Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 271. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 733  —  271. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Axel Guðjónsson og Lárus M.K. Ólafsson frá iðnaðarráðuneytinu, Elínu Smáradóttur frá Orkustofnun, Kristján Halldórsson frá Landsneti og Unni Maríu Þorvaldsdóttur frá Landsvirkjun. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Landsneti hf., Landsvirkjun, Norðurorku hf., Orkuveitu Reykjavíkur, Samorku – samtökum orku- og veitufyrirtækja, Samtökum atvinnulífsins og Umhverfisstofnun. Einnig hafa borist tilkynningar frá Orkustofnun, Orkusölunni ehf., Sveinbirni Björnssyni og Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum.
    Í þessu frumvarpi er Landsneti hf. falið að annast útgáfu upprunaábyrgða sem framleiðendur endurnýjanlegrar raforku geta óskað eftir í þeim tilgangi að selja þær aðilum innan Evrópska efnahagssvæðisins sem sjá sér hag í að styrkja endurnýjanlega orkuframleiðslu. Um leið miðar frumvarpið að því að innleiða efni tilskipunar nr. 2001/77/EB sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2005.
    Markmið tilskipunarinnar er að stækka markaðshlutdeild endurnýjanlegrar orku á evrópskum raforkumarkaði með því að tryggja aðgang framleiðenda að raforkukerfi innri markaðarins og jafnframt að gefa þeim færi á að auðkenna uppruna orkunnar til hagsbóta fyrir notendur og umhverfið. Aðildarríkin eru hvött til þess að setja sér markmið varðandi hlutfall endurnýjanlegrar orku í heildarorkunotkun undir eftirliti framkvæmdastjórnarinnar sem jafnframt er ætlað að fylgjast með því hvernig aðildarríkin veita styrki í þágu umhverfisvæns orkuiðnaðar.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að Orkustofnun hefði við undirbúning virkjana hér á landi lagt til grundvallar sín eigin viðmið við mat á því hvort þær væru sjálfbærar og að samþykkt frumvarpsins mundi ekki hafa þær afleiðingar að slegið yrði af þeim kröfum.
    Einnig ræddi nefndin ástæður þess að Landsneti hf. yrði falin umsjón með útgáfu upprunaábyrgða en því til stuðnings var vísað til skilvirknissjónarmiða og þess að annars staðar á Norðurlöndum væri sams konar fyrirkomulag við lýði. Kom fram sá skilningur að með frumvarpinu stæði ekki til að fela Landsneti hf. vald til töku stjórnvaldsákvörðunar heldur væri útgáfa ábyrgðar komin undir staðfestingu Orkustofnunar sem jafnframt yrði falið að staðfesta þær viðmiðanir sem útgáfa ábyrgðar væri reist á. Þar af leiðandi má gera ráð fyrir að synjun stofnunarinnar um staðfestingu á útgáfu ábyrgðar sæti kæru til iðnaðarráðuneytis samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar, sbr. 26. gr. laga nr. 37/1993.
    Nefndin bendir á að þær röksemdir sem búa að baki tilskipuninni eigi ekki nema öðrum þræði við um Ísland þar sem íslenska raforkukerfið er ekki samtengt hinum evrópska innri markaði og að auki vegna þeirrar sérstöðu sem Ísland hefur í framleiðslu endurnýjanlegrar orku. Nefndin tekur þó fram að umsagnir sem henni hafa borist hafi verið jákvæðar.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar og varðar hin veigamesta rýmkun á tímamörkum sem um er getið í 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins. Nefndin tekur ekki undir ýtrustu óskir í umsögnum varðandi lengd tímamarka en telur mikilvægt að þau verði endurskoðuð í ljósi reynslunnar ef þörf krefur og með hliðsjón af hagsmunum orkufyrirtækja. Nefndin vekur einnig athygli á því að tillögur hennar til breytinga á 3. gr. eru til þess fallnar að bæta samræmi milli einstakra ákvæða frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Steingrímur J. Sigfússon skrifar undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 27. febr. 2008.



Katrín Júlíusdóttir,


form., frsm.


Guðni Ágústsson.


Ragnheiður E. Árnadóttir.



Grétar Mar Jónsson.


Ólöf Nordal.


Ellert B. Schram.



Steingrímur J. Sigfússon,


með fyrirvara.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Kjartan Ólafsson.