Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 487. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 777  —  487. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að efla sjálfstæði landlæknisembættisins.

Flm.: Álfheiður Ingadóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir,
Kristinn H. Gunnarsson, Þuríður Backman.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna kosti þess að landlæknisembættið heyri beint undir Alþingi eins og Ríkisendurskoðun og umboðsmaður Alþingis.

Greinargerð.


    Hinn 1. september 2007 tóku gildi lög um landlækni, nr. 41/2007. Voru þau sett samhliða nýjum lögum um heilbrigðisþjónustu en fram að þeim tíma hafði embætti landlæknis starfað samkvæmt ákvæðum í ýmsum lögum, svo sem lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, læknalögum og öðrum sérlögum um heilbrigðisstéttir. Markmið lagasetningarinnar var að kveða skýrar á um hlutverk landlæknis og ekki síst til að styrkja og skerpa á hlutverki embættisins sem eftirlits- og stjórnsýslustofnunar á sviði heilbrigðismála. Lögin takmarka þó faglegt valdsvið og sjálfstæði landlæknisembættisins á ýmsan hátt og embættið lýtur eftir sem áður yfirstjórn heilbrigðisráðherra. Það kann að orka tvímælis þar sem augljósir hagsmunaárekstrar geta átt sér stað milli landlæknis, sem ber ábyrgð á hinni faglegu hlið heilbrigðisþjónustunnar, og ráðherrans, sem fulltrúa framkvæmdarvaldsins. Lögin kveða t.d. á um að heilbrigðisráðherra hafi vald til að breyta áliti landlæknis og að ráðherra sé heimilt að veita leyfi til rekstrar á sviði heilbrigðisþjónustu þótt landlæknir synji.
    Eitt meginhlutverk landlæknis er að tryggja gæði heilbrigðisþjónustunnar og stuðla að heilbrigði landsmanna, m.a. með gerð áætlunar um gæðaþróun sem miði að því að efla gæði og öryggi og stuðla að framþróun í heilbrigðisþjónustu. Með þessu ákvæði er landlækni ætlað að vera fulltrúi og talsmaður almennings gagnvart framkvæmdarvaldinu en embættið hefur þó stöðu undirstofnunar og lýtur yfirstjórn sama framkvæmdarvalds, þ.e. heilbrigðisráðherra. Landlækni er einnig falið að hafa eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum, en fagleg fyrirmæli hans um vinnulag, aðgerðir og viðbrögð af ýmsu tagi sem heilbrigðisstarfsmönnum er skylt að fylgja, sem og fyrirmæli um skráningu heilbrigðisupplýsinga, skulu lögð fyrir ráðherra til staðfestingar.
    Sömu sögu er að segja um eftirlit landlæknis með heilbrigðisþjónustu, en embættinu er ætlað að meta hvort fyrirhuguð heilbrigðisþjónusta uppfylli faglegar kröfur laga og reglugerða. Erfitt er að sjá hvernig embættið getur gegnt hlutverki sínu með fullnægjandi hætti, þar sem ráðherra hefur ævinlega síðasta orðið. Leggist landlæknir gegn því að viðkomandi rekstraraðili fái rekstrarleyfi er ráðherra heimilt að úrskurða á annan veg og heimila viðkomandi rekstur þvert á faglegt mat landlæknis.
    Að lokum skal nefnt það hlutverk landlæknis að sinna kvörtunum vegna meintrar vanrækslu og mistaka og ótilhlýðilegrar framkomu heilbrigðisstarfsmanna en kærum er varða samskipti almennings og heilbrigðisþjónustunnar fer fjölgandi. Kvartanir almennings til landlæknisembættisins vegna heilbrigðisþjónustu á árinu 2007 voru 274, en árið 2003 voru kvartanirnar 220. Augljóst er hversu mikilvægt það er að tryggja óhlutdrægni þegar rannsaka skal meint mistök heilbrigðisstarfsmanna að beiðni sjúklinga. Miklar umræður hafa orðið í kjölfar slíkra kærumála. Á það hefur verið bent að landlæknisembættið geti ekki vegna veikrar stöðu sinnar gætt hagsmuna almennings/sjúklinga eins og nauðsyn krefur, þar sem báðir aðilar, þ.e. viðkomandi heilbrigðisstofnun og/eða heilbrigðisstarfsmaður og landlæknisembættið, eru jafnt settir gagnvart ráðherra. Hefur verið bent á ýmsar leiðir til úrbóta, m.a. þá að setja á stofn sérstakt embætti umboðsmanns sjúklinga.
    Hinn 4. mars sl. voru samþykkt á Alþingi lög um breytingu á ýmsum lögum vegna flutnings á útgáfu starfsleyfa til landlæknis. Samkvæmt lögunum flyst útgáfa starfsleyfa til handa heilbrigðisstéttum frá heilbrigðisráðuneyti til landlæknis. Helstu rökin eru að um sé að ræða stjórnsýslu sem telja verði að eigi frekar heima á verksviði stofnunar en ráðuneytis. Breytingin sé ákjósanleg út frá sjónarmiðum um réttaröryggi en samkvæmt lögunum getur umsækjandi um starfsleyfi borið ákvörðun landlæknis undir ráðuneytið. Þá sé um að ræða einföldun á málsmeðferð og styttri málsmeðferðartíma. Flutningsmenn þingsályktunartillögu þessarar telja lögin til bóta enda hníga þau til sömu áttar og þingsályktunartillaga þessi, þ.e. að styrkja stöðu landlæknisembættisins sem stjórnsýslustofnunar og skýra mörk milli embættisins og ráðuneytisins.
    Flutningsmenn telja veigamikil rök standa til þess að efla faglegt sjálfstæði landlæknis enn frekar. Embættið á með réttu að hafa aðra og styrkari stöðu en það nú hefur gagnvart heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsmönnum sem það á að hafa faglegt og stjórnsýslulegt eftirlit með. Með því móti má koma í veg fyrir hagsmunaárekstra, auka réttaröryggi og draga úr vantrú á eftirlit embættisins og rannsóknir þess á kvörtunum sjúklinga. Því er þingsályktunartillaga þessi flutt en sama fyrirkomulag hefur gefist vel hvað varðar sjálfstæði Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis.