Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 493. máls.

Þskj. 787  —  493. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um fullgildingu Palermó-samnings gegn
fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi.

(Lögð fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi sem samþykktur var af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York 15. nóvember 2000.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi sem samþykktur var af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York 15. nóvember 2000. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.
    Með ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 53/111 frá 9. desember 1998 var sett á fót sérstök milliríkjanefnd sem var falið að semja alþjóðasamning gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi og undirbúa jafnframt alþjóðlega gerninga sem vörðuðu baráttu gegn mansali kvenna og barna, baráttu gegn ólöglegri framleiðslu á og verslun með skotvopn, íhluti í þau og skotfæri og baráttu gegn ólöglegum innflutningi á fólki land-, sjó- og loftleiðis. Þessir þrír gerningar urðu síðar að bókunum við samninginn. Hvatinn að ályktun allsherjarþingsins var viðurkenning alþjóðasamfélagsins á því að fjölþjóðleg skipulögð glæpastarfsemi væri orðin umfangsmikið vandamál. Glæpasamtök sem hana stunda höfðu tekið upp nýjar samstarfsaðferðir og nýttu sér hnattvæðingu hagkerfa og framþróun samgangna og samskiptatækni. Milliríkjanefndin kom saman tíu sinnum í Vínarborg á tímabilinu 19. janúar 1999 til 28. júlí 2000. Lokið var við bókanir við samninginn á 11. fundi nefndarinnar 2.–28. október 2000. Fulltrúar meira en 100 ríkja voru viðstaddir flesta fundi nefndarinnar og sýnir það hversu útbreitt vandamál fjölþjóðlegir skipulagðir glæpir eru og almennan vilja ríkja til að taka á því.
    Samningurinn var lagður fram til undirritunar á ráðstefnu í Palermó á Ítalíu 12.–15. desember 2000 og lá frammi til undirritunar í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York til 12. desember 2002. Hann var undirritaður fyrir Íslands hönd 13. desember 2000 en öðlaðist gildi 29. september 2003, að liðnum níutíu dögum frá því að fertugasta ríkið hafði fullgilt samninginn. Hinn 26. febrúar sl. höfðu 138 ríki fullgilt samninginn.
    Megintilgangur samningsins er að stuðla að samvinnu á milli ríkja með það markmið í huga að berjast gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi með skilvirkari hætti en áður hefur tíðkast, sbr. 1. gr. samningsins. Til þess að því markmiði verði náð þarf annars vegar að draga úr mismun á réttarkerfum sem hefur torveldað samstarf ríkja og hins vegar að gera lágmarkskröfur til landsréttar aðildarríkjanna til þess að efla alþjóðlegt samstarf. Í þessu skyni miðar samningurinn meðal annars að því að samhæfa stefnumörkun aðildarríkjanna, lagalegar heimildir þeirra og aðferðir fullnustuvaldhafa gagnvart þeim sem skipuleggja fjölþjóðlega glæpi þannig að sameiginlegar aðgerðir ríkja til að koma böndum yfir þá verði árangursríkari.
    Samningurinn miðar einnig að bættri samvinnu aðildarríkja um málefni á borð við framsal, gagnkvæma dómsmálaaðstoð, meðferð sakamála og sameiginlega rannsókn þeirra. Unnið skal að því að hlífa löglegri markaðsstarfsemi við áhrifum og aðkomu skipulagðra glæpasamtaka og kveðið er á um vernd vitna og fórnarlamba. Einnig skulu aðildarríki veita þróunarlöndum tækniaðstoð og auðvelda þeim að gera nauðsynlegar ráðstafanir og ná fram getu til þess að takast á við skipulagða glæpastarfsemi.
    Í 2. gr. samningsins eru tíu grundvallarhugtök skilgreind. Þar er hugtakið „skipulögð glæpasamtök“ skýrt sem samhæfð samtök þriggja eða fleiri manna, sem fyrirfinnast á ákveðnu tímabili og starfa í þeim tilgangi að fremja einn eða fleiri alvarlega glæpi eða brot sem gerð eru refsiverð samkvæmt samningnum, í því skyni að hagnast fjárhagslega eða efnislega með öðrum hætti á beinan eða óbeinan hátt. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem hugtak þetta er skilgreint í alþjóðasamningi. Þá viðleitni má rekja til þess að skortur á slíkri skilgreiningu gerði það nokkuð erfitt fyrir alþjóðasamfélagið að gera sér nægjanlega grein fyrir umfangi skipulagðrar glæpastarfsemi þar sem mikill munur getur verið á réttarfars- og refsilöggjöf á milli landa sem og kerfisbundnum afbrotaskráningaraðferðum lögreglu og ákæruvalds. „Samhæfð samtök“ eru skilgreind á neikvæðan hátt sem samtök sem ekki eru mynduð með tilviljunarkenndum hætti til að fremja brot þegar í stað. Hlutverkaskipting meðlima þarf ekki að vera formlega ákveðin, þátttaka í þeim varanleg eða uppbygging fastmótuð. Hugtakið „alvarlegur glæpur“ er háttsemi sem er brot og varðar frelsissviptingu í allt að fjögur ár eða þyngri refsingu.
    Með fullgildingu samningsins skuldbinda ríki sig til þess að gera refsiverða í landsrétti sínum þátttöku í skipulögðum glæpasamtökum (5. gr.), þvætti ávinnings af glæp (6. gr.), spillingu (8. gr.) og hindrun á framgangi réttvísinnar (23. gr.).
    Samningurinn gildir um varnir gegn, rannsókn á og saksókn vegna framangreindra brota, svo og alvarlegra glæpa, séu brotin liður í fjölþjóðlegri glæpastarfsemi þar sem skipulögð glæpasamtök koma við sögu, sbr. 3. gr. Fjögur tilvik geta leitt til þess að brot teljist liður í fjölþjóðlegri glæpastarfsemi, sbr. 2. mgr. 3. gr. Það brotaheiti á við ef brotið er framið í fleiri ríkjum en einu, það er framið í einu ríki en er að verulegu leyti undirbúið og skipulagt og því stjórnað eða því stýrt frá öðru ríki, það er framið í einu ríki en tengist skipulögðum samtökum sem stunda glæpastarfsemi í fleiri ríkjum og ef það er framið í einu ríki en hefur veruleg áhrif í öðru.
    Til þess að þátttaka í starfsemi skipulagðra glæpasamtaka teljist refsiverð skv. 5. gr. verður hún að byggjast á ásetningi. Þátttaka telst vera skipulagning brots, stjórnun þess, aðstoð við það og hvatning til þess. Í 6. gr. er sú skylda lögð á aðildarríki að gera refsivert að þvætta ávinning af glæp. Í 7. gr. eru tilgreindar lagalegar ráðstafanir sem aðildarríki skulu gera til þess að sporna við peningaþvætti. Gríðarlegur ágóði af fjölþjóðlegri glæpastarfsemi er þvættaður í lögmætum rekstri fyrirtækja eða komið fyrir á „öruggum“ reikningum. Sé þetta torveldað má ætla að rekstur glæpasamtaka verði erfiðari en ella. Orðið „peningaþvætti“ tekur til alls ávinnings af glæpum þó að hann kunni að vera annar en lausafé, sbr. orðalag 6. gr. Til þess að koma upp um peningaþvætti skal sett á laggirnar heildstætt reglu- og eftirlitskerfi. Stefnt skal að samvinnu yfirvalda á lands- og alþjóðavísu.
    Í sumum ríkjum hefur skipulögð glæpastarfsemi þrifist í skjóli landlægrar spillingar. Refsiverð spilling skv. 8. gr. eru mútur eða boð um slíkar greiðslur til opinberra starfsmanna í því skyni að fá þá til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert í tengslum við skyldustörf sín. Sama á við um opinbera starfsmenn sem sækjast eftir eða þiggja mútur. Í 9. gr. er lögð sú skylda á aðildarríki að þau geri ráðstafanir til að stuðla að heiðarleika á meðal opinberra starfsmanna og koma í veg fyrir, koma upp um og refsa fyrir spillingu.
    Í 23. gr. segir að aðildarríki skuli lýsa refsiverða þá háttsemi að hindra framgang réttvísinnar. Í hugtakinu felst beiting ofbeldis eða ógnana, að bjóða eða veita ólögmætan ávinning til þess að fá fram rangan vitnisburð fyrir rétti eða koma í veg fyrir að vitni beri fyrir rétti eða að sönnunargögn séu lögð fram. Sama gildir um ofbeldi eða ógnanir sem beinast að opinberum starfsmanni sem vinnur við framkvæmd laga eða embættismanni réttarkerfisins og er ætlað að hindra hann við skyldustörf í tengslum við brot sem samningurinn tekur til.
    Það er nýmæli í þjóðréttarsamningi að aðildarríki séu skylduð til að láta lögaðila sæta ábyrgð fyrir hlutdeild í alvarlegum glæpum sem lýstir skulu refsiverðir samkvæmt samningnum og þar sem skipulögð glæpasamtök koma við sögu eins og gert er í 10. gr. Í 11. gr. kemur fram skylda ríkja til þess að beita hæfilegum og virkum viðurlögum og tryggja langan fyrningarfrest til málshöfðunar vegna þeirra brota sem samningurinn tekur til.
    Með 12. gr. samningsins er aðildarríkjum gert skylt að samþykkja ráðstafanir, að því marki sem frekast er unnt, til að gera upptækan ávinning af refsiverðri háttsemi, sem leiddur er af þeim brotum sem samningurinn tekur til, eða eign sem svarar til slíks ávinnings og eignir, búnað eða önnur gögn sem notuð eru eða ætluð eru til notkunar við að fremja brot sem samningurinn tekur til, sbr. 1. mgr. 12. gr. Hafi ávinningi af refsiverðu broti verið breytt eða skipt í aðra eign, að hluta eða að öllu leyti, skal vera unnt að gera hana upptæka í stað ávinningsins, sbr. 3. mgr. 12. gr. Hafi ávinningi af glæp verið blandað saman við eignir, sem hefur verið aflað með lögmætum hætti, skal vera unnt að gera þær eignir upptækar allt að matsverði þess ávinnings sem blandað var við þær, sbr. 4. mgr. 12. gr. Þá skal vera unnt að gera upptækar tekjur og annan hagnað af ávinningi af glæp, af eignum sem ávinningi hefur verið breytt eða skipt í og af eignum sem ávinningi hefur verið blandað saman við, sbr. 5. mgr. 12. gr. samningsins. Aðildarríki samningsins skuldbinda sig til að veita dómstólum og stjórnvöldum heimild til þess að úrskurða að banka-, fjármála- eða viðskiptagögn skuli látin í té eða hald á þau lagt, sbr. 6. mgr. 12. gr. Ákvæði 13. gr. gera ráð fyrir samstarfi aðildarríkja í upptökumálum og 14. gr. kveður á um ráðstöfun ávinnings af glæp eða eignar sem gerður eða gerð er upptæk.
    Samkvæmt 4. gr. skal við framkvæmd samningsins gæta meginreglunnar um jafnræði fullvalda ríkja. Ekkert í samningnum veitir aðildarríki rétt til þess að beita lögsögu sinni á yfirráðasvæði annars aðildarríkis. Um refsilögsögu er að öðru leyti ítarlega fjallað í 15. gr. Þar segir í 1. mgr. að aðildarríki skuli gera ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að afla sér lögsögu vegna brota sem samningurinn lýsir refsiverð þegar brotið er framið á yfirráðasvæði þess, um borð í skipi sem siglir undir fána þess eða í loftfari sem skráð er samkvæmt lögum þess. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. getur aðildarríki einnig, með fyrirvara um ákvæði 4. gr., fellt brot undir lögsögu sína beinist það gegn ríkisborgara þess eða sé það framið af ríkisborgara þess eða ríkisfangslausum manni sem hefur fasta búsetu á yfirráðasvæði þess. Sama á við um ákveðnar tegundir brota sem gerð skulu refsiverð skv. 5. og 6. gr., þegar brotið er framið utan yfirráðasvæðis ríkis í því skyni að fremja brot innan yfirráðasvæðis þess.
    Í 3. mgr. 15. gr. er kveðið á um skyldu aðildarríkis til að gera ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að afla sér lögsögu þegar það framselur ekki meintan brotamann sem staddur er á yfirráðasvæði þess af þeirri ástæðu að hann er ríkisborgari þess. Í slíkum tilfellum er aðildarríki skuldbundið til þess að saksækja einstaklinginn, sbr. 10. mgr. 16. gr. Í 4. mgr. 15. gr. er að finna heimild aðildarríkis til þess að tryggja sér lögsögu vegna meintra brotamanna sem það framselur ekki vegna annarra ástæðna. Ákvæði 5. mgr. 15. gr. kveður á um samstarf aðildarríkja sem hafa sama brot til rannsóknar eða meðferðar. Í 6. mgr. 15. gr. segir loks að samningurinn útiloki ekki beitingu sérhverrar þeirrar refsiréttarlögsögu sem aðildarríki ber samkvæmt landslögum sínum, sbr. þó reglur þjóðaréttar.
    Ákvæði samningsins um framsal og gagnkvæma dómsmálaaðstoð eru svipuð ákvæðum annarra þjóðréttarsamninga um það efni. Vegna þess hversu mörg ríki hafa fullgilt samninginn mun milliríkjasamstarf vegna framsals og dómsmálaaðstoðar verða víðtækara en fyrir tíð samningsins. Ákvæði 16. gr. um framsal gilda jafnt um þau fjögur brot sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningnum og um aðra alvarlega glæpi þar sem skipulögð glæpasamtök koma við sögu, sbr. skilgreiningu 3. gr. Samkvæmt 7. mgr. 16. gr. skal framsal háð þeim skilyrðum sem landslög aðildarríkis sem framsalsbeiðni er beint til eða viðeigandi framsalssamningar kveða á um. Slík skilyrði geta til dæmis verið skilyrði um lágmarksrefsingu. Í 14. mgr. kemur fram að aðildarríki skuli ekki skylt að framfylgja framsalsskyldu hafi það ástæðu til að ætla að beiðni sé lögð fram í því skyni að saksækja mann eða refsa honum vegna kynferðis hans, kynþáttar, trúar, þjóðernis, uppruna eða stjórnmálaskoðana eða ef framsal mundi að öðru leyti veikja stöðu hans vegna framangreindra aðstæðna. Samkvæmt 17. mgr. 16. gr. skulu aðildarríki leitast við að koma á fyrirkomulagi til framkvæmdar á framsali eða til að auka virkni þess.
    Í 17. gr. segir að aðildarríki geti metið þann kost að koma á fyrirkomulagi um flutning manna sem dæmdir hafa verið til frelsissviptingar vegna brota sem samningurinn tekur til inn á yfirráðasvæði sín til afplánunar refsingar.
    Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. er dómsmálasamvinnan mjög víðtæk því að aðstoð skal veitt hafi aðildarríki sem leggur fram beiðni rökstuddan grun um að brot sé fjölþjóðlegs eðlis og að skipulögð glæpasamtök tengist brotinu. Gagnkvæmri aðstoð verður því beitt við rannsókn á því hvort brot falli undir samninginn. Í 3. mgr. 18. gr. kemur fram að óska megi gagnkvæmrar dómsmálaaðstoðar í þeim tilgangi að afla sönnunargagna eða taka skýrslur af mönnum, birta skjöl, framkvæma leit, leggja hald á eða kyrrsetja muni, til þess að rannsaka muni og vettvang, afla upplýsinga, sönnunargagna og sérfræðilegs mats, skjala og gagna, bera kennsl á eða rekja tilurð ávinnings af glæp eða aðra hluti sem nota má til sönnunarfærslu og til þess að greiða fyrir því að menn komi af frjálsum vilja fyrir rétt í því aðildarríki sem leggur fram beiðni. Að lokum kemur fram að óska megi hvers kyns aðstoðar sem brýtur ekki í bága við landslög þess aðildarríkis sem beiðni er beint til. Yfirvöld aðildarríkis geta ákveðið að senda öðru ríki upplýsingar um brotamál án þess að þeirra hafi verið óskað, telji þau þær upplýsingar geta gagnast við meðferð máls, sbr. 4. mgr. 18. gr. Í 8. mgr. 18. gr. er tekið fram að ekki megi hafna því, á grundvelli bankaleyndar, að gagnkvæm dómsmálaaðstoð sé veitt.
    Í 6. mgr. 18. gr. kemur fram að ákvæði 18. gr. skuli ekki hafa áhrif á skuldbindingar samkvæmt öðrum alþjóðasamningum sem gilda eða munu gilda um gagnkvæma aðstoð. Samkvæmt 7. mgr. gilda 9.–29. mgr. 18. gr. um beiðnir um aðstoð séu hlutaðeigandi aðildarríki ekki bundin af alþjóðasamningi um gagnkvæma dómsmálaaðstoð. Gildi slíkur samningur hafa ákvæði hans forgang nema ríkin verði ásátt um að beita ákvæðum 18. gr. í þeirra stað. Ákvæðin mæla m.a. fyrir um heimildir ríkja til að synja beiðni um aðstoð, heimildir til og skilyrði þess að grunaður eða dæmdur einstaklingur verði fluttur á milli ríkja vegna málsmeðferðar, tilnefningu umsjónarstjórnvalds, form og innihald beiðna um gagnkvæma aðstoð, viðbrögð við beiðni, greiðslu kostnaðar og meðferð veittra upplýsinga og gagna.
    Til viðbótar við hefðbundin ákvæði þjóðréttarsamninga um dómsmálaaðstoð er í þessum samningi gert ráð fyrir að réttarhöld megi fara fram í formi myndfundar ef sérstaklega stendur á og vitni eða sérfræðingur sem gefa þarf skýrslu getur ekki verið í því landi þar sem réttarhöldin fara fram. Með þessu úrræði er dregið úr kostnaði og einnig gert kleift að yfirheyra fleiri vitni sem vegna aldurs, heilsu eða af öðrum ástæðum geta ekki ferðast. Samningurinn gerir ráð fyrir margvíslegri annarri samvinnu aðildarríkjanna, svo sem sameiginlegum rannsóknarnefndum til þess að fjalla um mál sem eru til meðferðar í einu eða fleiri ríkjum (19. gr.). Einnig má taka upp samstarf um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir sem landslög hvers ríkis heimila, svo sem afhendingu undir eftirliti og rafrænt eftirlit (20. gr.). Ákvæði 21. gr. heimilar ríkjum að flytja málsmeðferð sín á milli vegna brota sem samningurinn tekur til, þjóni það réttarvörsluhagsmunum betur. Samkvæmt 22. gr. geta aðildarríki tekið tillit til sakfellinga í öðrum ríkjum við meðferð sakamáls sem samningurinn tekur til. Enn fremur gerir 27. gr. ráð fyrir því að aðildarríki vinni náið saman að því að auka skilvirkni aðgerða til að framfylgja lögum og stöðva brot sem samningurinn tekur til. Koma skal á samskiptaleiðum, samstarfi um rannsókn brota og bregðast við nýrri tækni sem glæpasamtök færa sér í nyt.
    Samkvæmt 24. gr. skal veita vitnum í sakamálum vernd gegn hefndum eða ógnunum. Verndin skal ná til einstaklinga sem nákomnir eru vitnum, sé þörf á. Ákvæði 25. gr. veitir brotaþolum sambærilega vernd, en þeim skal að auki tryggður aðgangur að bótum. Aðildarríki skulu gera ráðstafanir sem hvetja menn sem eru eða hafa verið í skipulögðum glæpasamtökum til þess að veita um þau upplýsingar og aðstoða við rannsókn máls skv. 26. gr. Aðildarríki geta mildað refsingu eða fellt niður saksókn gegn einstaklingi sem veitir mikilvæga aðstoð. Skal honum veitt vernd sambærileg vitnum og brotaþolum.
    Í 28. gr. er mælst til þess að aðildarríkin safni og miðli upplýsingum um eðli skipulagðrar glæpastarfsemi á yfirráðasvæði sínu. Samkvæmt 29. gr. skulu aðildarríki þróa áætlanir um þjálfun einstaklinga sem starfa við að framfylgja lögum eða koma í veg fyrir, koma upp um eða berjast gegn brotum sem samningurinn tekur til. Stuðla skal að þjálfun og tækniaðstoð sem auðveldar framsal og gagnkvæma dómsmálaaðstoð. Ákvæði 30. gr. leggur þá skyldu á aðildarríki að þau stuðli að sem bestri framkvæmd samningsins. Í því skyni skal auka samstarf og aðstoð við þróunarlönd. Samkvæmt 31. gr. skulu aðildarríki leitast við að koma í veg fyrir fjölþjóðlega skipulagða glæpastarfsemi. Meðal annars skal komið í veg fyrir að ávinningur af slíkum glæpum verði notaður í löglegri markaðsstarfsemi og sakfelldir einstaklingar skulu aðlagaðir samfélaginu að nýju. Almenningur skal einnig vakinn til vitundar um tilvist vandans.
    Í 32.–41. gr. eru ákvæði um ráðstefnu aðildarríkja sem ætlað er að auka getu aðildarríkja til þess að berjast gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi og stuðla að og endurskoða framkvæmd samningsins. Einnig eru þar ákvæði um rétta framkvæmd samningsins og eftirfylgni við hann, lausn deilumála, undirritun, fullgildingu, tengsl við bókanir, gildistöku, breytingar, uppsögn, vörsluaðila og tungumál.
    Samningurinn er uppbyggður sem móðursáttmáli, en einstökum efnisatriðum er aukið við hann með sjálfstæðum bókunum. Í samningnum eru settar fram grundvallarráðstafanir sem nauðsynlegar eru í forvörnum gegn og baráttu við alþjóðlega skipulagða glæpastarfsemi en í bókununum eru útfærðar sérstakar ráðstafanir í baráttunni gegn sérstökum tegundum glæpa. Ætíð skal lesa og túlka bókanirnar í samræmi við samninginn. Þessu fyrirkomulagi fylgir sá sveigjanleiki að hverju ríki er gefinn kostur á að fullgilda allar bókanir, sumar eða enga þeirra, í samræmi við sína hagsmuni. Ekki er útilokað að gerðar verði fleiri bókanir við samninginn en þær þrjár sem þegar hafa verið gerðar:
          Bókun um að koma í veg og refsa fyrir mansal, einkum kvenna og barna. Bókunin var undirrituð af Íslands hálfu 13. desember 2000, sama dag og samningurinn sjálfur var undirritaður.
          Bókun gegn ólöglegum innflutningi fólks land-, sjó- og loftleiðis var einnig undirrituð fyrir Íslands hönd 13. desember 2000.
          Bókun gegn ólöglegri framleiðslu á og verslun með skotvopn, hluta þeirra og íhluti og skotfæri. Bókunin var undirrituð fyrir Íslands hönd 15. nóvember 2001.
    Unnið er að undirbúningi fullgildingar tveggja fyrstnefndu bókananna og er m.a. til skoðunar hvort fullgilding þeirra kalli á lagabreytingar hér á landi.
    Gera þarf breytingar á nokkrum ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum, til þess að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem samningur Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi leggur aðildarríkjum á herðar. Dóms- og kirkjumálaráðherra hefur þegar lagt fram frumvarp til slíkra breytinga.
Fylgiskjal.


SAMNINGUR SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA
GEGN FJÖLÞJÓÐLEGRI SKIPULAGÐRI
GLÆPASTARFSEMI


1. gr.
Tilgangur.

    Tilgangurinn með samningi þessum er að stuðla að samvinnu um að koma í veg fyrir og berjast gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi með skilvirkari hætti en áður.

2. gr.
Notkun hugtaka.

    Í samningi þessum hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir:
a)    „skipulögð glæpasamtök“ merkir samhæfð samtök þriggja eða fleiri manna, sem fyrirfinnast á ákveðnu tímabili og starfa í þeim tilgangi að fremja einn eða fleiri alvarlega glæpi eða brot, sem gerð eru refsiverð samkvæmt samningi þessum, í því skyni að hagnast fjárhagslega eða efnislega með öðrum hætti á beinan eða óbeinan hátt,
b)    „alvarlegur glæpur“ merkir háttsemi sem er brot er varðar frelsissviptingu í allt að fjögur ár eða þyngri refsing liggur við,

c)    „samhæfð samtök“ merkir samtök sem eru ekki mynduð með tilviljunarkenndum hætti til að fremja brot þegar í stað og þar sem hlutverkaskipting meðlima slíkra samtaka þarf ekki að vera formlega ákveðin eða þátttaka í þeim varanleg eða uppbygging þeirra fastmótuð,
d)    „eign“ merkir verðmæti af öllu tagi, efnisleg eða óefnisleg, lausafé eða fasteignir, áþreifanleg eða óáþreifanleg, og skjöl eða gögn sem að lögum sýna eignarrétt á slíkum eignum eða réttindi til þeirra,
e)    „ávinningur af glæp“ merkir hverja þá eign sem beint eða óbeint er leidd af eða fengin með því að fremja brot,
f)    „frysting“ eða „haldlagning“ merkir tímabundið bann við yfirfærslu, umbreytingu, ráðstöfun eða flutningi á eign eða töku eignar í tímabundna vörslu eða umsjá samkvæmt ákvörðun dómstóls eða annars lögbærs yfirvalds,

g)    „upptaka“, sem tekur, þar sem við á, einnig til þess að eign sé fyrirgert, merkir varanlega sviptingu eignar samkvæmt ákvörðun dómstóls eða annars lögbærs yfirvalds,
h)    „frumbrot“ merkir hvert það brot sem leitt hefur til þess að myndast hefur ávinningur er getur orðið frumlag brots sem er skilgreint í 6. gr. samnings þessa,
i)    „afhending undir eftirliti“ merkir þá starfsaðferð að hindra ekki að ólöglegar eða grunsamlegar sendingar fari frá, um eða inn á yfirráðasvæði eins eða fleiri ríkja með vitund og undir eftirliti lögbærra yfirvalda þeirra í því skyni að rannsaka brot og bera kennsl á þá menn sem eru þátttakendur í því að fremja það,

j)    „svæðisstofnun um efnahagssamvinnu“ merkir stofnun sem fullvalda ríki á tilteknu svæði standa að og fengið hefur framselt vald frá aðildarríkjum sínum, að því er varðar þau málefni sem samningur þessi gildir um, og sem fengið hefur fullt umboð samkvæmt eigin verklagsreglum til að undirrita, fullgilda, staðfesta, samþykkja eða gerast aðili að samningi þessum, tilvísanir til „aðildarríkja“ í samningi þessum skulu gilda um slíkar stofnanir innan þeirra marka sem valdsviði þeirra eru sett.

3. gr.
Gildissvið.

1.     Sé ekki annað tekið fram í samningi þessum skal hann gilda um varnir gegn, rannsókn á og saksókn vegna:
a)    þeirra brota sem gerð eru refsiverð skv. 5., 6., 8. og 23. gr. samnings þessa, og
b)    alvarlegra glæpa sem eru skilgreindir í 2. gr. samnings þessa,
sé brotið liður í fjölþjóðlegri glæpastarfsemi þar sem skipulögð glæpasamtök koma við sögu.
2.     Að því er varðar 1. mgr. þessarar greinar telst brot vera liður í fjölþjóðlegri glæpastarfsemi sé það:
a)    framið í fleiri ríkjum en einu,
b)    framið í einu ríki en hafi að verulegu leyti verið undirbúið og skipulagt og því stjórnað eða stýrt í öðru ríki,
c)    framið í einu ríki en tengist skipulögðum samtökum sem stunda glæpastarfsemi í fleiri ríkjum en einu, eða
d)    framið í einu ríki en hefur veruleg áhrif í öðru.


4. gr.
Fullveldisvernd.

1.     Aðildarríki skulu framkvæma skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum þannig að samræmist meginreglunum um jafnræði fullvalda ríkja og friðhelgi yfirráðasvæða þeirra og meginreglunni um bann við afskiptum af innanríkismálum annarra ríkja.
2.     Ekkert í samningi þessum veitir aðildarríki rétt til að beita lögsögu á yfirráðasvæði annars aðildarríkis og gegna þar hlutverkum sem landslög þess síðarnefnda fela yfirvöldum þess einum.


5. gr.
Þátttaka í starfsemi skipulagðra
glæpasamtaka gerð refsiverð.

1.     Hvert aðildarríki skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, í því skyni að gera refsivert, þegar um ásetning er að ræða:
a)    annað eftirfarandi eða hvort tveggja sem hegningarlagabrot frábrugðin þeim er fela í sér tilraun til þess glæpsamlega athæfis er um ræðir eða fullkomnun þess:
    i)    að sammælast, ásamt einum eða fleiri mönnum, um að fremja alvarlegan glæp þar sem tilgangurinn tengist því, beint eða óbeint, að hagnast fjárhagslega eða efnislega með öðrum hætti og, kveði landslög á um það, þar sem um er að ræða verknað eins þátttakanda samkomulaginu til framkvæmdar eða að skipulögð glæpasamtök komi við sögu,
    ii)    háttsemi manns sem, vitandi annaðhvort um markmið og glæpastarfsemi skipulagðra glæpasamtaka almennt eða þann ásetning þeirra að fremja þá glæpi er um ræðir, tekur virkan þátt í:
         a.    glæpastarfsemi hinna skipulögðu glæpasamtaka,
         b.    annarri starfsemi hinna skipulögðu glæpasamtaka vitandi að þátttaka hans muni stuðla að því að hinu glæpsamlega markmiði, sem er lýst hér að framan, verði náð,

b)    að skipuleggja það, stjórna því, aðstoða við það, hvetja til þess, stuðla að því eða leggja á ráðin um það að alvarlegur glæpur sé framinn með þátttöku skipulagðra glæpasamtaka.
2.     Ályktanir um hvort vitneskja, ásetningur, markmið, tilgangur eða samkomulag, sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar, sé fyrir hendi má draga af hlutlægum og raunverulegum málavöxtum.
3.     Aðildarríki, sem í landslögum sínum gera ráð fyrir þátttöku skipulagðra glæpasamtaka er um ræðir þau brot sem gerð eru refsiverð skv. i-lið a-liðar 1. mgr. þessarar greinar, skulu sjá til þess að landslög þeirra taki til allra alvarlegra glæpa þar sem skipulögð glæpasamtök koma við sögu. Aðildarríki þessi, svo og þau aðildarríki sem í landslögum sínum gera ráð fyrir að verknaður sé framinn til framkvæmdar því samkomulagi sem fjallar um þau brot sem gerð eru refsiverð skv. i-lið a-liðar 1. mgr. þessarar greinar, skulu tilkynna aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um það þegar þau undirrita samning þennan eða afhenda skjöl sín um fullgildingu hans, staðfestingu eða samþykki eða aðild að honum til vörslu.

6. gr.
Þvætti ávinnings af glæp
gert refsivert.

1.     Hvert aðildarríki skal, í samræmi við meginreglur landslaga sinna, setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að unnt sé að gera eftirtalin brot refsiverð þegar um ásetning er að ræða:
a)    i)    að umbreyta eign eða yfirfæra, vitandi að um ávinning af glæp er að ræða, í því skyni að leyna eða dylja ólöglegan uppruna hennar eða að aðstoða mann, sem á þátt í því að fremja frumbrotið, við að komast hjá lögfylgjum gerðar sinnar,


    ii)    að leyna eða dylja raunverulegt eðli, uppruna, staðsetningu, ráðstöfun eða flutning eignar eða eignarrétt á henni eða réttindi henni tengd vitandi að slík eign er ávinningur af glæp,

b)    með fyrirvara um grundvallarhugtök réttarkerfis þess:
    i)    að afla sér eignar, hafa hana í vörslu eða nýta hana vitandi, þegar við henni var tekið, að um ávinning af glæp var að ræða,
    ii)    að eiga aðild að einhverjum þeim brotum sem gerð eru refsiverð samkvæmt þessari grein, tengjast þeim, sammælast við aðra um þau, gera tilraun til þeirra og aðstoða við, hvetja til, stuðla að eða leggja á ráðin um þau.
2.     Að því er varðar að framkvæma eða beita ákvæðum 1. mgr. þessarar greinar:
a)    skal hvert aðildarríki gera sér far um að beita ákvæðum 1. mgr. þessarar greinar gagnvart frumbrotum í víðasta skilningi,
b)    skal hvert aðildarríki líta á alla alvarlega glæpi, samanber skilgreiningu í 2. gr. samnings þessa, og þau brot sem gerð eru refsiverð skv. 5., 8. og 23. gr. hans sem frumbrot. Hjá þeim aðildarríkjum sem setja fram skrá í löggjöf sinni um tiltekin frumbrot skal slík skrá að minnsta kosti sýna allt það svið brota sem tengjast skipulögðum glæpasamtökum,

c)    skulu brot, sem eru framin jafnt innan lögsögu viðkomandi aðildarríkis sem utan, talin til frumbrota að því er varðar ákvæði b-liðar. Brot, framin utan lögsögu aðildarríkis, skulu þó því aðeins talin frumbrot að sú háttsemi sem um ræðir sé refsiverð samkvæmt landslögum þess ríkis þar sem hún er höfð uppi og myndi teljast refsiverð samkvæmt landslögum þess aðildarríkis sem beitir eða hrindir ákvæðum þessarar greinar í framkvæmd, hefði hún verið höfð þar uppi,

d)    skal hvert aðildarríki láta aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í té texta laga sinna ákvæðum þessarar greinar til framkvæmdar og texta allra síðari breytinga á þeim lögum eða lýsingu á þeim,
e)    er heimilt að kveða svo á, sé krafa gerð þar um samkvæmt meginreglum landslaga aðildarríkis, að þau brot sem frá er greint í 1. mgr. þessarar greinar séu þeim mönnum er frömdu frumbrotið óviðkomandi,
f)    er heimilt að draga ályktanir um þekkingu, ásetning eða tilgang, sem er nauðsynleg forsenda brots sem frá er greint í 1. mgr. þessarar greinar, af hlutlægum og raunverulegum málavöxtum.

7. gr.
Ráðstafanir gegn peningaþvætti.

1.     Hvert aðildarríki skal:
a)    koma á, eins og það hefur heimildir til, heildstæðu reglu- og eftirlitskerfi innanlands er þjóni bönkum og öðrum fjármálastofnunum og, eftir því sem við á, öðrum stofnunum, sem eru sérstaklega viðkvæmar fyrir peningaþvætti, í því skyni að koma í veg fyrir og koma upp um peningaþvætti í hvaða mynd sem er og skal með slíku kerfi leggja áherslu á kröfur því viðvíkjandi að bera kennsl á viðskiptavini, kröfur á sviði bókhalds og kröfur um að gert sé viðvart um grunsamleg viðskipti,
b)    sjá til þess, með fyrirvara um ákvæði 18. og 27. gr. samnings þessa, að yfirvöld á sviði stjórnsýslu og eftirlits og yfirvöld sem framfylgja lögum og önnur yfirvöld, sem heyja baráttu gegn peningaþvætti (þar með talin dómsmálayfirvöld þar sem það á við samkvæmt landslögum), geti unnið saman og skipst á upplýsingum á lands- og alþjóðavísu með þeim skilyrðum sem landslög kveða á um og skulu, í því skyni, íhuga að koma á fót upplýsingastofnun á sviði fjármála er gegni því hlutverki á landsvísu að safna, vinna úr og miðla upplýsingum um hugsanlegt peningaþvætti.

2.     Aðildarríki skulu íhuga að gera raunhæfar ráðstafanir til að koma upp um og fylgjast með flutningi á peningum og viðeigandi viðskiptabréfum yfir landamæri sín, að því tilskildu að þess sé gætt að upplýsingar séu notaðar með réttum hætti og án þess að flutningur á lögmætu fjármagni sé á nokkurn hátt hindraður. Sem dæmi um slíkar ráðstafanir má nefna kröfu um að einstakir menn og fyrirtæki tilkynni um flutning á umtalsverðum peningaupphæðum og viðeigandi viðskiptabréfum yfir landamæri.
3.     Aðildarríki eru hvött til þess, þegar komið er á heildstæðu reglu- og eftirlitskerfi innanlands samkvæmt skilmálum þessarar greinar og með fyrirvara um ákvæði allra annarra greina samnings þessa, að nýta sér, sem viðmiðun, viðeigandi frumkvæði svæðisstofnana, millisvæðastofnana og fjölþjóðlegra stofnana í baráttunni gegn peningaþvætti.
4.     Aðildarríki skulu leitast við að koma á og efla alþjóðlega og svæðisbundna samvinnu, samvinnu innan svæða og tvíhliða samvinnu milli dómsmálayfirvalda, yfirvalda sem framfylgja lögum og yfirvalda á sviði fjármálaeftirlits í því skyni að berjast gegn peningaþvætti.

8. gr.
Spilling gerð refsiverð.

1.     Hvert aðildarríki skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að unnt sé að gera eftirtalin brot refsiverð þegar um ásetning er að ræða:
a)    að lofa, bjóða eða veita, með beinum eða óbeinum hætti, opinberum starfsmanni óréttmætan ávinning, honum eða öðrum manni eða aðila til handa, í því skyni að hann hafi uppi tiltekna háttsemi eða láti eitthvað ógert í tengslum við skyldustörf sín,
b)    ef opinber starfsmaður falast eftir eða þiggur óréttmætan ávinning, með beinum eða óbeinum hætti, sjálfum sér eða öðrum manni eða aðila til handa, í því skyni að hann hafi uppi tiltekna háttsemi eða láti eitthvað ógert í tengslum við skyldustörf sín.
2.     Hvert aðildarríki skal íhuga að setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að unnt sé að gera þá háttsemi sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar og varðar erlendan opinberan starfsmann eða starfsmann alþjóðastofnunar refsiverða þegar um ásetning er að ræða. Á sama hátt skal hvert aðildarríki íhuga að gera önnur birtingarform spillingar refsiverð brot.
3.     Hvert aðildarríki skal enn fremur samþykkja ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að hlutdeild í broti, sem gert er refsivert samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, geti talist refsivert brot.
4.     Í 1. mgr. þessarar greinar og 9. gr. samnings þessa merkir „opinber starfsmaður“ opinberan starfsmann eða mann sem veitir þjónustu á vegum hins opinbera eins og það hugtak er skilgreint í landslögum og notað í hegningarlögum aðildarríkisins þar sem viðkomandi innir starf sitt af hendi.

9. gr.
Ráðstafanir gegn spillingu.

1.     Hvert aðildarríki skal, til viðbótar þeim ráðstöfunum sem kveðið er á um í 8. gr. samnings þessa og að því marki sem við á og samræmist réttarkerfi þess, setja lagaákvæði og samþykkja ráðstafanir á sviði stjórnsýslu eða aðrar skilvirkar ráðstafanir til að stuðla að heiðarleika og koma í veg fyrir, koma upp um og refsa fyrir spillingu meðal opinberra starfsmanna.
2.     Hvert aðildarríki skal gera ráðstafanir til að tryggja að yfirvöld þess grípi til áhrifaríkra aðgerða til þess að fyrirbyggja, koma upp um og refsa fyrir spillingu opinberra starfsmanna, meðal annars með því að veita yfirvöldum nægilegt sjálfstæði til að hamla gegn óeðlilegum áhrifum á gjörðir þeirra.

10. gr.
Ábyrgð lögaðila.

1.     Hvert aðildarríki skal samþykkja ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, sem eru í samræmi við meginreglur landslaga þeirra, til að unnt sé að gera lögaðila ábyrga fyrir hlutdeild í alvarlegum glæpum, þar sem skipulögð glæpasamtök koma við sögu, og fyrir þau brot sem gerð eru refsiverð skv. 5., 6., 8. og 23. gr. samnings þessa.
2.     Ábyrgð lögaðila getur, með fyrirvara um ákvæði meginreglna landslaga aðildarríkis, lotið að refsi- eða einkamálarétti eða verið stjórnsýslulegs eðlis.
3.     Slík ábyrgð hefur engin áhrif á refsiábyrgð þeirra einstaklinga sem hafa framið brotin.

4.     Hvert aðildarríki skal sjá til þess sérstaklega að lögaðilar, sem gerðir eru ábyrgir í samræmi við ákvæði þessarar greinar, sæti virkri, hæfilegri og letjandi refsingu eða séu beittir öðrum viðurlögum, þar með talið sektum.

11. gr.
Saksókn, dómsálagning og viðurlög.

1.     Hvert aðildarríki skal gera þá háttsemi að fremja brot, sem gert er refsivert skv. 5., 6. 8. og 23. gr. samnings þessa, háða viðurlögum þar sem tekið er tillit til þess hversu alvarlegt brotið er.
2.     Hvert aðildarríki skal leitast við að tryggja að sérhverjum heimildum samkvæmt landslögum, er varða saksókn manna vegna brota sem samningur þessi tekur til, sé beitt þannig að ráðstafanir til þess að framfylgja lögum verði sem virkastar, að því er þau brot varðar, og að eðlilegt tillit sé tekið til nauðsynjar þess að koma í veg fyrir að slík brot séu framin.
3.     Hvert aðildarríki skal, að því er varðar brot sem gert er refsivert skv. 5., 6., 8. og 23. gr. samnings þessa, gera viðeigandi ráðstafanir, í samræmi við landslög sín og með hæfilegu tilliti til réttinda sakbornings til að halda uppi vörnum, til að reyna að tryggja að í skilyrðum, sem eru sett fyrir því að leysa sakborning úr haldi meðan réttarhalda er beðið eða málið er til meðferðar fyrir áfrýjunardómstóli, sé tekið tillit til nauðsynjar þess að tryggja nærveru sakbornings við meðferð sakamáls sem fer fram síðar.
4.     Hvert aðildarríki skal ábyrgjast að dómstólar þess eða önnur lögbær yfirvöld taki tilliti til þess hversu alvarlegs eðlis þau brot eru sem samningur þessi tekur til þegar hugsanleg lausn eða reynslulausn þeirra sem hafa verið sakfelldir fyrir slík brot kemur til álita.
5.     Hvert aðildarríki skal, þar sem við á, setja ákvæði í landslög sín um langan fyrningarfrest til málshöfðunar vegna brota, sem samningur þessi tekur til, og lengri frest þegar meintur brotamaður hefur komið sér undan málshöfðun.

6.     Ekkert í samningi þessum skal skerða gildi þeirrar meginreglu að um lýsingu á brotum þeim sem gerð eru refsiverð samkvæmt samningi þessum og á viðeigandi vörnum eða öðrum meginreglum laga, sem skera úr um það hvort tiltekin háttsemi sé lögleg, skuli farið að landslögum aðildarríkis og að saksótt skuli fyrir brotin og fyrir þau refsað samkvæmt þeim lögum.

12. gr.
Upptaka og haldlagning.

1.     Aðildarríki skulu, að því marki sem frekast er unnt innan réttarkerfa sinna, samþykkja ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til að gera megi upptæk:
a)    ávinning af glæp, sem leiddur er af brotum sem samningur þessi tekur til, eða eign sem að verðmæti svara til slíks ávinnings,
b)    eignir, búnað eða önnur gögn sem eru notuð eða ætluð til notkunar við að fremja brot sem samningur þessi tekur til.
2.     Aðildarríki skulu samþykkja ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að unnt sé að bera kennsl á, rekja, frysta eða leggja hald á einhverja þá hluti sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar til þess að gera þá síðar upptæka.
3.     Hafi ávinningi af glæp verið breytt eða skipt í aðra eign, að hluta eða til fulls, má ráðstafa henni í stað ávinningsins með sama hætti og fjallað er um í grein þessari.
4.     Hafi ávinningi af glæp verið blandað saman við eignir, sem aflað hefur verið með lögmætum hætti, má, án þess þó að neinn réttur til frystingar eða haldlagningar sé skertur, gera þær eignir upptækar allt að matsverði þess ávinnings sem blandað var saman við þær.
5.     Tekjum eða öðrum hagnaði af ávinningi af glæp, eignum, sem ávinningi af glæp hefur verið breytt eða skipt í, eða eignum, sem ávinningi af glæp hefur verið blandað saman við, má ráðstafa með sama hætti og að sama marki og fjallað er um í grein þessari um ávinning af glæp.

6.     Hvert aðildarríki skal, að því er varðar ákvæði greinar þessarar og 13. gr. samnings þessa, veita dómstólum sínum eða öðrum lögbærum yfirvöldum heimild til þess að úrskurða að banka-, fjármála- eða viðskiptagögn skuli látin í té eða hald á þau lagt. Aðildarríki skulu ekki neita að aðhafast samkvæmt ákvæðum greinar þessarar sakir bankaleyndar.
7.     Aðildarríki geta metið þann kost að krefjast þess að brotamaður sýni fram á lögmæti uppruna meints ávinnings af glæp eða annarrar eignar, sem hvort tveggja má gera upptækt, að því marki sem slík krafa er í samræmi við meginreglur landslaga þeirra og stríðir ekki gegn eðlilegri dómsmeðferð og málsmeðferð af öðru tagi.
8.     Eigi skal túlka ákvæði greinar þessarar til skerðingar á rétti grandalausra þriðju aðila.

9.     Grein þessi skerðir í engu þá meginreglu að skilgreina beri og beita þeim aðferðum sem hún fjallar um í samræmi við og með fyrirvara um ákvæði landslaga aðildarríkis.


13. gr.
Alþjóðleg samvinna
í upptökumálum.

1.     Aðildarríki, sem hefur veitt viðtöku beiðni annars aðildarríkis, sem hefur lögsögu vegna brots sem samningur þessi tekur til, um upptöku ávinnings af glæp, eignar, búnaðar eða annarra gagna sem um getur í 1. mgr. 12. gr. samnings þessa og eru staðsett á yfirráðasvæði þess, skal, að því marki sem frekast er unnt innan réttarkerfis þess:

a)    leggja beiðnina fyrir lögbær innlend yfirvöld sín til þess að fá heimild til upptöku og fylgja þeirri heimild eftir, sé hún veitt, eða

b)    leggja fyrir lögbær yfirvöld sín upptökuheimild, sem dómstóll á yfirráðasvæði þess aðildarríkis sem beiðni leggur fram gefur út í samræmi við 1. mgr. 12. gr. samnings þessa, í því skyni að verða við henni að því marki sem um er beðið og að því leyti sem hún varðar ávinning af glæp, eign, búnað eða önnur gögn sem um getur í 1. mgr. 12. gr. og staðsett eru á yfirráðasvæði þess aðildarríkis sem beiðni er beint til.
2.     Er annað aðildarríki, sem hefur lögsögu vegna brots sem samningur þessi tekur til, hefur lagt fram beiðni skal aðildarríkið, sem tekur við beiðninni, gera ráðstafanir til að bera kennsl á, rekja og frysta eða leggja hald á ávinning af glæp, eignir, búnað eða önnur gögn, sem um getur í 1. mgr. 12. gr. samnings þessa, í því skyni að upptaka þeirra verði síðar heimiluð, annaðhvort af því aðildarríki sem leggur fram beiðnina eða, að fram kominni beiðni skv. 1. mgr. þessarar greinar, af því aðildarríki sem beiðninni er beint til.
3.     Ákvæði 18. gr. samnings þessa gilda um ákvæði greinar þessarar að breyttu breytanda. Í beiðni, sem lögð er fram samkvæmt grein þessari, skal, auk þeirra upplýsinga sem greinir í 15. mgr. 18. gr., vera:

a)    varði beiðnin ákvæði a-liðar 1. mgr. greinar þessarar, lýsing á eign þeirri sem gera skal upptæka og málavöxtum þeim sem það aðildarríki sem beiðni leggur fram telur nægja til að það aðildarríki sem beiðni er beint til geti leitað heimildarinnar samkvæmt landslögum sínum,
b)    varði beiðnin ákvæði b-liðar 1. mgr. þessarar greinar, löggilt endurrit upptökuheimildar þeirrar sem það aðildarríki sem beiðni leggur fram hefur gefið út og styður beiðni sína við, málavaxtalýsing og upplýsingar um að hvaða marki beðist er framkvæmdar á upptökuheimildinni,

c)    varði beiðnin ákvæði 2. mgr. greinar þessarar, lýsing á þeim málavöxtum sem byggt er á af hálfu þess aðildarríkis sem beiðni leggur fram og lýsing á þeim aðgerðum sem um er beðið.
4.     Aðildarríkið, sem beiðni er beint til, skal taka ákvarðanir og grípa til aðgerða, sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. þessarar greinar, í samræmi við og með fyrirvara um ákvæði landslaga sinna og réttarfarsreglna eða hvers þess tvíhliða eða marghliða alþjóðasamnings, samnings eða fyrirkomulags sem það kann að vera bundið af gagnvart því aðildarríki sem beiðnina leggur fram.
5.     Hvert aðildarríki skal láta aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í té endurrit texta laga og reglugerða sinna, sem gera ákvæði greinar þessarar virk, og texta allra síðari breytinga á þeim lögum og reglugerðum eða lýsingu á þeim.
6.     Kjósi aðildarríki að setja það skilyrði fyrir þeim ráðstöfunum er um getur í 1. og 2. mgr. greinar þessarar að til sé viðeigandi alþjóðasamningur skal það líta svo á að samningur þessi sé nauðsynlegur og fullnægjandi grundvöllur undir slíkum alþjóðasamningi.
7.     Aðildarríki getur hafnað því að eiga aðild að samvinnu samkvæmt ákvæðum greinar þessarar fjalli samningur þessi ekki um það brot sem beiðnin tekur til.
8.     Eigi skal túlka ákvæði greinar þessarar þannig að þau skerði rétt grandalausra þriðju aðila.

9.     Aðildarríki skulu íhuga að ganga frá tvíhliða eða marghliða alþjóðasamningum, samningum eða fyrirkomulagi í því skyni að auka skilvirkni samvinnu þjóða í milli sem fer fram samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.

14. gr.
Ráðstöfun ávinnings af glæp eða eignar
sem gerður eða gerð er upptæk.

1.     Aðildarríki skal ráðstafa ávinningi af glæp eða eign, sem það gerir upptækan eða upptæka samkvæmt ákvæðum 12. gr. eða 1. mgr. 13. gr. samnings þessa, í samræmi við landslög sín og stjórnsýslureglur.
2.     Þegar gerðar eru ráðstafanir vegna beiðni annars aðildarríkis skv. 13. gr. samnings þessa skulu aðildarríki, að því marki sem landslög þeirra heimila og sé um það beðið, íhuga fyrst og fremst að skila aðildarríkinu, sem leggur fram beiðni, þeim ávinningi af glæp eða eign, sem gerður eða gerð hefur verið upptæk, til þess að það geti afhent brotaþolum bætur eða skilað fyrrnefndum ávinningi af glæp eða eign réttum eigendum.
3.     Þegar gerðar eru ráðstafanir vegna beiðni annars aðildarríkis skv. 12. og 13. gr. samnings þessa skal aðildarríki íhuga sérstaklega að ganga frá samningum eða fyrirkomulagi þess efnis:

a)    að leggja andvirði ávinningsins af glæp eða eignarinnar eða það fé, sem fæst við sölu þeirra, eða hluta þess, inn á reikning þann sem er stofnaður skv. c-lið 2. mgr. 30. gr. samnings þessa og veita því til milliríkjastofnana sem sérhæfa sig í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi,

b)    að skipta slíkum ávinningi af glæp eða eign eða því fé sem fæst við sölu slíks ávinnings eða eignar með öðrum aðildarríkjum, reglubundið eða í hverju tilviki fyrir sig, samkvæmt landslögum sínum eða stjórnsýslureglum.


15. gr.
Lögsaga.

1.     Hvert aðildarríki skal samþykkja ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til að það geti fellt undir lögsögu sína þau brot sem gerð eru refsiverð í samræmi við ákvæði 5., 6., 8. og 23. gr. samnings þessa, þegar:
a)    brotið er framið á yfirráðasvæði þess, eða

b)    brotið er framið um borð í skipi sem siglir undir fána þess eða loftfari sem er skráð samkvæmt lögum þess þegar brotið er framið.

2.     Aðildarríki getur og, með fyrirvara um ákvæði 4. gr. samnings þessa, fellt hvert slíkt brot undir lögsögu sína þegar:
a)    brotið beinist gegn ríkisborgara þess,

b)    brotið er framið af ríkisborgara þess eða ríkisfangslausum manni sem hefur fasta búsetu á yfirráðasvæði þess, eða
c)    brotið er:
    i)    eitt þeirra brota sem gert er refsivert skv. 1. mgr. 5. gr. samnings þessa og er framið utan yfirráðasvæðis þess í því skyni að fremja alvarlegan glæp innan yfirráðasvæðis þess,

    ii)    eitt þeirra brota sem gert er refsivert skv. ii- lið b-liðs 1. mgr. 6. gr. samnings þessa og er framið utan yfirráðasvæðis þess í því skyni að fremja brot, sem gert er refsivert skv. i- eða ii-lið a-liðar eða i-lið b-liðar 1. mgr. 6. gr. samnings þessa, innan yfirráðasvæðis þess.

3.     Hvert aðildarríki skal, að því er varðar ákvæði 10. mgr. 16. gr. samnings þessa, samþykkja ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að það geti fellt undir lögsögu sína þau brot sem samningur þessi tekur til þegar meintur brotamaður er staddur á yfirráðasvæði þess og það framselur hann ekki af þeirri ástæðu einni að hann er ríkisborgari þess.
4.     Hvert aðildarríki getur einnig gert ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að það geti fellt undir lögsögu sína þau brot sem samningur þessi tekur til þegar meintur brotamaður er staddur á yfirráðasvæði þess og það framselur hann ekki.
5.     Hafi aðildarríki, sem beitir lögsögu skv. 1. eða 2. mgr. þessarar greinar, verið tilkynnt um að eitt eða fleiri aðildarríki rannsaki sömu háttsemi, lögsæki fyrir hana eða að þar fari fram dómsmeðferð vegna hennar eða verði þess áskynja á annan hátt skulu lögbær yfirvöld hlutaðeigandi aðildarríkja ráðgast um, eftir því sem við á, hvernig þau megi samræma aðgerðir sínar.
6.     Samningur þessi útilokar ekki, samanber þó reglur almenns þjóðaréttar, að beitt sé sérhverri þeirri refsiréttarlögsögu sem aðildarríki ber samkvæmt landslögum sínum.

16. gr.
Framsal.

1.     Ákvæði þessarar greinar gilda um brot, sem samningur þessi tekur til, eða í þeim tilvikum þegar skipulögð glæpasamtök eiga aðild að broti sem um ræðir í a- eða b-lið 1. mgr. 3. gr. og sá maður sem farið er fram á að verði framseldur er staddur á yfirráðasvæði þess aðildarríkis sem beiðninni er beint til, enda sé brotið, sem farið er fram á framsal vegna, refsivert, bæði samkvæmt landslögum þess aðildarríkis sem leggur fram beiðni og aðildarríkisins sem henni er beint til.
2.     Sé um framsalsbeiðni að ræða, sem tekur til margra og aðskilinna alvarlegra glæpa og ákvæði þessarar greinar gilda ekki um einhver þeirra, getur aðildarríkið, sem beiðninni er beint til, einnig beitt ákvæðum þessarar greinar að því er síðarnefndu brotin varðar.
3.     Líta ber svo á að hvert það brot sem ákvæði þessarar greinar gilda um teljist framsalsbrot í skilningi ákvæða þeirra framsalssamninga sem í gildi eru milli aðildarríkja. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að telja fyrrnefnd brot meðal framsalsbrota í hverjum þeim framsalssamningi sem kann að verða gerður milli þeirra.
4.     Taki aðildarríki, sem gerir það að skilyrði fyrir framsali að fyrir hendi sé alþjóðasamningur þar um, við framsalsbeiðni frá öðru aðildarríki, sem það hefur ekki framsalssamning við, getur það litið á samning þennan sem lagalegan grundvöll að framsali með tilliti til brots sem ákvæði greinar þessarar gilda um.
5.     Aðildarríki, sem gera það að skilyrði fyrir framsali að fyrir hendi sé alþjóðasamningur þar um, skulu:
a)    tilkynna aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, þegar þau afhenda skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki samnings þessa eða aðild að honum, hvort þau muni nota samning þennan sem lagalegan grundvöll að samvinnu um framsal við önnur aðildarríki að samningi þessum og
b)    noti þau ekki samning þennan sem lagalegan grundvöll að samvinnu um framsal, kappkosta, eftir því sem við á, að ganga frá framsalssamningum við önnur ríki, sem eiga aðild að samningi þessum, í því augnamiði að ákvæði þessarar greinar komi til framkvæmda.
6.     Aðildarríki, sem setja ekki það skilyrði fyrir framsali að samningur þar um sé fyrir hendi, skulu sín á milli viðurkenna þau brot sem ákvæði greinar þessarar gilda um sem framsalsbrot.
7.     Framsal skal háð þeim skilyrðum sem landslög þess aðildarríkis sem framsalsbeiðni er beint til kveða á um eða viðeigandi framsalssamningar, meðal annars má nefna skilyrði um lágmarkskröfur um refsingu til þess að til framsals geti komið og um ástæður þess að aðildarríkið, sem beiðni er beint til, megi synja framsals.
8.     Aðildarríki skulu, með fyrirvara um ákvæði landslaga sinna, leitast við að hraða málsmeðferð við framsal og einfalda kröfur um sönnunarfærslu við þá málsmeðferð vegna allra brota sem ákvæði greinar þessarar gilda um.
9.     Aðildarríkið, sem beiðni er beint til, getur, með fyrirvara um ákvæði landslaga sinna og þeirra framsalssamninga sem það hefur gert og þegar það hefur gengið úr skugga um að aðstæður réttlæti það og séu brýnar, hneppt mann, sem leitað er framsals á og staddur er á yfirráðasvæði þess, í gæslu að beiðni aðildarríkisins, sem leggur fram beiðni, eða gert aðrar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja nærveru hans við málsmeðferð vegna framsalsins.
10.     Hittist meintur brotamaður fyrir á yfirráðasvæði aðildarríkis og sé hann ekki framseldur vegna brots, sem ákvæði greinar þessarar gilda um, á þeirri forsendu einni að hann er ríkisborgari þess skal hlutaðeigandi aðildarríki, að beiðni þess aðildarríkis sem fer fram á framsal, leggja málið fyrir lögbær yfirvöld sín til saksóknar. Skulu þau yfirvöld taka ákvörðun og haga málsmeðferð sinni með sama hætti og sé um önnur alvarleg brot að ræða samkvæmt landslögum fyrrnefnds aðildarríkis. Hlutaðeigandi aðildarríki skulu vinna saman, einkum að því er varðar þætti er lúta að málsmeðferð og sönnunarfærslu, í því skyni að tryggja skilvirka framkvæmd slíkrar saksóknar.


11.     Í þeim tilvikum er landslög aðildarríkis heimila því að framselja eigin ríkisborgara eða afhenda hann með öðrum hætti, með því skilyrði að hann verði sendur aftur til fyrrnefnds aðildarríkis til þess að afplána þar þá refsingu sem honum er ákvörðuð að afloknu réttarhaldi eða málsmeðferð sem framsals eða afhendingar hans var óskað vegna og að fyrrnefnt aðildarríki og aðildarríkið, sem framsals eða afhendingar beiddist, fallist á þennan valkost og aðra skilmála sem þau kunna að telja við eiga, skal slíkt skilyrt framsal eða afhending nægja til að sinna þeirri skyldu sem er lýst í 10. mgr. þessarar greinar.
12.     Ef synjað er um framsal, sem beiðst er til fullnustu refsingar, vegna þess að sá sem leitað er framsals á er ríkisborgari þess aðildarríkis sem beiðninni er beint til skal það aðildarríki, ef landslög þess heimila það og eftir því sem þau lög kveða á um, taka til athugunar, að beiðni þess aðildarríkis sem leggur fram beiðni, að koma fram þeirri refsingu sem lögð hefur verið á samkvæmt landslögum þess aðildarríkis sem leggur fram beiðni eða því sem eftir stendur af henni.
13.     Hverjum manni, sem sætir málsmeðferð vegna brota sem ákvæði greinar þessarar gilda um, skal tryggð sanngjörn meðferð á öllum stigum málsmeðferðar, meðal annars skal hann njóta allra þeirra réttinda og öryggis sem landslög þess aðildarríkis sem á yfirráðasvæði þar sem hann er staddur kveða á um.
14.     Ekkert í samningi þessum skal túlka þannig að uppfylla beri framsalsskyldu hafi aðildarríkið, sem beiðni er beint til, ríka ástæðu til að ætla að beiðnin sé lögð fram í því skyni að saksækja mann eða refsa honum vegna kynferðis hans, kynþáttar, trúar, þjóðernis, uppruna eða stjórnmálaskoðana eða ef orðið yrði við beiðninni myndi það veikja stöðu hans af einhverri þeirri ástæðu sem fyrr greinir.

15.     Aðildarríkjum er óheimilt að hafna framsalsbeiðni á þeirri forsendu einni að brotið sé einnig talið varða skattamál.
16.     Aðildarríki, sem beiðni er beint til, skal, áður en synjað er um framsal og þegar við á, ráðgast við aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, í því skyni að gefa því gott færi til að láta álit sitt í ljós og veita upplýsingar er varða ásökun þess.
17.     Aðildarríki skulu leitast við að koma á tvíhliða og marghliða samningum eða fyrirkomulagi til framkvæmdar á framsali eða til að auka virkni þess.

17. gr.
Flutningur dæmdra manna.

    Aðildarríki geta metið þann kost að koma á tvíhliða eða marghliða samningum eða fyrirkomulagi um flutning manna, sem hafa verið dæmdir til fangelsisvistar eða annarrar frelsissviptingar fyrir brot sem samningur þessi tekur til, inn á yfirráðasvæði sín, í því skyni að gefa þeim kost á að afplána refsingu sína þar.

18. gr.
Gagnkvæm dómsmálaaðstoð.

1.     Aðildarríki skulu veita hvert öðru alla þá dómsmálaaðstoð sem við verður komið við rannsókn, saksókn og dómsmeðferð vegna brota sem samningur þessi tekur til, samanber ákvæði 3. gr., og veita hvert öðru sams konar aðstoð hafi aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, rökstuddan grun um að brot það er um getur í a- eða b-lið 1. mgr. 3. gr. sé fjölþjóðlegs eðlis, meðal annars að brotaþola, vitni, ávinning, gögn eða sannanir sé að finna í aðildarríkinu, sem beiðni er beint til, og að skipulögð glæpasamtök tengist brotinu.


2.     Veita ber gagnkvæma dómsmálaaðstoð, að því marki sem frekast er unnt, samkvæmt viðeigandi lögum þess aðildarríkis sem beiðni er beint til og alþjóðasamningum, samningum og fyrirkomulagi, sem það er aðili að, í tengslum við rannsókn, saksókn og dómsmeðferð vegna brota sem lögaðili kann að verða kallaður til ábyrgðar fyrir í aðildarríkinu, sem leggur fram beiðni, í samræmi við ákvæði 10. gr. samnings þessa.
3.     Um gagnkvæma dómsmálaaðstoð, sem veitt skal samkvæmt grein þessari, má biðja í eftirfarandi tilgangi:
a)    til að afla sönnunargagna eða taka skýrslur af mönnum,
b)    til að birta skjöl,
c)    til að framkvæma leit og haldlagningu og frystingu,
d)    til að rannsaka muni og vettvang,
e)    til að afla upplýsinga, sönnunargagna og sérfræðilegs mats,
f)    til að afla frumrita eða staðfestra endurrita af viðeigandi skjölum og gögnum, þar með töldum skjölum stjórnvalda, banka og fyrirtækja og bókhalds- og viðskiptagögnum,
g)    til að bera kennsl á eða rekja ávinning af glæp, eignir, gögn eða aðra hluti sem nota má til sönnunarfærslu,
h)    til að greiða fyrir því að menn komi af frjálsum vilja fyrir rétt í aðildarríkinu sem leggur fram beiðni,
i)    um hvers kyns aðra aðstoð sem brýtur ekki í bága við landslög þess aðildarríkis sem beiðni er beint til.
4.     Lögbær yfirvöld í aðildarríki geta, með fyrirvara um ákvæði landslaga og án þess að um það sé beðið fyrir fram, sent lögbærum yfirvöldum í öðru aðildarríki upplýsingar um brotamál telji þau að slíkar upplýsingar geti gagnast þeim við rannsókn og meðferð sakamáls eða við að leiða rannsókn og slíka málsmeðferð til lykta með þeim hætti að tilætluðum árangri verði náð eða geti leitt til þess að síðarnefnda aðildarríkið setji fram beiðni samkvæmt ákvæðum samnings þessa.
5.     Miðlun upplýsinga skv. 4. mgr. þessarar greinar skal ekki hafa áhrif á rannsókn eða meðferð sakamáls í því ríki þar sem fyrrnefnd lögbær yfirvöld, sem upplýsingarnar veita, eru. Lögbær yfirvöld, sem taka við upplýsingunum, skulu verða við beiðni um að farið sé með þær sem trúnaðarmál, jafnvel tímabundið, eða um að notkun þeirra sé takmörkunum háð. Það skal þó ekki koma í veg fyrir að viðtökuaðildarríkið opinberi, í málarekstri sínum, upplýsingar sem hreinsa sakborning af ákæru. Ef þannig háttar til skal viðtökuaðildarríkið gera aðildarríkinu, sem upplýsingarnar sendir, viðvart áður en þær eru gerðar opinberar og ráðgast við það sé þess óskað. Ef ekki reynist unnt, í undantekningartilviki, að senda tilkynningu fyrir fram skal viðtökuaðildarríkið greina aðildarríkinu, sem upplýsingarnar sendir, frá því, án tafar, að upplýsingarnar hafi verið gerðar opinberar.
6.     Ákvæði þessarar greinar skulu ekki hafa áhrif á skuldbindingar samkvæmt neinum öðrum alþjóðasamningi, tvíhliða eða marghliða, sem gildir eða mun gilda um gagnkvæma dómsmálaaðstoð í heild eða að hluta.
7.     Ákvæði 9. til 29. mgr. þessarar greinar gilda um beiðnir, sem lagðar eru fram samkvæmt þeim, séu hlutaðeigandi aðildarríki ekki bundin af alþjóðasamningi um gagnkvæma dómsmálaaðstoð. Ef fyrrnefnd aðildarríki eru bundin af slíkum alþjóðasamningi skulu samsvarandi ákvæði hans gilda nema aðildarríkin séu sammála um að beita ákvæðum 9. til 29. mgr. þessarar greinar í þeirra stað. Aðildarríki eru eindregið hvött til þess að beita ákvæðum fyrrnefndra málsgreina auðveldi það samvinnu milli þeirra.
8.     Aðildarríki skulu ekki hafna því, á grundvelli bankaleyndar, að gagnkvæm dómsmálaaðstoð sé veitt samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.
9.     Aðildarríki geta hafnað því að gagnkvæm dómsmálaaðstoð sé veitt samkvæmt ákvæðum þessarar greinar á þeirri forsendu að um glæpsamlegt athæfi sé ekki að ræða í báðum aðildarríkjum. Aðildarríkið, sem beiðni er beint til, getur þó, telji það slíkt viðeigandi, veitt aðstoð, að því marki sem það ákveður sjálft, hvort sem sú háttsemi sem um ræðir telst refsiverð samkvæmt landslögum þess eður ei.
10.     Mann, sem er í gæslu eða afplánar refsingu á yfirráðasvæði eins aðildarríkis, er heimilt að flytja til annars aðildarríkis sé nærveru hans óskað þar sakir staðfestingar, vitnisburðar eða annarrar aðstoðar við að afla sönnunargagna í tengslum við rannsókn, saksókn eða dómsmeðferð vegna brota, sem samningur þessi tekur til, að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

a)    maður sá veiti upplýst samþykki sitt fyrir því af fúsum og frjálsum vilja,
b)    lögbær yfirvöld í báðum aðildarríkjum samþykki það með þeim skilyrðum sem þau aðildarríki kunna að telja rétt að setja.
11.     Að því er varðar ákvæði 10. mgr. þessarar greinar:
a)    hefur aðildarríkið, sem maðurinn er fluttur til, heimild og ber skylda til að hafa hinn flutta í haldi, nema aðildarríkið, sem hann var fluttur frá, fari fram á eða heimili annað,

b)    skal aðildarríkið, sem maðurinn er fluttur til, uppfylla þá skyldu sína tafarlaust að skila honum í gæslu aðildarríkisins, sem hann var fluttur frá, samkvæmt fyrirframgerðu samkomulagi, eða eins og samið er um með öðrum hætti, milli lögbærra yfirvalda í báðum aðildarríkjum,

c)    aðildarríkið, sem maðurinn er fluttur til, skal ekki krefjast þess að aðildarríkið, sem hann var fluttur frá, hefji málsmeðferð vegna framsals til að honum verði skilað aftur,

d)    sá tími sem hinn flutti er í haldi í ríkinu, sem hann er fluttur til, skal koma til frádráttar afplánun refsingar í ríkinu sem hann var fluttur frá.


12.     Maður, sem til stendur að flytja frá aðildarríki í samræmi við ákvæði 10. og 11. mgr. þessarar greinar, skal ekki, nema aðildarríkið samþykki það, sæta saksókn, gæslu, refsingu eða neinni annarri skerðingu á persónufrelsi sínu á yfirráðasvæði þess ríkis sem hann er fluttur til vegna athafna, athafnaleysis eða sakfellinga, sem áttu sér stað áður en hann yfirgaf yfirráðasvæði þess ríkis sem hann var fluttur frá, og gildir einu af hvaða þjóðerni hann er.

13.     Hvert samningsríki tilnefni umsjónarstjórnvald sem bera skal ábyrgð á og hafa heimild til að veita viðtöku beiðnum um gagnkvæma dómsmálaaðstoð og annaðhvort verða við þeim eða framsenda lögbærum yfirvöldum til framkvæmdar. Fyrirfinnist innan aðildarríkis sérstakt hérað eða yfirráðasvæði með aðskilið fyrirkomulag gagnkvæmrar dómsmálaaðstoðar getur aðildarríkið tilnefnt sérlegt umsjónarstjórnvald er gegni sama hlutverki fyrir héraðið eða svæðið. Umsjónarstjórnvöld skulu sjá til þess að orðið sé við beiðnum, sem veitt er viðtaka, með fljótvirkum og réttum hætti. Framsendi umsjónarstjórnvald lögbæru yfirvaldi beiðnina til þess að það geti orðið við henni skal umsjónarstjórnvaldið hvetja fyrrnefnt yfirvald til þess að gera það með skjótum og réttum hætti. Tilkynna skal aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um umsjónarstjórnvald það sem er tilnefnt í þessu skyni samtímis því að hvert aðildarríki afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki samnings þessa eða aðild að honum. Senda ber beiðnir um gagnkvæma dómsmálaaðstoð og allar orðsendingar þar að lútandi þeim umsjónarstjórnvöldum sem aðildarríkin hafa tilnefnt. Krafa þessi hefur ekki áhrif á rétt aðildarríkis til þess að krefjast þess að slíkar beiðnir og orðsendingar verði sendar því eftir diplómatískum leiðum og, ef brýnar ástæður eru til og verði aðildarríkin ásátt um það, fyrir milligöngu Alþjóðasambands sakamálalögreglu, ef unnt er.
14.     Beiðnir skal leggja fram skriflega eða, verði því komið við, með einhverjum þeim hætti sem getur af sér ritað skjal og á tungumáli sem aðildarríkið, sem beiðni er beint til, samþykkir og við skilyrði sem gera því kleift að ganga úr skugga um að beiðnin sé upprunaleg. Tilkynna skal aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um það eða þau tungumál sem hvert aðildarríki samþykkir jafnhliða því að það afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki samnings þessa eða aðild að honum. Séu brýnar ástæður til og komi aðildarríkin sér saman um það má bera beiðnir fram munnlega, en þegar skal þá staðfesta þær skriflega.
15.     Í beiðni um gagnkvæma dómsmálaaðstoð skal koma fram:
a)    hvert það yfirvald er sem beiðnina ber fram,
b)    efni og eðli rannsóknarinnar, saksóknarinnar eða dómsmeðferðarinnar sem beiðnin varðar og nafn og starfssvið þess yfirvalds sem annast rannsóknina, saksóknina eða dómsmeðferðina,

c)    samantekt um málsatvik nema ef beiðnin er borin fram til að fá dómsskjöl birt,

d)    hvernig aðstoðar er beiðst og hvernig aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, óskar að málsmeðferð skuli hagað í einstökum atriðum, eftir því sem við á,
e)    þar sem unnt er, hverjir þeir menn eru sem beiðnin varðar, hvar þeir eru og hvert ríkisfang þeirra er, og
f)    hver sé tilgangur þess að sönnunargagna, upplýsinga eða aðgerða er óskað.
16.     Aðildarríkið, sem beiðni er beint til, getur óskað frekari upplýsinga þegar slíkt virðist nauðsynlegt til að verða við beiðninni samkvæmt landslögum þess eða þegar það getur greitt fyrir framkvæmd hennar.
17.     Orðið skal við beiðni í samræmi við landslög aðildarríkisins sem henni er beint til og, eftir því sem unnt er og að því leyti sem það fer ekki í bága við landslög þess, skal fylgja þeirri málsmeðferð sem tilgreind er í beiðninni.
18.     Sé einstaklingur staddur á yfirráðasvæði aðildarríkis og dómsmálayfirvöld í öðru aðildarríki þurfa nauðsynlega að yfirheyra hann sem vitni eða sérfræðing getur fyrrnefnda aðildarríkið, ávallt þegar því verður komið við og í samræmi við meginreglur landslaga, heimilað, að ósk þess síðarnefnda, að réttarhald fari fram í formi myndfundar sé viðkomandi einstaklingi ekki unnt, eða sé ekki æskilegt fyrir hann, að koma í eigin persónu inn á yfirráðasvæði aðildarríkisins sem leggur fram beiðni. Aðildarríki geta komið sér saman um að dómsmálayfirvald í aðildarríkinu, sem leggur fram beiðni, stýri réttarhaldi og að dómsmálayfirvald í aðildarríkinu, sem beiðni er beint til, sé viðstatt.
19.     Aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, skal hvorki senda frá sér né nota upplýsingar eða sönnunargögn, sem aðildarríkið, sem beiðni er beint til, veitti, til annarrar rannsóknar, saksóknar eða dómsmeðferðar en þeirrar sem tilgreind var í beiðninni, nema aðildarríkið, sem beiðni er beint til, samþykki það fyrir fram. Ekkert í málsgrein þessari skal koma í veg fyrir að aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, opinberi, við meðferð málsins hjá sér, upplýsingar eða sönnunargögn sem hreinsa sakborning af ákæru. Í síðarnefnda tilvikinu skal aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, senda aðildarríkinu, sem beiðni er beint til, tilkynningu áður en fyrrnefndar upplýsingar eða sönnunargögnin eru gerð opinber og ráðgast við síðarnefnda aðildarríkið sé þess óskað. Reynist, í undantekningartilviki, ekki unnt að senda tilkynningu fyrir fram skal aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, tilkynna aðildarríkinu, sem beiðni er beint til, um slíka birtingu án tafar.
20.     Aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, getur óskað þess að aðildarríkið, sem beiðni er beint til, haldi beiðninni leyndri og efni hennar að öðru leyti en því sem nauðsynlegt er til þess að verða við henni. Geti aðildarríkið, sem beiðni er beint til, ekki sinnt ósk um leynd skal það þegar tilkynna aðildarríkinu, sem leggur fram beiðni, um það.
21.     Synja má um gagnkvæma dómsmálaaðstoð:
a)    ef beiðnin er ekki borin fram í samræmi við ákvæði greinar þessarar,
b)    ef aðildarríkið, sem beiðni er beint til, telur að framkvæmd beiðninnar sé líkleg til að hafa áhrif til skerðingar á fullveldi þess, öryggi, allsherjarreglu eða öðrum meginhagsmunum,
c)    ef landslög aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, myndu ekki heimila að yfirvöld þess gripu til umbeðinna aðgerða vegna sambærilegs brots, ef rannsókn, saksókn eða dómsmeðferð vegna þess hefði farið fram innan þeirra eigin lögsögu,

d)    ef það væri andstætt réttarkerfi þess aðildarríkis sem beiðni er beint til að því er varðar gagnkvæma dómsmálaaðstoð, að fallast á beiðnina.
22.     Aðildarríkjum er óheimilt að hafna beiðni um gagnkvæma dómsmálaaðstoð á þeirri forsendu einni að brotið sé einnig talið varða skattamál.
23.     Tilgreina skal ástæður fyrir synjun á beiðni um gagnkvæma dómsmálaaðstoð.
24.     Aðildarríkið, sem beiðni um gagnkvæma dómsmálaaðstoð er beint til, skal verða við henni eins fljótt og auðið er og virða að fullu, eftir því sem unnt er, hvern þann frest sem aðildarríkið, sem leggur fram beiðnina, gerir tillögu um og færir rök fyrir, helst í beiðninni sjálfri. Aðildarríkið, sem beiðni er beint til, skal koma til móts við eðlilegar kröfur aðildarríkisins, sem leggur fram beiðni, um það hvernig staðið skal að meðferð beiðninnar. Aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, skal án tafar skýra aðildarríkinu, sem beiðni er beint til, frá því þegar umbeðinnar aðstoðar er ekki lengur þörf.
25.     Aðildarríkið, sem beiðni er beint til, getur frestað gagnkvæmri dómsmálaaðstoð á þeirri forsendu að hún myndi trufla rannsókn, saksókn eða dómsmeðferð sem stendur yfir.
26.     Aðildarríkið, sem beiðni er beint til, skal, áður en það hafnar beiðni skv. 21. mgr. þessarar greinar eða frestar því að verða við henni skv. 25. mgr. þessarar greinar, ráðgast við aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, um það hvort unnt sé að veita aðstoð samkvæmt þeim skilmálum og skilyrðum sem það telur nauðsynleg. Ef aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, þiggur aðstoð með þeim skilyrðum skal það uppfylla þau.
27.     Vitni, sérfræðingur eða annar maður, sem að ósk aðildarríkisins, sem leggur fram beiðni, fellst á að gefa skýrslu þegar mál er til meðferðar eða að aðstoða við rannsókn, saksókn eða dómsmeðferð á yfirráðasvæði þess, skal, með fyrirvara um ákvæði 12. mgr. þessarar greinar, ekki sæta saksókn, gæslu, refsingu eða neinni annarri skerðingu á persónufrelsi sínu á því yfirráðasvæði vegna athafnar, athafnaleysis eða sakfellinga sem áttu sér stað áður en hann yfirgaf yfirráðasvæði þess aðildarríkis sem beiðni er beint til. Grið þessi skulu haldast þar til vitnið, sérfræðingurinn eða maðurinn hefur samfellt í fimmtán daga, eða í þann tíma sem aðildarríkin verða ásátt um, eftir að því eða honum hefur verið opinberlega tilkynnt að dómsmálayfirvöld geri ekki lengur kröfu um nærveru þess eða hans, haft tækifæri til brottfarar en hefur eigi að síður dvalið um kyrrt, af fúsum og frjálsum vilja, á yfirráðasvæði þess aðildarríkis sem leggur fram beiðni eða snúið þangað aftur að eigin vild hafi það eða hann yfirgefið yfirráðasvæðið.

28.     Aðildarríkið, sem beiðni er beint til, skal bera venjulegan kostnað af því að verða við beiðni nema hlutaðeigandi aðildarríki komi sér saman um annað. Sé nauðsynlegt að leggja út í verulegan eða óvenjulegan kostnað til að fullnægja beiðninni skulu aðildarríkin ráðgast um hvernig ákvarða skuli skilmála og skilyrði fyrir framkvæmd hennar og á hvern hátt kostnaðurinn skuli greiddur.
29.     Aðildarríki sem beiðni er beint til:
a)    skal láta aðildarríkinu, sem leggur fram beiðni, í té endurrit gagna, skjala eða upplýsinga hins opinbera sem eru í vörslu þess og almenningi aðgengileg samkvæmt landslögum þess,
b)    getur, að eigin ákvörðun, látið aðildarríkinu, sem leggur fram beiðni, í té endurrit gagna, skjala eða upplýsinga hins opinbera, sem eru í vörslu þess og almenningi aðgengileg samkvæmt landslögum þess, í heilu lagi, að hluta eða með þeim skilyrðum sem það telur við eiga.
30.     Aðildarríki skulu, eftir því sem nauðsyn krefur, íhuga að ganga frá tvíhliða eða marghliða samningum eða fyrirkomulagi er þjóni markmiðum ákvæða þessarar greinar, stuðli að skilvirkni þeirra eða auki á áhrif þeirra.

19. gr.
Sameiginleg rannsókn.

    Aðildarríki skulu íhuga að ganga frá tvíhliða eða marghliða samningum eða fyrirkomulagi sem heimilar hlutaðeigandi lögbærum yfirvöldum að koma á fót sameiginlegum rannsóknarnefndum er fjalli um mál sem eru viðfang rannsóknar, saksóknar eða dómsmeðferðar í einu eða fleiri ríkjum. Sé slíkum samningum eða fyrirkomulagi ekki fyrir að fara getur sameiginleg rannsókn farið fram samkvæmt samningi í hverju tilviki um sig. Hlutaðeigandi aðildarríki skulu tryggja að fullveldi aðildarríkis, þar sem slík rannsókn skal fara fram, sé virt í einu og öllu.

20. gr.
Óhefðbundnar rannsóknaraðferðir.

1.     Heimili meginreglur landslaga slíkt skal hvert aðildarríki, eins og því er frekast unnt og samkvæmt þeim skilyrðum sem landslög þess mæla fyrir um, gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að heimila lögbærum yfirvöldum sínum á yfirráðasvæði sínu að færa sér í nyt, með viðeigandi hætti, afhendingu undir eftirliti og, þar sem það telur við eiga, að beita öðrum óhefðbundnum rannsóknaraðferðum, t.d. rafrænu eða annars konar eftirliti og leynilegum aðgerðum, í því skyni að ná árangri í baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi.
2.     Aðildarríki eru hvött til þess, í þágu rannsóknar þeirra brota sem samningur þessi tekur til, að ganga frá, er nauðsyn krefur, viðeigandi tvíhliða eða marghliða samningum eða fyrirkomulagi um notkun slíkra óhefðbundinna rannsóknaraðferða þegar um samstarf á alþjóðavettvangi er að ræða. Ganga ber frá slíkum samningum eða fyrirkomulagi og hrinda í framkvæmd í fullu samræmi við meginregluna um jafnræði fullvalda ríkja og skal framkvæmdin að öllu leyti vera í samræmi við skilmála þeirra samninga eða fyrirkomulags.
3.     Sé samningi eða fyrirkomulagi ekki fyrir að fara, eins og sett er fram í 2. mgr. þessarar greinar, skal taka ákvarðanir um að beita slíkum óhefðbundnum rannsóknaraðferðum á alþjóðavettvangi í hverju tilviki um sig og geta slíkar ákvarðanir fjallað, ef nauðsyn krefur, um fjárhagsráðstafanir og sameiginlegan skilning á því með hvaða hætti hlutaðeigandi aðildarríki beita lögsögu sinni.
4.     Í ákvörðunum um að færa sér í nyt afhendingu undir eftirliti á alþjóðavettvangi getur falist, með samþykki hlutaðeigandi aðildarríkja, að beita aðferðum eins og að stöðva á miðri leið varning og leyfa áframhaldandi flutning hans ósnerts eða að fjarlægja hann eða skipta honum út í heilu lagi eða að hluta.

21. gr.
Flutningur meðferðar sakamáls.

    Aðildarríki skulu íhuga að flytja málsmeðferð sín á milli vegna saksóknar fyrir brot, sem samningur þessi tekur til, í þeim tilvikum þar sem talið er að það þjóni betur réttarvörsluhagsmunum, einkum í málum þar sem fleiri en einn aðili fer með lögsögu og í því augnamiði að beina saksókn á einn stað.



22. gr.
Staðfesting brotaferils.

    Hvert aðildarríki getur sett lagaákvæði eða samþykkt aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til að unnt sé, samkvæmt þeim skilmálum og í þeim tilgangi sem það telur hæfa, að taka tillit til fyrri sakfellingar meints brotamanns í öðru ríki í því skyni að nota slíka vitneskju við meðferð sakamáls sem samningur þessi tekur til.


23. gr.
Að hindra framgang réttvísinnar gert refsivert.

    Hvert aðildarríki skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að unnt sé að gera eftirtalin brot refsiverð þegar um ásetning er að ræða:
a)    að beita líkamlegu ofbeldi, hótunum eða ógnunum eða lofa, bjóða eða veita óréttmætan ávinning í því skyni að fá fram rangan vitnisburð eða hindra að vitni geti borið fyrir rétti eða að sönnunargögn séu lögð fram við málsmeðferð vegna brota sem samningur þessi tekur til,

b)    að beita líkamlegu ofbeldi, hótunum eða ógnunum í því skyni að hindra embættismann réttarkerfisins eða opinberan starfsmann, sem vinnur við að framfylgja lögum, við skyldustörf í tengslum við brot sem samningur þessi tekur til. Ekkert í málsgrein þessari skerðir rétt aðildarríkja til þess að hafa löggjöf sem verndar aðra hópa opinberra starfsmanna.

24. gr.
Vitnavernd.

1.     Hvert aðildarríki skal gera viðeigandi ráðstafanir, eftir bestu getu, til að veita þeim sem bera vitni við meðferð sakamáls, sem samningur þessi tekur til, virka vernd gegn hugsanlegum hefndum eða ógnunum og, eftir atvikum, skyldmennum þeirra og öðrum nákomnum.

2.     Þær ráðstafanir, sem eru fyrirhugaðar skv. ákvæðum 1. mgr. þessarar greinar, geta m.a. verið fólgnar í eftirfarandi, með fyrirvara um réttindi sakbornings, meðal annars rétt hans til sanngjarnar málsmeðferðar:
a)    að koma á tilhögun sem er ætlað að veita slíku fólki líkamlega vernd, nefna má, að því marki sem nauðsyn krefur og er gerlegt, að finna því ný heimkynni og að heimila, þegar við á, að upplýsingum um hverjir eigi í hlut sé haldið leyndum svo og upplýsingum um dvalarstað þeirra eða að aðgangur að slíkum upplýsingum sé takmarkaður,
b)    að setja reglur um sönnunarfærslu sem heimila vitnaleiðslu með þeim hætti að öryggi vitna sé tryggt, til dæmis að heimilt sé að bera vitni með aðstoð samskiptatækni á borð við myndræn fjarskipti eða með því að beita öðrum ráðum sem duga.
3.     Aðildarríki skulu íhuga að ganga frá samningum við önnur ríki um eða koma á tilhögun þess að finna mönnum, sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar, ný heimkynni.
4.     Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um brotaþola að því marki sem þeir eru vitni.

25. gr.
Aðstoð við brotaþola og vernd þeirra.

1.     Hvert aðildarríki skal gera viðeigandi ráðstafanir, eftir bestu getu, til að veita brotaþolum, sem samningur þessi tekur til, aðstoð og vernd, einkum gegn hótunum um hefndir eða ógnunum.

2.     Hvert aðildarríki skal koma á viðeigandi verklagi til þess að tryggja þolendum brota, sem samningur þessi tekur til, aðgang að fébótum og skaðabótum.

3.     Hvert aðildarríki skal, með fyrirvara um ákvæði landslaga sinna, sjá til þess að unnt sé að koma sjónarmiðum brotaþola og málum, sem á þeim hvíla, á framfæri og fjalla um þau á viðeigandi stigum meðferðar sakamála, sem eru höfðuð gegn brotamönnum, með þeim hætti að réttindi varnaraðila séu ekki skert.

26. gr.
Ráðstafanir til að efla samstarf við
yfirvöld sem framfylgja lögum.

1.     Hvert aðildarríki skal gera viðeigandi ráðstafanir til að hvetja menn sem eru eða hafa verið í skipulögðum glæpasamtökum:
a)    til að veita lögbærum yfirvöldum upplýsingar sem koma að gagni við rannsókn og sönnunarfærslu viðvíkjandi:
    i)    því að bera kennsl á skipulögð glæpasamtök, átta sig á eðli þeirra, samsetningu, uppbyggingu og staðsetningu eða starfsemi þeirra,
    ii)    tengslum við önnur skipulögð glæpasamtök, meðal annars alþjóðlegum tengslum,
    iii)    brotum sem skipulögð glæpasamtök hafa framið eða kunna að fremja,
b)    til að veita lögbærum yfirvöldum raunverulega og hagnýta aðstoð sem kann að stuðla að því að unnt sé að svipta skipulögð glæpasamtök tilföngum eða ávinningi af glæpum.
2.     Hvert aðildarríki skal íhuga, þegar við á, að milda refsingu sakbornings sem veitir mikilvæga aðstoð við rannsókn eða saksókn vegna brots sem samningur þessi tekur til.

3.     Hvert aðildarríki skal íhuga þann kost, í samræmi við meginreglur landslaga sinna, að maður, sem veitir mikilvæga aðstoð við rannsókn eða saksókn vegna brots sem samningur þessi tekur til, sé undanþeginn saksókn.

4.     Slíkir menn skulu njóta verndar eins og kveðið er á um í 24. gr. samnings þessa.
5.     Sé maður, sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar og staddur er í einu aðildarríki, fær um að veita lögbærum yfirvöldum í öðru aðildarríki mikilvæga aðstoð geta hlutaðeigandi aðildarríki íhugað að ganga frá samningum eða fyrirkomulagi, í samræmi við landslög sín, þess efnis að síðarnefnda aðildarríkið veiti þá meðferð sem sett er fram í 2. og 3. mgr. þessarar greinar.


27. gr.
Samvinna um að framfylgja lögum.

1.     Aðildarríki skulu vinna náið saman, í samræmi við landslög og stjórnsýsluhætti hvers og eins, að því að auka skilvirkni aðgerða til að framfylgja lögum og stöðva brot sem samningur þessi tekur til. Hvert aðildarríki skal einkum samþykkja skilvirkar ráðstafanir til að:
a)    bæta og, þar sem nauðsyn krefur, koma á samskiptaleiðum milli lögbærra yfirvalda sinna, embætta og stofnana í því skyni að greiða fyrir öruggum og hröðum upplýsingaskiptum um alla þætti þeirra brota sem samningur þessi tekur til, meðal annars, telji hlutaðeigandi aðildarríki það viðeigandi, tengsl við aðra glæpastarfsemi,

b)    eiga samstarf við önnur aðildarríki um að rannsaka brot, sem samningur þessi tekur til, þar sem rannsókn beinist að:
    i)    því að bera kennsl á menn, sem eru grunaðir um að vera þátttakendur í slíkum brotum, að komast að dvalarstað þeirra og því við hvað þeir fást eða hvar aðrir menn, er hlut eiga að máli, halda sig,
    ii)    flutningi ávinnings af glæp eða eigna sem eru til komnar með því að fremja slík brot,

    iii)    flutningi eigna, búnaðar eða annarra gagna sem eru notuð eða til stendur að nota við að fremja slík brot,
c)    útvega, þegar við á, nauðsynlega muni eða efni í nægilegu magni til greiningar eða rannsóknar,

d)    greiða fyrir því að lögbær yfirvöld þeirra, embætti og stofnanir geti með skilvirkum hætti samræmt aðgerðir sínar og stuðla að starfsmanna- og sérfræðingaskiptum, meðal annars, með fyrirvara um tvíhliða samninga eða fyrirkomulag milli hlutaðeigandi aðildarríkja, því að koma fyrir samstarfsfulltrúum,
e)    skiptast á upplýsingum við önnur aðildarríki um sértækar aðferðir og úrræði, sem skipulögð glæpasamtök beita, meðal annars og eftir því sem við á um leiðir og farartæki og notkun falskra nafna, breyttra eða falsaðra skjala eða um aðrar aðferðir þeirra til að dylja starfsemi sína,
f)    skiptast á upplýsingum og samræma stjórnvaldsaðgerðir og aðrar ráðstafanir sem gripið er til, eftir því sem við á, í því skyni að uppgötva sem fyrst þau brot sem samningur þessi fjallar um.
2.     Aðildarríkin skulu, í því augnamiði að hrinda ákvæðum samnings þessa í framkvæmd, íhuga að ganga frá tvíhliða eða marghliða samningum eða fyrirkomulagi þess efnis að beint samstarf sé milli embætta þeirra, sem gegna því hlutverki að framfylgja lögum, og séu slíkir samningar eða fyrirkomulag þegar fyrir hendi, að gera breytingar á þeim eða því. Séu slíkir samningar milli hlutaðeigandi aðildarríkja eða fyrirkomulag ekki fyrir hendi geta þau litið á samning þennan sem grundvöll að gagnkvæmu samstarfi um að framfylgja lögum er um þau brot ræðir sem samningur þessi tekur til. Aðildarríki skulu, ætíð þegar það á við, nýta sér til fulls samninga eða fyrirkomulag, meðal annars alþjóðastofnanir eða svæðisstofnanir, í því skyni að efla samstarf milli embætta sinna sem gegna því hlutverki að framfylgja lögum.
3.     Aðildarríki skulu leitast við að vinna saman að því, eftir bestu getu, að bregðast við fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi þar sem beitt er nútímatækni.

28. gr.
Söfnun, gagnkvæm miðlun og úrvinnsla upplýsinga um eðli skipulagðrar glæpastarfsemi.

1.     Hvert aðildarríki skal íhuga að lýsa, í samráði við vísindastofnanir og háskóla, þróun skipulagðrar glæpastarfsemi á yfirráðasvæði sínu, þeim aðstæðum sem skipulögð glæpastarfsemi fer fram við, þeim samtökum sem fást við slíka iðju og þeirri tækni sem er beitt.
2.     Aðildarríki skulu íhuga að treysta sérfræðiþekkingu til skilningsauka á skipulagðri glæpastarfsemi og miðla slíkri þekkingu sín á milli og fyrir milligöngu alþjóðastofnana og svæðisstofnana. Setja ber fram sameiginlegar skilgreiningar, viðmiðanir og aðferðafræði í þessu skyni og beita eftir því sem við á.
3.     Hvert aðildarríki skal íhuga að hyggja að stefnumiðum sínum og aðgerðum í baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi og meta árangur af þeim og skilvirkni þeirra.

29. gr.
Þjálfun og tækniaðstoð.

1.     Hvert aðildarríki skal, að því marki sem nauðsyn krefur, koma af stað, þróa eða betrumbæta sértækar áætlanir um þjálfun þeirra starfsmanna sinna sem vinna við að framfylgja lögum, meðal annars saksóknara, rannsóknardómara og þeirra sem starfa við tollgæslu, og annarra starfsmanna sem er falið að koma í veg fyrir brot, sem samningur þessi tekur til, koma upp um þau og sporna gegn þeim. Slíkar áætlanir geta meðal annars tekið til þess að færa starfsmenn til í starfi tímabundið til þess að þeir geti gegnt sérstökum skyldustörfum og starfsmannaskipta. Fyrrnefndar áætlanir skulu, einkum og að því marki sem landslög heimila, taka til eftirtalinna þátta:
a)    aðferða sem er beitt við að koma í veg fyrir brot, sem samningur þessi tekur til, þess að koma upp um þau og sporna gegn þeim,
b)    leiða og aðferða sem menn, er grunaðir eru um að vera þátttakendur í brotum sem samningur þessi tekur til, nota, meðal annars í gegnumferðarríkjum, og til viðeigandi gagnaðgerða,
c)    eftirlits með flutningi smyglvarnings,
d)    þess að koma upp um og fylgjast með flutningi ávinnings af glæp, eigna, búnaðar eða annarra gagna og til aðferða, sem er beitt við að yfirfæra, leyna eða dylja þess háttar ávinning, eignir, búnað eða önnur gögn, og til aðferða sem er beitt í baráttu gegn peningaþvætti og öðrum fjármálabrotum,
e)    þess að afla sönnunargagna,
f)    aðferða við eftirlit á fríverslunarsvæðum og í fríhöfnum,
g)    nútímatækjabúnaðar og aðferða við að framfylgja lögum, nefna má rafrænt eftirlit, afhendingu undir eftirliti og leynilegar aðgerðir,
h)    aðferða sem er beitt í baráttu gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi þar sem notast er við tölvur, fjarskiptanet eða nútímatækni í annarri mynd og
i)    aðferða sem er beitt í því skyni að vernda brotaþola og vitni.
2.     Aðildarríki skulu aðstoða hvert annað við að skipuleggja og framkvæma rannsóknir og þjálfunaráætlanir, sem miða að sameiginlegri nýtingu sérfræðiþekkingar á þeim sviðum er um getur í 1. mgr. þessarar greinar, og skulu þau einnig, þegar við á, nýta svæðisbundnar og alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur í því skyni að treysta samvinnu og örva umræður um sameiginleg viðfangsefni, meðal annars sérstök viðfangsefni og þarfir gegnumferðarríkja.
3.     Aðildarríki skulu stuðla að þjálfun og tækniaðstoð sem munu auðvelda framsal og gagnkvæma dómsmálaaðstoð. Í slíkri þjálfun og tækniaðstoð getur falist þjálfun í notkun tungumála, tilfærsla manna í starfi tímabundið til þess að þeir geti gegnt sérstökum skyldustörfum og skipti á starfsmönnum umsjónarstjórnvalda eða embætta sem sinna verkefnum á því sviði sem hér um ræðir.
4.     Ef í gildi eru tvíhliða eða marghliða samningar eða fyrirkomulag skulu aðildarríki vinna að því, að því marki sem nauðsyn krefur, að sem mestar framkvæmdir og þjálfunarstarf geti farið fram innan alþjóðastofnana og svæðisstofnana og innan ramma annarra viðeigandi tvíhliða og marghliða samninga eða fyrirkomulags.

30. gr.
Aðrar ráðstafanir: Framkvæmd
samningsins fyrir tilverknað
hagþróunar og tækniaðstoðar.

1.     Aðildarríki skulu, eftir því sem við verður komið og með samvinnu þjóða í milli, gera ráðstafanir sem stuðla að því að samningur þessi komi til framkvæmda eins og best verður á kosið og taka mið af þeim neikvæðu áhrifum sem skipulögð glæpastarfsemi hefur á samfélagið í heild, einkum á sjálfbæra þróun.
2.     Aðildarríki skulu leitast við, á raunsannan hátt og eftir því sem við verður komið og í samstarfi sín á milli og við alþjóðastofnanir og svæðisstofnanir:

a)    að efla samstarf sitt á ýmsum stigum við þróunarlönd í því skyni að auka getu þeirra til þess að koma í veg fyrir og berjast gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi,
b)    að efla fjárhagslega og efnislega aðstoð til stuðnings þeirri viðleitni þróunarlanda að ná árangri í baráttu gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi og að aðstoða þau við að framkvæma samning þennan á skilvirkan hátt,
c)    að veita þróunarlöndum og löndum, þar sem umskipti eru að eiga sér stað í efnahagslífi, tækniaðstoð sem geri þeim kleift að hrinda ákvæðum samnings þessa í framkvæmd. Aðildarríki skulu leitast við, í þessu skyni, að leggja, af fúsum og frjálsum vilja, nægilegar fjárhæðir reglulega í sjóð sem er sérstaklega auðkenndur í fyrrnefndum tilgangi innan sjóðakerfis Sameinuðu þjóðanna. Aðildarríki geta og íhugað sérstaklega, í samræmi við landslög sín og ákvæði samnings þessa, að leggja í fyrrnefndan sjóð tiltekinn hundraðshluta þeirra peninga eða tilsvarandi verðmætis ávinnings af glæpum eða eigna sem eru gerð upptæk í samræmi við ákvæði samnings þessa,
d)    að hvetja önnur ríki og fjármálastofnanir, eftir atvikum, og fá þau til þess að ganga til liðs við sig einkum í þeirri viðleitni sem fjallað er um í þessari grein, að sjá þróunarlöndum fyrir meiri þjálfun og nútímalegum búnaði í þeim tilgangi að aðstoða þau við að ná markmiðum þessa samnings.
3.     Fyrrnefndar ráðstafanir skulu, að því marki sem frekast er unnt, engin áhrif hafa á gildandi skuldbindingar um aðstoð við erlend ríki eða annað tvíhliða, svæðisbundið eða alþjóðlegt fyrirkomulag samvinnu á sviði fjármála.
4.     Aðildarríki geta gert tvíhliða eða marghliða samninga eða gengið frá fyrirkomulagi er lýtur að efnislegri aðstoð og aðstoð á sviði skipulagningar flókinna fyrirbæra, þar sem tillit er tekið til fjárhagslegra ráðstafana sem eru nauðsynlegar til að meðul alþjóðlegrar samvinnu, sem kveðið er á um í samningi þessum, verði áhrifarík og stuðli að því að koma í veg fyrir, koma upp um og sporna gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi.

31. gr.
Forvarnarstarf.

1.     Aðildarríki skulu leitast við að semja og leggja mat á landsáætlanir og að koma á og stuðla að bestu starfsvenjum og framgangi stefnumiða til að koma í veg fyrir fjölþjóðlega skipulagða glæpastarfsemi.
2.     Aðildarríki skulu leitast við, í samræmi við meginreglur landslaga sinna, að aftra skipulögðum glæpasamtökum, í nútíð og framtíð, frá því að nota ávinning af glæpum til þátttöku í löglegri markaðsstarfsemi með því að beita viðeigandi aðferðum á sviði löggjafar og stjórnsýslu og öðrum aðferðum í því augnamiði að:
a)    efla samvinnu milli embætta, sem gegna því hlutverki að framfylgja lögum, eða saksóknara og viðkomandi einkaaðila, meðal annars innan atvinnulífsins,
b)    stuðla að því að mótaðar verði viðmiðunarreglur og starfsaðferðir til þess að tryggja ráðvendni opinberra aðila og viðkomandi einkaaðila og siðareglur fyrir viðkomandi starfsgreinar, einkum lögmenn, lögbókendur, skattaráðgjafa og bókhaldara,
c)    koma í veg fyrir að skipulögð glæpasamtök misnoti reglur um útboð á vegum stjórnvalda og styrki og leyfi sem stjórnvöld veita vegna atvinnustarfsemi,

d)    koma í veg fyrir að lögaðilar séu misnotaðir af skipulögðum glæpasamtökum, en slíkar ráðstafanir geta falist í því að:
    i)    koma á opinberri skráningu lögaðila og einstaklinga sem fást við að stofnsetja lögaðila, að hafa umsjón með þeim og að útvega þeim fé,
    ii)    unnt sé, með dómsúrskurði eða eftir öðrum færum leiðum og til hæfilega langs tíma, að gera menn, sem hafa verið sakfelldir fyrir brot sem samningur þessi tekur til, vanhæfa til þess að starfa sem stjórnendur lögaðila sem hafa verið stofnsettir innan lögsagnarumdæmis þeirra,
    iii)    koma innanlands á skráningu þeirra manna sem hafa verið gerðir vanhæfir til að starfa sem stjórnendur lögaðila, og
    iv)    skiptast á upplýsingum, sem skrárnar, sem um getur í i- og iii-lið d-liðar þessarar málsgreinar, hafa að geyma, við lögbær yfirvöld í öðrum aðildarríkjum.
3.     Aðildarríki skulu gera sér far um að stuðla að því að menn, sem hafa verið sakfelldir fyrir brot sem samningur þessi tekur til, verði aðlagaðir samfélaginu að nýju.
4.     Aðildarríki skulu leitast við að yfirfara reglulega gildandi og viðeigandi lagagerninga og stjórnsýsluframkvæmd í því skyni að ganga úr skugga um hvort þar sé að finna tækifæri til misbeitingar af hálfu skipulagðra glæpasamtaka.
5.     Aðildarríki skulu leitast við að efla vitund almennings um tilvist fjölþjóðlegrar skipulagðrar glæpastarfsemi, ástæður hennar og þá hættu og þá ógn sem slíkri starfsemi fylgir. Upplýsingum má dreifa gegnum fjölmiðla þegar við á, meðal annars um aðferðir til að auka þátttöku almennings í forvarnarstarfi og baráttu gegn fyrrnefndum glæpum.
6.     Hvert aðildarríki skal skýra aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna frá nafni og aðsetri þess yfirvalds eða þeirra yfirvalda sem geta liðsinnt öðrum aðildarríkjum við að móta aðferðir til að sporna gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi.
7.     Aðildarríki skulu, eftir því sem við á, vinna saman innbyrðis, og með hlutaðeigandi alþjóðastofnunum og svæðisstofnunum, að því að koma á og móta þær aðferðir sem um getur í þessari grein. Um ræðir, meðal annars, þátttöku í alþjóðlegum verkefnum sem miða að því að koma í veg fyrir fjölþjóðlega skipulagða glæpastarfsemi, til dæmis með því að aflétta ástandi sem gerir jaðarhópa í félagslegu tilliti viðkvæma fyrir slíkri starfsemi.

32. gr.
Ráðstefna samningsaðila.

1.     Hér með er komið á fót ráðstefnu samningsaðila í því augnamiði að auka getu aðildarríkja til þess að berjast gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi og stuðla að og endurskoða framkvæmd samnings þessa.
2.     Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal boða til ráðstefnu samningsaðila eigi síðar en einu ári eftir að samningur þessi öðlast gildi. Ráðstefna samningsaðila setur sér starfsreglur og reglur um þær aðgerðir sem er lýst í 3. og 4. mgr. þessarar greinar (meðal annars reglur um greiðslu kostnaðar vegna þeirra).

3.     Á ráðstefnunni skulu samningsaðilar koma sér saman um leiðir til að ná þeim markmiðum sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar, meðal annars leiðir til að:
a)    auðvelda aðgerðir aðildarríkja skv. 29., 30. og 31. gr. samnings þessa, meðal annars með því að hvetja til frjálsra framlaga,

b)    greiða fyrir því að aðildarríki geti, með gagnkvæmum hætti, miðlað upplýsingum um mynstur og þróun fjölþjóðlegrar skipulagðrar glæpastarfsemi og um árangursríkar aðferðir til að berjast gegn slíkri starfsemi,
c)    vinna með hlutaðeigandi alþjóðastofnunum, svæðisstofnunum og frjálsum félagasamtökum,

d)    endurskoða reglulega framkvæmd samnings þessa,
e)    mæla fyrir um hvernig betrumbæta megi samning þennan og framkvæmd hans.
4.     Ráðstefna samningsaðila skal, að því er varðar ákvæði d- og e-liðar 3. mgr. þessarar greinar, afla sér nauðsynlegrar þekkingar á þeim aðferðum sem aðildarríki beita til þess að hrinda ákvæðum samnings þessa í framkvæmd og erfiðleikum því samfara með því að nýta sér þær upplýsingar sem aðildarríkin láta í té og þá aukalegu endurskoðun sem ráðstefna samningsaðila kann að ákveða.
5.     Hvert aðildarríki skal láta ráðstefnu samningsaðila í té upplýsingar um áætlanir sínar, fyrirætlanir og starfshætti og lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu samningi þessum til framkvæmdar, eins og ráðstefnan kann að gera kröfu um.

33. gr.
Skrifstofan.

1.     Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal sjá ráðstefnu samningsaðila fyrir nauðsynlegri skrifstofuþjónustu.
2.     Skrifstofan skal:
a)    aðstoða ráðstefnu samningsaðila við að hrinda þeim aðgerðum sem er lýst í 32. gr. samnings þessa í framkvæmd og gera ráðstafanir og veita nauðsynlega þjónustu vegna funda ráðstefnu samningsaðila,
b)    aðstoða aðildarríki, komi fram beiðni þar um, við að láta ráðstefnu samningsaðila í té upplýsingar eins og gert er ráð fyrir skv. 5. mgr. 32. gr. samnings þessa, og
c)    tryggja nauðsynlegt samræmi við aðgerðir skrifstofa hlutaðeigandi alþjóðastofnana og svæðisstofnana.

34. gr.
Framkvæmd samningsins.

1.     Hvert aðildarríki skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, meðal annars á sviði lagasetningar og stjórnsýslu, í samræmi við meginreglur landslaga sinna til þess að tryggt sé að það standi við skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum.
2.     Brot, sem gerð eru refsiverð skv. 5., 6., 8. og 23. gr. samnings þessa, skulu gerð refsiverð samkvæmt landslögum hvers samningsríkis óháð því hvort þau eru fjölþjóðleg eða framin með þátttöku skipulagðra glæpasamtaka, eins og um getur í 1. mgr. 3. gr. samnings þessa, nema að því leyti sem gert yrði ráð fyrir þátttöku skipulagðra glæpasamtaka skv. 5. gr. samnings þessa.

3.     Hvert aðildarríki getur samþykkt ákveðnari eða strangari ráðstafanir en kveðið er á um í samningi þessum í því skyni að koma í veg fyrir og berjast gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi.

35. gr.
Lausn deilumála.

l.     Aðildarríki skulu leitast við að leysa deilur um túlkun eða beitingu ákvæða samnings þessa með samningaviðræðum.
2.     Deila milli tveggja eða fleiri aðildarríkja um túlkun eða beitingu ákvæða samnings þessa, sem ekki er unnt að leysa með samningaviðræðum innan hæfilegs tíma, skal lögð í gerð að ósk annars eða eins þeirra. Hafi fyrrnefnd aðildarríki ekki komið sér saman um hvernig gerðardómsmeðferð skuli hagað, sex mánuðum eftir að gerðar er óskað, getur hvort eða hvert þeirra vísað deilunni til Alþjóðadómstólsins í Haag með beiðni samkvæmt stofnsamþykkt hans.

3.     Hvert aðildarríki getur, við undirritun samnings þessa, eða þegar það fullgildir, staðfestir eða samþykkir samninginn eða gerist aðili að honum, lýst því yfir að það telji sig óbundið af ákvæðum 2. mgr. þessarar greinar. Önnur aðildarríki skulu ekki bundin af ákvæðum 2. mgr. þessarar greinar gagnvart aðildarríki sem gert hefur slíkan fyrirvara.
4.     Aðildarríki, sem hefur gert fyrirvara í samræmi við ákvæði 3. mgr. þessarar greinar, getur hvenær sem er afturkallað hann með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

36. gr.
Undirritun, fullgilding, staðfesting,
samþykki og aðild.

1.     Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu allra ríkja í Palermó á Ítalíu frá 12. til 15. desember 2000 og eftir það í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York fram til 12. desember 2002.
2.     Samningur þessi skal einnig liggja frammi til undirritunar af hálfu svæðisstofnana um efnahagssamvinnu að því tilskildu að minnst eitt aðildarríki slíkrar stofnunar hafi undirritað samning þennan í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar.
3.     Samningur þessi er með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu. Svæðisstofnun um efnahagssamvinnu getur afhent skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu hafi að minnsta kosti eitt aðildarríki hennar gert það. Slík stofnun skal, í fyrrnefndu skjali sínu um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki, lýsa yfir hvert valdsvið hennar er í þeim málum sem samningur þessi tekur til. Enn fremur skal slík stofnun tilkynna vörsluaðila um hverja þá breytingu sem verður á valdsviði hennar og skiptir máli.
4.     Samningur þessi skal liggja frammi til aðildar fyrir öll ríki eða svæðisstofnanir um efnahagssamvinnu ef að minnsta kosti eitt aðildarríki slíkrar stofnunar er aðili að samningi þessum. Aðildarskjöl skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu. Svæðisstofnun um efnahagssamvinnu skal, jafnhliða aðild, lýsa yfir hvert valdsvið hennar er í þeim málum sem samningur þessi tekur til. Enn fremur skal slík stofnun tilkynna vörsluaðila um hverja þá breytingu sem verður á valdsviði hennar og skiptir máli.

37. gr.
Tengsl við bókanir.

1.     Gera má eina eða fleiri bókanir við samning þennan honum til fyllingar.
2.     Til að gerast aðili að bókun verður ríki eða svæðisstofnun um efnahagssamvinnu einnig að vera aðili að samningi þessum.
3.     Aðildarríki að samningi þessum er ekki bundið af bókun nema það gerist aðili að henni í samræmi við ákvæði hennar.
4.     Túlka ber hverja bókun við samning þennan í samhengi við samning þennan, að teknu tilliti til þess tilgangs sem bókunin þjónar.

38. gr.
Gildistaka.

1.     Samningur þessi öðlast gildi á nítugasta degi eftir þann dag er fertugasta skjalið um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er afhent til vörslu. Að því er varðar þessa málsgrein skal ekki litið svo á að skjal, sem svæðisstofnun um efnahagssamvinnu afhendir til vörslu, komi til viðbótar þeim skjölum sem aðildarríki slíkrar stofnunar hafa afhent til vörslu.
2.     Að því er varðar ríki eða svæðisstofnun um efnahagssamvinnu, sem fullgildir, staðfestir eða samþykkir samning þennan eða gerist aðili að honum eftir afhendingu fertugasta skjalsins um slíka athöfn til vörslu, skal samningur þessi öðlast gildi á þrítugasta degi eftir þann dag er hlutaðeigandi ríki eða slík stofnun afhendir viðeigandi skjal til vörslu.

39. gr.
Breytingar.

1.     Aðildarríki getur, eftir að fimm ár eru liðin frá gildistöku samnings þessa, gert tillögu til breytinga á honum og lagt fyrir aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem að svo búnu skal framsenda breytingartillöguna aðildarríkjunum og ráðstefnu samningsaðila til umfjöllunar og ákvörðunar. Ráðstefna samningsaðila skal leitast við af fremsta megni að afgreiða hverja breytingu með samhljóða samþykki. Hafi allar tilraunir til að samþykkja breytingartillöguna með samhljóða samþykki reynst árangurslausar og hafi samkomulag ekki náðst er, sem síðasta úrræði, gerð krafa um að tillagan verði samþykkt með atkvæðum tveggja þriðju hluta þeirra aðildarríkja sem eiga fulltrúa sem eru viðstaddir og greiða atkvæði á fundi á ráðstefnu samningsaðila.
2.     Svæðisstofnanir um efnahagssamvinnu skulu, í málum sem eru á valdsviði þeirra, neyta atkvæðisréttar síns, samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, með sama fjölda atkvæða og fjöldi aðildarríkja að þeim, sem eru aðilar að samningi þessum, segir til um. Slíkar stofnanir skulu ekki neyta atkvæðisréttar síns neyti aðildarríki þeirra síns eigin atkvæðisréttar og öfugt.
3.     Breyting, sem er samþykkt í samræmi við ákvæði 1. mgr. þessarar greinar, er með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki aðildarríkja.
4.     Breyting, sem er samþykkt í samræmi við ákvæði 1. mgr. þessarar greinar, öðlast gildi gagnvart aðildarríki níutíu dögum eftir þann dag þegar aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna er afhent skjal um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki slíkrar breytingar til vörslu.
5.     Er breyting öðlast gildi er hún bindandi fyrir þau aðildarríki sem hafa lýst sig samþykk því að vera bundin af henni. Önnur aðildarríki eru eigi að síður bundin af ákvæðum samnings þessa og fyrri breytingum sem þau hafa fullgilt, staðfest eða samþykkt.


40. gr.
Uppsögn.

1.     Aðildarríki getur sagt upp samningi þessum með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Uppsögnin tekur gildi einu ári eftir þann dag þegar aðalframkvæmdastjórinn veitir tilkynningunni viðtöku.
2.     Aðild svæðisstofnunar um efnahagssamvinnu að samningi þessum lýkur þegar öll aðildarríki hennar hafa sagt honum upp.
3.     Uppsögn samnings þessa, í samræmi við ákvæði 1. mgr. þessarar greinar, hefur í för með sér uppsögn bókunar eða bókana við hann.

41. gr.
Vörsluaðili og tungumál.

1.     Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna er tilnefndur vörsluaðili samnings þessa.
2.     Frumrit samnings þessa, en textar þess á arabísku, ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spænsku eru jafngildir, skal afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.

    ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð ríkisstjórna sinna, undirritað samning þennan.

UNITED NATIONS CONVENTION
AGAINST TRANSNATIONAL
ORGANIZED CRIME


Article 1
Statement of purpose

    The purpose of this Convention is to promote cooperation to prevent and combat transnational organized crime more effectively.


Article 2
Use of terms

    For the purposes of this Convention:

(a)    “Organized criminal group” shall mean a structured group of three or more persons, existing for a period of time and acting in concert with the aim of committing one or more serious crimes or offences established in accordance with this Convention, in order to obtain, directly or indirectly, a financial or other material benefit;
(b)    “Serious crime” shall mean conduct constituting an offence punishable by a maximum deprivation of liberty of at least four years or a more serious penalty;
(c)    “Structured group” shall mean a group that is not randomly formed for the immediate commission of an offence and that does not need to have formally defined roles for its members, continuity of its membership or a developed structure;

(d)    “Property” shall mean assets of every kind, whether corporeal or incorporeal, movable or immovable, tangible or intangible, and legal documents or instruments evidencing title to, or interest in, such assets;
(e)    “Proceeds of crime” shall mean any property derived from or obtained, directly or indirectly, through the commission of an offence;
(f)    “Freezing” or “seizure” shall mean temporarily prohibiting the transfer, conversion, disposition or movement of property or temporarily assuming custody or control of property on the basis of an order issued by a court or other competent authority;
(g)    “Confiscation”, which includes forfeiture where applicable, shall mean the permanent deprivation of property by order of a court or other competent authority;
(h)    “Predicate offence” shall mean any offence as a result of which proceeds have been generated that may become the subject of an offence as defined in article 6 of this Convention;
(i)    “Controlled delivery” shall mean the technique of allowing illicit or suspect consignments to pass out of, through or into the territory of one or more States, with the knowledge and under the supervision of their competent authorities, with a view to the investigation of an offence and the identification of persons involved in the commission of the offence;
(j)    “Regional economic integration organization” shall mean an organization constituted by sovereign States of a given region, to which its member States have transferred competence in respect of matters governed by this Convention and which has been duly authorized, in accordance with its internal procedures, to sign, ratify, accept, approve or accede to it; references to “States Parties” under this Convention shall apply to such organizations within the limits of their competence.

Article 3
Scope of application

1.     This Convention shall apply, except as otherwise stated herein, to the prevention, investigation and prosecution of:
(a)    The offences established in accordance with articles 5, 6, 8 and 23 of this Convention; and
(b)    Serious crime as defined in article 2 of this Convention;
where the offence is transnational in nature and involves an organized criminal group.
2.     For the purpose of paragraph 1 of this article, an offence is transnational in nature if:
(a)    It is committed in more than one State;
(b)    It is committed in one State but a substantial part of its preparation, planning, direction or control takes place in another State;
(c)    It is committed in one State but involves an organized criminal group that engages in criminal activities in more than one State; or
(d)    It is committed in one State but has substantial effects in another State.

Article 4
Protection of sovereignty

1.     States Parties shall carry out their obligations under this Convention in a manner consistent with the principles of sovereign equality and territorial integrity of States and that of non-intervention in the domestic affairs of other States.

2.     Nothing in this Convention entitles a State Party to undertake in the territory of another State the exercise of jurisdiction and performance of functions that are reserved exclusively for the authorities of that other State by its domestic law.

Article 5
Criminalization of participation in
an organized criminal group

1.     Each State Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to establish as criminal offences, when committed intentionally:

(a)    Either or both of the following as criminal offences distinct from those involving the attempt or completion of the criminal activity:

    (i)    Agreeing with one or more other persons to commit a serious crime for a purpose relating directly or indirectly to the obtaining of a financial or other material benefit and, where required by domestic law, involving an act undertaken by one of the participants in furtherance of the agreement or involving an organized criminal group;
    (ii)    Conduct by a person who, with knowledge of either the aim and general criminal activity of an organized criminal group or its intention to commit the crimes in question, takes an active part in:
         a.    Criminal activities of the organized criminal group;
         b.    Other activities of the organized criminal group in the knowledge that his or her participation will contribute to the achievement of the above-described criminal aim;
(b)    Organizing, directing, aiding, abetting, facilitating or counselling the commission of serious crime involving an organized criminal group.

2.     The knowledge, intent, aim, purpose or agreement referred to in paragraph 1 of this article may be inferred from objective factual circumstances.

3.     States Parties whose domestic law requires involvement of an organized criminal group for purposes of the offences established in accordance with paragraph 1 (a) (i) of this article shall ensure that their domestic law covers all serious crimes involving organized criminal groups. Such States Parties, as well as States Parties whose domestic law requires an act in furtherance of the agreement for purposes of the offences established in accordance with paragraph 1 (a) (i) of this article, shall so in form the Secretary-General of the United Nations at the time of their signature or of deposit of their instrument of ratification, acceptance or approval of or accession to this Convention.


Article 6
Criminalization of the laundering
of proceeds of crime

1.     Each State Party shall adopt, in accordance with fundamental principles of its domestic law, such legislative and other measures as may be necessary to establish as criminal offences, when committed intentionally:
(a) (i)    The conversion or transfer of property, knowing that such property is the proceeds of crime, for the purpose of concealing or disguising the illicit origin of the property or of helping any person who is involved in the commission of the predicate offence to evade the legal consequences of his or her action;
    (ii)    The concealment or disguise of the true nature, source, location, disposition, movement or ownership of or rights with respect to property, knowing that such property is the proceeds of crime;
(b)    Subject to the basic concepts of its legal system:

    (i)    The acquisition, possession or use of property, knowing, at the time of receipt, that such property is the proceeds of crime;
    (ii)    Participation in, association with or conspiracy to commit, attempts to commit and aiding, abetting, facilitating and counselling the commission of any of the offences established in accordance with this article.
2.     For purposes of implementing or applying paragraph 1 of this article:
(a)    Each State Party shall seek to apply paragraph 1 of this article to the widest range of predicate offences;
(b)    Each State Party shall include as predicate offences all serious crime as defined in article 2 of this Convention and the offences established in accordance with articles 5, 8 and 23 of this Convention. In the case of States Parties whose legislation sets out a list of specific predicate offences, they shall, at a minimum, include in such list a comprehensive range of offences associated with organized criminal groups;
(c)    For the purposes of subparagraph (b), predicate offences shall include offences committed both within and outside the jurisdiction of the State Party in question. However, offences committed outside the jurisdiction of a State Party shall constitute predicate offences only when the relevant conduct is a criminal offence under the domestic law of the State where it is committed and would be a criminal offence under the domestic law of the State Party implementing or applying this article had it been committed there;
(d)    Each State Party shall furnish copies of its laws that give effect to this article and of any subsequent changes to such laws or a description thereof to the Secretary-General of the United Nations;
(e)    If required by fundamental principles of the domestic law of a State Party, it may be provided that the offences set forth in paragraph 1 of this article do not apply to the persons who committed the predicate offence;
(f)    Knowledge, intent or purpose required as an element of an offence set forth in paragraph 1 of this article may be inferred from objective factual circumstances.

Article 7
Measures to combat money-laundering

1.     Each State Party:
(a)    Shall institute a comprehensive domestic regulatory and supervisory regime for banks and non- bank financial institutions and, where appropriate, other bodies particularly susceptible to money-laundering, within its competence, in order to deter and detect all forms of money- laundering, which regime shall emphasize requirements for customer identification, record- keeping and the reporting of suspicious transactions;

(b)    Shall, without prejudice to articles 18 and 27 of this Convention, ensure that administrative, regulatory, law enforcement and other authorities dedicated to combating money-laundering (including, where appropriate under domestic law, judicial authorities) have the ability to cooperate and exchange information at the national and international levels within the conditions prescribed by its domestic law and, to that end, shall consider the establishment of a financial intelligence unit to serve as a national centre for the collection, analysis and dissemination of information regarding potential money-laundering.
2.     States Parties shall consider implementing feasible measures to detect and monitor the movement of cash and appropriate negotiable instruments across their borders, subject to safeguards to ensure proper use of information and without impeding in any way the movement of legitimate capital. Such measures may include a requirement that individuals and businesses report the cross-border transfer of substantial quantities of cash and appropriate negotiable instruments.
3.     In establishing a domestic regulatory and supervisory regime under the terms of this article, and without prejudice to any other article of this Convention, States Parties are called upon to use as a guideline the relevant initiatives of regional, interregional and multilateral organizations against money-laundering.
4.     States Parties shall endeavour to develop and promote global, regional, subregional and bilateral cooperation among judicial, law enforcement and financial regulatory authorities in order to combat money-laundering.


Article 8
Criminalization of corruption

1.     Each State Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to establish as criminal offences, when committed intentionally:

(a)    The promise, offering or giving to a public official, directly or indirectly, of an undue advantage, for the official himself or herself or another person or entity, in order that the official act or refrain from acting in the exercise of his or her official duties;
(b)    The solicitation or acceptance by a public official, directly or indirectly, of an undue advantage, for the official himself or herself or another person or entity, in order that the official act or refrain from acting in the exercise of his or her official duties.
2.     Each State Party shall consider adopting such legislative and other measures as may be necessary to establish as criminal offences conduct referred to in paragraph 1 of this article involving a foreign public official or international civil servant. Likewise, each State Party shall consider establishing as criminal offences other forms of corruption.

3.     Each State Party shall also adopt such measures as may be necessary to establish as a criminal offence participation as an accomplice in an offence established in accordance with this article.
4.     For the purposes of paragraph 1 of this article and article 9 of this Convention, “public official” shall mean a public official or a person who provides a public service as defined in the domestic law and as applied in the criminal law of the State Party in which the person in question performs that function.

Article 9
Measures against corruption

1.     In addition to the measures set forth in article 8 of this Convention, each State Party shall, to the extent appropriate and consistent with its legal system, adopt legislative, administrative or other effective measures to promote integrity and to prevent, detect and punish the corruption of public officials.


2.     Each State Party shall take measures to ensure effective action by its authorities in the prevention, detection and punishment of the corruption of public officials, including providing such authorities with adequate independence to deter the exertion of inappropriate influence on their actions.

Article 10
Liability of legal persons

1.     Each State Party shall adopt such measures as may be necessary, consistent with its legal principles, to establish the liability of legal persons for participation in serious crimes involving an organized criminal group and for the offences established in accordance with articles 5, 6, 8 and 23 of this Convention.
2.     Subject to the legal principles of the State Party, the liability of legal persons may be criminal, civil or administrative.
3.     Such liability shall be without prejudice to the criminal liability of the natural persons who have committed the offences.
4.     Each State Party shall, in particular, ensure that legal persons held liable in accordance with this article are subject to effective, proportionate and dissuasive criminal or non-criminal sanctions, including monetary sanctions.

Article 11
Prosecution, adjudication and sanctions

1.     Each State Party shall make the commission of an offence established in accordance with articles 5, 6, 8 and 23 of this Convention liable to sanctions that take into account the gravity of that offence.
2.     Each State Party shall endeavour to ensure that any discretionary legal powers under its domestic law relating to the prosecution of persons for offences covered by this Convention are exercised to maximize the effectiveness of law enforcement measures in respect of those offences and with due regard to the need to deter the commission of such offences.
3.     In the case of offences established in accordance with articles 5, 6, 8 and 23 of this Convention, each State Party shall take appropriate measures, in accor dance with its domestic law and with due regard to the rights of the defence, to seek to ensure that conditions imposed in connection with decisions on release pending trial or appeal take into consideration the need to ensure the presence of the defendant at subsequent criminal proceedings.


4.     Each State Party shall ensure that its courts or other competent authorities bear in mind the grave nature of the offences covered by this Convention when considering the eventuality of early release or parole of persons convicted of such offences.

5.     Each State Party shall, where appropriate, establish under its domestic law a long statute of limitations period in which to commence proceedings for any offence covered by this Convention and a longer period where the alleged offender has evaded the administration of justice.
6.     Nothing contained in this Convention shall affect the principle that the description of the offences established in accordance with this Convention and of the applicable legal defences or other legal principles controlling the lawfulness of conduct is reserved to the domestic law of a State Party and that such offences shall be prosecuted and punished in accordance with that law.

Article 12
Confiscation and seizure

1.     States Parties shall adopt, to the greatest extent possible within their domestic legal systems, such measures as may be necessary to enable confiscation of:
(a)    Proceeds of crime derived from offences covered by this Convention or property the value of which corresponds to that of such proceeds;
(b)    Property, equipment or other instrumentalities used in or destined for use in offences covered by this Convention.
2.     States Parties shall adopt such measures as may be necessary to enable the identification, tracing, freezing or seizure of any item referred to in paragraph 1 of this article for the purpose of eventual confiscation.
3.     If proceeds of crime have been transformed or converted, in part or in full, into other property, such property shall be liable to the measures referred to in this article instead of the proceeds.
4.     If proceeds of crime have been intermingled with property acquired from legitimate sources, such property shall, without prejudice to any powers relating to freezing or seizure, be liable to confiscation up to the assessed value of the intermingled pro ceeds.
5.     Income or other benefits derived from proceeds of crime, from property into which proceeds of crime have been transformed or converted or from property with which proceeds of crime have been intermingled shall also be liable to the measures referred to in this article, in the same manner and to the same extent as proceeds of crime.
6.     For the purposes of this article and article 13 of this Convention, each State Party shall empower its courts or other competent authorities to order that bank, financial or commercial records be made available or be seized. States Parties shall not decline to act under the provisions of this paragraph on the ground of bank secrecy.
7.     States Parties may consider the possibility of requiring that an offender demonstrate the lawful origin of alleged proceeds of crime or other property liable to confiscation, to the extent that such a requirement is consistent with the principles of their domestic law and with the nature of the judicial and other proceedings.
8.     The provisions of this article shall not be construed to prejudice the rights of bona fide third parties.
9.     Nothing contained in this article shall affect the principle that the measures to which it refers shall be defined and implemented in accordance with and subject to the provisions of the domestic law of a State Party.

Article 13
International cooperation for
purposes of confiscation

1.     A State Party that has received a request from another State Party having jurisdiction over an offence covered by this Convention for confiscation of proceeds of crime, property, equipment or other instrumentalities referred to in article 12, paragraph 1, of this Convention situated in its territory shall, to the greatest extent possible within its domestic legal system:
(a)    Submit the request to its competent authorities for the purpose of obtaining an order of confiscation and, if such an order is granted, give effect to it; or
(b)    Submit to its competent authorities, with a view to giving effect to it to the extent requested, an order of confiscation issued by a court in the territory of the requesting State Party in accordance with article 12, paragraph 1, of this Convention insofar as it relates to proceeds of crime, property, equipment or other instrumentalities referred to in article 12, paragraph 1, situated in the territory of the requested State Party.
2.     Following a request made by another State Party having jurisdiction over an offence covered by this Convention, the requested State Party shall take measures to identify, trace and freeze or seize proceeds of crime, property, equipment or other instrumentalities referred to in article 12, paragraph 1, of this Convention for the purpose of eventual confiscation to be ordered either by the requesting State Party or, pursuant to a request under paragraph 1 of this article, by the requested State Party.

3.     The provisions of article 18 of this Convention are applicable, mutatis mutandis, to this article. In addition to the information specified in article 18, paragraph 15, requests made pursuant to this article shall contain:
(a)    In the case of a request pertaining to paragraph 1 (a) of this article, a description of the property to be confiscated and a statement of the facts relied upon by the requesting State Party sufficient to enable the requested State Party to seek the order under its domestic law;
(b)    In the case of a request pertaining to paragraph 1 (b) of this article, a legally admissible copy of an order of confiscation upon which the request is based issued by the requesting State Party, a statement of the facts and information as to the extent to which execution of the order is requested;
(c)    In the case of a request pertaining to paragraph 2 of this article, a statement of the facts relied upon by the requesting State Party and a description of the actions requested.
4.     The decisions or actions provided for in paragraphs 1 and 2 of this article shall be taken by the requested State Party in accordance with and subject to the provisions of its domestic law and its procedural rules or any bilateral or multilateral treaty, agreement or arrangement to which it may be bound in relation to the requesting State Party.

5.     Each State Party shall furnish copies of its laws and regulations that give effect to this article and of any subsequent changes to such laws and regulations or a description thereof to the Secretary-General of the United Nations.
6.     If a State Party elects to make the taking of the measures referred to in paragraphs 1 and 2 of this article conditional on the existence of a relevant treaty, that State Party shall consider this Convention the necessary and sufficient treaty basis.

7.     Cooperation under this article may be refused by a State Party if the offence to which the request relates is not an offence covered by this Convention.

8.     The provisions of this article shall not be construed to prejudice the rights of bona fide third parties.
9.     States Parties shall consider concluding bilateral or multilateral treaties, agreements or arrangements to enhance the effectiveness of international cooperation undertaken pursuant to this article.


Article 14
Disposal of confiscated proceeds of
crime or property

1.     Proceeds of crime or property confiscated by a State Party pursuant to articles 12 or 13, paragraph 1, of this Convention shall be disposed of by that State Party in accordance with its domestic law and administrative procedures.
2.     When acting on the request made by another State Party in accordance with article 13 of this Convention, States Parties shall, to the extent permitted by domestic law and if so requested, give priority consideration to returning the confiscated proceeds of crime or property to the requesting State Party so that it can give compensation to the victims of the crime or return such proceeds of crime or property to their legitimate owners.
3.     When acting on the request made by another State Party in accordance with articles 12 and 13 of this Convention, a State Party may give special consideration to concluding agreements or arrangements on:
(a)    Contributing the value of such proceeds of crime or property or funds derived from the sale of such proceeds of crime or property or a part thereof to the account designated in accordance with article 30, paragraph 2 (c), of this Convention and to intergovernmental bodies specializing in the fight against organized crime;
(b)    Sharing with other States Parties, on a regular or case-by-case basis, such proceeds of crime or property, or funds derived from the sale of such proceeds of crime or property, in accordance with its domestic law or administrative procedures.

Article 15
Jurisdiction

1.     Each State Party shall adopt such measures as may be necessary to establish its jurisdiction over the offences established in accordance with articles 5, 6, 8 and 23 of this Convention when:

(a)    The offence is committed in the territory of that State Party; or
(b)    The offence is committed on board a vessel that is flying the flag of that State Party or an aircraft that is registered under the laws of that State Party at the time that the offence is committed.
2.     Subject to article 4 of this Convention, a State Party may also establish its jurisdiction over any such offence when:
(a)    The offence is committed against a national of that State Party;
(b)    The offence is committed by a national of that State Party or a stateless person who has his or her habitual residence in its territory; or
(c)    The offence is:
    (i)    One of those established in accordance with article 5, paragraph 1, of this Convention and is committed outside its territory with a view to the commission of a serious crime within its territory;
    (ii)    One of those established in accordance with article 6, paragraph 1 (b) (ii), of this Convention and is committed outside its territory with a view to the commission of an offence established in accordance with article 6, paragraph 1 (a) (i) or (ii) or (b) (i), of this Convention within its territory.
3.     For the purposes of article 16, paragraph 10, of this Convention, each State Party shall adopt such measures as may be necessary to establish its jurisdiction over the offences covered by this Convention when the alleged offender is present in its territory and it does not extradite such person solely on the ground that he or she is one of its nationals.
4.     Each State Party may also adopt such measures as may be necessary to establish its jurisdiction over the offences covered by this Convention when the alleged offender is present in its territory and it does not extradite him or her.
5.     If a State Party exercising its jurisdiction under paragraph 1 or 2 of this article has been notified, or has otherwise learned, that one or more other States Parties are conducting an investigation, prosecution or judicial proceeding in respect of the same conduct, the competent authorities of those States Parties shall, as appropriate, consult one another with a view to coordinating their actions.
6.     Without prejudice to norms of general international law, this Convention does not exclude the exercise of any criminal jurisdiction established by a State Party in accordance with its domestic law.

Article 16
Extradition

1.     This article shall apply to the offences covered by this Convention or in cases where an offence referred to in article 3, paragraph 1 (a) or (b), in volves an organized criminal group and the person who is the subject of the request for extradition is located in the territory of the requested State Party, provided that the offence for which extradition is sought is punishable under the domestic law of both the requesting State Party and the requested State Party.
2.     If the request for extradition includes several separate serious crimes, some of which are not covered by this article, the requested State Party may apply this article also in respect of the latter offences.

3.     Each of the offences to which this article applies shall be deemed to be included as an extraditable offence in any extradition treaty existing between States Parties. States Parties undertake to include such offences as extraditable offences in every extradition treaty to be concluded between them.

4.     If a State Party that makes extradition conditional on the existence of a treaty receives a request for extradition from another State Party with which it has no extradition treaty, it may consider this Convention the legal basis for extradition in respect of any offence to which this article applies.
5.     States Parties that make extradition conditional on the existence of a treaty shall:

(a)    At the time of deposit of their instrument of ratification, acceptance, approval of or accession to this Convention, inform the Secretary-General of the United Nations whether they will take this Convention as the legal basis for cooperation on extradition with other States Parties to this Convention; and
(b)    If they do not take this Convention as the legal basis for cooperation on extradition, seek, where appropriate, to conclude treaties on extradition with other States Parties to this Convention in order to implement this article.

6.     States Parties that do not make extradition conditional on the existence of a treaty shall recognize offences to which this article applies as extraditable offences between themselves.
7.     Extradition shall be subject to the conditions provided for by the domestic law of the requested State Party or by applicable extradition treaties, including, inter alia, conditions in relation to the minimum penalty requirement for extradition and the grounds upon which the requested State Party may refuse extradition.
8.     States Parties shall, subject to their domestic law, endeavour to expedite extradition procedures and to simplify evidentiary requirements relating thereto in respect of any offence to which this article applies.
9.     Subject to the provisions of its domestic law and its extradition treaties, the requested State Party may, upon being satisfied that the circumstances so warrant and are urgent and at the request of the requesting State Party, take a person whose extradition is sought and who is present in its territory into custody or take other appropriate measures to ensure his or her presence at extradition proceedings.

10.     A State Party in whose territory an alleged offender is found, if it does not extradite such person in respect of an offence to which this article applies solely on the ground that he or she is one of its nationals, shall, at the request of the State Party seeking extradition, be obliged to submit the case without undue delay to its competent authorities for the purpose of prosecution. Those authorities shall take their decision and conduct their proceedings in the same manner as in the case of any other offence of a grave nature under the domestic law of that State Party. The States Parties concerned shall cooperate with each other, in particular on procedural and evidentiary aspects, to ensure the efficiency of such prosecution.
11.     Whenever a State Party is permitted under its domestic law to extradite or otherwise surrender one of its nationals only upon the condition that the person will be returned to that State Party to serve the sentence imposed as a result of the trial or proceedings for which the extradition or surrender of the person was sought and that State Party and the State Party seeking the extradition of the person agree with this option and other terms that they may deem appropriate, such conditional extradition or surrender shall be sufficient to discharge the obligation set forth in paragraph 10 of this article.
12.     If extradition, sought for purposes of enforcing a sentence, is refused because the person sought is a national of the requested State Party, the requested Party shall, if its domestic law so permits and in conformity with the requirements of such law, upon application of the requesting Party, consider the enforcement of the sentence that has been imposed under the domestic law of the requesting Party or the remainder thereof.

13.     Any person regarding whom proceedings are being carried out in connection with any of the offences to which this article applies shall be guaranteed fair treatment at all stages of the proceedings, including enjoyment of all the rights and guarantees provided by the domestic law of the State Party in the territory of which that person is present.
14.     Nothing in this Convention shall be interpreted as imposing an obligation to extradite if the requested State Party has substantial grounds for believing that the request has been made for the purpose of prosecuting or punishing a person on account of that person's sex, race, religion, nationality, ethnic origin or political opinions or that compliance with the request would cause prejudice to that person's position for any one of these reasons.
15.     States Parties may not refuse a request for extradition on the sole ground that the offence is also considered to involve fiscal matters.
16.     Before refusing extradition, the requested State Party shall, where appropriate, consult with the requesting State Party to provide it with ample opportunity to present its opinions and to provide information relevant to its allegation.
17.     States Parties shall seek to conclude bilateral and multilateral agreements or arrangements to carry out or to enhance the effectiveness of extradition.

Article 17
Transfer of sentenced persons

    States Parties may consider entering into bilateral or multilateral agreements or arrangements on the transfer to their territory of persons sentenced to imprisonment or other forms of deprivation of liberty for offences covered by this Convention, in order that they may complete their sentences there.


Article 18
Mutual legal assistance

1.     States Parties shall afford one another the widest measure of mutual legal assistance in investigations, prosecutions and judicial proceedings in relation to the offences covered by this Convention as provided for in article 3 and shall reciprocally extend to one another similar assistance where the requesting State Party has reasonable grounds to suspect that the offence referred to in article 3, paragraph 1 (a) or (b), is transnational in nature, including that victims, witnesses, proceeds, instrumentalities or evidence of such offences are located in the requested State Party and that the offence involves an organized criminal group.
2.     Mutual legal assistance shall be afforded to the fullest extent possible under relevant laws, treaties, agreements and arrangements of the requested State Party with respect to investigations, prosecutions and judicial proceedings in relation to the offences for which a legal person may be held liable in accor dance with article 10 of this Convention in the requesting State Party.

3.     Mutual legal assistance to be afforded in accordance with this article may be requested for any of the following purposes:
(a)    Taking evidence or statements from persons;

(b)    Effecting service of judicial documents;
(c)    Executing searches and seizures, and freezing;

(d)    Examining objects and sites;
(e)    Providing information, evidentiary items and expert evaluations;
(f)    Providing originals or certified copies of relevant documents and records, including government, bank, financial, corporate or business records;
(g)    Identifying or tracing proceeds of crime, property, instrumentalities or other things for evidentiary purposes;
(h)    Facilitating the voluntary appearance of persons in the requesting State Party;

(i)    Any other type of assistance that is not contrary to the domestic law of the requested State Party.

4.     Without prejudice to domestic law, the competent authorities of a State Party may, without prior request, transmit information relating to criminal matters to a competent authority in another State Party where they believe that such information could assist the authority in undertaking or successfully concluding inquiries and criminal proceedings or could result in a request formulated by the latter State Party pursuant to this Convention.

5.     The transmission of information pursuant to paragraph 4 of this article shall be without prejudice to inquiries and criminal proceedings in the State of the competent authorities providing the information. The competent authorities receiving the information shall comply with a request that said information remain confidential, even temporarily, or with restrictions on its use. However, this shall not prevent the receiving State Party from disclosing in its proceedings information that is exculpatory to an accused person. In such a case, the receiving State Party shall notify the transmitting State Party prior to the disclosure and, if so requested, consult with the transmitting State Party. If, in an exceptional case, advance notice is not possible, the receiving State Party shall inform the transmitting State Party of the disclosure without delay.

6.     The provisions of this article shall not affect the obligations under any other treaty, bilateral or multilateral, that governs or will govern, in whole or in part, mutual legal assistance.

7.     Paragraphs 9 to 29 of this article shall apply to requests made pursuant to this article if the States Parties in question are not bound by a treaty of mutual legal assistance. If those States Parties are bound by such a treaty, the corresponding provisions of that treaty shall apply unless the States Parties agree to apply paragraphs 9 to 29 of this article in lieu thereof. States Parties are strongly encouraged to apply these paragraphs if they facilitate cooperation.

8.     States Parties shall not decline to render mutual legal assistance pursuant to this article on the ground of bank secrecy.
9.     States Parties may decline to render mutual legal assistance pursuant to this article on the ground of absence of dual criminality. However, the requested State Party may, when it deems appropriate, provide assistance, to the extent it decides at its discretion, irrespective of whether the conduct would constitute an offence under the domestic law of the requested State Party.
10.     A person who is being detained or is serving a sentence in the territory of one State Party whose presence in another State Party is requested for purposes of identification, testimony or otherwise providing assistance in obtaining evidence for investigations, prosecutions or judicial proceedings in relation to offences covered by this Convention may be transferred if the following conditions are met:
(a)    The person freely gives his or her informed consent;
(b)    The competent authorities of both States Parties agree, subject to such conditions as those States Parties may deem appropriate.
11.     For the purposes of paragraph 10 of this article:

(a)    The State Party to which the person is transferred shall have the authority and obligation to keep the person transferred in custody, unless otherwise requested or authorized by the State Party from which the person was transferred;
(b)    The State Party to which the person is transferred shall without delay implement its obligation to return the person to the custody of the State Party from which the person was transferred as agreed beforehand, or as otherwise agreed, by the competent authorities of both States Parties;
(c)    The State Party to which the person is transferred shall not require the State Party from which the person was transferred to initiate extradition proceedings for the return of the person;
(d)    The person transferred shall receive credit for service of the sentence being served in the State from which he or she was transferred for time spent in the custody of the State Party to which he or she was transferred.
12.     Unless the State Party from which a person is to be transferred in accordance with paragraphs 10 and 11 of this article so agrees, that person, whatever his or her nationality, shall not be prosecuted, detained, punished or subjected to any other restriction of his or her personal liberty in the territory of the State to which that person is transferred in respect of acts, omissions or convictions prior to his or her departure from the territory of the State from which he or she was transferred.
13.     Each State Party shall designate a central authority that shall have the responsibility and power to receive requests for mutual legal assistance and either to execute them or to transmit them to the competent authorities for execution. Where a State Party has a special region or territory with a separate system of mutual legal assistance, it may designate a distinct central authority that shall have the same function for that region or territory. Central authorities shall ensure the speedy and proper execution or transmission of the requests received. Where the central authority transmits the request to a competent authority for execution, it shall encourage the speedy and proper execution of the request by the competent authority. The Secretary-General of the United Nations shall be notified of the central authority designated for this purpose at the time each State Party deposits its instrument of ratification, acceptance or approval of or accession to this Convention. Requests for mutual legal assistance and any communication related thereto shall be transmitted to the central authorities designated by the States Parties. This requirement shall be without prejudice to the right of a State Party to require that such requests and communications be addressed to it through diplomatic channels and, in urgent circumstances, where the States Parties agree, through the International Criminal Police Organization, if possible.

14.     Requests shall be made in writing or, where possible, by any means capable of producing a written record, in a language acceptable to the requested State Party, under conditions allowing that State Party to establish authenticity. The Secretary-General of the United Nations shall be notified of the language or languages acceptable to each State Party at the time it deposits its instrument of ratification, acceptance or approval of or accession to this Convention. In urgent circumstances and where agreed by the States Parties, requests may be made orally, but shall be confirmed in writing forthwith.

15.     A request for mutual legal assistance shall contain:
(a)    The identity of the authority making the request;
(b)    The subject matter and nature of the investigation, prosecution or judicial proceeding to which the request relates and the name and functions of the authority conducting the investigation, prosecution or judicial proceeding;
(c)    A summary of the relevant facts, except in relation to requests for the purpose of service of judicial documents;
(d)    A description of the assistance sought and details of any particular procedure that the requesting State Party wishes to be followed;

(e)    Where possible, the identity, location and nationality of any person concerned; and

(f)    The purpose for which the evidence, information or action is sought.
16.     The requested State Party may request additional information when it appears necessary for the execution of the request in accordance with its domestic law or when it can facilitate such execution.
17.     A request shall be executed in accordance with the domestic law of the requested State Party and, to the extent not contrary to the domestic law of the requested State Party and where possible, in accordance with the procedures specified in the request.
18.     Wherever possible and consistent with fundamental principles of domestic law, when an individual is in the territory of a State Party and has to be heard as a witness or expert by the judicial authorities of another State Party, the first State Party may, at the request of the other, permit the hearing to take place by video conference if it is not possible or desirable for the individual in question to appear in person in the territory of the requesting State Party. States Parties may agree that the hearing shall be conducted by a judicial authority of the requesting State Party and attended by a judicial authority of the requested State Party.

19.     The requesting State Party shall not transmit or use information or evidence furnished by the requested State Party for investigations, prosecutions or judicial proceedings other than those stated in the request without the prior consent of the requested State Party. Nothing in this paragraph shall prevent the requesting State Party from disclosing in its proceedings information or evidence that is exculpatory to an accused person. In the latter case, the requesting State Party shall notify the requested State Party prior to the disclosure and, if so requested, consult with the requested State Party. If, in an exceptional case, advance notice is not possible, the requesting State Party shall inform the requested State Party of the disclosure without delay.




20.     The requesting State Party may require that the requested State Party keep confidential the fact and substance of the request, except to the extent necessary to execute the request. If the requested State Party cannot comply with the requirement of confidentiality, it shall promptly inform the requesting State Party.
21.     Mutual legal assistance may be refused:
(a)    If the request is not made in conformity with the provisions of this article;
(b)    If the requested State Party considers that execution of the request is likely to prejudice its sovereignty, security, ordre public or other essential interests;
(c)    If the authorities of the requested State Party would be prohibited by its domestic law from carrying out the action requested with regard to any similar offence, had it been subject to investigation, prosecution or judicial proceedings under their own jurisdiction;
(d)    If it would be contrary to the legal system of the requested State Party relating to mutual legal assistance for the request to be granted.
22.     States Parties may not refuse a request for mutual legal assistance on the sole ground that the offence is also considered to involve fiscal matters.
23.     Reasons shall be given for any refusal of mutual legal assistance.
24.     The requested State Party shall execute the request for mutual legal assistance as soon as possible and shall take as full account as possible of any deadlines suggested by the requesting State Party and for which reasons are given, preferably in the request. The requested State Party shall respond to reasonable requests by the requesting State Party on progress of its handling of the request. The requesting State Party shall promptly inform the requested State Party when the assistance sought is no longer required.

25.     Mutual legal assistance may be postponed by the requested State Party on the ground that it interferes with an ongoing investigation, prosecution or judicial proceeding.
26.     Before refusing a request pursuant to paragraph 21 of this article or postponing its execution pursuant to paragraph 25 of this article, the requested State Party shall consult with the requesting State Party to consider whether assistance may be granted subject to such terms and conditions as it deems necessary. If the requesting State Party accepts assistance subject to those conditions, it shall comply with the conditions.
27.     Without prejudice to the application of paragraph 12 of this article, a witness, expert or other person who, at the request of the requesting State Party, consents to give evidence in a proceeding or to assist in an investigation, prosecution or judicial proceeding in the territory of the requesting State Party shall not be prosecuted, detained, punished or subjected to any other restriction of his or her personal liberty in that territory in respect of acts, omissions or convictions prior to his or her departure from the territory of the requested State Party. Such safe conduct shall cease when the witness, expert or other person having had, for a period of fifteen consecutive days or for any period agreed upon by the States Parties from the date on which he or she has been officially informed that his or her presence is no longer required by the judicial authorities, an opportunity of leaving, has nevertheless remained voluntarily in the territory of the requesting State Party or, having left it, has returned of his or her own free will.
28.     The ordinary costs of executing a request shall be borne by the requested State Party, unless otherwise agreed by the States Parties concerned. If expenses of a substantial or extraordinary nature are or will be required to fulfil the request, the States Parties shall consult to determine the terms and conditions under which the request will be executed, as well as the manner in which the costs shall be borne.
29.     The requested State Party:
(a)    Shall provide to the requesting State Party copies of government records, documents or information in its possession that under its domestic law are available to the general public;
(b)    May, at its discretion, provide to the requesting State Party in whole, in part or subject to such conditions as it deems appropriate, copies of any government records, documents or information in its possession that under its domestic law are not available to the general public.
30.     States Parties shall consider, as may be necessary, the possibility of concluding bilateral or multi lateral agreements or arrangements that would serve the purposes of, give practical effect to or enhance the provisions of this article.

Article 19
Joint investigations

    States Parties shall consider concluding bilateral or multilateral agreements or arrangements whereby, in relation to matters that are the subject of investigations, prosecutions or judicial proceedings in one or more States, the competent authorities concerned may establish joint investigative bodies. In the absence of such agreements or arrangements, joint investigations may be undertaken by agreement on a case-by-case basis. The States Parties involved shall ensure that the sovereignty of the State Party in whose territory such investigation is to take place is fully respected.

Article 20
Special investigative techniques

1.     If permitted by the basic principles of its domestic legal system, each State Party shall, within its possibilities and under the conditions prescribed by its domestic law, take the necessary measures to allow for the appropriate use of controlled delivery and, where it deems appropriate, for the use of other special investigative techniques, such as electronic or other forms of surveillance and undercover operations, by its competent authorities in its territory for the purpose of effectively combating organized crime.
2.     For the purpose of investigating the offences covered by this Convention, States Parties are encouraged to conclude, when necessary, appropriate bilateral or multilateral agreements or arrangements for using such special investigative techniques in the context of cooperation at the international level. Such agreements or arrangements shall be concluded and implemented in full compliance with the principle of sovereign equality of States and shall be carried out strictly in accordance with the terms of those agreements or arrangements.
3.     In the absence of an agreement or arrangement as set forth in paragraph 2 of this article, decisions to use such special investigative techniques at the international level shall be made on a case-by-case basis and may, when necessary, take into consideration financial arrangements and understandings with respect to the exercise of jurisdiction by the States Parties concerned.
4.     Decisions to use controlled delivery at the international level may, with the consent of the States Parties concerned, include methods such as inter cepting and allowing the goods to continue intact or be removed or replaced in whole or in part.


Article 21
Transfer of criminal proceedings

    States Parties shall consider the possibility of transferring to one another proceedings for the prosecution of an offence covered by this Convention in cases where such transfer is considered to be in the interests of the proper administration of justice, in particular in cases where several jurisdictions are involved, with a view to concentrating the prosecution.

Article 22
Establishment of criminal record

    Each State Party may adopt such legislative or other measures as may be necessary to take into consideration, under such terms as and for the purpose that it deems appropriate, any previous conviction in another State of an alleged offender for the purpose of using such information in criminal proceedings relating to an offence covered by this Convention.

Article 23
Criminalization of obstruction of justice

    Each State Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to establish as criminal offences, when committed intentionally:

(a)    The use of physical force, threats or intimidation or the promise, offering or giving of an undue advantage to induce false testimony or to interfere in the giving of testimony or the production of evidence in a proceeding in relation to the commission of offences covered by this Convention;
(b)    The use of physical force, threats or intimidation to interfere with the exercise of official duties by a justice or law enforcement official in relation to the commission of offences covered by this Convention. Nothing in this subparagraph shall prejudice the right of States Parties to have legislation that protects other categories of public officials.

Article 24
Protection of witnesses

1.     Each State Party shall take appropriate measures within its means to provide effective protection from potential retaliation or intimidation for witnesses in criminal proceedings who give testimony concerning offences covered by this Convention and, as appropriate, for their relatives and other persons close to them.
2.     The measures envisaged in paragraph 1 of this article may include, inter alia, without prejudice to the rights of the defendant, including the right to due process:

(a)    Establishing procedures for the physical protection of such persons, such as, to the extent necessary and feasible, relocating them and permitting, where appropriate, non-disclosure or limitations on the disclosure of information concerning the identity and whereabouts of such persons;


(b)    Providing evidentiary rules to permit witness testimony to be given in a manner that ensures the safety of the witness, such as permitting testimony to be given through the use of communications technology such as video links or other adequate means.
3.     States Parties shall consider entering into agreements or arrangements with other States for the relocation of persons referred to in paragraph 1 of this article.
4.     The provisions of this article shall also apply to victims insofar as they are witnesses.

Article 25
Assistance to and protection of victims

1.     Each State Party shall take appropriate measures within its means to provide assistance and protection to victims of offences covered by this Convention, in particular in cases of threat of retaliation or intimidation.
2.     Each State Party shall establish appropriate procedures to provide access to compensation and restitution for victims of offences covered by this Convention.
3.     Each State Party shall, subject to its domestic law, enable views and concerns of victims to be presented and considered at appropriate stages of criminal proceedings against offenders in a manner not prejudicial to the rights of the defence.



Article 26
Measures to enhance cooperation with
law enforcement authorities

1.     Each State Party shall take appropriate measures to encourage persons who participate or who have participated in organized criminal groups:
(a)    To supply information useful to competent authorities for investigative and evidentiary purposes on such matters as:
    (i)    The identity, nature, composition, structure, location or activities of organized criminal groups;
    (ii)    Links, including international links, with other organized criminal groups;
    (iii)    Offences that organized criminal groups have committed or may commit;
(b)    To provide factual, concrete help to competent authorities that may contribute to depriving organized criminal groups of their resources or of the proceeds of crime.
2.     Each State Party shall consider providing for the possibility, in appropriate cases, of mitigating punishment of an accused person who provides substantial cooperation in the investigation or prosecution of an offence covered by this Convention.
3.     Each State Party shall consider providing for the possibility, in accordance with fundamental principles of its domestic law, of granting immunity from prosecution to a person who provides substantial cooperation in the investigation or prosecution of an offence covered by this Convention.
4.     Protection of such persons shall be as provided for in article 24 of this Convention.
5.     Where a person referred to in paragraph 1 of this article located in one State Party can provide substantial cooperation to the competent authorities of another State Party, the States Parties concerned may consider entering into agreements or arrangements, in accordance with their domestic law, concerning the potential provision by the other State Party of the treatment set forth in paragraphs 2 and 3 of this article.

Article 27
Law enforcement cooperation

1.     States Parties shall cooperate closely with one another, consistent with their respective domestic legal and administrative systems, to enhance the effectiveness of law enforcement action to combat the offences covered by this Convention. Each State Party shall, in particular, adopt effective measures:
(a)    To enhance and, where necessary, to establish channels of communication between their competent authorities, agencies and services in order to facilitate the secure and rapid exchange of information concerning all aspects of the offences covered by this Convention, including, if the States Parties concerned deem it appropriate, links with other criminal activities;
(b)    To cooperate with other States Parties in conducting inquiries with respect to offences covered by this Convention concerning:
    (i)    The identity, whereabouts and activities of persons suspected of involvement in such offences or the location of other persons concerned;

    (ii)    The movement of proceeds of crime or property derived from the commission of such offences;
    (iii)    The movement of property, equipment or other instrumentalities used or intended for use in the commission of such offences;
(c)    To provide, when appropriate, necessary items or quantities of substances for analytical or investigative purposes;
(d)    To facilitate effective coordination between their competent authorities, agencies and services and to promote the exchange of personnel and other experts, including, subject to bilateral agreements or arrangements between the States Parties concerned, the posting of liaison officers;

(e)    To exchange information with other States Parties on specific means and methods used by organized criminal groups, including, where applicable, routes and conveyances and the use of false identities, altered or false documents or other means of concealing their activities;
(f)    To exchange information and coordinate administrative and other measures taken as appropriate for the purpose of early identification of the offences covered by this Convention.
2.     With a view to giving effect to this Convention, States Parties shall consider entering into bilateral or multilateral agreements or arrangements on direct cooperation between their law enforcement agencies and, where such agreements or arrangements already exist, amending them. In the absence of such agreements or arrangements between the States Parties concerned, the Parties may consider this Convention as the basis for mutual law enforcement cooperation in respect of the offences covered by this Convention. Whenever appropriate, States Parties shall make full use of agreements or arrangements, including international or regional organizations, to enhance the cooperation between their law enforcement agencies.


3.     States Parties shall endeavour to cooperate within their means to respond to transnational organized crime committed through the use of modern technology.

Article 28
Collection, exchange and analysis of information
on the nature of organized crime

1.     Each State Party shall consider analysing, in consultation with the scientific and academic communities, trends in organized crime in its territory, the circumstances in which organized crime operates, as well as the professional groups and technologies involved.
2.     States Parties shall consider developing and sharing analytical expertise concerning organized criminal activities with each other and through international and regional organizations. For that purpose, common definitions, standards and methodologies should be developed and applied as appropriate.
3.     Each State Party shall consider monitoring its policies and actual measures to combat organized crime and making assessments of their effectiveness and efficiency.

Article 29
Training and technical assistance

1.     Each State Party shall, to the extent necessary, initiate, develop or improve specific training programmes for its law enforcement personnel, including prosecutors, investigating magistrates and customs personnel, and other personnel charged with the prevention, detection and control of the offences covered by this Convention. Such programmes may include secondments and exchanges of staff. Such programmes shall deal, in particular and to the extent permitted by domestic law, with the following:




(a)    Methods used in the prevention, detection and control of the offences covered by this Convention;
(b)    Routes and techniques used by persons suspected of involvement in offences covered by this Convention, including in transit States, and appropriate countermeasures;
(c)    Monitoring of the movement of contraband;
(d)    Detection and monitoring of the movements of proceeds of crime, property, equipment or other instrumentalities and methods used for the transfer, concealment or disguise of such proceeds, property, equipment or other instrumentalities, as well as methods used in combating money- laundering and other financial crimes;
(e)    Collection of evidence;
(f)    Control techniques in free trade zones and free ports;
(g)    Modern law enforcement equipment and techniques, including electronic surveillance, controlled deliveries and undercover operations;
(h)    Methods used in combating transnational organized crime committed through the use of computers, telecommunications networks or other forms of modern technology; and
(i)    Methods used in the protection of victims and witnesses.
2.     States Parties shall assist one another in planning and implementing research and training programmes designed to share expertise in the areas referred to in paragraph 1 of this article and to that end shall also, when appropriate, use regional and international conferences and seminars to promote cooperation and to stimulate discussion on problems of mutual concern, including the special problems and needs of transit States.
3.     States Parties shall promote training and technical assistance that will facilitate extradition and mutual legal assistance. Such training and technical assistance may include language training, secondments and exchanges between personnel in central authorities or agencies with relevant responsibilities.


4.     In the case of existing bilateral and multilateral agreements or arrangements, States Parties shall strengthen, to the extent necessary, efforts to maximize operational and training activities within international and regional organizations and within other relevant bilateral and multilateral agreements or arrangements.

Article 30
Other measures: implementation of the
Convention through economic development
and technical assistance

1.     States Parties shall take measures conducive to the optimal implementation of this Convention to the extent possible, through international cooperation, taking into account the negative effects of organized crime on society in general, in particular on sustainable development.

2.     States Parties shall make concrete efforts to the extent possible and in coordination with each other, as well as with international and regional organizations:
(a)    To enhance their cooperation at various levels with developing countries, with a view to strengthening the capacity of the latter to prevent and combat transnational organized crime;
(b)    To enhance financial and material assistance to support the efforts of developing countries to fight transnational organized crime effectively and to help them implement this Convention successfully;
(c)    To provide technical assistance to developing countries and countries with economies in transition to assist them in meeting their needs for the implementation of this Convention. To that end, States Parties shall endeavour to make adequate and regular voluntary contributions to an account specifically designated for that purpose in a United Nations funding mechanism. States Parties may also give special consideration, in accordance with their domestic law and the provisions of this Convention, to contributing to the aforementioned account a percentage of the money or of the corresponding value of proceeds of crime or property confiscated in accordance with the provisions of this Convention;
(d)    To encourage and persuade other States and financial institutions as appropriate to join them in efforts in accordance with this article, in particular by providing more training programmes and modern equipment to developing countries in order to assist them in achieving the objectives of this Convention.
3.     To the extent possible, these measures shall be without prejudice to existing foreign assistance commitments or to other financial cooperation arrangements at the bilateral, regional or international level.

4.     States Parties may conclude bilateral or multilateral agreements or arrangements on material and logistical assistance, taking into consideration the financial arrangements necessary for the means of international cooperation provided for by this Convention to be effective and for the prevention, detection and control of transnational organized crime.



Article 31
Prevention

1.     States Parties shall endeavour to develop and evaluate national projects and to establish and promote best practices and policies aimed at the prevention of transnational organized crime.
2.     States Parties shall endeavour, in accordance with fundamental principles of their domestic law, to reduce existing or future opportunities for organized criminal groups to participate in lawful markets with proceeds of crime, through appropriate legislative, administrative or other measures. These measures should focus on:
(a)    The strengthening of cooperation between law enforcement agencies or prosecutors and relevant private entities, including industry;

(b)    The promotion of the development of standards and procedures designed to safeguard the integrity of public and relevant private entities, as well as codes of conduct for relevant professions, in particular lawyers, notaries public, tax consultants and accountants;
(c)    The prevention of the misuse by organized criminal groups of tender procedures conducted by public authorities and of subsidies and licences granted by public authorities for commercial activity;
(d)    The prevention of the misuse of legal persons by organized criminal groups; such measures could include:
    (i)    The establishment of public records on legal and natural persons involved in the establishment, management and funding of legal persons;
    (ii)    The introduction of the possibility of disqualifying by court order or any appropriate means for a reasonable period of time persons convicted of offences covered by this Convention from acting as directors of legal persons incorporated within their jurisdiction;
    (iii)    The establishment of national records of persons disqualified from acting as directors of legal persons; and
    (iv)    The exchange of information contained in the records referred to in subparagraphs (d) (i) and (iii) of this paragraph with the competent authorities of other States Parties.
3.     States Parties shall endeavour to promote the reintegration into society of persons convicted of offences covered by this Convention.

4.     States Parties shall endeavour to evaluate periodically existing relevant legal instruments and administrative practices with a view to detecting their vulnerability to misuse by organized criminal groups.

5.     States Parties shall endeavour to promote public awareness regarding the existence, causes and gravity of and the threat posed by transnational organized crime. Information may be disseminated where appropriate through the mass media and shall include measures to promote public participation in preventing and combating such crime.
6.     Each State Party shall inform the Secretary-General of the United Nations of the name and address of the authority or authorities that can assist other States Parties in developing measures to prevent transnational organized crime.
7.     States Parties shall, as appropriate, collaborate with each other and relevant international and regional organizations in promoting and developing the measures referred to in this article. This includes participation in international projects aimed at the prevention of transnational organized crime, for example by alleviating the circumstances that render socially marginalized groups vulnerable to the action of transnational organized crime.

Article 32
Conference of the Parties to the Convention

1.     A Conference of the Parties to the Convention is hereby established to improve the capacity of States Parties to combat transnational organized crime and to promote and review the implementation of this Convention.
2.     The Secretary-General of the United Nations shall convene the Conference of the Parties not later than one year following the entry into force of this Convention. The Conference of the Parties shall adopt rules of procedure and rules governing the activities set forth in paragraphs 3 and 4 of this article (including rules concerning payment of expenses incurred in carrying out those activities).
3.     The Conference of the Parties shall agree upon mechanisms for achieving the objectives mentioned in paragraph 1 of this article, including:

(a)    Facilitating activities by States Parties under articles 29, 30 and 31 of this Convention, including by encouraging the mobilization of voluntary contributions;
(b)    Facilitating the exchange of information among States Parties on patterns and trends in transnational organized crime and on successful practices for combating it;

(c)    Cooperating with relevant international and regional organizations and non-governmental organizations;
(d)    Reviewing periodically the implementation of this Convention;
(e)    Making recommendations to improve this Convention and its implementation.
4.     For the purpose of paragraphs 3 (d) and (e) of this article, the Conference of the Parties shall acquire the necessary knowledge of the measures taken by States Parties in implementing this Convention and the difficulties encountered by them in doing so through information provided by them and through such supplemental review mechanisms as may be established by the Conference of the Parties.
5.     Each State Party shall provide the Conference of the Parties with information on its programmes, plans and practices, as well as legislative and administrative measures to implement this Convention, as required by the Conference of the Parties.

Article 33
Secretariat

1.     The Secretary-General of the United Nations shall provide the necessary secretariat services to the Conference of the Parties to the Convention.
2.     The secretariat shall:
(a)    Assist the Conference of the Parties in carrying out the activities set forth in article 32 of this Convention and make arrangements and provide the necessary services for the sessions of the Conference of the Parties;
(b)    Upon request, assist States Parties in providing information to the Conference of the Parties as envisaged in article 32, paragraph 5, of this Convention; and
(c)    Ensure the necessary coordination with the secretariats of relevant international and regional organizations.

Article 34
Implementation of the Convention

1.     Each State Party shall take the necessary measures, including legislative and administrative measures, in accordance with fundamental principles of its domestic law, to ensure the implementation of its obligations under this Convention.
2.     The offences established in accordance with articles 5, 6, 8 and 23 of this Convention shall be established in the domestic law of each State Party independently of the transnational nature or the involvement of an organized criminal group as described in article 3, paragraph 1, of this Convention, except to the extent that article 5 of this Convention would require the involvement of an organized criminal group.
3.     Each State Party may adopt more strict or severe measures than those provided for by this Convention for preventing and combating transnational organized crime.

Article 35
Settlement of disputes

l.     States Parties shall endeavour to settle disputes concerning the interpretation or application of this Convention through negotiation.
2.     Any dispute between two or more States Parties concerning the interpretation or application of this Convention that cannot be settled through negotiation within a reasonable time shall, at the request of one of those States Parties, be submitted to arbitration. If, six months after the date of the request for arbitration, those States Parties are unable to agree on the organization of the arbitration, any one of those States Parties may refer the dispute to the International Court of Justice by request in accordance with the Statute of the Court.
3.     Each State Party may, at the time of signature, ratification, acceptance or approval of or accession to this Convention, declare that it does not consider itself bound by paragraph 2 of this article. The other States Parties shall not be bound by paragraph 2 of this article with respect to any State Party that has made such a reservation.
4.     Any State Party that has made a reservation in accordance with paragraph 3 of this article may at any time withdraw that reservation by notification to the Secretary-General of the United Nations.

Article 36
Signature, ratification, acceptance,
approval and accession

1.     This Convention shall be open to all States for signature from 12 to 15 December 2000 in Palermo, Italy, and thereafter at United Nations Headquarters in New York until 12 December 2002.

2.     This Convention shall also be open for signature by regional economic integration organizations provided that at least one member State of such organization has signed this Convention in accordance with paragraph 1 of this article.
3.     This Convention is subject to ratification, acceptance or approval. Instruments of ratification, acceptance or approval shall be deposited with the Secretary-General of the United Nations. A regional economic integration organization may deposit its instrument of ratification, acceptance or approval if at least one of its member States has done likewise. In that instrument of ratification, acceptance or approval, such organization shall declare the extent of its competence with respect to the matters governed by this Convention. Such organization shall also inform the depositary of any relevant modification in the extent of its competence.
4.     This Convention is open for accession by any State or any regional economic integration organization of which at least one member State is a Party to this Convention. Instruments of accession shall be deposited with the Secretary-General of the United Nations. At the time of its accession, a regional economic integration organization shall declare the extent of its competence with respect to matters governed by this Convention. Such organization shall also inform the depositary of any relevant modification in the extent of its competence.

Article 37
Relation with protocols

1.     This Convention may be supplemented by one or more protocols.
2.     In order to become a Party to a protocol, a State or a regional economic integration organization must also be a Party to this Convention.
3.     A State Party to this Convention is not bound by a protocol unless it becomes a Party to the protocol in accordance with the provisions thereof.
4.     Any protocol to this Convention shall be interpreted together with this Convention, taking into account the purpose of that protocol.

Article 38
Entry into force

1.     This Convention shall enter into force on the ninetieth day after the date of deposit of the fortieth instrument of ratification, acceptance, approval or accession. For the purpose of this paragraph, any instrument deposited by a regional economic integration organization shall not be counted as additional to those deposited by member States of such organization.
2.     For each State or regional economic integration organization ratifying, accepting, approving or acceding to this Convention after the deposit of the fortieth instrument of such action, this Convention shall enter into force on the thirtieth day after the date of deposit by such State or organization of the relevant instrument.

Article 39
Amendment

1.     After the expiry of five years from the entry into force of this Convention, a State Party may propose an amendment and file it with the Secretary-General of the United Nations, who shall thereupon communicate the proposed amendment to the States Parties and to the Conference of the Parties to the Convention for the purpose of considering and deciding on the proposal. The Conference of the Parties shall make every effort to achieve consensus on each amendment. If all efforts at consensus have been exhausted and no agreement has been reached, the amendment shall, as a last resort, require for its adoption a two-thirds majority vote of the States Parties present and voting at the meeting of the Conference of the Parties.
2.     Regional economic integration organizations, in matters within their competence, shall exercise their right to vote under this article with a number of votes equal to the number of their member States that are Parties to this Convention. Such organizations shall not exercise their right to vote if their member States exercise theirs and vice versa.

3.     An amendment adopted in accordance with paragraph 1 of this article is subject to ratification, acceptance or approval by States Parties.
4.     An amendment adopted in accordance with paragraph 1 of this article shall enter into force in respect of a State Party ninety days after the date of the deposit with the Secretary-General of the United Nations of an instrument of ratification, acceptance or approval of such amendment.
5.     When an amendment enters into force, it shall be binding on those States Parties which have expressed their consent to be bound by it. Other States Parties shall still be bound by the provisions of this Convention and any earlier amendments that they have ratified, accepted or approved.

Article 40
Denunciation

1.     A State Party may denounce this Convention by written notification to the Secretary-General of the United Nations. Such denunciation shall become effective one year after the date of receipt of the notification by the Secretary-General.
2.     A regional economic integration organization shall cease to be a Party to this Convention when all of its member States have denounced it.
3.     Denunciation of this Convention in accordance with paragraph 1 of this article shall entail the denunciation of any protocols thereto.

Article 41
Depositary and languages

1.     The Secretary-General of the United Nations is designated depositary of this Convention.
2.     The original of this Convention, of which the Arabic, Chinese, English, French, Russian and Spanish texts are equally authentic, shall be deposited with the Secretary-General of the United Nations.

    IN WITNESS WHEREOF, the undersigned plenipotentiaries, being duly authorized thereto by their respective Governments, have signed this Convention.