Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 506. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 801  —  506. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um takmörkun á losun brennisteinsvetnis af manna völdum í andrúmslofti.

Flm.: Álfheiður Ingadóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Kolbrún Halldórsdóttir,


Árni Þór Sigurðsson, Alma Lísa Jóhannsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja umhverfismörk fyrir leyfilegum hámarksstyrk brennisteinsvetnis, H 2S, í andrúmslofti. Samhliða þessu er ríkisstjórninni falið að efla rannsóknir á losun H 2S, með því m.a. að tryggja að fram fari ítarlegri mælingar á magni þess í andrúmslofti og á fleiri stöðum. Ríkisstjórninni er jafnframt falið að tryggja að H 2S verði hreinsað úr útblæstri jarðgufuvirkjana og að notuð verði besta fáanleg tækni til að farga eða nýta brennisteinsvetni svo að umhverfi, lífríki og heilsa fólks hljóti engan skaða af.

Greinargerð.


    Á Íslandi losna þúsundir tonna af brennisteinsvetni, H 2S, á ári af manna völdum þegar jarðhiti er unninn úr jörðu. Ekki hafa enn verið sett umhverfismörk fyrir leyfilegum hámarksstyrk brennisteinsvetnis i andrúmslofti hérlendis, en í þessari þingsályktunartillögu er því beint til ríkisstjórnarinnar að svo verði gert. Nauðsynlegt er að ákvarða þessi mörk með tilliti til stórefldra rannsókna og nýjustu upplýsinga um loft- og lyktarmengun af völdum H 2S. Gera verður ýtrustu kröfur til að koma í veg fyrir hugsanlega skaðsemi á lífríki og umhverfi, sem og óþægindi, heilsutjón eða skerðingu á almennum lífsgæðum fólks.
    Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, endurskoðar nú viðmið sín um skaðleysismörk brennisteinsvetnis, en þau hafa hingað til verið gríðarlega há, 150 míkrógrömm í rúmmetra að meðaltali á sólarhring. Á vef Umhverfisstofnunar er bent á að skynsamlegt sé að nota lægri viðmið hér á landi sem miðast við að sem fæstir finni fyrir óþægindum vegna lyktar af brennisteinsvetni, en slíkt er t.a.m. gert í Kaliforníu í Bandaríkjunum.

Losun brennisteinsvetnis hérlendis.
    Í svari umhverfisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur á yfirstandandi þingi (þskj. 383, 193. mál) kemur fram að jarðvarmavirkjanir og borholur í blæstri losuðu 16,76 þús. tonn af H 2S á árinu 2005. Mikið hefur verið borað og blásið síðan þá og enn fleiri holur og virkjanir eru fyrirhugaðar. Þá kemur fram í svarinu að ef Bitruvirkjun og Hverahlíðarvirkjun bætast við stækkun Hellisheiðarvirkjunar á Hengilssvæðinu mun losun H 2S meira en tvöfaldast og verða við svo búið 38 þús. tonn á ári.
    Í umsögn sinni um Hverahlíðarvirkjun bendir Umhverfisstofnun á að þegar og ef bæði Hverahlíðarvirkjun og Bitruvirkjun verða reistar verður losun brennisteinsvetnis orðin fimm sinnum meiri en náttúruleg losun frá öllum hverasvæðum landsins. Mikil aukning mælist nú þegar á losun H 2S vegna Hellisheiðarvirkjunar, jafnvel svo að óþægindum veldur. Þá hefur verið varað við nálægð Bitruvirkjunar við Hveragerði en þar á milli eru aðeins 6 km. Skipulags- og bygginganefnd Hveragerðis hefur lýst áhyggjum og mótmælt fyrirhuguðum framkvæmdum við virkjunina sem nefndin telur að muni hafa veruleg skaðleg áhrif á möguleika Hveragerðis og nágrennis sem íbúðar- og ferðamannasvæðis. Bæjarstjórn Hveragerðis hefur alfarið lagst gegn Bitruvirkjun af sömu ástæðum.
    Þetta ítrekar enn mikilvægi þess að sett verði umhverfismörk um magn H 2S í andrúmslofti og að gerð verði krafa um að efnið verði fjarlægt úr útblæstri jarðvarmavirkjana.

Losun 2005 H2S (þús. tonn )
Nesjavellir 8,92
Krafla 5,8
Svartsengi 0,7
Reykjanes 0,01
Hellisheiði 0,44
Hveragerði 0,04
Námafjall 0,85
Samtals 16,76
Eftir 2005 og fyrirhugað
Reykjanesvirkjun 1
Hellisheiði (með stækkun) 11
Bitruvirkjun 8
Hverahlíðarvirkjun 2
Samtals 22

Mælingar á brennisteinsvetni.
    Íbúar í nágrenni Hellisheiðar hafa orðið varir við ört vaxandi magn af brennisteinsvetni með stóraukinni lyktarmengun eftir því sem framkvæmdir hafa aukist á heiðinni. Ýmsir kalla þetta hina nýju peningalykt og eru ekki hrifnir af henni frekar en hinni eldri frá fiskmjölsverksmiðjum fyrri tíðar.
    Eins og sjá má á eftirfarandi grafi má greina mikinn mun á brennisteinsvetni í andrúmslofti í Reykjavík eftir að Hellisheiðarvirkjun var gangsett (sjá: www.ust.is/mengunarvarnir/ loftgaedi/brennisteinsvetni/). Þar sést hvernig styrkur H 2S fer vaxandi frá byrjun september 2006 eða á þeim tíma sem virkjunin var gangsett.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Loftgæði eru mæld með reglubundnum hætti á fimm stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Ein mælistöð, þ.e. mælistöðin við Miklatorg, var lögð niður árið 2002 eftir meira en 15 ára mælingar á svifryki. Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur rekur nú þrjár loftgæðamælistöðvar samkvæmt samningi við Umhverfisstofnun og fara mælingar fram við Grensásveg og í Húsdýragarðinum, auk þess sem rekin er lítil færanleg mælistöð. Einnig fara fram mælingar á Keldnaholti og á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði.
    H 2S er meðal þeirra efna sem mælt er við Grensásveg og eins og grafið hér að framan og eftirfarandi graf (sem sýnir niðurstöður mælinga 20.–27. mars 2008) bera með sér eru niðurstöður þeirra mælinga sláandi. Mælst hafa háir toppar og almenn aukning á brennisteinsvetni (og svifryki). Ljóst er að það fer eftir því hvernig vindur stendur af virkjunarsvæðunum hvert mengunin berst og í hve miklu magni (sjá m.a. gröf á heimasíðu Umhverfisstofnunar: loft.ust.is/loftgaedi/?dataform=true&dataset=GRE_PM10&dataset=GRE_H2S& avgcodemenu=AV1H&from_day=20&from_month=3&from_year=2008&to_day=27&to _month=3&to_year=2008).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Auk mælinga á Grensásvegi hefur Orkuveita Reykjavíkur fylgst með brennisteinsvetni á Hellisheiði um árabil. Þá fóru fram mælingar m.a. á Nesjavöllum á vegum Orkustofnunar og stóru raforkufyrirtækjanna á síðasta áratug 20. aldar þegar reynt var að leita svara við því hvað yrði um brennisteinsvetnið úr gufunni og einkum hvort það umbreyttist í SO 2.
    Nauðsyn ber til að efla mælingar á styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti og brýnt er að setja mælistöð austar í höfuðborginni, t.d. á Norðlingaholti (eins og Umhverfisstofnun hefur gert tillögu um). Einnig er þörf fyrir aðra mælistöð á útivistarsvæði á Hellisheiði og þá þriðju í Hveragerði.

Heilsuspillandi áhrif.
    Brennisteinsvetni H 2S er baneitrað efni í miklu magni en helst eru það augu, lungu og öndunarvegur sem eru viðkvæm fyrir efninu eins og öðrum brennisteinssamböndum. Í litlum styrk er efnið fyrst og fremst ertandi fyrir öndunarfæri.
    Styrkur efnisins í andrúmslofti í Reykjavík samkvæmt framangreindum mælingum er ekki talinn valda bráðri heilsufarslegri áhættu en eins og bent hefur verið á skortir m.a. mælingar í byggðum nær Hellisheiði og á vinsælum útivistarsvæðum þar. Þá getur það hugsanlega orkað tvímælis að beina ferðamönnum, t.a.m. fjallgöngumönnum, inn á svæðið en slæm áhrif brennisteinsvetnis á lungu aukast við áreynslu.
    Litlar rannsóknir liggja fyrir á langtímaáhrifum þess á heilsu fólks að búa við stöðugan styrk brennisteinsvetnis þótt í litlum mæli sé. Sigurður Þór Sigurðarson, læknir og sérfræðingur í lungna-, umhverfis- og atvinnusjúkdómum, sagði í viðtali við Spegilinn hinn 13. nóvember 2007 að H 2S-mengun bitni fyrst og fremst á lungna- og astmasjúklingum. Hann segist einnig hafa af því áhyggjur að börn alist upp í umhverfi þar sem magn brennisteinsvetnis er ávallt til staðar. Sigurður vitnar í erlendar rannsóknir sem sýna að ýmis mengunarefni hafa mjög neikvæð áhrif á lungnaþroska í börnum, en astma- og öðrum öndunarfærissjúkdómum barna vex ásmegin víða um heim.
    Sigurður telur rétt að fanga brennisteinsvetnið úr útblæstri jarðgufuvirkjana á Hellisheiði því enda þótt rannsóknir á þessu tiltekna efni sýni ekki slík tengsl hafa menn samt áhyggjur af því að þau geti verið til staðar. Það er því betra að hafa varann á en að komast að því eftir 10–20 ár að þetta hafi verið skaðlegt eins og læknirinn bendir á. Umhverfisstofnun hefur lagt til að sú leið verði tekin til athugunar og bent á að skoða þurfi vandlega kostnað við slíka hreinsun og hvaða áhrif það hefur á hagkvæmni virkjananna og raforkuverð.
    Tækni til að farga H 2S er alþekkt enda eru vandamál af þess völdum mun meiri við jarðgasvinnslu en við jarðhitavinnslu og hefur hreinsun þess því verið úrlausnarefni erlendis um árabil. Mörgum aðferðum er beitt við nýtingu brennisteinsvetnis og förgun, og er það m.a. víða notað til framleiðslu á gifsi. Orkuveita Reykjavíkur vinnur nú að tilraun í Hellisheiðarvirkjun til að fanga brennisteinsvetnið úr jarðgufunni og veita því aftur ofan í jarðhitageyminn um borholur með skiljuvatni frá virkjuninni. Er þetta hluti af koltvísýringsverkefni fyrirtækisins, en í því er reynt að fanga CO 2 og fella út í bergi utan við jarðhitavinnslusvæðið.
    Að framansögðu er ljóst að það hlýtur að vera eðlileg krafa að brennisteinsvetni sé hreinsað úr útblæstri jarðvarmavirkjana á Hengilssvæðinu og á öðrum þeim stöðum þar sem losun efnisins getur hugsanlega haft neikvæð áhrif á heilsu fólks.

Stjórnvöld sýni frumkvæði og ábyrgð.
    Ekki eru allir sammála um hve mikið magn brennisteinsvetnis veldur skaða, en ýmsir benda réttilega á að hérlendis séum við enn langt undir þeim mörkum sem hingað til hafa verið talin heilsuspillandi. Gera þarf frekari rannsóknir í þessum efnum og frekari mælingar, sbr. framansagt.
    Reglan hlýtur hins vegar ávallt að vera sú að fara frekari varfærnari leið heldur en áhættusamari og gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir hvers kyns mengun. Í þeim efnum má m.a. benda á að í Kaliforníu hafa umhverfismörk verið miðuð við næmni fólks fyrir lykt en þar er mikil vínviðarrækt sem er óvenjulega næm fyrir mengun af völdum brennisteinsvetnis. Í Kaliforníu eru mörkin því 42 míkrógrömm í rúmmetra sé miðað við klukkustundarmeðaltal, en rannsóknir sýna að við þann styrk skynja um 80% almennings lyktina. Mælingar frá því í febrúar 2006 til miðjan febrúar 2007 sýndu að styrkur brennisteinsvetnis í Reykjavík fór samtals 48 sinnum yfir umhverfismörk Kaliforníu á mislöngum tímabilum. Af þessum 48 skiptum urðu 45 skipti eftir 1. september 2006, daginn sem Hellisheiðarvirkjun var gangsett.
    Í reglugerð um loftgæði nr. 787/1999 er aðeins fjallað um brennisteinsdíoxíð, SO 2, en ekki brennisteinsvetni, H 2S. Með aukinni nýtingu jarðhita á háhitasvæðum gerist þörfin fyrir frekari rannsóknir og aðgerðir vegna H 2S í andrúmslofti enn brýnni en áður og mikilvægt er að ríkisvaldið sýni hér frumkvæði og ábyrgð. Tryggja þarf með öllum tiltækum ráðum að loft- og lyktarmengun sé haldið í lágmarki og þeim náttúru- og lífsgæðum sem felast í hreinu og ómenguðu lofti viðhaldið. Setja þarf skýr umhverfismörk fyrir magn H 2S í andrúmslofti og útblæstri þannig að í starfsleyfi fyrir mengandi atvinnurekstur eins og jarðgufuvirkjanir verði ávallt ákvæði um viðeigandi ráðstafanir til að hamla gegn loftmengun og að beita verði til þess bestu fáanlegu tækni, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði. Fylgiskjal I.


Umsögn Umhverfisstofnunar, 29. október 2007.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Athugasemdir Hveragerðisbæjar við frummatsskýrslu um Bitruvirkjun.

(hveragerdi.is 7.11.2007.)


    Frummatsskýrsla framkvæmdaraðila (OR) vegna fyrirhugaðrar Bitruvirkjunar í Sveitarfélaginu Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi, ofan við vestanverðan Reykjadal var lögð fram til kynningar á fundi skipulags- og bygginganefndar Hveragerðisbæjar í gær 6. nóvember.
    Eftirfarandi var samþykkt samhljóða í nefndinni:
    Skipulags- og byggingarnefnd gerir eftirfarandi athugasemdir við frummatsskýrsluna:
     1.      Framkvæmdasvæðið er gríðarstórt eða samkvæmt frummatsskýrslunni um 285 ha. Svæðið er í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfus, skilgreint sem „Opið óbyggt svæði“ og sem „Vatnsverndarsvæði II, grannsvæði vatnsbóla“. Svæðið er auk þess á Náttúruminjaskrá en þar segir „Hengilssvæðið, Ölfushreppi, Grafningshreppi, Árnessýslu. (1) Vatnasvið Grændals, Reykjadals og Hengladala ásamt Marardal og Engidal norðan Húsmúla. Að sunnan liggja mörk um Skarðsmýrarfjall, Orrustuhól og Hengladalsá að Varmá. (2) Stórbrotið landslag og fjölbreytt að jarðfræðilegri gerð, m.a. jarðhiti“. Rík ástæða er því til að hlífa svæðinu fyrir stórfelldum framkvæmdum.
     2.      Að mati nefndarinnar er Hengilssvæðið eitt mikilvægasta útivistarsvæðið (óspillta) á Íslandi, einkum vegna fjölbreytileika þess, auðvelt aðgengi að því og nálægð við þéttbýlasta svæði landsins. Öll breyting á núverandi yfirbragði svæðisins dregur úr gildi þess sem útivistarsvæði fyrir þá sem njóta vilja óspilltrar íslenskrar náttúru í öllum sínum fjölbreytileika. Í frummatsskýrslunni er í rauninni komist að sömu niðurstöðu en í niðurlagi 29. kafla segir „að áhrif Bitruvirkjunar á núverandi ferðaþjónustu og útivist verði talsverð“. Þá er ekki litið til þeirrar skerðingar sem framkvæmdin hefur á þá framtíðarmöguleika, sem svæðið býður upp á í ferðamannaþjónustu.
     3.      Samkvæmt frummatsskýrslunni er vatnsþörf fullbyggðrar virkjunar um 120 l/sek. Myndir í skýrslunni, af stefnum grunnvatnsstrauma á svæðinu, sýna að neysluvatn Hveragerðinga kemur að hluta til frá virkjunarsvæðinu. Að mati nefndarinnar er ekki gerð fullnægjandi grein fyrir áhrifum vatnstöku fyrir virkjunina á vatnsból Hvergerðinga.
     4.      Samkvæmt frummatsskýrslunni hefur mengun, sem bundin er við framkvæmdatíma virkjunarinnar, óveruleg áhrif á yfirborðsvatn og þar sem niðurrennslisholur virkjunarinnar verði fóðraðar niður fyrir grunnvatnsstrauma muni afrennsli frá virkjuninni hafa óveruleg áhrif á grunnvatn á svæðinu. Nefndin telur að ekki sé tekið nægjanlegt tillit til mengunarhættu sem fylgir virkjunarframkvæmdunum og rekstri virkjunarinnar s.s. vegna umferðar og fráveitu. Í þessu sambandi telur nefndin að ekki sé með fullnægjandi hætti sýnt fram á að framkvæmdin spilli ekki gæðum neysluvatns í Hveragerði. Bent er á að vatnsbólin eru einungis í um 4,5 km fjarlægð frá virkjunarsvæðinu. Ennfremur er bent á að niðurdæling affallsvatns frá Hellisheiðarvirkjun hefur enn ekki skilað fullnægjandi árangri.
     5.      Á virkjunarsvæðinu eru vinsælar göngu- og reiðleiðir, sem þar hafa verið um aldir. Samkvæmt frummatsskýrslunni munu yfirborðslagnir þvera reiðleið á svæðinu og verður því að finna henni nýjan stað ef af framkvæmdum verður. Að mati nefndarinnar spilla fyrirhugaðar framkvæmdir eða a.m.k. draga verulega úr gæðum göngu og reiðleiða á svæðinu.
     6.      Í frummatsskýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin hafi í för með sér allnokkra aukningu á hljóðstyrk á svæði, sem annars getur talist kyrrlátt svæði. Áhrifin eru þó talin bundin við framkvæmdasvæðið. Nefndin bendir á að í nútíma þjóðfélagi er kyrrð, ekki síst í ósnortinni náttúru, eftirsóknarverð gæði. Vegna reiðleiða á svæðinu má einnig benda á að hestar eru mjög viðkvæmir fyrir hávaða.
     7.      Samkvæmt frummatsskýrslunni eru áhrif framkvæmdarinnar á loftgæði óveruleg en áhrif hennar á lykt metin veruleg. Að mati nefndarinnar er lykt einn þáttur loftgæða. Nefndin bendir á nýlegar fréttir í fjölmiðlum um loftmengun í Reykjavík frá Hellisheiðarvirkjun vegna brennisteinsvetnis (H2S). Þá veldur brennisteinsvetni einnig áfalli á einstaka málmtegundir sem getur dregið verulega úr endingartíma raftækja. Vegna nálægðar svæðisins við Hveragerði (u.þ.b. 5 km) og vegna þess að norðanátt er ríkjandi vindátt á svæðinu þá er staðsetning virkjunarinnar af þessum sökum að mati nefndarinnar mjög óhagstæð Hvergerðingum.
     8.      Framkvæmdasvæðið er svo til í túnfæti bæjarins og fjölmargir ferðaþjónustuaðilar í Hveragerði og nágrenni eiga beinna hagsmuna að gæta í þessu máli. Nefndin telur að framkvæmd sem þessi þurfi mun meiri undirbúning, rannsóknir og kynningu og telur að marka þurfi heildar stefnu um jarðhitanýtingu á Hellisheiðar- og Hengilssvæðinu áður en lengra verður haldið í virkjanaframkvæmdum. Þannig verður nauðsynleg sátt um málið best tryggð.
     Afgreiðsla: Nefndin er sammála um að hér sé um að ræða framkvæmd sem muni hafa veruleg skaðleg áhrif á möguleika Hveragerðis og nágrennis sem íbúða- og ferðamannasvæðis og leggst því alfarið gegn framkvæmdinni.



Fylgiskjal III.


Umsögn skipulags- og bygginganefndar Hveragerðisbæjar um breytingu á aðalskipulagi vegna fyrirhugaðrar Bitruvirkjunar o.fl.

(Úr fundargerð 76. fundar skipulags- og byggingarnefndar Hveragerðisbæjar
sem haldinn var þriðjudaginn 4. desember 2007.)


     Aðalskipulagsbreyting iðnaðarsvæði Hellisheiði og tengdar framkvæmdir.
    Lagður fram tölvupóstur frá skipulags- og byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfus, dags. 15/11/2007, þar sem kynnt er tillaga, ásamt umhverfisskýrslu, að breytingu á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfus ,,Iðnaðarsvæði Hellisheiði og tengdar framkvæmdir“ dagsett 26/09/ 2007.
    Afgreiðsla: Nefndin mótmælir tillögum um iðnaðarsvæði við Bitru þar sem hún telur að fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu muni hafa veruleg skaðleg áhrif bæði á umhverfi og samfélag einkum í Hveragerði og nágrenni. Nefndin vísar í þessu sambandi í umsögn sína um frummatsskýrslu Bitruvirkjunar, dags. 6/11/2007, þar sem hún telur að fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu muni hafa veruleg skaðleg áhrif á möguleika Hveragerðis og nágrennis sem íbúða- og ferðamannasvæðis.
    Nefndin mótmælir einnig tillögum um afléttingu vatnsverndar á um 2.200 ha svæði kringum Bitru og Hverahlíð, sem nær allt að Kambabrún. Bent er á að ekki er einungis verið að leggja til afléttingu vatnsverndar á fjarsvæðum heldur einnig á grannsvæðum vatnsbóla, bæði í Hveragerði og vestanverðu Ölfusi. Nefndin telur að í meðfylgjandi umhverfisskýrslu sé ekki gerð nægilega góð grein fyrir afleiðingum þessarar tillögu á umrædd vatnsból og kallar eftir gögnum sem lágu til grundvallar ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfus, á sínum tíma, um vatnsvernd á Hellisheiði sbr. gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins en benda má á að einungis um þrjú ár eru liðin frá því það var staðfest.
    Nefndin bendir á að tillagan sýnir vegtengingu við Suðurlandsveg austan við Smiðjulaut sem væntanlega verður aflögð. Nefndin telur fyrirsögn tillögunnar villandi þar sem ekki er getið um breikkun Suðurlandsvegar og ekki verður séð að sú framkvæmd tengist fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum. Nefndin fagnar hinsvegar tillögum um breikkun Suðurlandsvegar og staðsetningu þriggja nýrra mislægra gatnamóta á móts við Sauðadali (Bolöldu), Kolviðarhól og Hverahlíð.



Fylgiskjal IV.


Árétting bæjarstjórnar Hveragerðis um Bitruvirkjun.

(Úr fundargerð bæjarstjórnar Hveragerðis sem haldinn var fimmtudaginn
14. febrúar 2008.)


    Lögð fram eftirfarandi tillaga frá Eyþóri H. Ólafssyni:
    Vegna bókunar Skipulags- og byggingarnefndar frá 4. des s.l. vill bæjarstjórn Hveragerðisbæjar árétta eftirfarandi.
    Bæjarstjórn hefur ekki tekið afstöðu með eða á móti byggingu álvera.
    Athugasemdir Skipulags- og byggingarnefndar Hveragerðis snúa að áformum um byggingu Bitruvirkjunar sem alfarið er lagst gegn og reynist Bitruvirkjun nauðsynleg forsenda álvers telur Hveragerðisbær nauðsynlegt að leggjast gegn málinu öllu.
Greinargerð:
    Ýmsir hafa haft samband og telja að álit skipulags- og byggingarnefndar geti haft neikvæð áhrif á framgang mála varðandi byggingu álvers í Helguvík. Þar sem ljóst er að Hveragerðisbær hefur enga ástæðu til að hafa skoðun hvorki með né á móti álveri í Helguvík að öðru leiti en því sem viðkemur virkjunarframkvæmdum sem hugsanlega tengjast álverinu eða eru forsendur þess sé ég undirritaður ástæðu til að bera fram ofangreinda tillögu fyrir bæjarstjórn. Með tillögunni er engin afstaða tekin, hvorki fyrir hönd Hveragerðisbæjar eða bæjarbúa almennt, með eða á móti álverinu eða álverum almennt. Skoðun Hveragerðisbæjar snýr eingöngu að virkjanaframkvæmdum í nágrenni við bæinn sem haft geta neikvæð áhrif á umhverfi og lífsafkomu bæjarbúa.

    Eyþór H. Ólafsson.


    Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Herdís Þórðardóttir, Róbert Hlöðversson og Aldís Hafsteinsdóttir.
    Tillagan samþykkt samhljóða. Fylgiskjal V.

VGK Hönnun:

Hreinsun brennisteinsvetnis frá jarðgufuvirkjunum á Hengilssvæðinu.
(Minnisblað 31.1.2008.)

    Hreinsun brennisteinsvetnis var fyrst skoðuð fyrir Nesjavallavirkjun 1989 1 og nokkrum sinnum síðan 2 , 3 . Fjölmargar hreinsunaraðferðir fyrir brennisteinsvetni eru þekktar m.a. úr jarðgasiðnaði 4 , en einnig fyrir jarðhitavinnslu 5 , 6 og má flokka þær í líffræðilegar, efnafræðilegar eða eðlisfræðilegar 7 . Líffræði- og efnafræðilegar aðferðir byggjast oftast á framleiðslu á brennisteini eða brennisteinssýru. Ókostir þessara aðferða er þörfin sem skapast á förgun brennisteins eða brennisteinssýru, en hún hefur umtalsverð umhverfisáhrif auk þess sem umtalsverðra fjárfestinga er þörf fyrir þessar aðferðir.
    Eðlisfræðilegar aðferðir byggja á ísogi brennisteinsvetnis í vatn sem beint er í niðurrennsli. Bæði koldíoxíð og brennisteinsvetni sem eru aðalefnasamböndin í jarðhitagasi leysast í vatni og mynda súra lausn. Til að draga úr sýruáhrifum af niðurrennslinu er fyrirhugað að aðskilja þessi efni fyrir niðurrennslið þ.a. einungis brennisteinsvetni fari þá leið. Slíkur aðskilnaður getur byggst annaðhvort á eimingu eða sérhæfðu ísogi brennisteinsvetnis í vatnslausn amíns (MDEA) eða karbónats (Na 2CO 3 eða K 2CO 3). Slíkt sérhæft ísog er þekkt úr jarðgasiðnaði víða um heim.
    Kostirnir við ísog brennisteinsvetnis og niðurrennsli í vatnslausn eru einkum þeir að engin aðkeypt efni eru notuð, engin efni verða til sem ekki eru þegar í náttúrulegu ferli og fjárfesting er veruleg minni en við efnafræðilegar aðferðir. Reynsla er þegar í landinu við hönnun, byggingu og rekstur sambærilegra hreinsistöðva, en metanhreinsistöð Sorpu í Álfsnesi byggir á sambærilegri tækni. Almennt er eiming og ísog vel þekktar aðgerðir í efnaiðnaði, upplýsingar sem þarf til hönnunar slíks búnaðar er auðvelt að nálgast og reksturinn er fræðilega einfaldur. Reynslan frá Álfsnesi hefur sýnt að auðvelt er að ná yfir 99% hreinsivirkni. Helsti ókostur við þessa aðferð er ef staðsetning niðurrennslis er með þeim hætti að brennisteinsvetni nái að hringrása í jarðhitakerfinu þannig að styrkur þess aukist í gufu fra vinnsluholum.
    Undirbúningur að uppsetningu tilraunastöðvar til hreinsunar á brennisteinsvetni við Hellisheiðarvirkjun er þegar hafinn og er gert ráð fyrir að hún verði komin í rekstur um mitt ár 2008. Í tilraunastöðinni verða ýmsar útfærslur og mismunandi aðstæður kannaðar til að tryggja bestu hönnun nýrrar hreinsistöðvar, sjá mynd.
    Hönnun hreinsistöðvar fyrir virkjanir OR á Hengilssvæðinu hefst að loknum rekstri tilraunastöðvar seint á árinu 2008 eða í ársbyrjun 2009 og gæti fullbúin hreinsistöð tekið til starfa 12–18 mánuðum síðar.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Ein af fyrirhuguðum útfærslum tilraunastöðvar.

Neðanmálsgrein: 1
1     VBL 1989. Förgun brennisteinsvetnis við Nesjavallavirkjun, frumathugun fyrir Hitaveitu Reykjavíkur.
Neðanmálsgrein: 2
2     VGK og VBL 1993. Nesjavallavirkjun – Förgun brennisteinsvetnis. Skýrsla unnin fyrir Hitaveitu Reykjavíkur.
Neðanmálsgrein: 3
3     VGK 2000 og 2005. Óbirtar greinargerðir.
Neðanmálsgrein: 4
4     Kohl A. & Nielsen R., 1997. Gas Purification 5th Edition. Gulf Publishing.
Neðanmálsgrein: 5
5     Galeski og Ananth 1978. Evaluation of H2S Control Technology for Geothermal Energy Sources. US Department of Energy.
Neðanmálsgrein: 6
6     Sanopoulos & Karabelas 1997. H2S Abatement in Geothermal Plants: Evaluation of Process Alternatives. Energy Resources, 19, 63–77.
Neðanmálsgrein: 7
7     Teitur Gunnarsson, Gunnlaugur Friðbjarnarson og Ásgeir Ívarsson 2007. Hreinsun brennisteinsvetnis. Erindi á ráðstefnu Efnafræðifélags Íslands.