Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 326. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 739  —  326. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um matvæli, nr. 93/1995.

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigrúnu Ágústsdóttur frá umhverfisráðuneyti og Baldur Erlingsson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
    Umsagnir um málið bárust frá landlæknisembættinu, Samtökum verslunar og þjónustu, Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Matvælastofnun, Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis, Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis, Samtökum iðnaðarins og Neytendasamtökunum.
    Markmið frumvarpsins er að tryggja rekjanleika umbúða og annarra efna og hluta sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli á öllum stigum. Auk þess gerir frumvarpið ráð fyrir varúðarreglu um heimildir eftirlitsaðila til að takmarka eða stöðva dreifingu vöru ef nýjar upplýsingar eða endurmat á fyrirliggjandi upplýsingum sýna fram á heilsuspillandi áhrif umbúða.
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um efni og hluti sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli. Nefndin telur að í vissum tilvikum geti sá rekjanleiki verið jafnmikilvægur fyrir neytendur með tilliti til öryggis matvæla og rekjanleiki matvælanna sjálfra. Gildissvið reglnanna nær m.a. yfir umbúðir sem framleiðendur pakka matvælum í sem og umbúðir eða hluti sem ætlaðir eru fyrir matvæli og neytendur kaupa sjálfir.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að matvælaeftirlit er að aukast á vettvangi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins og að fyrir liggur innleiðing á Evrópusambandslöggjöf um rekjanleika matvæla, en markmiðið með reglunum er að vöruskiptin innan svæðisins gangi vel.
    Á fundum sínum ræddi nefndin það ákvæði frumvarpsins sem heimilar eftirlitsaðila að stöðva eða takmarka dreifingu vöru ef um heilsuspillandi áhrif er að ræða. Nefndin leggur áherslu á að ákvæðið er sértækt öryggisákvæði sem einungis er heimilt að nota í undantekningatilfellum og áréttar enn fremur að ef því er beitt beri að tilkynna það æðra stjórnvaldi, þ.e. Matvælastofnun, sbr. ákvæði laganna. Til þess að leggja enn frekari áherslu á þennan skilning leggur nefndin til þá breytingu á ákvæðinu að einungis verði heimilt að beita ákvæðinu þegar rökstudd ástæða er til að ætla að heilbrigði manna sé stefnt í hættu.
    Þá leggur nefndin auk þess til orðalagsbreytingu sem hún telur að samræmist betur íslenskri lagahefð.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     a.      Á eftir orðunum „Þegar eftirlitsaðili hefur“ í 2. mgr. komi: rökstudda.
     b.      Í stað orðanna: „þrátt fyrir að umbúðir og önnur efni eða hlutir uppfylli ákvæði laga og reglugerða“ í 2. mgr. komi: þrátt fyrir að viðeigandi ráðstafanir um öryggi vörunnar hafi verið gerðar.

    Karl V. Matthíasson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 27. febr. 2008.



Arnbjörg Sveinsdóttir,


form., frsm.


Gunnar Svavarsson,


með fyrirvara.


Atli Gíslason.



Kjartan Ólafsson.


Helgi Hjörvar.


Sigfús Karlsson.



Jón Gunnarsson.


Grétar Mar Jónsson,


með fyrirvara.