjóðnum sérstaklega. Vestnorræna ráðið mundi bera ábyrgð á sjóðnum eins og í tilviki Barna- og unglingabókaverðlaunanna. Að tillögu Henriks Olds var samþykkt að framkvæmdastjórinn mundi eiga samráð við nefndasvið Alþingis við að fullvinna reglurnar. Fundurinn ákvað að fresta umræðu um þá hugmynd að stofna til heiðursverðlauna fyrir vestnorræna eldhuga eða einstaklinga sem unnið hafa ötullega að vestnorrænum málefnum og samþykkti því næst endurskoðaða ársreikninga ráðsins. Framkvæmdastjórinn gerði grein fyrir tekjuafgangi upp á tæpa tvær milljónir íslenskra króna sem yrði nýtt á árinu, meðal annars fyrir 10 ára afmælisfund ráðsins á Grænlandi. Samhliða fór forsætisnefndin yfir drög að dagskrá ársfundar og gaf framkvæmdastjóranum og formanni umboð til að gera endanlega dagskrá. Ákveðið var að bíða með umræðu um þema næstu þemaráðstefnu þangað til á ársfundi.

Forsætisnefndarfundur 20. ágúst í Nuuk.
    Forsætisnefnd hélt fund 20. ágúst samhliða ársfundi ráðsins í Nuuk á Grænlandi, sem haldinn var 20.–24. ágúst. Framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Þórður Þórarinsson, kynnti ályktunartillögur og tilmæli sem lágu fyrir fundinum. Nýr formaður Vestnorræna ráðsins, Karl V. Matthíasson, lagði áherslu á ályktunartillögu frá Íslandsdeildinni um aukið samstarf um björgunarmál á Norður-Atlantshafssvæðinu. Kom fram í máli hans að mikilvægt væri að ræða um björgunarmál í ljósi aukinnar auðlindanýtingar eins og í tilviki hugsanlegra olíuauðlinda undan austurströnd Grænlands auk síaukinnar kaup- og farþegaskipaumferðar á hafsvæðinu. Að mati Henriks Olds kalla siglingar á Norður-Atlantshafi á gerð reglna um ákveðna skipstjórnarþekkingu og skipagerð og var fundurinn sammála um að ekki væri nægileg björgunargeta til staðar eins og ef skemmtiferðaskip með þúsundir farþega um borð mundi lenda í sjávarháska.
    Í umræðu um aðrar ályktunartillögur sem lágu fyrir ársfundinum benti Henrik Old á að ekki væri eining innan raða færeysku landsdeildarinnar um tillögu sem varaformaður Íslandsdeildar, Árni Johnsen, lagði fram um að gera endurbætur á Kirkjubæ í Færeyjum. Málið væri mjög pólitískt viðkvæmt í Færeyjum þar sem Kirkjubær væri nokkurs konar táknrænn höfuðstaður lýðveldssinna sem andstætt sambandssinnum óska eftir því að slíta ríkjasambandinu við Danmörku.
    Formaðurinn greindi frá því að nefndasvið Alþingis hefði fengið drög að reglum fyrir afmælissjóð ráðsins til umsagnar. Að lokum fór framkvæmdastjórinn í gegnum dagskrá ársfundarins og tillögu um fjárhagsáætlun fyrir árið 2008 og fundaáætlun fyrir árin 2007–2008.
    Því næst voru tekin til afgreiðslu tvö erindi. Í fyrsta lagi erindi Halldórs Pálssonar, eiganda bókaforlagsins Prentleikni, sem gefið hefur út bók um hvert og eitt vestnorrænu landanna í máli og myndum. Bókaútgefandinn hafði farið þess á leit við mennta- og menningarmálaráðherra Vestur-Norðurlandanna að bækurnar um hvert land yrðu þýddar og gefnar út sem námsefni um vestnorræna sögu, menningu og tungumál og fór þess á leit við Vestnorræna ráðið að það lýsti yfir stuðningi við framtakið. Framkvæmdastjórinn benti á að útgáfa á bókunum mundi fela í sér framkvæmd á ályktun ráðsins nr. 5/2006. Fundurinn ákvað að lýsa formlega yfir stuðningi við bókaútgáfuna í bréfi til mennta- og menningarmálaráðherra Vestur-Norðurlandanna. Í öðru lagi var tekið til afgreiðslu erindi frá norrænum leiklistarsamtökum um stuðning við uppsetningu vefsvæðis til að koma norrænum leikurum og leikhúsum betur á framfæri. Fundurinn ákvað að lýsa yfir stuðningi við framtakið og fól framkvæmdastjóra og formanni að undirbúa og undirrita bréf þess efnis. Að lokum var ákveðið að ársfundur Vestnorræna ráðsins árið 2008 færi fram dagana 25.–28. ágúst.

Ársfundur 20.–24. ágúst í Nuuk.
    Ársfundur og 10 ára afmælisfundur Vestnorræna ráðsins var haldinn 20.–24. ágúst 2007 í Nuuk, höfuðstað Grænlands. Fundinn sóttu fyrir hönd Íslandsdeildar Karl V. Matthíasson formaður, Árni Johnsen varaformaður, Guðbjartur Hannesson, Guðjón A. Kristjánsson, Valgerður Sverrisdóttir, sem kom í stað Guðna Ágústssonar, og Magnea Marinósdóttir, ritari Íslandsdeildar.
    Gestir fundarins voru meðal annarra Aleqa Hammond, samstarfsráðherra Grænlands, Berit Brøby, varaforseti Norðurlandaráðs, Daniel Thorleifsson, ritstjóri bókar um sameiginlega sögu vestnorrænu landanna, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, ritstjóri greinasafns um velferð á Vestur-Norðurlöndum, Sverrir Hansen, forstöðumaður Vestnorræna sjóðsins (Vestnordenfonden), og Lars Thostrup, forstöðumaður Norrænu Atlantsnefndarinnar (NORA).
    Jonathan Motzfeldt, fráfarandi formaður ráðsins, setti fundinn en því næst tók Karl V. Matthíasson við sem formaður Vestnorræna ráðsins og fundarstjóri. Formenn landsdeilda Vestnorræna ráðsins gerðu síðan grein fyrir starfsemi sinna deilda. Karl V. Matthíasson sagði frá breytingum á Íslandsdeildinni í kjölfar alþingiskosninganna 12. maí og því helsta í starfi deildarinnar, þ.m.t. þemaráðstefnunni um fríverslun og Vestur-Norðurlönd sem haldin var á Íslandi um miðjan júní. Kom fram í máli hans að áhyggjur Grænlendinga á fundinum af efnahagslegum áhrifum erlendra aðila við hugsanlega aðild að fríverslunarsamningi Íslands og Færeyja (Hoyvíkur-samningnum) væru skiljanlegar. Svipaðra efasemda hefði gætt hérlendis í aðdraganda þess að Ísland gerðist aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Raunin hefði hins vegar orðið sú að samningurinn hefði skapað fjölda tækifæra fyrir Íslendinga sjálfa og orðið ein meginforsenda þeirrar hagsældar sem ríkt hefur á Íslandi síðan. Íslandsdeildin styddi því aðild Grænlands að fríverslunarsamningnum til samræmis við ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 1/2006. Hins vegar væri það vissulega Grænlendinga sjálfra að ákveða hvort forsendur fyrir aðild landsins að fríverslunarsamningnum væri fyrir hendi og þá hvenær. Tók hann fram að lokum að Íslandsdeildin styddi ákvörðun Grænlands hver sem hún yrði.
    Framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Þórður Þórarinsson, fór því næst yfir starfsemi þess á árinu. Heimsókn formanns Vestnorræna ráðsins, Jonathans Motzfeldts, til Evrópuþingsins þar sem hann hvatti til þess að Evrópusambandið setti á laggirnar upplýsingaskrifstofu um norðurslóðamál bar þar hæst sem og undirritun samstarfssamnings Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs. Hvoru tveggja var fagnað sem miklum áfanga í því að skerpa á vestnorrænum áherslum innan evrópsks og norræns samstarfs. Samþykkti ársfundurinn tilmæli til Evrópuþingsins annars vegar og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hins vegar þar sem frumkvæði Jonathans Motzfeldts er fylgt eftir með formlegum hætti. Fundurinn samþykkti einnig að beina tveimur ályktunum Vestnorræna ráðsins til Norðurlandaráðs á grundvelli hins nýja samstarfssamnings en samstarfssamningurinn er talinn styrkja stöðu vestnorrænu landanna í norrænu samhengi þar sem hann auðveldar þeim að koma forgangsmálum sínum á dagskrá með formlegum hætti.
    Ályktunartillögur sem Íslandsdeildin lagði fram fjölluðu um aukið samstarf á sviði öryggis- og björgunarmála milli þjóða við Norður-Atlantshaf; stuðning við aukið samstarf slysavarnafélaga og björgunarsveita á sjó og landi í löndunum þremur; aukna samvinnu um rannsóknir á helstu nytjastofnum innan lögsögu landanna, einkum þeirra sem eru sameiginlegir, og samræmingu rannsóknaraðferða til að auðvelda raunhæfan samanburð milli landanna auk rannsókna á samspili milli stofnstærða annars vegar og umhverfisþátta, afráns og veiða hins vegar; og gerð skyldunámsefnis um ólík kjör og hlutskipti kvenna á norðurslóðum og mannréttindi fyrir nemendur á unglingastigi sem hefði það að markmiði að auka umræðu um jafnréttismál og skilning á því að kvenréttindi eru mannréttindi óháð menningu.
    Færeyska landsdeildin lagði fram tillögu um að Norræna ráðherranefndin styddi stofnun norrænna lýðháskóla á Vestur-Norðurlöndunum sem yrðu opnir nemendum frá öllum Norðurlöndunum og Árni Johnsen lagði fram tillögu með fulltingi Jonathans Motzfeldts um endurbætur á Kirkjubæ í Færeyjum. Allar tillögurnar voru samþykktar einróma að undanskildri þeirri síðastnefndu. Færeyska landsdeildin klofnaði í afstöðu sinni til þeirrar tillögu. Lögð var fram breytingartillaga um að forsætisnefndin mundi skipa undirbúningshóp til að kanna forsendur verkefnisins. Var sú tillaga samþykkt með tveimur mótatkvæðum. Ástæða óeiningar í röðum færeysku sendinefndarinnar var að Kirkjubær er pólitískt viðkvæmt mál ekki síst þar sem bærinn hefur táknrænt gildi jafnt fyrir lýðveldis- og sambandssinna í landinu.
    Ályktanirnar sem fundurinn ákvað að beina til Norðurlandaráðs á grundvelli hins nýja samstarfssamnings voru um aukna samvinnu þjóða á sviði öryggis- og björgunarmála í Norður-Atlantshafi og um stofnun norrænna lýðháskóla í vestnorrænu löndunum.
    Samhliða samþykkt nýrra ályktana voru 11 af alls 14 eldri ályktunum afskrifaðar. Fundurinn samþykkti einnig þau nýmæli, að tillögu forsætisnefndar, að skipa endurskoðunarnefnd sem í ætti sæti einn fulltrúi frá hverri landsnefnd. Hlutverk nefndarinnar yrði að gera greinargerð þar sem kæmi fram ástæða þess að afskrifa ályktun auk þess sem nefndinni var falið að gera tillögu að einni til tveimur nýjum ályktunum á grundvelli afskrifaðra ályktana ef tilefni væri til. Samþykkt var að forsætisnefnd skipaði endurskoðunarnefndina og að hún mundi hittast einu sinni á milli ársfunda. Að tillögu forsætisnefndar samþykkti fundurinn einnig að fela framkvæmdastjóra ráðsins að óska eftir því við aðildarþing Vestnorræna ráðsins að þau stofni og leggi til fé í afmælissjóð Vestnorræna ráðsins en markmið hans á að vera að auka samskipti milli grunnskólabarna á Vestur-Norðurlöndum á grundvelli gagnkvæmra heimsókna. Fundurinn vísaði í reglur Barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins sem fyrirmynd að reglum sjóðsins.
    Sagnfræðingar í vestnorrænu löndunum Danmörku og Noregi hafa unnið að ritun sögu Vestur-Norðurlanda í samræmi við ályktun ráðsins nr. 1/2000. Á ársfundinum gerði Daniel Thorleifsson, ritstjóri verksins, grein fyrir framvindu þess en alls hafa komið út þrjú greinasöfn og fimm ráðstefnur verið haldnar síðan verkið fór af stað árið 2003 með stuðningi ríkisstjórna vestnorrænu landanna. Sagði hann að vinnan gengi vel en nokkuð hægt þar sem verkið væri fjármagnað á grundvelli styrkumsókna en ekki fastra framlaga. Það ylli töfum en stefnt væri að því að útgáfan verði tilbúin eigi síðar en árið 2010. Að lokum greindi hann frá áhuga á stofnun miðstöðvar fyrir sameiginlega sögu og menningu landanna.
    Guðbjörg Linda Rafnsdóttir sagði frá útkomu greinasafns um samanburðarrannsóknir á velferð á Vestur-Norðurlöndum. Kom fram í máli hennar að aðalvandamálið við að fjármagna rannsóknir, sem næðu eingöngu til vestnorrænu landanna, væri að rannsóknarsjóðir gerðu almennt kröfu um hagnýti rannsókna í víðara norrænna samhengi en því væri hins vegar ekki alltaf fyrir að fara í rannsóknum sem næðu til vestnorrænu landanna vegna sérstöðu þeirra.
    Í almennum umræðum á fundinum var nokkuð rætt um loftslagsbreytingar og orkumál, m.a. þá hugmynd að stofna loftslagsháskóla á Grænlandi, fyrirhugaða ráðstefnu um norðurslóðagluggann (e. Arctic Window), jarðvarmanýtingu á Íslandi og Grænlandi og stefnu í virkjunar- og vetnismálum á Íslandi þar sem Guðbjartur Hannesson og Valgerður Sverrisdóttir tóku til máls.
    Að lokum var ákveðið að næsta þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins, sem verður í Færeyjum, yrði um öryggis- og björgunarmál á Norður-Atlantshafssvæðinu dagana 2.–5. júní 2008. Einnig var ákveðið að halda næsta ársfund dagana 25.–29. ágúst í Grundarfirði og samhliða honum þemadag um sögu og menningu Vestur-Norðurlanda.

Forsætisnefndarfundur 29. október í Osló.
    Síðasti fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins á árinu var haldinn í tengslum við þátttöku forsætisnefndar í Norðurlandaráðsþingi í Osló. Framkvæmdastjóri ráðsins, Þórður Þórarinsson, upplýsti í upphafi fundar að Jonathan Motzfeldt gæti ekki sótt fundinn vegna skyndilegra veikinda og vegna hins skamma fyrirvara var ekki mögulegt að kalla inn varamann fyrir hann. Jonathan hafði engu að síður samþykkt að fundurinn yrði haldinn svo framarlega sem eingöngu yrðu teknar ákvarðanir um þau mál sem fyrir fram var búið að kynna að yrðu á dagskrá fundarins. Að öðrum kosti óskaði hann eftir því að haldinn yrði símafundur svo að hann gæti verið með í ráðum en ekki kom til þess þar sem fundurinn tók eingöngu afstöðu til mála sem voru á dagskrá fundarins.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning formanns Vestnorræna ráðsins, Karls V. Matthíassonar, á fundum ráðsins með forsætisnefnd Norðurlandaráðs og ráðherrum Vestur-Norðurlanda á meðan á Norðurlandaráðsþinginu stæði.
    Fundurinn ákvað að halda næsta forsætisnefndarfund í upphafi árs 2008, eigi síðar en 10. janúar vegna þingkosninganna sem fram fóru í Færeyjum 19. janúar en þá lét Henrik Old af þingmennsku að eigin ósk.
    Í umræðu um ályktanir ráðsins ákvað fundurinn að skipa endurskoðunarnefnd með þátttöku eins nefndarmanns frá hverri landsdeild í samræmi við ákvörðun síðasta ársfundar. Hlutverk nefndarinnar yrði að taka til umfjöllunar þær ályktanir sem afskrifaðar voru á síðasta ársfundi ráðsins og gera tillögu að einni til tveimur nýjum á grundvelli þeirra afskrifuðu ef efni stæðu til. Formaðurinn lagði einnig til að nefndin gerði úttekt á stöðu gildandi ályktana ráðsins í meðförum stjórnvalda og gerði tillögu að því hvernig betur mætti vinna að framgangi þeirra í þeim tilvikum sem það væri nauðsynlegt. Formaðurinn lagði til að Árni Johnsen, varaformaður Íslandsdeildar, yrði í nefndinni fyrir hönd Íslands. Tillaga frá Grænlandi var að skipa Augusta Salling í nefndina. Tillögur frá Færeyjum eiga að koma eftir að úrslit kosninganna 19. janúar 2008 liggja fyrir.
    Formaðurinn vék því næst að þátttöku sinni á fundi þingmannaráðstefnu um Norðurskautsmál sem haldinn var 18.–19. október Ottawa í Kanada. Hann sagði að fundurinn hefði m.a. fjallað um björgunarmál, sem þykir mikilvægur málaflokkur á norðurslóðum í ljósi aukinna skipaflutninga og vinnslu náttúruauðlinda eins og olíu. Auk þess var rætt um félagsleg vandamál sem tengdust áfengis- og fíkniefnamisnotkun, sem víðsvegar væri mikið vandamál meðal íbúa norðurskautsins og vísaði í því sambandi í niðurstöður einnar umfangsmestu rannsóknar sem gerð hefur verið á lífsháttum og lífsgæðum fólks á norðurslóðum og stóð yfir um áratugaskeið eða frá 1997–2007 (SLiCA – Survey of Living Conditions in the Arctic).
    Að lokum kom formaðurinn með tillögu, sem hlaut jákvæðar undirtektir, um að forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins reyndi að hitta forsætisnefnd Norðurlandaráðs oftar en á Norðurlandaráðsþingum, t.d. á sama tíma og hún heldur sinn reglulega fund í Kaupmannahöfn í upphafi hvers árs.

Fundur forsætisnefnda Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs 29. október í Osló.
    Á fundi forsætisnefnda Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs gerði forseti Norðurlandaráðs, Dagfinn Høybråten, grein fyrir niðurstöðu starfshóps þess um stöðu sjálfstjórnarsvæðanna, þ.m.t. Færeyja og Grænlands, innan Norðurlandaráðs og um möguleika á aukinni þátttöku þeirra í starfi ráðsins. Sjálfstjórnarsvæðin eru ekki með fulla aðild að ráðinu heldur takmarkaðan þátttökurétt sem kveðið er á um í Helsinki-samningnum. Í máli forsetans kom fram að ekki hefðu verið lagðar til breytingar á samningnum. Starfshópurinn hefði hins vegar sett fram tillögur að endurbótum í svokölluðu Álandseyjaskjali um hvernig stuðla mætti að aukinni þátttöku þingmanna frá sjálfstjórnarsvæðunum. Kom fram í máli forsetans að forsætisnefnd Norðurlandaráðs styddi tillögur starfshópsins.
    Formaður Vestnorræna ráðsins, Karl V. Matthíasson, gerði því næst grein fyrir starfi Vestnorræna ráðsins. Hann sagðist líta björtum augum til aukins samstarfs Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs á grundvelli samstarfssamnings ráðanna frá árinu 2006. Hann gerði grein fyrir starfinu fram undan, sér í lagi þemaráðstefnunni um björgunar- og öryggismál á Norður- Atlantshafi sem haldin verður í Færeyjum dagana 2.–5. júní 2008.
    Dagfinn Høybråten sagði að Vestnorræna ráðið hefði haft mikil áhrif á dagskrárgerð og stefnumótun Norðurlandaráðs. Hann vísaði til Jonathans Motzfeldts í þessu sambandi sem átta árum fyrr hefði beint sjónum manna að áhrifum loftslagsbreytinga. Síðan þá hefði orðið mikil vitundarvakning eins og þema Norðurlandaráðsþings að þessu sinni um loftslagsbreytingar bæri vitni um. Það sama væri að eiga sér stað í sambandi við umræðuna um björgunar- og öryggismál á norðurslóðum. Lýsti Høybråten mikilli ánægðu með samstarfssamning ráðanna og sagði að með honum væri orðinn til formlegur vettvangur fyrir samvinnu og nánara samráð. Vísaði hann í því sambandi í ályktun Vestnorræna ráðsins um björgunarmál, sem móttekin hefði verið af Norðurlandaráði og tekin til málsmeðferðar í kerfi þess. Hann greindi einnig frá því að forsætisnefnd Norðurlandaráðs hefði ákveðið að björgunar- og öryggismál yrðu þema á næsta fundi hennar, sem haldinn var 14. desember í Reykjavík.

Fundur forsætisnefndar með ráðherrum Vestur-Norðurlanda dagana 30. október – 1. nóvember í Osló.
    Forsætisnefnd átti sérfundi með fagráðherrum Vestur-Norðurlanda og embættismönnum dagana 30. október til 1. nóvember. Fundir voru haldnir með umhverfisráðherrum landanna, sjávarútvegsráðherrum, utanríkisráðherrum, samstarfsráðherrum, og mennta- og menningarmálaráðherrum.
    Formaður Vestnorræna ráðsins hóf fundina með því að kynna starfsemi þess og efni ályktana sem samþykktar voru á síðasta ársfundi ráðsins. Almennur stuðningur kom fram hjá fagráðherrunum við starf og ályktanir Vestnorræna ráðsins. Sjávarútvegsráðherra Íslands, Einar K. Guðfinnsson, og Össur Skarphéðinsson samstarfsráðherra tóku vel undir ályktun ráðsins um að auka samstarf á sviði rannsókna á stærð mismunandi fiskstofna, einkum þeirra sem eru sameiginlegir í lögsögum landanna. Íslenski sjávarútvegsráðherrann benti á að stundum væri vísað í þorskstofninn undan ströndum Austur-Grænlands sem Íslandsþorsk sem gæfi mögulegt tilefni til frekari rannsóknarsamvinnu.
    Mikill stuðningur kom fram við menntunar- og menningarsamstarf á milli landanna á fundi ráðherra enda ekki síst það sem skapar samkennd og viðheldur tengslum á milli landanna. Embættismaður menningarmálaráðuneytis Færeyja staðfesti að stjórnvöld þar í landi mundu halda áfram að láta fjármagn til samstarfssamnings ríkjanna varðandi menningarmál. Annað sem skipar löndunum saman fyrir utan menningarmál er lega landanna í Norður- Atlantshafi, lífskjör og viðurværi. Í máli utanríkisráðherra Íslands, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur kom fram að á síðastliðnum þremur árum hafi umræða um hina norðlægu vídd færst mjög í aukana eins og málefnadagskrá fjölþjóðastofnana eins og NATO og ESB bæri vitni um. Samtímis fengi Vestnorræna ráðið aukið vægi og þau málefni sem þar eru sett á oddinn. Alequa Hammond, utanríkisráðherra Grænlands, tók undir orð Ingibjargar. Aukins áhuga á Grænlandi hefði gætt undanfarin ár og til að mynda stæði til að halda ráðstefnu um loftslagsmál á Grænlandi 9.–10. september 2008. Kom fram á fundinum að ráðherrarnir hafa á stefnuskrá sinni að hittast meira og styrkja samvinnu milli Íslands og Grænlands og bauð formaður Vestnorræna ráðsins báðum ráðherrunum á þemaráðstefnu ráðsins árið 2008, um samstarf um björgunarmál á Norður-Atlantshafi, sem haldin verður í Færeyjum.

Fundur formanns forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með formanni og varaformanni sendinefndar Evrópuþingsins gagnvart Sviss, Íslandi og Noregi og aðildarlöndum Evrópska efnahagssvæðisins sem og Norðurlandaráði og þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál (SIN-EEA Delegation) 1. nóvember í Osló.
    Formaður Vestnorræna ráðsins átti óformlega fundi með formanni sendinefndar Evrópuþingsins á Norðurlandaráðsþinginu frá Búlgaríu, Bilyana Raeva, og varaformanni nefndarinnar, danska Evrópuþingmanninum Jens-Peter Bonde, auk Henriks Olsens sem er embættismaður hjá Evrópuþinginu. Tilefni fundanna var að fylgja eftir frumkvæði Jonathans Motzfeldts og tilmælum Vestnorræna ráðsins til Evrópuþingsins um að bæta upplýsingaflæði til þingmanna um norðurskautsmálefni með því að koma á fót upplýsingaskrifstofu um norðurskautsmálefni innan Evrópuþingsins eða formlegu samstarfi. Formaður og varaformaður sendinefndarinnar tóku vel í tilmælin. Formaðurinn benti á að Evrópuþingið beitti sér fyrir því að hin norðlæga vídd væri samþætt í stefnumótun Evrópusambandsins og að til stæði að halda þingmannafund um norðlægu víddina vorið 2009. Hún greindi einnig frá því að í lok apríl kæmi SIN-EEA sendinefndin til fundar við þingmannanefnd EES á Íslandi. Lagði hún til að stefnt yrði að því að skipuleggja fund þingmanna sendinefndarinnar með Vestnorræna ráðinu á sama tíma til að ræða málið frekar. Því er svo við að bæta að 5. desember sendi Bilyana Raeva bréf til Hans-Gert Pöttering, forseta Evrópuþingsins, þar sem hún mælti með að SIN-EEA nefndin sinni einnig samskiptum við Vestnorræna ráðið þar sem nefndin hafi málefni norðurslóða á sinni könnu.

6. Eftirfarandi ályktanir Vestnorræna ráðsins beint til ríkisstjórna landanna voru samþykktar á ársfundi í Nuuk 20.–25. ágúst 2007.

          Tillaga til þingsályktunar um aukna samvinnu og samráð um öryggis- og björgunarmál milli Vestur-Norðurlandanna og við önnur ríki við Norður-Atlantshaf.
          Tillaga til þingsályktunar um stuðning við aukið samstarf milli slysavarnafélaga og björgunarsveita á sjó og landi í vestnorrænu löndunum.
          Tillaga til þingsályktunar um aukna samvinnu milli vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.
          Tillaga til þingsályktunar um gerð skyldunámsefnis fyrir unglinga um ólík kjör og hlutskipti kvenna á norðurslóðum og mannréttindi.
          Tillaga til þingsályktunar um stofnun norrænna lýðháskóla í vestnorrænu löndunum.

Alþingi, 26. febr. 2008.



Karl V. Matthíasson,


form.


Árni Johnsen,


varaform.


Guðni Ágústsson.



Guðjón A. Kristjánsson.


Guðbjartur Hannesson.


Jón Gunnarsson.