Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 451. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 719  —  451. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2007.

1. Inngangur.
    Í starfi Norðurlandaráðs árið 2007 var megináhersla lögð á fimm þætti: loftslagsbreytingar, hnattvæðingu, landamærahindranir, stöðu sjálfstjórnarsvæðanna, og öryggismál.
    Loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra hafa verið til umfjöllunar hjá Norðurlandaráði á síðustu árum, sér í lagi með tilliti til norðurslóða og norðurskautsins þar sem áhrif þeirra eru hraðari en annars staðar á hnettinum. Ráðið kappkostar einnig að nýta sér ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, sem haldin verður í Kaupmannahöfn 30. nóvember – 11. desember 2009, til þess að sýna fram á styrkleika Norðurlanda í heild á sviði umhverfis- og loftslagsmála og auka þátttöku og kunnáttu almennings hvað þau varðar.
    Hnattvæðingin og þau tækifæri sem hún skapar Norðurlöndum, ekki síst í viðskiptalegu tilliti, hefur verið á dagskrá Norðurlandaráðs frá árinu 2005. Sú vinna sem Norðurlandaráð hleypti þá af stokkunum miðaði að því að Norðurlönd ættu frumkvæði á hnattvæddum vettvangi til að skapa sér sérstöðu og forustu með afurðir sínar. Inntak þeirrar hugmyndafræði sem vinnan hefur byggst á er að árangursríkast sé fyrir Norðurlöndin að markaðssetja sig sem eina heild, eitt svæði, sem neytendur þekki og hafi jákvæða afstöðu til. Samkeppnishæfni Norðurlanda sé best tryggð með því að skilgreina þau sem heild í stað þess að markaðsetja þau á ríkjagrundvelli. Frá og með miðju ári 2007 tók Norræna ráðherranefndin, með forætisráðherrana í fararbroddi, hnattvæðingarvinnuna upp á sína arma. Um haustið skipaði ráðherranefndin starfshópa innan sinna vébanda til að stuðla að auknu norrænu samstarfi um hnattvæðinguna, til að mynda á sviði rannsókna og nýsköpunar.
    Eitt af þeim áhersluatriðum sem lúta að því að auka samkeppnishæfni Norðurlanda er að minnka stjórnsýsluhindranir eða svokallaðar landamærahindranir sem eru einstaklingum og fyrirtækjum til trafala við frjálsa för borgara og viðskipta innan Norðurlanda. Dæmi um framför í þessum efnum á árinu er samvinna um rafrænar þjóðskrár sem auðveldar og flýtir fyrir einstaklingum að stofna bankareikninga og eiga viðskipti í öðrum norrænum löndum. Í apríl 2007 beindi forsætisnefnd tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að koma á fót sérstöku embætti sem yrði helgað vinnunni við að minnka stjórnsýsluhindranir. Ráðherranefndin kynnti síðan um haustið ákvörðun sína um að hópur með fulltrúum allra Norðurlandaríkjanna undir öflugri forystu eins þeirra leiði starfið við að ryðja hindrunum úr vegi.
    Vegna óskar Færeyja um aðild að opinberu norrænu samstarfi á sama grundvelli og norræn ríki var gerð úttekt árið 2006 á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um stöðu sjálfstjórnarsvæðanna Færeyja, Grænlands og Álandseyja innan samstarfsins. Starfshópur var síðan settur á laggirnar árið 2007 til að kanna hvaða möguleikar væru fyrir hendi til að auka þátttöku svæðanna í samstarfinu. Til þess að sjálfstjórnarsvæðin gætu orðið aðilar að opinberu norrænu samstarfi á sama grundvelli og ríkin þyrfti að breyta Helsinki-sáttmálanum þar sem hann er milliríkjasamningur. Í verklýsingu starfshópsins var hins vegar tilgreint að fjallað skyldi um aukna þátttöku sjálfstjórnarsvæðanna innan ramma samningsins. Starfshópurinn skilaði af sér skýrslu á haustmánuðum, svokölluðu Álandseyjaskjali (Ålandsdokumentet), þar sem lagt er til að fulltrúum sjálfstjórnarsvæða gefist aukin tækifæri til að stýra fundum á vegum ráðherranefndarinnar og eiga fulltrúa í stjórnum norrænna stofnana eins og norræn ríki. Þá er jafnframt lagt til að á vettvangi Norðurlandaráðs geti stjórnvöld sjálfstjórnarsvæðanna svarað fyrirspurnum og tilmælum sem að þeim er beint um þau málefni sem svæðin hafa lögsögu yfir. Norðurlandaráð studdi niðurstöður skjalsins á Norðurlandaráðsþingi en minni hluti þess áleit hins vegar að breyta ætti Helsinki-sáttmálanum til að koma til móts við óskir Færeyinga.
    Á Norðurlandaráðsþinginu komu öryggismál til umræðu, sem var nokkur nýlunda frá umræðuhefð fyrri ára. Kveikjan að umræðunni voru samræður og samstarf Norðurlanda um öryggismál á árinu sem og ályktun Vestnorræna ráðsins um samstarf í öryggismálum, sérstaklega björgunarmálum, sem ráðið sendi Norðurlandaráði til umfjöllunar samkvæmt samstarfssamningi ráðanna. Öryggismál voru síðan áfram til umræðu á forsætisnefndarfundi í Reykjavík í desember þar sem Íslandsdeild Norðurlandaráðs hafði frumkvæði að tillögum um leiðir að fjalla í auknum mæli um öryggismál innan ráðsins. Í tillögunum fólst að borgaraleg öryggismál á norðurslóðum yrðu bæði til umfjöllunar á ráðstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar um samfélagsöryggi, sem búist er við að haldin verði árið 2008, og að þau yrðu einnig hluti af svörum ráðherranefndarinnar um samfélagslegt öryggi sem ráðið ætlast til að veitt verði í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Helsinki í október 2008.
    Norðmenn fóru með formennsku í Norðurlandaráði á starfsárinu 2007. Forseti Norðurlandaráðs var Dagfinn Høybråten og varaforseti Berit Brørby.

2. Almennt um Norðurlandaráð.
    Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Sjálfstjórnarsvæðin Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka jafnframt þátt í samstarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norðurlandaráð kemur saman til þingfundar einu sinni á ári og ræðir og ályktar um norræn málefni. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndafunda þrisvar sinnum á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir eða flokkahópar ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt árlega til norrænnar samvinnu og Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Í Norðurlandaráði sitja 87 þingmenn, þar af sjö alþingismenn. Hvert hinna landanna fjögurra (ásamt sjálfstjórnarsvæðunum) á 20 þingmenn í Norðurlandaráði. Hvert land skipar forseta Norðurlandaráðs til eins árs í senn á fimm ára fresti. Á árlegum þingfundi Norðurlandaráðs, sem stendur í þrjá til fjóra daga um mánaðamótin október/nóvember, er fjallað um fram komnar tillögur og sendir þingið frá sér tilmæli til ríkisstjórna landanna eða Norrænu ráðherranefndarinnar. Forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlanda gefa þinginu skýrslu og samstarfsráðherrar svara fyrirspurnum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fjárlög komandi starfsárs eru jafnframt ákveðin á þinginu og skipað í nefndir og trúnaðarstöður. Í Norðurlandaráði starfa fjórir flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn, og vinstrisósíalistar og grænir. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fer að mestu fram í fimm málefnanefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandasamvinnunnar. Loks kemur kjörnefnd saman til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

3. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Í upphafi starfsársins 2007 skipuðu Íslandsdeildina þau Sigríður Anna Þórðardóttir formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Jón Kristjánsson varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Rannveig Guðmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Drífa Hjartardóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Steingrímur J. Sigfússon, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Kjartan Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Ásta Möller, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Mörður Árnason, þingflokki Samfylkingarinnar, Guðjón Ólafur Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks, Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Katrín Júlíusdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Kolbrún Halldórsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Sigurrós Þorgrímsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Ný Íslandsdeild var kosin 31. maí við upphaf 134. löggjafarþings. Aðalmenn urðu Árni Páll Árnason, þingflokki Samfylkingarinnar, Helgi Hjörvar, þingflokki Samfylkingarinnar, Kjartan Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Kolbrún Halldórsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Kristján Þór Júlíusson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Siv Friðleifsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn urðu Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Ólöf Nordal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Einar Már Sigurðarson, þingflokki Samfylkingarinnar, Steingrímur J. Sigfússon, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Árni Johnsen, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Björk Guðjónsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Jón Magnússon, þingflokki Frjálslynda flokksins. Á fundi Íslandsdeildar 4. júní var Árni Páll Árnason kjörinn formaður deildarinnar og Kjartan Ólafsson varaformaður.
    Ritari Íslandsdeildar árið 2007 var Lárus Valgarðsson alþjóðaritari.

Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Kosið var í embætti og nefndir fyrir starfsárið 2007 á 58. þingi Norðurlandaráðs sem fram fór í Kaupmannahöfn 31. október til 2. nóvember 2006. Eftir kosningar í nefndir og ráð var nefndarseta fulltrúa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs fyrir starfsárið 2007 sem hér segir: Rannveig Guðmundsdóttir sat áfram í forsætisnefnd, Jón Kristjánsson varð formaður velferðarnefndar, Drífa Hjartardóttir var áfram formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Steingrímur J. Sigfússon tók sæti í forsætisnefnd, Sigríður A. Þórðardóttir sat áfram í menningar- og menntamálanefnd, Ásta R. Jóhannesdóttir sat áfram í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd og Kjartan Ólafsson sat áfram í borgara- og neytendanefnd sem og í eftirlitsnefnd.
    Eftir að ný Íslandsdeild var kosin 31. maí tók Árni Páll Árnason sæti Rannveigar Guðmundsdóttur í forsætisnefnd, Siv Friðleifsdóttir tók við formennsku í velferðarnefnd af Jóni Kristjánssyni, Ragnheiður Ríkharðsdóttir tók sæti Sigríðar Önnu Þórðardóttur í menningar- og menntamálanefnd, Kolbrún Halldórsdóttir tók sæti Steingríms J. Sigfússonar í efnahags- og viðskiptanefnd, Kristján Þór Júlíusson tók sæti Drífu Hjartardóttur í efnahags- og viðskiptanefnd, og Kjartan Ólafsson sat áfram í borgara- og neytendanefnd og eftirlitsnefnd.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sátu auk þess í vinnuhópum á vegum Norðurlandaráðs og í stjórnum stofnana og voru fulltrúar þess út á við. Rannveig Guðmundsdóttir var áheyrnarfulltrúi Norðurlandaráðs hjá þingmannaráðstefnunni um norðurskautsmál. Sigríður Anna Þórðardóttir átti sæti í ráðningarhóp forsætisnefndar við ráðningu nýs framkvæmdastjóra ráðsins. Sigríður Anna sat einnig í fjárlagahóp forsætisnefndar en Kristján Þór Júlíusson tók sæti hennar í september og síðan Árni Páll Árnason í desember. Árni Páll Árnason var fulltrúi forsætisnefndar í sendinefnd Norðurlandaráðs á ráðstefnu Eystrasaltsþingins í Riga um nágrannastefnu Evrópusambandsins 22.–24. nóvember og fulltrúi forsætisnefndar á málþingi ÖSE í Ósló 10.–11. desember um þingmannasamstarf við Mið-Asíuríki. Siv Friðleifsdóttir var fulltrúi Íslandsdeildar á málþingi í Vilnius 8.–9. október um loftslagsmál og hlutverk þingmanna á breytingatímum, með þátttöku þingmanns og stjórnarandstæðinga frá Hvíta-Rússlandi, auk þingmanna frá Eystrasaltsríkjunum og Norðurlöndunum. Siv var einnig fulltrúi Norðurlandaráðs á leiðtogafundi ráðsins með Eystrasaltsþinginu í Ósló 3.–4. desember. Ásta R. Jóhannesdóttir átti á fyrri hluta árs sæti í upplýsingahópi forsætisnefndar og tók Siv Friðleifsdóttir við af henni á seinni hluta ársins. Arnbjörg Sveinsdóttir sat í stjórn norræna menningarsjóðsins í upphafi árs en síðan tók Rannveig Guðmundsdóttir við af henni í stjórninni. Steingrímur J. Sigfússon sat á árinu í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans og Þuríður Backman sat í stjórn Norrænu samstarfsmiðstöðvarinnar um málefni fatlaðra.

Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs kom saman til fundar tólf sinnum á árinu. Að venju var undirbúin þátttaka í fundum og þingi Norðurlandaráðs en þar að auki voru fjöldamörg mál á dagskrá, svo og gagnkvæm upplýsingaskipti meðlima Íslandsdeildar um stöðu mála í einstökum nefndum og starfshópum Norðurlandaráðs.
    Á fyrri hluta árs var með hefðbundnum hætti fjallað um tilmæli Norðurlandaráðs 2007 og þau send fastanefndum Alþingis til upplýsingar og eftirfylgni í löggjafarstarfi eftir því sem við átti, en meðlimir Íslandsdeildar hafa það hlutverk að fylgja tilmælunum eftir í sínum fastanefndum. Í febrúar var haldinn samráðsfundur með samstarfsráðherra Norðurlanda, Jónínu Bjartmarz, þar sem skipst var á upplýsingum um þau mál sem efst voru á baugi hjá ráðherranefndinni og ráðinu. Í mars skipulagði Íslandsdeild fund dómnefndar bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í Reykjavík þar sem tilkynnt var um handhafa verðlaunanna 2007. Í apríl funduðu nýir ráðgjafar velferðarnefndar og efnahags- og viðskiptanefndar Norðurlandaráðs með formönnum nefndanna í Reykjavík til undirbúnings aprílfundum í Kaupmannahöfn.
    Íslandsdeildin úthlutaði fréttamannastyrkjum Norðurlandaráðs 2007 í maí, samtals 90.000 d.kr. Eftirtaldir hlutu styrk: Edda Jóhannsdóttir 5.000 d.kr, Guðrún Helga Sigurðardóttir 20.000 d.kr, Héðinn Halldórsson 20.000 d.kr., Magnús Halldórsson 5.000 d.kr., Sigmundur Ernir Rúnarsson 20.000 d.kr. og Þorbjörg Eva Erlendsdóttir 20.000 d.kr. Í júnímánuði hélt menningar- og menntamálanefnd Norðurlandaráðs sumarfund sinn á nefndasviði Alþingis í boði Íslandsdeildar. Nefndin heimsótti einnig Norræna húsið og kynnti sér starfsemi þess.
    Á haustmánuðum voru málefni skrifstofu Norðurlandaráðs til umræðu hjá Íslandsdeildinni. Meðlimir Íslandsdeildar lýstu í september yfir áhyggjum af þeirri stöðu að enginn íslenskur ráðgjafi væri starfandi hjá skrifstofunni og enginn þýðandi í íslensku væri fastráðinn við upplýsingadeildina. Þá fjallaði Íslandsdeildin í október um nýtingu lóðar í grennd við Norræna húsið, en samkvæmt deiliskipulagi mun einkahlutafélag um Vísindagarða Háskóla Íslands reisa nokkur fjögurra hæða hús og eitt tíu hæða hús bak við Norræna húsið. Gestir Íslandsdeildar á fundi hennar um þetta mál voru Margrét Þormar, arkitekt skipulagsstjóra Reykjavíkurborgar, Max Dager, forstjóri Norræna hússins, og Þorvaldur S. Þorvaldsson, formaður Norræna félagsins í Reykjavík. Formaður Íslandsdeildar, Árni Páll Árnason, átti og fund með Eiríki Hilmarssyni, framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins um Vísindagarða Háskóla Íslands. Í kjölfarið ritaði Íslandsdeildin bréf til borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar, í desember þar sem hún lýsti þeirri skoðun að það væri óásættanlegt ef byggingaráform á svæðinu þrengdu svo að Norræna húsinu að það skaðaði ásýnd þess. Í október átti Íslandsdeildin samráðsfund með samstarfsráðherra Norðurlanda, Össuri Skarphéðinssyni, í aðdraganda Norðurlandaráðsþings og í nóvember var Jan-Erik Enestam, nýr framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs, gestur hennar á fundi þar sem fjallað var um áherslur og skipulag í norrænu samstarfi í framtíðinni. Í desember skipulagði Íslandsdeildin forsætisnefndarfund Norðurlandaráðs í Reykjavík sem haldinn var í Norræna húsinu. Í tilefni af umfjöllun um öryggismál á norðurslóðum á fundinum tók Íslandsdeildin frumkvæði og lagði til hvernig meðferð málsins skyldi háttað innan ráðsins.

4. Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
Forsætisnefnd.
    Í forsætisnefnd sátu Rannveig Guðmundsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon af hálfu Íslandsdeildar fyrst á starfsárinu. Steingrímur hætti í forsætisnefnd í apríl og tók sæti í efnahags- og viðskiptanefnd. Í júní tók Árni Páll Árnason sæti Rannveigar í nefndinni.
    Forsætisnefnd er skipuð forseta og tólf fulltrúum sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs. Allar landsdeildir á Norðurlöndunum og allir flokkahópar skulu eiga fulltrúa í forsætisnefnd. Forsætisnefnd annast víðtæk pólitísk og stjórnunarleg málefni og hefur yfirumsjón með öllum málum í sambandi við Norðurlandaráðsþingið. Forsætisnefnd fjallar um norrænu fjárlögin en sérstakur vinnuhópur á vegum nefndarinnar tók þá vinnu sérstaklega að sér árið 2007, líkt og áður hafði verið gert. Þá sér forsætisnefnd um tengsl og samstarf við svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir. Forsætisnefnd fjallar um tillögur sem til hennar er beint og vísar öðrum tillögum sem lagðar eru fyrir ráðið til viðeigandi málefnanefnda. Forsætisnefnd fer með æðsta vald Norðurlandaráðs á milli þinga og hefur vald til þess að samþykkja tillögur fyrir hönd þingsins í sérstökum tilvikum og taka til afgreiðslu ákveðin málefni sem ekki þykir fært að bíði næsta þings.
    Forsætisnefnd fundaði sex sinnum á árinu. Helstu umfjöllunarefni hennar voru þau sömu og ráðsins í heild, þ.e. loftslagsbreytingar, hnattvæðing, landamærahindranir, staða sjálfstjórnarsvæðanna og öryggismál. Á fundum frá janúar til Norðurlandaráðsþings í október samþykkti nefndin sex tilmæli til norrænna ríkisstjórna, um aðgerðir gegn geislamengun Eystrasaltsins og grannsvæða Norðurlanda, um áherslu á geislamengun í starfi HELCOM (The Helsinki Commission, samstarfsstofnun þeirra ríkja sem liggja að Eystrasalti um málefni innhafsins) og ESB, um fulltrúa til að samræma aðgerðir gegn landamærahindrunum á Norðurlöndum, um stjórnun Eystrasaltsins, um geðheilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum, og um heimilisofbeldi gegn konum og börnum (tilmæli nr. 1–6/2007).
    Forsætisnefnd ákvað á fundi sínum í janúar að ráða Jan-Erik Enestam frá Finnlandi nýjan framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs. Hann tók við í ágúst af Fridu Nokken frá Noregi sem hafði gegnt stöðunni síðan 1999. Enestam, sem er 59 ára, hafði setið á þingi síðan 1991 og verið einn af reyndustu ráðherrum Finnlands. Hann var ráðherra frá 1995–2006, síðast umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, og auk þess formaður Sænska þjóðarflokksins frá 1998–2006.
    Á fundi forsætisnefndar í Reykjavík í desember voru öryggismál á norðurslóðum, þ.e. á Norður-Atlantshafi og við norðurskaut, helst til umræðu. Gestir fundarins voru Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra, Karl V. Matthíasson formaður Vestnorræna ráðsins og Sturla Sigurjónsson, ráðgjafi í utanríkismálum hjá forsætisráðuneyti. Utanríkisráðherra ávarpaði fundinn og fjallaði um breyttar aðstæður í öryggis- og varnarmálum á norðurslóðum, sérstaklega um viðbrögð við breyttum aðstæðum í kjölfar heimkvaðningar varnarliðsins. Jafnframt fjallaði hún um nýja stefnumótun í öryggis- og varnarmálum. Í kjölfar inngangs utanríkisráðherra hófust umræður. Árni Páll Árnason, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, lagði á fundinum fram tillögur fyrir hönd Íslandsdeildarinnar um hvernig umfjöllun um öryggismál á norðurslóðum yrði í framhaldinu háttað innan ráðsins. Innlegg íslensku landsdeildarinnar kom í kjölfar þess að Vestnorræna ráðið hafði lagt fram ályktun frá ársfundi sínum 2007 um öryggis- og björgunarmál á Norður-Atlantshafi til umfjöllunar í Norðurlandaráði, á grundvelli samstarfssamnings sem Norðurlandaráð og Vestnorræna ráðið gerðu með sér árið 2006. Íslandsdeildin lagði til að unnið yrði að greiningu á stöðu öryggis- og björgunarmála á norðurslóðum, að þau yrðu tekin fyrir á ráðstefnum og að fjallað yrði um tengslin milli loftslagbreytinga og öryggismála á svæðinu. Í framsögu ítrekaði Árni Páll að loftslagsbreytingar hefðu áhrif á öryggismál. Mikilvægt væri að umræða um öryggismál á norðurslóðum yrði langtímaverkefni í norrænu samstarfi, enda ljóst að nýjar hættur á norðurslóðum hefðu veruleg samfélagsleg áhrif alls staðar á Norðurlöndunum. Að tillögu Dagfinns Høybråten, forseta Norðurlandaráðs, ályktaði forsætisnefndin eftirfarandi um borgaralegt samstarf um öryggismál: Í fyrsta lagi studdi nefndin ályktun ársfundar Vestnorræna ráðsins nr. 3/2007 um aukið samstarf Norðurlanda um borgaralega samvinnu um öryggismál á Norður-Atlantshafi, og vildi að könnuð yrðu tengslin milli loftslagsbreytinga og öryggismála. Í öðru lagi lýsti nefndin sig sammála hugmyndum Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og óskaði eftir því við Norrænu ráðherranefndina að ráðstefna hennar um samfélagsöryggi sem búist var við að haldin yrði árið 2008 tæki sérstaklega til umfjöllunar hugmyndir um aukið borgaralegt samstarf um öryggismál. Í þriðja lagi samþykkti nefndin að Norðurlandaráð færi þess á leit við Norrænu ráðherranefndina að greining á borgaralegu öryggi á Norður-Atlantshafi og við norðurskaut yrði hluti af skýrslu ráðherranefndarinnar um samfélagsöryggi sem lögð verður fyrir Norðurlandaráðsþing í Helsinki í október 2008.
    Sumarfundur forsætisnefndar var haldinn í Tromsø og á Svalbarða þar sem helsta umfjöllunarefnið var loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á norðurslóðir.
    
Menningar- og menntamálanefnd.
    Á fyrri hluta árs var Sigríður Anna Þórðardóttir fulltrúi Íslandsdeildar í menningar- og menntamálanefnd, en í júní tók Ragnheiður Ríkharðsdóttir við af henni.
    Menningar- og menntamálanefnd annast málefni sem varða menningu og listir á Norðurlöndum og á alþjóðavísu, fjölmenningarleg Norðurlönd, kvikmyndir og fjölmiðla, tungumál, íþróttir, óháð félagasamtök, menningu barna og unglinga, grunnmenntun, framhaldsmenntun, fullorðinsfræðslu, rannsóknir, menntun vísindamanna og fræðimannaskipti.
    Ofarlega á baugi í umfjöllun mennta- og menningarmálanefndar á árinu voru málefni sem tengjast þeirri áherslu sem ráðið leggur á hnattvæðingu og loftslagsbreytingar. Nefndinni fannst umræðu um hlut menningar og menntunar skorta í hnattvæðingarvinnunni. Hún lagði fram tvær tillögur sem ráðið samþykkti sem tilmæli á Norðurlandaráðsþingi, annars vegar um stefnu ráðherranefndar norrænu menntamálaráðherranna á sviði mennta og rannsókna 2008–2010 (tilmæli 11/2007), og hins vegar um aukið norrænt samstarf á sviði rannsókna (tilmæli 12/2007).
    Menningar- og menntamálanefnd heimsótti í september nýja samræmingarskrifstofu norræns menningarsamstarfs, Kulturkontakt Nord, í Sveaborg í Finnlandi og sumarfundur hennar var haldinn í Reykjavík í júní.

Efnahags- og viðskiptanefnd.
    Fulltrúar Íslandsdeildar í efnahags- og viðskiptanefnd á fyrri hluta árs voru Drífa Hjartardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, Drífa frá janúar til maí og Steingrímur frá apríl til maí. Drífa gegndi jafnframt stöðu formanns nefndarinnar. Í júní tóku Kristján Þór Júlíusson og Kolbrún Halldórsdóttir sæti Drífu og Steingríms í nefndinni.
    Efnahags- og viðskiptanefnd annast málefni sem varða efnahags- og framleiðsluskilyrði, atvinnulíf, innri markað Norðurlanda, frjálsa fólksflutninga, afnám landamærahindrana, viðskipti, byggðastefnu, atvinnumál og vinnumarkað, vinnuvernd, innra skipulag, samgöngur og upplýsingatækni.
    Sjónarhorn nefndarinnar árið 2007 á helstu áhersluþætti ráðsins lutu helst að landamærahindrunum og hvernig þær standa í vegi fyrir betri árangri Norðurlanda í samkeppni á heimsvísu. Ein tillaga nefndarinnar var samþykkt sem tilmæli á Norðurlandaráðsþingi, um ný norræn matvæli – viðskipta- og landamærahindranir á sviði matvælaiðnaðar (tilmæli 16/2007).
    Sumarfundur efnahags- og viðskiptanefndar var haldinn á Svalbarða þar sem nefndin kynnti sér meðal annars námugröft.

Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd.
    Ásta R. Jóhannesdóttir var fulltrúi Íslandsdeildar í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd í byrjun ársins. Helgi Hjörvar tók við af Ástu í nefndinni eftir nýskipan Íslandsdeildar í maí.
    Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd annast málefni er varða umhverfismál, landbúnað og skógrækt, sjávarútveg, sjálfbæra þróun og orkumál.
    Á starfsárinu hélt nefndin áfram umfjöllun sinni frá árinu áður um tvö aðalmál: málefni Eystrasaltsins og loftslagsbreytingar. Nefndin fékk framfylgt mörgum tillögum sínum sem voru samþykktar sem tilmæli. Þar má nefna tillögu um aðgerðir gegn geislamengun Eystrasaltsins og grannsvæða Norðurlanda (tilmæli 1/2007), um áherslu á geislamengun í starfi HELCOM og ESB (tilmæli 2/2007), um stjórnun Eystrasaltsins (tilmæli 4/2007), um aðgerðir í loftslagsmálum á Norðurlöndum og á alþjóðlegum vettvangi (tilmæli 7/2007), um hagkvæmni í orkunotkun og nýtingu endurnýjanlegrar orku í opinberum byggingum (tilmæli 8/2007), og um endurnýjanlega orku og eflingu baltnesks-norræns raforkunets (tilmæli 9/2007).
    Sumarfundur umhverfis- og náttúruauðlindanefndar var haldinn í Færeyjum, þar sem meðal annars var sóttur heim Bogi Hansen, sem fékk náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 2006.

Velferðarnefnd.
    Fulltrúar Íslandsdeildar í velferðarnefnd á starfsárinu 2007 voru Jón Kristjánsson frá janúar til maí, og Siv Friðleifsdóttir frá júní til ársloka. Bæði gegndu formennsku í nefndinni.
    Velferðarnefnd sinnir velferðar- og tryggingamálum, félagsþjónustu- og heilbrigðismálum, málefnum fatlaðra, bygginga- og húsnæðismálum, fjölskyldumálum, málefnum barna og unglinga og baráttu gegn misnotkun vímuefna.
    Nefndin lauk á árinu umfjöllun um geðheilbrigðimál og varð tillaga hennar um þau að tilmælum um geðheilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum (tilmælum 5/2007). Í tengslum við áherslu ráðsins á hnattvæðingu átti velferðarnefnd frumkvæði að umfjöllun ráðsins um starfsfólk í heilbrigðisstéttum sem flyst milli landa, sem varð að samþykktum tilmælum á Norðurlandaráðsþingi um ráðningu heilbrigðisstarfsmanna frá þróunarlöndum (tilmæli 14/2007). Þá hóf nefndin á árinu umfjöllun um siðferðislegar hliðar fósturskimunar.
    Sumarfundur velferðarnefndar var í Murmansk þar sem nefndin kynnti sér meðal annars heilbrigðisaðstæður fanga.

Borgara- og neytendanefnd.
    Fulltrúi Íslandsdeildar í borgara- og neytendanefnd Norðurlandaráðs á starfsárinu 2007 var Kjartan Ólafsson.
    Borgara- og neytendanefnd annast málefni sem varða lýðræði, mannréttindi, borgararéttindi, jafnrétti, neytendamál, hollustu matvæla, baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi, löggjöf, innflytjendur, flóttafólk og baráttu gegn kynþáttafordómum.
    Mikilvæg umfjöllunarefni borgara- og neytendanefndar 2007 voru mansal, glæpir og ofbeldi, líkt og árið áður. Tvær tillögur nefndarinnar urðu að tilmælum ráðsins. Annars vegar um heimilisofbeldi gegn konum og börnum (tilmæli 6/2007) og hins vegar um baráttu gegn mansali (tilmæli 15/2007).
    Sumarfundur var haldinn í Haag þar sem nefndin kynnti sér starfsemi Europol, Eurojust og Alþjóðlega glæpadómstólsins (ICC).

Eftirlitsnefnd.
    Kjartan Ólafsson var fulltrúi Íslandsdeildar í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs árið 2007.
    Eftirlitsnefndin fylgist fyrir hönd Norðurlandaráðsþings með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni. Hluti af fastri starfsemi nefndarinnar er að fara yfir skýrslur dönsku ríkisendurskoðunarinnar um ársreikninga Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar og Norræna menningarsjóðsins.
    Eftirlitsverkefni nefndarinnar árið 2007 voru norrænu upplýsingaskrifstofurnar sem Norræna ráðherranefndin fjármagnar í Eystrasaltslöndunum og Rússlandi. Rannsóknin var unnin af utanaðkomandi aðila og leiddi í ljós að skrifstofurnar hafa töluverðu hlutverki að gegna þrátt fyrir að Eystrasaltslöndin hefðu gerst aðilar að Evrópusambandinu, ekki síst við tengslamyndun við Rússland.
    Í tilefni af eftirlitsverkefninu heimsótti nefndin norrænu upplýsingaskrifstofuna í Pétursborg í september og kynnti sér starfsemi hennar.

5. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru fern, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun, og kvikmyndaverðlaun. Þau eru að upphæð 350 þúsund danskar krónur. Verðlaunin fyrir árið 2007 voru afhent við hátíðlega athöfn í Gamle Logen þann 31. október í tengslum við 59. þing Norðurlandaráðs í Ósló.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962. Þau eru veitt fyrir fagurbókmenntir sem skrifaðar eru á einu af norrænu tungumálunum. Til greina koma skáldsögur, leikrit, ljóða-, smásagna- eða ritgerðasöfn og önnur bókmenntaverk. Verðlaunaverkin skulu hafa mikið listrænt og bókmenntalegt gildi. Markmið verðlaunaveitingarinnar er að auka áhuga Norðurlandabúa á bókmenntum og tungumálum nágrannalandanna og á sameiginlegri menningararfleifð Norðurlanda.
    Sænski rithöfundurinn Sara Stridsberg hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2007 fyrir skáldsöguna Draumadeildin (Drömfakulteten). Tilkynnt var um verðlaunahafann eftir fund dómnefndar í Norræna húsinu í Reykjavík í mars. Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Draumadeildin er brennandi og margslungin frásögn. Sagan fjallar um Valerie Solanas, táknmynd hins róttæka femínista, og sorgleg örlög hennar. Sara Stridsberg blandar saman heimildum og skáldskap svo úr verður hrífandi verk. Draumadeildin ber undirtitilinn „framlag til kynjafræðanna“ og sagan er átakanlegt uppgjör við ólíkar kúgunaraðferðir í samfélaginu. Þrátt fyrir alvarlegt viðfangsefni er Draumadeildin einstaklega kraftmikil skáldsaga með leikandi tungutaki.“

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965 og fram til ársins 1988 voru þau afhent annað hvert ár. Frá 1990 hafa þau verið veitt árlega, annað hvert ár til tónskálds og hitt árið til tónlistarflytjenda. Tónlistarverðlaununum er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi.
    Kammerkór Erics Ericsons frá Stokkhólmi hlaut tónlistarverðlaunin árið 2007 og var það í fyrsta sinn í sögu Tónlistarverðlaunanna sem kórar voru tilnefndir og kór hlaut verðlaunin. Í umsögn dómnefndar kom eftirfarandi fram: „Kammerkór Erics Ericsons gegnir mikilvægu hlutverki og er fyrirmynd kóra í Svíþjóð, á Norðurlöndum og um allan heim vegna framúrskarandi listrænnar tjáningar og frábærra gæða. Með háþróuðum hljómi sínum er Kammerkór Erics Ericsons nánast orðinn samheiti fyrir „norræna hljóminn“. Hæfileiki kórsins til að draga fram, lifa sig inn í og blása lífi í verk sem spanna bilið frá endurreisnartímanum til vorra daga, er einstakur.“

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.
    Náttúru- og umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs var komið á fót árið 1995. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki, stofnun, samtökum eða einstaklingi sem skilað hefur sérstöku framlagi til náttúru- og umhverfisverndar.
    Þemað fyrir náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2007 var umhverfislega sjálfbært bæjarfélag. Það var bæjarfélagið Albertslund í Danmörku sem hlaut verðlaunin. Albertslund er nágrannasveitarfélag Kaupmannahafnar með um 30 þúsund íbúa, og stór hluti þeirra er innflytjendur. Í umsögn dómnefndar sagði: „Albertslund hlýtur verðlaunin fyrir þrautseiga vinnu við að láta borgara og fyrirtæki tileinka sér umhverfisvæn viðhorf. Sveitarfélaginu hefur tekist að minnka útblástur koldíoxíðs hjá sér um næstum helming, meðal annars með því að heimsækja þá aðila sveitarfélagsins sem eyða mikilli orku. Einnig hafa konur sem eru innflytjendur hlotið menntun til þess að kenna öðrum að minnka orkunotkun. Ef öll sveitarfélög á Norðurlöndum færu að dæmi Albertslund yrðu Norðurlönd í fararbroddi í hinni alþjóðlegu baráttu gegn loftslagsbreytingum.“

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð veitti kvikmyndaverðlaun í fyrsta sinn á 50 ára afmælisþingi sínu árið 2002. Frá 2005 hafa þau verið veitt árlega til handritshöfunda, leikstjóra og framleiðenda og skipst jafnt milli þeirra. Til þess að hljóta verðlaunin verður viðkomandi að hafa gert kvikmynd sem á rætur í norrænni menningu, hefur til að bera listrænan frumleika og sameinar alla þætti myndarinnar í heilsteyptu verki.
    Danska kvikmyndin Listin að gráta í kór (Kunsten at græde i kor) hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2007. Verðlaunin skiptust á milli Peter Schønau Fog leikstjóra, Bo hr. Hansen handritshöfundar og Thomas Stenderup framleiðanda. Kvikmyndin er byggð á skáldsögu eftir Erling Jepsen. Rökstuðningur dómnefndarinnar var svohljóðandi: „Kvikmyndin Listin að gráta í kór er sýnd með augum lítils drengs. Með lágværri kímni er brugðið upp mynd af fáránleika en líka ógnum fjölskyldulífsins. Áhorfendum er skemmt en þeir verða líka hrærðir þar sem fjallað er um jafn vandmeðfarið efni og misnotkun á börnum á beinskeyttan en þó mannúðlegan hátt. Þrúgandi öfl undir gljáandi yfirborði kaupstaðarlífsins eru afhjúpuð af hreinskilni.“

6. Sameiginlegir fundir Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð kom saman til samhliða nefndafunda þrisvar sinnum árið 2007, í janúar, apríl og september, eins og það gerir að jafnaði. Markmiðið með fundunum er að vinna þær tillögur og þau mál sem lögð eru fyrir Norðurlandaráðsþing á haustin. Í tengslum við nefndafundina fara fram stuttir sameiginlegir fundir alls ráðsins þar sem ákveðin efni eru tekin fyrir, auk þess sem ein eða fleiri nefndir í samstarfi standa fyrir málstofum um málefni sem eru til umfjöllunar hjá nefndunum.

Janúarfundir Norðurlandaráðs í Helsinki.
    Janúarfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Ríkisdeginum í Helsinki dagana 29.–30. janúar. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Sigríður A. Þórðardóttir formaður, Jón Kristjánsson varaformaður, Rannveig Guðmundsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Drífa Hjartardóttir, Kjartan Ólafsson og Ásta R. Jóhannesdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara.
    Loftslagsbreytingar voru efni sameiginlegs fundar í Helsinki undir yfirskriftinni „Norræn orkustefna sem svar við hnattrænum áskorunum á sviði loftslagsmála“. Dagfinn Høybråten, forseti Norðurlandaráðs, sagði við setningu fundarins að ríkari hluti heimsins, þ.m.t. Norðurlöndin, væri valdur að mestri losun gróðurhúsalofttegunda og taldi að ríku löndin ættu að ganga á undan með góðu fordæmi og minnka losun. Høybråten benti á að þekkingin og fjármagnið væri til staðar en spurning væri um pólitískan vilja og getu. Hann sagði að þörf væri fyrir norræna samþættingu sem gæti gert Norðurlöndin að róttæku afli í alþjóðlegum loftslagsviðræðum. Með þessu gaf forsetinn tóninn fyrir eitt helsta umfjöllunarefni ráðsins á árinu.
    Bogi Hansen, prófessor og rithöfundur frá Færeyjum, tók til máls, en hann fékk náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 2006 þegar verðlaunin voru tileinkuð loftslagsbreytingum. Hansen sagði engan vafa leika á að hækkun meðalhita vegna losunar gróðurhúsalofttegunda væri af manna völdum. Á næstu 100 árum væri spáð hækkun hitastigs um eina og hálfa til sex gráður í heiminum, og meiri sveiflum í veðurfari með fleiri hitabylgjum, stormum og flóðum, þar á meðal á Norðurlöndum. Eftir því sem Hansen segir er losun gróðurhúsalofttegunda stærsta stjórnlausa tilraunin sem mannkynið hefur staðið fyrir. Hann sagði á fundinum að ekki væri hægt að stöðva loftslagsbreytingarnar en það væri mögulegt að draga úr þeim til lengri tíma litið. Því væri nauðsynlegt fyrir stjórnmálamenn að bregðast við nú þegar, en ekki eftir 20–30 ár, og vinna að alþjóðlegum samningum til að minnka áhrifin og koma í veg fyrir stóráföll.
    Finnsku þingmennirnir Tarja Cronberg og Martin Saarikangas fluttu einnig erindi. Cronberg taldi að Norðurlöndin gætu haft áhrif til að minnka losun gróðurhúsaloftegunda á tvennan hátt. Annars vegar með því að sjá til þess að sameiginlegur norrænn raforkumarkaður virkaði sem skyldi, en þar væru flöskuhálsar í dreifingu og einkaleyfi til trafala. Hins vegar með því að beita áhrifum innan ESB. Saarikangas sagði að iðnaður í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð krefðist mikillar orku og að landbúnaður og samgöngur væru helstu sökudólgarnir hvað varðaði losun gróðurhúsalofttegunda. Hann taldi að gera ætti núverandi kjarnorkuver skilvirkari og efla orkusparnað á Norðurlöndum með hugarfarsbreytingu og betri einangrun mannvirkja.
    Þá talaði einnig Martina Krüger frá Greenpeace. Í máli hennar kom fram að þörf væri á samræmdum alþjóðlegum aðgerðum í orkumálum. Á Norðurlöndum væru helstu orkugjafar af ólíkum toga en hægt væri til dæmis að minnka notkun kjarnorku og auka notkun vindorku. Hún taldi enn fremur að safna ætti og kynna sameiginlegar upplýsingar um orkumál á Norðurlöndum.
    Eftir framsöguerindin spunnust nokkrar umræður. Steingrímur J. Sigfússon tók þátt í þeim og sagði að vandamálin yrðu ekki leyst með því að skipta einungis um orkugjafa svo lengi sem gegndarlaus neysla vesturlandabúa héldi áfram að aukast hömlulaust með tilheyrandi álagi á auðlindir jarðarinnar. Draga þyrfti úr óþarfa neyslu, og sömuleiðis þyrfti að setja óþarfa flutningum og ferðalögum skorður.
    Auk sameiginlega fundarins stóðu borgara- og neytendanefnd og velferðarnefnd fyrir málstofu um baráttu gegn heimilisofbeldi í samstarfi við velferðarnefnd og laga- og öryggisnefnd Eystrasaltsþingsins. Sænska þingkonan Carina Hägg sagði frá því að herferð Evrópuráðsins gegn heimilisofbeldi mundi setja svip á alþjóðlegan baráttudag kvenna 8. mars. Árásir sem ættu sér stað í almenningsgörðum væru yfirleitt kærðar en heimilisofbeldi sjaldnast tilkynnt til lögreglu og nauðsynlegt væri að kortleggja umfang þess ofbeldis sem ekki væri kært. Kristin Skjørten, afbrotafræðingur frá Noregi, sem tók þátt í rannsóknaverkefni Norrænu ráðherranefndarinnar „Kynferði og ofbeldi á Norðurlöndum“ á árunum 2000–2005, tók einnig til máls. Skjørten taldi að horfa bæri á vandann út frá kynferði og völdum, en kynferði og völd eru annað af tveimur meginþemum í norrænni jafnréttisáætlun fyrir árin 2006–2010. Norrænar rannsóknir sýna að margar konur sæta ofbeldi af hendi maka eða fyrrverandi maka.

Aprílfundir Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.
    Aprílfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Eigtveds Pakhus í Kaupmannahöfn dagana 23.–25. apríl. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Jón Kristjánsson varaformaður, Rannveig Guðmundsdóttir, Drífa Hjartardóttir og Ásta R. Jóhannesdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara.
    Hnattvæðing og samkeppnishæfni Norðurlanda á heimsvísu voru ofarlega á baugi á sameiginlegum fundum í apríl. Fyrst hélt hnattvæðingarhópur forsætisnefndar (globaliseringsgruppen) opinn fund með dönskum samstarfsráðherra Norðurlandanna, Connie Hedegaard. Hedegaard sagði að með sameiginlegri markaðsvinnu Norðurlanda á heimsvísu yrði áherslubreyting í norrænu samstarfi. Ráðherrann kynnti þrjár hugmyndir sínar í þeim efnum. Í fyrsta lagi að taka fyrir ákveðnar landamærahindranir einstaklinga og fyrirtækja á Norðurlöndum og leysa þær innan ákveðinna tímamarka til að styrkja Norðurlöndin sem markað. Í öðru lagi að styrkja þau svið sem gefa Norðurlöndum möguleika á að vera í fararbroddi á heimsvísu, þ.e. orkumál, umhverfismál og loftslagsmál. Í þriðja lagi að gera áætlanir um alþjóðlega markaðssetningu Norðurlanda, t.d. með sameiginlegri markaðssetningu á heimssýningunni í Sjanghæ árið 2010. Í fyrirspurnatíma benti Rannveig Guðmundsdóttir á að við síðustu heimssýningu í Japan árið 2005 hefði verið meiri áhugi á velferðarmálum, fyrst og fremst samræmingu fjölskyldulífs og atvinnuþátttöku, heldur en nýsköpun. Aðrir meðlimir ráðsins tóku í sama streng og lögðu til að meiri áhersla yrði lögð á velferðar- og menningarafurðir við sameiginlega markaðssetningu Norðurlanda.
    Þá hélt Norðurlandaráð sameiginlegan fund um hnattvæðingu þar sem gestir fundarins voru Kalle Moene, hagfræðiprófessor við Óslóarháskóla, og Bendt Bendtsen, viðskiptaráðherra Danmerkur. Moene lýsti því hvernig samspil velferðarsamfélags og atvinnulífs í norrænum samfélögum styrkti stöðu Norðurlandanna í alþjóðahagkerfi, og Bendtsen gerði grein fyrir störfum og áherslum danska hnattvæðingarráðsins, sem var sett á fót til að þróa markaðssetningu Danmerkur á heimsvísu. Í umræðum á fundinum var m.a. rætt um markaðssetningu Norðurlandanna í tengslum við ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í Kaupmannahöfn árið 2009.
    Velferðarnefnd stóð fyrir málstofu um ungdómshúsið á Norðurbrú í Kaupmannahöfn sem ungt fólk neitaði að láta af hendi eftir að Kaupmannahafnarborg seldi húsið og starfsemi þar fyrir ungt fólk var lögð niður. Þeim viðskiptum lauk með því að húsið var rifið snemma á árinu 2007 eftir kröftug mótmæli unga fólksins. Í málstofunni tóku til máls fulltrúar borgarinnar, ungdómshússins, fyrirtækja í hverfinu og lögreglu, auk félagsfræðingsins Rene Karpanschof. Markmiðið með málstofunni var að afla upplýsinga um ólík sjónarmið í málinu en ekki að álykta um það af hálfu Norðurlandaráðs.
    Velferðarnefnd stóð einnig, ásamt borgara- og neytendanefnd, fyrir málþingi um ofbeldi sem tengist hugmyndum um fjölskylduheiður. Frummælendur voru Tine Gudrun Jensen, Anja Bredahl, Farwha Nielsen, Emre Güngör, Anas Osman og Mohammed Aoudi. Á málþinginu kom m.a. fram að í umræðu um fjölskylduheiður væru áherslur mismunandi eftir löndum. Fjallað var um ráðgjöf til kvenna sem leita til kvennaathvarfa vegna ofbeldis og aðgerðir ungra manna sem eru afkomendur innflytjenda til að breyta hugmyndum um heiður og koma í veg fyrir ofbeldi.

Septemberfundir Norðurlandaráðs í Gautaborg.
    Septemberfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Svenska Mässan í Gautaborg dagana 24.–25. september. Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundunum Árni Páll Árnason, formaður, Kjartan Ólafsson, varaformaður, Helgi Hjörvar, Kolbrún Halldórsdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Siv Friðleifsdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara.
    Enginn sameiginlegur fundur var haldinn í Gautaborg en forsætisnefnd og efnahags- og viðskiptanefnd stóðu í sameiningu fyrir málstofu um landamærahindranir, einnig nefndar stjórnsýsluhindranir. Kari-Ann Kristiansen, ráðgjafi hjá Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni (Nordisk InnovationsCenter) kynnti skýrsluna „Frá landamærahindrunum og vandamálum til einföldunar og markaðsmöguleika“ sem hún ritstýrði á vegum stofnunarinnar. Í skýrslunni er lagðar fram tillögur með það að markmiði að búa sem best í haginn fyrir skilvirkan innri markað á Norðurlöndum. Í fyrsta lagi að fjarlægja núverandi hindranir, koma í veg fyrir að nýjar verði til og hvetja til aukinnar samkeppni yfir landamærin. Í öðru lagi að beina athyglinni að einföldun og markaðsmöguleikum í stað hindrana og vandamála, sýna fram á hagkvæmni opnari markaða með kostnaðarútreikningum og hampa dæmum um velgengni í þessum efnum til að auka skilning stjórnvalda og atvinnulífs. Í þriðja lagi að ryðja lagalegum hindrunum úr vegi með því að gera lagabreytingar á skattasviði og fyrirtækjasviði. Í umræðum að loknum fyrirlestri Kristiansen sætti skýrsla nýsköpunarmiðstöðvarinnar nokkurri gagnrýni á málþinginu af hálfu þingmanna ráðsins sem töldu hana hafa lítið nýtt fram að færa. Árni Páll Árnason spurði hvort miðstöðin hefði rannsakað sérstaklega innleiðingu Norðurlandanna á ESB- og EES-reglugerðum, þar sem samstarf á því sviði væri mikilvæg til að koma í veg fyrir að nýjar landamærahindrarnir mynduðust. Kristiansen var sammála Árna Páli um að á þessu sviði þyrftu Norðurlöndin að eiga meira samstarf, til að mynda hvað varðaði lagasetningu um fyrirtæki.
    Í tengslum við septemberfundina var einnig skipulögð skoðunarferð í Norræna lýðheilsuháskólann (Nordiska högskolan för folkhälsovetenskap) í Gautaborg til að kynnast starfsemi hans. Norræni lýðheilsuháskólinn býður upp á meistara- og rannsóknamenntun í lýðheilsufræðum, auk eftir- og símenntunar fyrir starfsfólk heilbrigðisstofnana á Norðurlöndum. Einnig eru haldin þar norræn og alþjóðleg námskeið og vinnustofur. Skólinn hefur sérhæft sig á þremur sviðum: heilbrigðisstjórnun, heilbrigðiseflingu og félagslegri velferð. Til þeirra sviða heyra meðal annars geðheilsa, hreyfihömlun, heilbrigði barna og unglinga og þverfaglegt samstarf.

7. 59. þing Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráðsþing 2007 var haldið í Stórþinginu í Ósló dagana 30. október – 1. nóvember, þar sem Noregur gegndi formennsku í ráðinu á árinu. Á þinginu komu saman rúmlega áttatíu norrænir þingmenn, rúmlega fjörutíu norrænir ráðherrar, og norrænir þingforsetar. Auk þeirra sótti þingið fjöldi gesta frá þingmannasamtökum ríkja við Eystrasalt, Rússlandi, Vestur-Norðurlöndum og norðurskautssvæðinu. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu þingið Árni Páll Árnason, formaður, Kjartan Ólafsson, varaformaður, Kolbrún Halldórsdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Siv Friðleifsdóttir og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar deildarstjóra alþjóðadeildar og Lárusar Valgarðssonar alþjóðaritara.
    Í samræmi við áherslur í starfi ráðsins á árinu voru helstu mál á dagskrá Norðurlandaráðsþingsins í Ósló loftslagsbreytingar, hnattvæðing, og staða sjálfstjórnarsvæðanna Færeyja, Grænlands og Álandseyja í opinberu norrænu samstarfi og utanríkis- og öryggismál.
    Skoðanakannanir sem Norðurlandaráð hefur látið gera í aðdraganda síðustu tveggja þinga hafa sýnt að mikill samhljómur er milli þess sem almenningur á Norðurlöndum telur að norrænt samstarf eigi að fjalla um og þeirra mála sem efst hafa verið á baugi í norrænni samvinnu. Má í þessu sambandi nefna að í könnun sem gerð var í september og október 2007 kom í ljós að 94% Norðurlandabúa töldu mikilvægt eða mjög mikilvægt að norrænt samstarf fjallaði um loftslags- og umhverfismál. Hlutfall þeirra sem töldu að mikilvægt eða mjög mikilvægt væri að Norðurlöndin legðust á eitt um að ná fram nýjum hnattrænum loftslagssamningi þegar Kyoto-bókuninni sleppir var einnig hátt eða 91%. Hlutfall Íslendinga í þessu sambandi var hins vegar lægst Norðurlandabúa eða 77% á móti um 95% annars staðar á Norðurlöndunum.
    Á Norðurlandaráðsþinginu í Ósló voru loftslagsbreytingar til umfjöllunar undir tveimur dagskrárliðum. Annars vegar í umræðum forsætisráðherra Norðurlandaríkjanna og leiðtoga stjórnarandstöðu, svokölluðum norrænum leiðtogafundi, og hins vegar sem sér dagskrárliður.
    Þátttakendur frá Íslandi í leiðtogafundinum voru Geir H. Haarde forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon, sem formaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins. Forsætisráðherra sagði í ræðu sinni að staða Norðurlandanna hvað varðaði endurnýjanlega orku og loftslagsvæna tækni væri afar sterk. Þau væru í forustu í heiminum í þessum efnum, hvert á sínu sviði. Styrkur Íslands og framlag til úrlausna í loftslagsmálum lægi í útflutningi á tækni og þekkingu, ekki síst í jarðhitamálum. Hann taldi einnig að Norðurlöndin hefðu sóknarfæri í sameiningu, bæði til að kynna umheiminum hagnýtar lausnir og til þess að stuðla að nýjum samningi í lofslagsmálum sem vonandi yrði undirritaður á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í Kaupmannahöfn 2009. Steingrímur J. Sigfússon fjallaði í ræðu sinni um tengslin milli hnattvæðingar og loftslagsbreytinga. Hnattvæðingin sem slík væri ekki sjálfbær eins og málum væri háttað í dag. Hann setti spurningarmerki við hversu umhverfisvæn og sjálfbær hin norrænu samfélög væru í raun þegar þau, sem hluti af hinum vestræna heimi, stuðluðu að aukinni neyslu og þar með aukinni notkun á auðlindum jarðarinnar, sem stuðlaði á sinn hátt að loftslagsbreytingum. Steingrímur hvatti til þess að Norðurlöndin tækju sig á og hreinsuðu til í eigin ranni, þá fyrst gætu þau í raun verið öðrum fyrirmynd. Leiðin til þess væri að fylgja áætlun Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
    Í seinni dagskrárliðnum um loftslagsmál voru meðal annars til umfjöllunar tillögur um norræna eftirfylgni á tillögum sem fram koma í svokallaðri Stern-skýrslu, um sameiginlegar norrænar aðgerðir um framkvæmd tilskipunar Evrópusambandsins um orkunotkun hins opinbera, um sjálfbæra orkustefnu án kjarnorku, og um norrænar aðgerðir vegna alþjóðlegrar ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í Kaupmannahöfn 2009. Síðastnefnda tillagan fjallaði um hvernig standa mætti að undirbúningi ráðstefnunnar sem haldin verður 30. nóvember – 11. desember 2009, með það að markmiði að kynna loftslagsbreytingar fyrir almenningi og nemendum, og draga í leiðinni fram styrkleikaþætti norrænu landanna. Vonir standa til að á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn takist að klára nýja alþjóðlega samþykkt sem tekur við af Kyoto-bókuninni eftir árið 2012. Tillagan fól til að mynda í sér að norrænir orkusérfræðingar yrðu til ráðgjafar um markmið í orkumálum, að samhliða ráðstefnunni yrði kynning á endurnýjanlegri orku og stöðu Norðurlandanna í orku- og umhverfismálum, og að sett yrði upp síða á netinu þar sem nemendur og ungt fólk gæti sótt upplýsingar um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra. Kolbrún Halldórsdóttir lýsti yfir stuðningi við tillöguna og undirstrikaði hversu mikilvægt það væri að almenningur tæki þátt í umræðunni um loftslagsmál, t.d. innan menntastofnana og frjálsra félagasamtaka. Markmiðið væri að koma í veg fyrir stríð og fátækt sem afleiðingu loftslagsbreytinga.
    Hnattvæðing var á dagskrá þingsins í Ósló, meðal annars í formi umfjöllunar um skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar um aðgerðir til að fylgja eftir hnattvæðingarvinnunni. Af þeim aðgerðum ber helst að nefna að efla norrænar hágæðarannsóknir á loftslagsbreytingum, að gera úttekt á möguleikum á að opna samnorrænar nýsköpunarmiðstöðvar í Asíu, að Norðurlöndin standi saman að orkusýningu í tengslum við ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn 2009 og að efna til hringborðsumræðna sérfræðinga í loftslagsmálum til að greina úrlausnarefni við gerð nýs alþjóðlegs samnings um loftslagsmál í því skyni að styðja sendinefndir Norðurlandanna við gerð slíks samnings.
    Tillaga tengd hnattvæðingu sem lá fyrir Norðurlandaráðsþinginu snerist um að Norðurlöndin skyldu eiga frumkvæði að alþjóðlegum samningi sem ætlað væri að draga úr ásókn norrænna heilbrigðisstofnana í menntað starfsfólk frá fátækari ríkjum, með það fyrir augum að mannauður í heilbrigðisstéttum haldist í auknum mæli í þróunarríkjunum. Siv Friðleifsdóttir, formaður velferðarnefndar, mælti fyrir tillögunni. Í máli hennar kom fram að ef Norðurlöndin vildu bera af á heimsvísu þyrftu þau að vera sjálfum sér nóg um starfsfólk í heilbrigðisgeiranum. Staða mála væri orðin þannig að samfara aukinni þörf fyrir heilbrigðisstarfsfólk á Norðurlöndum þá fækkaði heilbrigðisstarfsfólki í fátækum ríkjum. Af þeim sökum þyrfti að hafa frumkvæði að alþjóðlegum samningi sem drægi úr ráðningu starfsfólks í heilbrigðisstéttum frá þróunarríkjum, og gerði þess í stað ráð fyrir auknu samstarfi um menntun heilbrigðisstarfsfólks í þróunarríkjum. Slíkum aðgerðum væri ætlað að stuðla að því að þróunarríki héldu í heilbrigðisstarfsfólk sitt. Norðurlönd ættu að vera í fararbroddi í málinu.
    Siv Friðleifsdóttir tók einnig til máls í fyrirspurnatíma norrænu samstarfsráðherranna. Hún spurði færeyska samstarfsráðherrann Jógvan á Lakjuni hvort athygli beindist að því í Færeyjum, í ljósi þess að gengið yrði til þingkosninga í janúar 2008, að einungis 9% þingmanna í færeyska þinginu væru konur? Hún spurði að auki til hvaða aðgerða hefði verið gripið til í Færeyjum til að auka þátttöku kvenna í stjórnmálum. Jógvan á Lakjuni svaraði á þann veg að nefnd hefði verið starfandi á vegum landsstjórnarinnar í tvö ár til þess að auka þátttöku kvenna í stjórnmálum. Hún hefði haft áhrif á umræðuna um jafnréttismál, m.a. á uppröðun á lista stjórnmálaflokka fyrir kosningarnar í janúar, og hann var bjartsýnn á að vinnan mundi skila fleiri konum á þing eftir kosningarnar.
    Hvað varðar stöðu sjálfstjórnarsvæðanna Færeyja, Grænlands og Álandseyja í opinberu norrænu samstarfi, þá lágu fyrir þinginu ein skýrsla um stöðu þeirra, eitt nefndarálit forsætisnefndar um þingmannatillögu og ein yfirlýsing ráðsins. Málið um stöðu sjálfstjórnarsvæðanna snýst nú um hvort breyta eigi Helsinki-sáttmálanum þannig að sjálfstjórnarsvæðin geti gerst sjálfstæðir aðilar að honum, en sáttmálinn, sem er grundvöllur opinbers norræns samstarfs, er samningur milli norrænu ríkjanna fimm. Það eru fordæmi fyrir að breyta honum og voru t.a.m. gerðar breytingar á samningnum árin 1971 og 1983 sem tryggði sjálfstjórnarsvæðunum aukna þátttöku í samstarfinu þar sem fulltrúum þeirra var gert kleift að taka þátt í samstarfinu, þingmönnum í ráðinu var fjölgað og svæðunum veittur réttur til að mynda landsdeildir.
    Í tillögu frá árinu 2005 lagði hópur færeyskra og danskra fulltrúa í Norðurlandaráði til að Norræna ráðherranefndin tæki til gagngerrar umfjöllunar óskir Færeyinga frá árinu 2003 um að verða fullgildir aðilar að opinberu norrænu samstarfi, þ.e.a.s. Norrænu ráðherranefndinni og Norðurlandaráði, og setti á fót nefnd til að fjalla um þær óskir. Í apríl 2007 settu samstarfsráðherrar Norðurlanda á fót starfshóp til að gera tillögur um aukna þátttöku sjálfstjórnarsvæðanna í opinberu norrænu samstarfi. Í umboði starfshópsins kom fram að það skyldi gert innan ramma Helsinki-sáttmálans. Starfshópurinn skilaði skýrslu í september 2007 með niðurstöðum sínum, svokölluðu Álandseyjaskjali (Ålandsdokumentet). Helstu tillögur í skjalinu voru að sjálfstjórnarsvæðin gætu framvegis tekið þátt í starfi norrænna stofnana á sama grundvelli og norrænu ríkin, að fulltrúar sjálfstjórnarsvæðanna gætu stýrt fundum hjá ráðherranefndum og embættismannanefndum Norrænu ráðherranefndarinnar, og að í Norðurlandaráði verði mögulegt að beina fyrirspurnum og tilmælum til landsstjórna sjálfstjórnarsvæðanna varðandi þá málaflokka sem þau hafa yfirtekið. Ósamræmi er milli vinnureglna Norðurlandaráðs, sem leyfa að spurningum sé beint til sjálfstjórnarsvæðanna, og Helsinki-sáttmálans, þar sem aðeins er getið um möguleika á að beina tilmælum eða öðrum erindum til ríkisstjórna landa eða Norrænu ráðherranefndarinnar. Í fyrirliggjandi yfirlýsingu Norðurlandaráðs kom fram að ráðið styddi þær tillögur sem komu fram í Álandseyjaskjalinu og að túlka bæri ákvæði Helsinki-sáttmálans um fyrirspurnir og tilmæli til sjálfstjórnarsvæðanna þannig að þeim gæti verið beint til þeirra í þeim málaflokkum sem þau hefðu yfirtekið innan ramma sjálfstjórnar. Yfirlýsingin var samþykkt með afgerandi hætti.
    Í nefndaráliti forsætisnefndar kom fram að þar sem ekki væri einhugur meðal norrænu landanna um að breyta Helsinki-sáttmálanum legði hún til að ekki yrði aðhafst frekar í málinu. Í minnihlutaáliti var hins vegar lagt til að breyta samningnum til að koma til móts við óskir Færeyja. Mikil skoðanaskipti urðu um málið. Komið hafði fram á forsætisnefndarfundi daginn fyrir þingið að danska landsdeildin og flokkahópur vinstrisósíalista og grænna styddu minnihlutaálit forsætisnefndar. Í kjölfar niðurstöðu dönsku landsdeildarinnar ræddi Íslandsdeild Norðurlandaráðs stöðu mála. Var einhugur meðal íslensku fulltrúanna um að styðja minnihlutaálitið, í ljósi þess að einhugur hafði myndast innan dönsku landsdeildarinnar í málinu. Í umræðunni um nefndarálitið voru þingmenn Færeyja, Danmerkur, flokkahóps vinstrisósíalista og grænna áberandi en einnig tóku þátt í henni sænskir og íslenskir þingmenn. Kjartan Ólafsson kynnti sameiginlega niðurstöðu íslensku landsdeildarinnar þess efnis að hún hefði gegnum tíðina stutt þátttöku sjálfstjórnarsvæðanna í opinberu norrænu samstarfi að því marki sem það væri gerlegt. Á sama tíma vildi hún ekki blanda sér í innanríkismál einstakra landa hvað viðviki stjórnarskrárlegri stöðu sjálfstjórnarsvæðanna. Þar sem danska landsdeildin hefði nú lýst yfir stuðningi við að breyta Helsinki-sáttmálanum til að koma til móts við óskir Færeyinga, þá gerði íslenska landsdeildin það líka. Kolbrún Halldórsdóttir tók til máls og lýsti eftir hinum pólitísku rökum sem finnski, sænski og norski samstarfsráðherrann hefðu gegn því að breyta Helsinki-sáttmálanum í þá veru að þátttaka sjálfstjórnarsvæðanna í Norrænu ráðherranefndinni yrði á þeim sviðum þar sem þau hafa löggjafarvald. Engin svör bárust frá samstarfsráðherrunum. Atkvæðagreiðslan fór svo að 37 studdu nefndarálit meirihluta forsætisnefndar um að aðhafast ekki frekar og 20, þar á meðal íslensku þingmennirnir, studdu minnihlutaálit um að breyta Helsinki-sáttmálanum. Minnihlutaálitið var því fellt.
    Norrænt samstarf í öryggismálum var meðal þeirra utanríkismála sem rædd voru á Norðurlandaráðsþinginu. Fyrir því voru tvær ástæður. Annars vegar að stuttu fyrir þingið hittust utanríkisráðherrar Noregs, Svíþjóðar og Finnlands til að ræða öryggismál og hins vegar umfjöllun Norðurlandaráðs um ályktun Vestnorræna ráðsins 3/2007 um samstarf Íslands, Grænlands og Færeyja í öryggismálum, sérstaklega hvað varðar björgunarmál.
    Á fundi utanríkisráðherranna þriggja í aðdraganda þingsins var rætt um þríhliða samstarf um viðbrögð við áskorunum í öryggismálum langt í norðri, nefnt „High North“. Fréttir af þessum viðræðum urðu tilefni fyrirspurna á Norðurlandaráðsþinginu frá Ole Stavad, formanni Danmerkurdeildar Norðurlandaráðs, til Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs. Stavad lýsti áhyggjum af þróuninni og spurði hvort slíkt samstarf landanna þriggja væri líka opið Danmörku og Íslandi. Støre kvað svo vera og sagði einnig að þrátt fyrir að Norðurlöndin innbyrðis legðu ef til vill mismiklar áherslur á svæði eftir landfræðilegri legu, þá væri ekki um það að ræða að endurskilgreina Norðurlönd sem einungis þrjú lönd. Norræna samstarfið sem svæðisbundið samstarf væri gott akkeri og gæfi tækifæri í þessu samhengi.
    Árni Páll Árnason, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, var talsmaður flokkahóps jafnaðarmanna í utanríkismálaumræðunni. Hann sagði að sú umræða sem fram fór á þinginu um öryggismál hefði verið óhugsandi fyrir tuttugu árum. Ástæðan væri sú að umræðuhefðin hefði breyst. Það væri enn fremur full ástæða til að þróa hana enn frekar í ljósi þeirra öru breytinga sem ættu sér stað samfara loftslagsbreytingum og hnattvæðingu. Þessar breytingar hefðu einnig áhrif á öryggismál. Árni Páll nefndi í þessu sambandi hvernig nýjar aðstæður við norðurskautið og í norðurhöfum vegna bráðnandi íss sköpuðu nýjar áskoranir sem full ástæða væri til að ræða á vettvangi norrænnar samvinnu, einnig með þátttöku almennra borgara. Hér léki Norðurlandaráð mikilvægt hlutverk og fundur forsætisnefndar ráðsins í Reykjavík í desember væri kjörinn vettvangur til að halda þeirri umræðu áfram.
    Kveikjan að umfjöllun forsætisnefndar um öryggismál á fundi hennar í Reykjavík var að Vestnorræna ráðið hafði sent Norðurlandaráði til umfjöllunar ályktun Vestnorræna ráðsins 3/2007 þar sem hvatt er til aukins samstarfs Íslands, Grænlands og Færeyja varðandi öryggi í Norður-Atlantshafi, sérstaklega hvað varðar björgunarmál. Ástæðan fyrir því að Vestnorræna ráðið sendi Norðurlandaráði ályktunina var sú að ráðin gerðu með sér samstarfssamning árið 2006 þar sem fram kemur að Vestnorræna ráðið getur sent Norðurlandaráði ályktanir sínar í því augnamiði að Norðurlandaráð fjalli um þær og sú umfjöllun leiði hugsanlega til tilmæla Norðurlandaráðs til norrænna ríkisstjórna. Karl V. Matthíasson, formaður Vestnorræna ráðsins, var gestur Norðurlandaráðsþingsins í Ósló. Hann tók þátt í utanríkismálaumræðunni og fylgdi ályktun Vestnorræna ráðsins um öryggismál úr hlaði. Karl taldi að auka þyrfti og styrkja samstarf Íslands, Grænlands og Færeyja í björgunarmálum með aukinni samræmingu og sameiginlegum æfingum. Hér lægju tvær ástæður til grundvallar. Annars vegar sú staðreynd að Bandaríkjamenn hefðu að miklu leyti dregið björgunarlið sitt frá Vestur-Norðurlöndum og hins vegar að skipaumferð á svæðinu væri að stóraukast vegna nýrra samgönguleiða í kjölfar bráðnandi íss.
    Kjartan Ólafsson gerði björgunarmál á Norður-Atlantshafi einnig að umfjöllunarefni í ræðu sinni um velferðarmál. Tilefnið var niðurstaða borgara- og neytendanefndar um að leggja ekki til að Scandinavian-Star-slysið á Eystrasalti árið 1990 yrði rannsakað frekar þrátt fyrir tillögu þar um. Slysið hefði vissulega verið áminning um þörfina fyrir að vera viðbúin slysum af því tagi og því væri vert að gefa gaum aukinni þörf fyrir viðbúnað í Norður- Atlantshafi vegna aukinnar skipaumferðar þegar norðurskautsísinn bráðnaði. Norðurlandaráð gæti hér leikið hlutverk sem vettvangur umfjöllunar um þessi mál og knúið á um breytingar. Því væri gleðilegt að Norðurlandaráð væri í þann mund að taka til umfjöllunar ályktun Vestnorræna ráðsins og fróðlegt yrði að fylgjast með hver framvindan yrði.
    Finnar fara með formennsku í Norðurlandaráði árið 2008. Í lok þingsins í Ósló var Erkki Tuomioja kosinn forseti Norðurlandaráðs fyrir árið og Christina Gestrin varaforseti. Næsta þing Norðurlandaráðs verður í Helsinki 27.–29. október 2008.
    Eftir kosningar í nefndir og ráð er nefndarseta fulltrúa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sem hér segir: Árni Páll Árnason situr áfram í forsætisnefnd og kjörnefnd, Siv Friðleifsdóttir er áfram formaður velferðarnefndar, Helgi Hjörvar er áfram í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, Ragnheiður Ríkharðsdóttir situr áfram í menningar- og menntamálanefnd, Kristján Þór Júlíusson er áfram í efnahags- og viðskiptanefnd, Kolbrún Halldórsdóttir tekur sæti í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd og Kjartan Ólafsson situr áfram í borgara- og neytendanefnd sem og í eftirlitsnefnd.

8. Starfsáætlun og áherslur árið 2008.
Norðurlandaráð.
    Starf Norðurlandaráðs árið 2008 verður framhald af árinu á undan og meginstef verða á svipuðum nótum og árið 2007. Þó verða hnattvæðingin og áhersluatriði sem tengjast henni meira áberandi en önnur atriði og margir áhersluþættir undir hennar formerkjum, til að mynda loftslags- og umhverfismál. Langtímaáhersluatriði á borð við upprætingu landamærahindrana verða áfram til staðar en nýrri atriði eins og nýsköpun verða fyrirferðarmeiri.
    Hnattvæðingarvinna síðustu ára í Norðurlandaráði heldur áfram og verður viðameiri. Þar ber fyrst að nefna starf sem miðar að því að viðhalda og skerpa ímynd Norðurlanda á alþjóðavettvangi sem forustusvæði í umhverfismálum. Norðurlandaráð mun einbeita sér að undirbúningi ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í Kaupmannahöfn 2009 og vinna að því að tryggja að samkomulag náist þar um aðgerðir í umhverfis- og loftslagsmálum. Einnig mun ráðið vinna að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka þróun og nýtingu umhverfisvænna og endurnýjanlegra orkugjafa, sem og að halda áfram samstarfi við ríki við Eystrasalt um umhverfismál innhafsins.
    Áhersla á samkeppnishæfni Norðurlanda er önnur hlið á hnattvæðingarvinnunni. Í því sambandi verða tengsl atvinnulífsins og annara þátta norrænna samfélaga í brennidepli, til að mynda tengsl við rannsóknarstarf og velferðarkerfið. Norðurlandaráð telur mikilvægt að norrænt atvinnulíf og rannsóknastofnanir búi yfir hæfni á heimsmælikvarða, en þar er átt við þekkingu og reynslu af nýjum hæfniskröfum, viðskiptaháttum, aðferðum í efnahagslífi og samskiptum ólíkra menningarheima. Þá telur ráðið skipta sköpum fyrir Norðurlönd að nýsköpunarstarf þróist enn frekar og að ný og eldri fyrirtæki fái auðveldari aðgang að stofn- og þróunarfjármagni. Vegna samhengis milli góðrar lýðheilsu og efnahags- og félagslegs stöðugleika telur Norðurlandaráð að framfarir í heilbrigðis-, efnahags- og félagsmálum ráði miklu um hvernig Norðurlöndum reiðir af í hnattrænni samkeppni.
    Til viðbótar við áherslur sem eru felldar undir hnattvæðingarvinnuna telur Norðurlandaráð að í auknu alþjóðasamstarfi verði Norðurlöndin að leggja aukna áherslu á svæðasamstarf. Því hyggst ráðið halda áfram virku samstarfi við Eystrasalt, á Vestur-Norðurlöndum, við norðurskaut og við Barentshaf, auk þess að hleypa nýju lífi í samstarfi við Evrópuþingið.

Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
    Á árinu 2008 mun Íslandsdeild Norðurlandaráðs halda áfram að fylgja eftir þeim málum sem hún hefur tekið fyrir árið 2007 og fylgja nýjum úr hlaði. Þar ber helst að nefna öryggismál annars vegar og fjárlagagerð Norrænu ráðherranefndarinnar hins vegar.
    Íslandsdeildin leggur áherslu á kraftmikla vinnu af hálfu skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í samræmi við tillögu forsætisnefndar Norðurlandaráðs um öryggis- og björgunarmál á norðurslóðum frá því í desember 2007. Það var sameiginleg stefnumörkun allra fulltrúa í Íslandsdeildinni að leggja til að öryggis- og björgunarmál á norðurslóðum yrðu sett á dagskrá í norrænu samstarfi og átti hún frumkvæði að tillögum um leiðir til að fjalla um efnið innan ráðsins. Niðurstaða forsætisnefndar var að kalla eftir að ráðherranefndin felldi efnið inn í ráðstefnu um samfélagsöryggi sem til stendur að halda á árinu og jafnframt að fjallað yrði um það í skýrslu ráðherranefndarinnar til Norðurlandaráðsþings haustið 2008. Íslandsdeildin telur mikilvægt að Íslendingar þrýsti á að þetta forgangsmál gleymist ekki í stofnanakerfi norræns samstarfs.
    Í framhaldi af ákvörðun forsætisráðherra Norðurlandanna um að veita 60 milljónir danskra króna af svo til óbreyttum fjárlögum Norrænu ráðherranefndarinnar til hnattvæðingarvinnunnar er ljóst að nokkurrar togstreitu mun gæta á árinu 2008 milli ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs um hvaða niðurskurði skuli beitt í fjárlögum 2009 til að mæta þessari þörf. Ráðið hefur umsagnar- og tillögurétt um fjárlagavinnuna og Íslandsdeildin mun taka þátt í þeirri umfjöllun á árinu. Í því sambandi mun hún fara fram á að áherslumál í fjárhagsramma ráðherranefndarinnar verði sett skipulega fram og upplýst verði um áhersluverkefni í tengslum við hnattvæðingarvinnuna, svo og að sett verði fram heildstætt yfirlit yfir þau verkefni sem ætlunin er að skera niður á móti. Áður en það liggi fyrir sé ekki unnt að taka afstöðu til þess hvort öll svið norrænnar samvinnu skuli sæta sama niðurskurði vegna hnattvæðingarvinnunnar. Íslandsdeild Norðurlandaráðs hefur gagnrýnt harðlega fyrirætlanir ráðherranefndarinnar að hætta fjárveitingum til norrænna svæðaupplýsingaskrifstofa á Norðurlöndum, en þær gegna mikilvægu hlutverki og nýta vel hófleg framlög. Ein þessara skrifstofa er á Akureyri. Vonir standa til að ráðherranefndin endurskoði þessar fyrirætlanir. Íslandsdeildin telur mikilvægt að hafa í huga að norrænt menningarsamstarf skapar mikilvæg tengsl milli almennings og opinbers norræns samstarfs. Einstakir fulltrúar hennar í málefnanefndum ráðsins munu fylgjast náið með niðurskurðartillögum á einstökum málefnasviðum.
    Til samræmis við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að leggja áherslu á norrænt samstarf, sem ítrekuð hefur verið í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál, er það er einnig skoðun Íslandsdeildarinnar að auka beri framlög norrænu ríkjanna til Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs. Íslandsdeild Norðurlandaráðs telur að af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að leggja áherslu á norrænt samstarf hljóti að leiða að stjórnvöld og Alþingi vilji að norrænar stofnanir hafa burði til að sinna verkefnum sínum.

Alþingi, 27. febr. 2008.



Árni Páll Árnason,


form.


Kjartan Ólafsson,


varaform.


Helgi Hjörvar.



Kolbrún Halldórsdóttir.


Kristján Þór Júlíusson.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.



Siv Friðleifsdóttir.





Fylgiskjal.


Tilmæli Norðurlandaráðs árið 2007.


Tilmæli frá forsætisnefnd janúar–október 2007.
     *      Tilmæli 1/2007: Aðgerðir gegn geislamengun Eystrasaltsins og grannsvæða Norðurlanda (A 1379/miljö).
     *      Tilmæli 2/2007: Áhersla á geislamengun í starfi HELCOM og ESB (A 1379/miljö).
     *      Tilmæli 3/2007: Norrænn samræmingaraðili vegna landamærahindrana (A 1407/presidiet).
     *      Tilmæli 4/2007: Stjórnun Eystrasaltsins (A 1405/miljö).
     *      Tilmæli 5/2007: Geðheilbrigðisþjónusta á Norðurlöndum (A 1409/välfärd).
     *      Tilmæli 6/2007: Ofbeldi gegn konum og börnum í nánum samböndum (A 1415/medborger).

Tilmæli samþykkt á 59. þingi Norðurlandaráðs.
     *      Tilmæli 7/2007: Aðgerðir í loftslagsmálum á Norðurlöndum og á alþjóðlegum vettvangi (A 1410/miljø).
     *      Tilmæli 8/2007: Hagkvæmni í orkunotkun og nýting endurnýjanlegrar orku í opinberum byggingum (A 1414/miljø).
     *      Tilmæli 9/2007: Endurnýjanleg orka og efling baltnesks-norræns raforkunets (A 1419/ miljø).
     *      Tilmæli 10/2007: Norrænar aðgerðir fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn árið 2009 (A 1421/præsidiet).
     *      Tilmæli 11/2007: Stefna MR-U á sviði mennta og rannsókna 2008–2010 (B 249/kultur).
     *      Tilmæli 12/2007: Aukið norrænt samstarf á sviði rannsókna (A 1413/kultur).
     *      Tilmæli 13/2007: Norrænt samstarf vegna lítilla handverks- og menningargreina (A 1425/miljø).
     *      Tilmæli 14/2007: Ráðning heilbrigðisstarfsmanna frá þróunarlöndum (A 1412/velferd).
     *      Tilmæli 15/2007: Barátta gegn mansali (A 1427/medborger).
     *      Tilmæli 16/2007: Ný norræn matvæli – viðskipta- og landamærahindranir á sviði matvælaiðnaðar (A 1408/næring).
     *      Tilmæli 17/2007: Fjárlög Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2008 (B 248/ presidiet).