Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 528. máls.

Þskj. 829  —  528. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda
og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 9. gr. laganna:
     a.      4. málsl. orðast svo: Heimilt er að segja upp samningi með tveggja mánaða fyrirvara.
     b.      Við 5. málsl. bætist: enda varði samningur ráðstöfun á skyldubundnu lágmarksiðgjaldi skv. 2. gr.

2. gr.

    Við 1. mgr. 11. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um heimild til endurgreiðslu lífeyrissparnaðar í séreign til erlendra ríkisborgara gilda ákvæði 4. mgr. 19. gr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Lífeyrissjóði er heimilt að gefa sjóðfélögum kost á að flýta töku lífeyris, enda hefjist taka lífeyris ekki fyrr en sjóðfélagi verður 60 ára, og fresta töku lífeyris en þó ekki lengur en til 75 ára aldurs.
     b.      Í stað orðanna „Í síðasta lagi sjö árum áður en taka ellilífeyris getur fyrst hafist“ í 2. tölul. 3. mgr. kemur: Áður en taka lífeyris hefst en þó eigi síðar en fyrir 65 ára aldur.

4. gr.

    Við 18. gr. laganna bætist ný málsgrein, sem verður 4. mgr., svohljóðandi:
    Lífeyrissjóðum er heimilt að skila þeim yfirlitum sem um getur í 2. og 3. mgr. með rafrænum hætti til sjóðfélaga óski sjóðfélagi eftir því.

5. gr.

    2. málsl. 28. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Með því að lána verðbréf að uppfylltum skilyrðum 10. mgr.
     b.      Í stað orðsins „Liechtenstein“ í 2. og 3. málsl. 2. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. kemur: ríkja Evrópska efnahagssvæðisins.
     c.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Lífeyrissjóðum er heimilt að lána verðbréf. Verðbréfalán lífeyrissjóðs mega þó ekki nema hærri fjárhæð en 25% af hreinni eign sjóðsins. Gerður skal skriflegur lánasamningur er skilgreini réttindi og skyldur samningsaðila. Lánstími má vera allt að 12 mánuðum en þó er lífeyrissjóðum heimilt að lána verðbréf ótímabundið ef lánasamningur kveður á um heimild til innköllunar með eigi meira en fimm viðskiptadaga fyrirvara. Ef greiddur er út arður eða vextir eða annar hagnaður af lánuðum verðbréfum á lánstímanum skulu samsvarandi greiðslur greiddar sjóðnum samkvæmt nánari skilmálum í lánasamningi. Auk þess skal annað eftirtalinna skilyrða vera uppfyllt:
                  1.      Samningur um verðbréfalán fari fram fyrir tilstilli viðurkenndrar verðbréfamiðstöðvar eða viðurkenndrar kauphallar, eða
                  2.      lántakinn hafi starfsleyfi og lúti eftirliti vegna verðbréfaviðskipta á Evrópska efnahagssvæðinu.
                 Í tengslum við verðbréfalán skal setja tryggingar sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
                  1.      Virði tryggingarinnar á samningstímanum skal samsvara að minnsta kosti markaðsverðmæti þeirra fjármálagerninga sem eru lánaðir.
                  2.      Trygging skal vera á formi reiðufjár eða verðbréfa, sem annars vegar eru gefin út með ábyrgð aðildarríkis OECD eða EES-ríkis eða sveitarfélögum þeirra eða alþjóðastofnunum eða hins vegar verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.
                  3.      Trygging skal vera handveð.
                  4.      Séu verðbréf sett sem trygging fyrir láni skal hvað þau varðar fylgja reglum 2.–5. mgr.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru gerðar nokkrar breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Meginbreytingin er sú að lífeyrissjóðum verður heimilt að taka þátt í skipulegum lánamarkaði með verðbréf. Þá eru lagðar eru til nokkrar breytingar sem stefna að auknum sveigjanleika við ráðstöfun lífeyrisréttinda og greiðslu ellilífeyris auk nokkurra smærri breytinga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í a-lið greinarinnar er lagt til að uppsagnarfrestur samnings um viðbótartryggingavernd eða séreignarsparnað verði styttur út sex mánuðum í tvo. Rétt þykir að auka sveigjanleika aðila til ráðstöfunar þess iðgjaldshluta sem er umfram iðgjaldshluta til öflunar lágmarkstryggingaverndar með því að stytta uppsagnarfrestinn.
    Samkvæmt núgildandi 5. málsl. 1. mgr. 9. gr. skal sá sem segir upp samningi um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað tilkynna uppsögn til þess lífeyrissjóðs sem ráðstafar iðgjaldi hans til lágmarkstryggingaverndar. Að öðrum kosti tekur uppsögnin ekki gildi. Í b-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að þessi tilkynningarskylda falli brott ef viðkomandi samningur varðar einvörðungu ráðstöfun iðgjalds umfram skyldubundið lágmarksiðgjald skv. 2. gr. laganna. Ef samningur varðar hins vegar að einhverju leyti ráðstöfun á iðgjaldi til lágmarkstryggingaverndar er uppsögn hans áfram háð tilkynningu skv. 5. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt að tekinn verði af allur vafi um rétt erlendra ríkisborgara til endurgreiðslu iðgjalda vegna öflunar lífeyrisréttinda í séreign þegar þeir flytjast úr landi enda sé slíkt ekki óheimilt samkvæmt milliríkjasamningi sem Ísland á aðild að. Ákvæði þess efnis er í III. kafla laganna þar sem kveðið er á um lífeyrissparnað í sameign. Rétt þykir að sömu endurgreiðsluheimildir gildi um iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda í séreign. Því er lagt til að í II. kafla þar sem fjallað er um lífeyrissparnað í séreign verði vísað til 4. mgr. 19. gr.

Um 3. gr.

    Í a-lið er lagt til að svigrúm lífeyrissjóðs til þess að gefa sjóðfélögum kost á að flýta eða fresta töku lífeyris verði aukið úr fimm árum í allt að 10 ár eftir því hvenær sjóðfélagi getur hafið töku lífeyris samkvæmt almennri reglu, þ.e. sjóðfélagi geti í fyrsta lagi hafið töku lífeyris 60 ára og í síðasta lagi þegar hann hefur náð 75 ára aldri. Með þessum hætti geta lífeyrissjóðir boðið sjóðfélögum, sem eiga réttindi í fleiri en einum sjóði, að hefja töku ellilífeyris úr báðum eða öllum sjóðunum á einum tímapunkti.
    Í b-lið er lagt til að heimildir sjóðfélaga og maka hans eða eftir atvikum fyrrverandi maka til þess að ákveða með gagnkvæmum hætti að verðmæti uppsafnaðra ellilífeyrisréttinda þeirra skuli allt að hálfu renna til hins verði rýmkaðar þannig að svigrúm til slíkrar ákvörðunar verði aukið. Það er skilyrði í núgildandi lögum að slík ákvörðun liggi fyrir í síðasta lagi sjö árum áður en taka lífeyris getur fyrst hafist. Heimildin hefur verið lítið notuð og það kann að vera vegna þessa tímaskilyrðis. Því er lagt til að heimildin verði rýmkuð þannig að heimildin gildi uns taka lífeyris hefst en þó eigi lengur en til 64 ára aldurs, þ.e. samningur þarf að liggja fyrir áður en 65 ára aldri er náð í síðasta lagi. Með hliðsjón af mikilli atvinnuþátttöku bæði karla og kvenna og að almennt er ekki mikill aldursmunur á hjónum ætti rýmkunin ekki að hafa mikil fjárhagsleg áhrif í raun.

Um 4. gr.

    Í greininni er lagt til að lífeyrissjóðir geti boðið sjóðfélögum upp á að afþakka hefðbundin pappírsyfirlit enda miðli lífeyrissjóður viðeigandi upplýsingum til þeirra með sannanlegum og tryggum hætti á lokuðu vefsvæði eða öðrum sambærilegum rafrænum hætti. Upplýsingagjöf lífeyrissjóða til sjóðfélaga í gegnum lokuð vefsvæði hefur stóraukist á síðastliðnum árum og því er lagt til að sjóðfélögum verði veitt heimild til þess að afþakka hefðbundin pappírsyfirlit telji þeir hinn vefræna aðgang fullnægjandi.

Um 5. gr.

    Í greininni er lagt til að heimild samtaka lífeyrissjóða til þess að geta tilkynnt breytingar á samþykktum í umboði aðildarsjóða sinna verði felld brott. Reynslan hefur sýnt að ekki er þörf á slíkri heimild.

Um 6. gr.

    Í greininni eru lagðar til tvenns konar breytingar á 36. gr. laganna. Annars vegar er lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að taka þátt í viðskiptum á skipulegum lánamarkaði með verðbréf og hins vegar að vísað verði til EES-ríkjanna í 2. og 3. mgr. greinarinnar en átta ríki, sem ekki eiga aðild að Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD), hafa fengið inngöngu í Evrópusambandið á undanförnum árum.
    Í a- og c-lið greinarinnar er lagt er til að lífeyrissjóðum verði heimilt að taka þátt í skipulegum lánamarkaði með verðbréf. Með því er átt við að lífeyrissjóður geti yfirfært verðbréf tímabundið til annars aðila, þ.e. lántaka, á grundvelli samnings þar um. Er lántaki skuldbundinn til að skila bréfunum til að baka annaðhvort að kröfu lífeyrissjóðs eða að tilteknum tíma liðnum. Rétt þykir að lánveitingar af þessu tagi nemi ekki hærri fjárhæð en sem nemur 25% af hreinni eign lífeyrissjóðs. Í ákvæðinu er mælt fyrir um að verðbréf verði eingöngu lánuð til lántaka sem hafa starfsleyfi eða heimild til þess að stunda verðbréfaskipti á EES-svæðinu eða fyrir tilstilli viðurkenndrar verðbréfamiðstöðvar eða viðurkenndrar kauphallar. Að auki eru sett skilyrði um að fullnægjandi tryggingar séu settar annaðhvort í formi reiðufjár eða annarra verðbréfa. Tryggingar þurfa að lágmarki að vera jafnverðmætar verðmæti þeirra verðbréfa sem eru lánuð. Enn fremur skal trygging vera á formi handveðs og því er ekki hægt að nýta trygginguna til frekari fjárfestinga. Þá er mælt fyrir um að séu verðbréf sett sem trygging fyrir láni skuli hvað þau varðar fylgja reglum 2.–5. mgr. 36. gr. laganna.
    Í b-lið er lögð til breyting sem leiðir af samningsskuldbindingum okkar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningnum). Hún felst í því að tryggja lífeyrissjóðum heimild til að fjárfesta í verðbréfum sem skráð eru eða eftir atvikum gefin út af aðilum í EES-ríkjum með sama hætti og aðilum innan OECD, en ein níu EES-ríki eru ekki aðilar að stofnuninni.

Um 7. gr.

         Í greininni er kveðið á um gildistöku laganna.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Meginbreytingin er sú að lagt er til að lífeyrissjóðum verði heimilt að taka þátt í skipulegum lánamarkaði með verðbréf. Í því felst að lífeyrissjóður geti yfirfært verðbréf tímabundið til annars aðila, þ.e. lántaka, fyrir þóknun á grundvelli samnings þar um. Þá eru lagðar til nokkrar breytingar sem miða að auknum sveigjanleika við ráðstöfun lífeyrisréttinda og greiðslu ellilífeyris auk nokkurra smærri breytinga.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.