Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 537. máls.

Þskj. 838  —  537. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 121/1994, um neytendalán,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Á eftir 2. mgr. 3. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fjármálafyrirtæki er ekki heimilt að innheimta kostnað vegna óheimils yfirdráttar af tékkareikningi ef slík gjaldtaka á ekki stoð í samningi. Kostnaður vegna óheimils yfirdráttar skal vera hóflegur og endurspegla kostnað vegna yfirdráttarins.

2. gr.

    Á eftir 2. mgr. 6. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Upplýsa skal neytanda um fyrirhugaðar breytingar á gjaldskrá sem honum eru ekki til hagsbóta, með hæfilegum fyrirvara. Lánveitandi telst uppfylla skilyrði þessarar málsgreinar ef upplýsingar eru veittar með eftirfarandi hætti, að vali neytanda:
     a.      skriflega, t.d. með reikningsyfirliti,
     b.      á öðrum varanlegum miðli en pappír, eða
     c.      í gegnum vefsíðu á vegum lánveitanda, enda hafi neytanda verið tilkynnt um veffang vefsetursins og hvar hægt sé að nálgast umræddar upplýsingar á vefsetrinu.
    Með varanlegum miðli í b-lið er átt við tæki sem gerir neytanda kleift að geyma upplýsingar, sem beint er til hans, óbreyttar þannig að hann geti afritað þær og flett upp í þeim í ákveðinn tíma.

3. gr.

    Á eftir 16. gr. laganna kemur ný grein, 16. gr. a, svohljóðandi:
    Lánveitanda er óheimilt að krefjast greiðslu uppgreiðslugjalds af eftirstöðvum láns í íslenskum krónum með breytilegum vöxtum sem greitt er upp fyrir þann tíma sem umsaminn er, ef upphaflegur höfuðstóll lánsins er að jafnvirði 50 millj. kr. eða minna.
    Lánveitandi getur ekki krafist uppgreiðslugjalds ef ástæða uppgreiðslu er gjaldfelling láns af hans hálfu.
    Í þeim tilvikum sem heimilt er að semja um uppgreiðslugjald skal kveðið á um slíkt í lánssamningi. Tilgreina skal upplýsingar um hvernig uppgreiðslugjald er reiknað út og hvenær slíkur kostnaður fellur á.
    Í þeim tilvikum sem heimilt er að semja um uppgreiðslugjald má fjárhæð gjaldsins að hámarki vera það tjón sem lánveitandi verður fyrir vegna uppgreiðslunnar fyrir þann tíma sem umsaminn er. Ef kveðið er á um heimild til endurskoðunar vaxta í lánssamningi með föstum vöxtum skal miða útreikning uppgreiðslugjalds við tímann fram að næsta endurskoðunardegi vaxta. Ráðherra skal setja nánari reglur um útreikning á tjóni vegna uppgreiðslu.

4. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 18. gr. laganna orðast svo: Neytandi skal gera kröfu um greiðslu tryggingarfjár innan tveggja ára frá afhendingu vöru eða þjónustu, eða innan fimm ára þegar um ræðir söluhlut sem ætlaður er verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti frá því að honum var veitt viðtaka.
    

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfest verði ný ákvæði í lög nr. 121/1994, um neytendalán, með síðari breytingum, um heimildir lánveitenda til gjaldtöku, skyldu til upplýsingagjafar gagnvart neytendum og lengingu frests neytenda til að gera kröfu um greiðslu tryggingarfjár skv. 18. gr. laganna.
    Hinn 29. ágúst 2007 skipaði viðskiptaráðherra starfshóp til að gera úttekt á lagaumhverfi að því er varðar viðskipti neytenda og fjármálafyrirtækja í ljósi nútímaviðskiptahátta, einkum með tilliti til gjaldtöku. Fulltrúar helstu hagsmunaaðila áttu sæti í hópnum, þ.e. Fjármálaeftirlitið, Neytendastofa, Neytendasamtökin, Samtök fjármálafyrirtækja og talsmaður neytenda, auk viðskiptaráðuneytis. Starfshópurinn skilaði ráðherra skýrslu í árslok 2007 og er hún aðgengileg á vefsíðu ráðuneytisins, sbr. fréttatilkynningu nr. 1/2008. Í skýrslunni er m.a. lagt til að lögfestar verði þær breytingar á lögum nr. 121/1994, um neytendalán, sem 1.–3. gr. frumvarpsins fela í sér.
    Í fyrsta lagi að lögfest verði að gjaldtaka vegna óheimils yfirdráttar af tékkareikningi skuli vera hófleg og endurspegla kostnað vegna yfirdráttarins og að hún skuli eiga stoð í samningi.
    Í öðru lagi að lögfest verði skylda lánveitanda til upplýsingagjafar gagnvart neytanda um fyrirhugaðar breytingar á gjaldskrá sem honum eru ekki til hagsbóta. Neytandi skuli hafa val um nánar tilgreindar leiðir til miðlunar upplýsinganna.
    Í þriðja lagi að sett verði nýtt ákvæði um uppgreiðslugjald. Bannað verði að krefjast uppgreiðslugjalds af eftirstöðvum láns í íslenskum krónum með breytilegum vöxtum sem greitt er upp fyrir umsaminn lánstíma, ef upphaflegur höfuðstóll lánsins er að jafnvirði 50 millj. kr. eða minna. Í þeim tilvikum sem lög takmarka ekki samningsfrelsi um uppgreiðslugjald skuli kveðið á um heimild til slíkrar gjaldtöku í lánssamningi. Tilgreina skuli upplýsingar um hvernig uppgreiðslugjald er reiknað út og hvenær slíkur kostnaður falli á. Lánveitandi geti ekki krafist uppgreiðslugjalds ef ástæða uppgreiðslu er gjaldfelling láns af hans hálfu. Í þeim tilvikum sem lög takmarka ekki samningsfrelsi um uppgreiðslugjald megi fjárhæð gjaldsins að hámarki nema því tjóni sem lánveitandi verður fyrir vegna uppgreiðslunnar fyrir þann tíma sem umsaminn er. Ef kveðið er á um heimild til endurskoðunar vaxta í lánssamningi með föstum vöxtum skuli miða útreikning uppgreiðslugjalds við tímann fram að næsta endurskoðunardegi vaxta. Ráðherra setji nánari reglur um útreikning á tjóni vegna uppgreiðslu.
    Í fjórða lagi er lagt til að frestur neytanda til að gera kröfu um greiðslu tryggingarfjár skv. 18. gr. laganna verði lengdur úr einu ári í tvö ár frá afhendingu vöru eða þjónustu, eða í fimm ár þegar um ræðir söluhlut sem ætlaður er verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að lögfest verði að gjaldtaka vegna óheimils yfirdráttar af tékkareikningi skuli vera hófleg og endurspegla kostnað vegna yfirdráttarins og að hún skuli eiga stoð í samningi.
    Tékkareikningur með yfirdráttarheimild er algeng tegund fjármálaþjónustu sem viðskiptavinum íslenskra fjármálafyrirtækja bjóðast. Í 3. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, er kveðið á um samningsgerð um yfirdráttarheimild og nánar tilgreindar kröfur gerðar til upplýsingagjafar af hálfu lánveitanda gagnvart neytanda í tengslum við slíka samningsgerð. Fjármálafyrirtæki innheimta kostnað þegar viðskiptavinir eyða um efni fram með óheimilum yfirdrætti, hvort heldur með útgáfu tékka eða greiðslukortafærslu (debetkorti). Umræður um þennan svokallaða FIT-kostnað hafa verið áberandi í þjóðfélaginu á undanförnum árum, en FIT stendur fyrir færsluskrá innstæðulausra tékka.
    Í skilmálum fjármálafyrirtækja um notkun tékkareikninga er almennt kveðið á um að reikningseigandi ábyrgist að fylgjast með stöðu inneignar og koma þannig í veg fyrir að óheimill yfirdráttur geti átt sér stað. Innheimta FIT-kostnaðar byggir því á meginreglunni um samningsfrelsi. Lög takmarka ekki rétt fjármálafyrirtækja til umræddrar gjaldtöku með öðrum en almennum hætti, enda þurfa samningsákvæði um heimildir til gjaldtöku að standast ákvæði laga, svo sem laga nr. 57/2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum, og ógildingarreglur samningalaga, nr. 7/1936.
    Óframkvæmanlegt er að gera greinarmun á ástæðum yfirdráttar umfram yfirdráttarheimild af tékkareikningi, þ.e. ásetningi og gáleysi, og tæknilega er enn ekki hægt að koma í veg fyrir að óheimill yfirdráttur eigi sér stað. Ákvæði 3. gr. laga nr. 121/1994 kveður á um samningsgerð um yfirdráttarheimild, en óheimill yfirdráttur getur átt sér stað undir vissum kringumstæðum þó svo að slíkum samningi sé ekki til að dreifa. Svokölluð síhringikort eru ein tegund debetkorta. Slíkum kortum hefur fjölgað mjög undanfarin ár, en óheimill yfirdráttur á almennt ekki að geta átt sér stað á tékkareikningum tengdum þeim. Á því eru þó undantekningar. Þannig mun sú framkvæmd til að mynda nokkuð algeng á álagstímum að slökkt sé á greiðslukortaposum seljenda vöru eða þjónustu, sem veldur því að kort sem ella ættu að hringja eftir úttektarheimild gera það ekki. Í framtíðinni munu öll greiðslukort geyma upplýsingar um inneign, stöðu eða úttektarheimild tékkareiknings í sérstöku minni (örgjörvakort). Þegar þar að kemur verður óheimill yfirdráttur og FIT-kostnaður væntanlega úr sögunni. Þangað til verða neytendur að nýta sér þau úrræði sem þegar eru fyrir hendi og miða að því að koma í veg fyrir að skilmálar um notkun tékkareikninga séu brotnir með yfirdrætti umfram heimild, svo sem notkun færslubóka og aðgengi að upplýsingum um stöðu fjármála í gegnum þjónustusíma og bankaþjónustu á internetinu.
    Gjaldtökuákvæði eru einna mikilvægustu atriðin sem neytandi tekur tillit til við samanburð á þjónustu. Fjárhæð gjalda er enn fremur grundvallaratriði í samkeppni. Gjaldtöku í fjármálaþjónustu má hins vegar flokka á eftirfarandi hátt: a) Gjöld sem innheimt eru við upphaf þjónustu og fyrir viðvarandi þjónustu, svo sem kostnaður við stofnun debetkorta/tékkareiknings. b) Gjöld sem innheimt eru vegna brota á viðskiptaskilmálum, t.d. vegna óheimils yfirdráttar. Á grundvelli þess að síðarnefnd tegund gjaldtöku er í raun viðurlagaeðlis þykja önnur sjónarmið eiga við um þau en gjaldtöku fyrir veitta þjónustu almennt. Rétt þykir að lögfesta ákvæði í nýrri 3. mgr. 3. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, um takmörkun fjárhæðar kostnaðar vegna óheimils yfirdráttar. Kostnaðurinn skal vera hóflegur og endurspegla kostnað sem hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki verður fyrir vegna yfirdráttarins. Með kostnaðartengingu er tryggt að innheimta gjalda vegna brota á viðskiptaskilmálum með óheimilum yfirdrætti byggi ekki á gróðasjónarmiðum.

Um 2. gr.

    Lagt er til að lögfest verði skylda lánveitanda til upplýsingagjafar gagnvart neytanda um fyrirhugaðar breytingar á gjaldskrá sem honum eru ekki til hagsbóta. Neytandi skal hafa val um nánar tilgreindar leiðir til miðlunar upplýsinganna: a) Skriflega upplýsingagjöf, t.d. með reikningsyfirliti. b) Upplýsingagjöf á öðrum varanlegum miðli en pappír. c) Upplýsingagjöf í gegnum vefsíðu á vegum lánveitanda, enda hafi neytanda verið tilkynnt um veffang vefsetursins og hvar hægt sé að nálgast umræddar upplýsingar á vefsetrinu.
    Við mat á því hvað sé hæfilegur fyrirvari í skilningi ákvæðisins ber að líta til efnis samnings milli aðila í hverju tilviki fyrir sig. Viðskiptavinur þarf að hafa ráðrúm til að taka afstöðu til þess hvort forsendur eru brostnar fyrir viðskiptum við hlutaðeigandi lánveitanda.
    Með varanlegum miðli í b-lið ákvæðisins er átt við tæki sem gerir neytanda kleift að geyma upplýsingar, sem beint er til hans, óbreyttar þannig að hann geti afritað þær og flett upp í þeim í ákveðinn tíma. Byggist skilgreiningin á 6. tölul. 4. gr. laga nr. 33/2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu. Símbréf, tölvupóstur, upplýsingar á disklingi, geisladiski eða stafrænum mynddiski (DVD) eru meðal þess sem fellur undir hugtakið.
    Upplýsingaskylda samkvæmt ákvæðinu tekur ekki einungis til nýrra lánssamninga, heldur ber að gefa öllum neytendum í viðskiptum við lánveitendur færi á að velja á milli fyrrgreindra boðleiða.
    Ákvæði 2. gr. frumvarpsins kann að hafa aukinn kostnað í för með sér fyrir lánveitendur verði frumvarpið að lögum. Á það ber þó að líta að upplýsingagjöf og gagnsæi í viðskiptum gagnvart neytendum er lykilatriði varðandi heimildir til gjaldtöku vegna ólíkra þjónustuþátta, líkt og byggt er á í lögum nr. 121/1994, um neytendalán. Mikilvægt er að aðgengi neytenda að gjaldskrám sé tryggt, svo þeir beri auðveldlega kennsl á útgjöld og fjárhæðir útgjalda. Tilvísanir í viðskiptaskilmálum til gildandi gjaldskráa lánveitenda á hverjum tíma eru misvel til þess fallnar að uppfylla kröfur íslenskrar löggjafar til slíkra skilmála. Í því skyni að vega upp á móti auknum kostnaði lánveitenda vegna upplýsingagjafar gagnvart neytendum gerir 2. gr. frumvarpsins ráð fyrir ólíkum leiðum til miðlunar upplýsinganna, þ.m.t. tölvupósti og birtingu upplýsinga á vefsíðu á vegum hlutaðeigandi lánveitanda, enda liggi fyrir samþykki neytanda. Ætla má að neytendur nútímans muni í verulegum mæli sækjast eftir að fá upplýsingar um breytingar á gjaldskrám, sem þeim eru ekki til hagsbóta, eftir hagkvæmum rafrænum boðleiðum.

Um 3. gr.

    Samkvæmt 16. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, er neytanda heimilt að standa skil á skuldbindingum sínum samkvæmt lánssamningi fyrir þann tíma sem umsaminn er. Notfæri neytandi sér þessa heimild á hann rétt á lækkun á heildarlántökukostnaði sem nemur þeim vöxtum og öðrum gjöldum sem greiða átti eftir greiðsludag. Í gildandi löggjöf er ekki að finna sérstakt ákvæði um uppgreiðslugjald, en samkeppnisyfirvöld hafa komist að þeirri niðurstöðu að 16. gr. laga nr. 121/1994 takmarkar ekki samningsfrelsi um slíka gjaldtöku. Sjá ákvörðun samkeppnisráðs nr. 19/2005 frá 7. júní 2005 og úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 11/2005 frá 6. október 2005, er staðfesti fyrrgreinda ákvörðun samkeppnisráðs.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði nýtt ákvæði um uppgreiðslugjald í lög nr. 121/1994, 16. gr. a. Lagt er til að bannað verði að krefjast uppgreiðslugjalds af eftirstöðvum láns í íslenskum krónum með breytilegum vöxtum sem greitt er upp fyrir umsaminn lánstíma, ef upphaflegur höfuðstóll lánsins er að jafnvirði 50 millj. kr. eða minna (1. mgr.). Í þeim tilvikum sem lög takmarka ekki samningsfrelsi um uppgreiðslugjald skuli kveðið á um heimild til slíkrar gjaldtöku í lánssamningi. Tilgreina skuli upplýsingar um hvernig uppgreiðslugjald er reiknað út og hvenær slíkur kostnaður falli á (3. mgr.). Lánveitandi geti ekki krafist uppgreiðslugjalds ef ástæða uppgreiðslu er gjaldfelling láns af hans hálfu (2. mgr.). Að því er 2. mgr. varðar, ber að miða við almennar reglur kröfuréttar um gjaldfellingu.
    Lagt er til að í þeim tilvikum sem lög takmarka ekki samningsfrelsi um uppgreiðslugjald megi fjárhæð gjaldsins að hámarki nema því tjóni sem lánveitandi verður fyrir vegna uppgreiðslunnar fyrir þann tíma sem umsaminn er. Ef kveðið er á um heimild til endurskoðunar vaxta í lánssamningi með föstum vöxtum skuli miða útreikning uppgreiðslugjalds við tímann fram að næsta endurskoðunardegi vaxta. Ráðherra skuli setja nánari reglur um útreikning á tjóni vegna uppgreiðslu (4. mgr.).
    Lög um neytendalán gilda um lánssamninga sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur, sbr. 1. og 2. gr. laganna. Ákvæði laganna gilda því um alla lánveitendur sem veita neytendalán. Lánssamningar með veði í fasteign eru ekki undanþegnir gildissviði gildandi laga um neytendalán.
    Ljóst er að lánveitendur geta orðið fyrir verulegu tjóni þegar um ræðir langtímalán og lántaki greiðir lán fyrir umsaminn gjalddaga. Sjónarmið um að sanngjarnt sé að lánveitandi fái bætt það sannanlega tjón sem verða kann við slíkar aðstæður þykja einkum sterk gagnvart lánum í íslenskum krónum með föstum vöxtum og lánum í erlendri mynt, með tilliti til endurfjármögnunaráhættu lánveitandans.
    Með lögum nr. 121/1994 voru innleidd í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar ráðsins 87/102/ EBE frá 22. desember 1986 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán. Tilskipuninni var síðar breytt með tilskipun ráðsins 90/88/EBE og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/7/EB, og lögum nr. 121/1994 breytt í kjölfar þess. Gildandi Evrópugerðir um neytendalán fela í sér lágmarkskröfur og takmarka ekki heimild EES-ríkja til lagasetningar um uppgreiðslugjald.
    Athygli skal vakin á því að væntanleg er ný Evróputilskipun um neytendalán, er leysa mun af hólmi núgildandi tilskipanir á þessu sviði. Gert er ráð fyrir að öfugt við núgildandi tilskipanir muni væntanleg gerð kveða á um innleiðingu ákvæða hennar í samræmi við orðanna hljóðan (e. full harmonisation). Tillaga framkvæmdastjórnarinnar að nýrri neytendalánatilskipun, eins og henni hefur verið breytt í meðförum stofnana ESB fram til þessa, gerir ráð fyrir að reglur um hámark uppgreiðslugjalds vegna neytendalána verði samræmdar innan Evrópu. Takmarkanir á fjárhæð uppgreiðslugjalds tíðkast í mörgum Evrópuríkjum. Veðlán falla utan gildissviðs væntanlegrar tilskipunar, en hinn 18. desember 2007 kom út Hvítbók framkvæmdastjórnar EB um samþættingu veðlánamarkaða innan ESB, COM(2007) 807. Rannsóknarvinna er því hafin á vegum ESB um það hvort heppilegt sé að setja samræmdar Evrópureglur um veðlán, þ.m.t. að því er varðar uppgreiðsluákvæði. Af ofanrituðu er ljóst að lög nr. 121/1994, um neytendalán, munu taka nokkrum breytingum á komandi árum.

Um 4. gr.

    Ákvæði 18. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, á við þegar seljandi vöru eða þjónustu veitir neytanda lán í formi viðskiptabréfs. Lagt er til að frestur neytanda til að gera kröfu um greiðslu tryggingarfjár skv. 18. gr. verði lengdur úr einu ári í tvö ár frá afhendingu vöru eða þjónustu, eða í fimm ár þegar um ræðir söluhlut sem ætlaður er verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti. Þykir heppilegt að gæta samræmis við lög nr. 48/2003, um neytendakaup, og lög nr. 42/2000, um þjónustukaup, að þessu leyti. Við setningu laga um neytendalán þótti nauðsynlegt að miða frestinn við eitt ár vegna þágildandi reglu kaupalaga um að gallar skyldu bættir kæmu þeir fram innan árs frá kaupum. Með setningu fyrrgreindra laga um neytendakaup og þjónustukaup var umræddur frestur lengdur.
    Ákvæði 2. mgr. 27. gr. laga nr. 48/2003, í VI. kafla laganna um úrræði neytanda vegna galla á söluhlut, mælir fyrir um að ef neytandi leggur ekki fram kvörtun innan tveggja ára frá þeim degi er hann veitti söluhlut viðtöku geti hann ekki borið gallann fyrir sig síðar. Ef söluhlut, eða hlutum hans, er ætlaður verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti er frestur til að bera fyrir sig galla fimm ár frá því að hlutnum var veitt viðtaka. Þetta gildir þó ekki ef seljandi hefur í ábyrgðaryfirlýsingu eða öðrum samningi tekið á sig ábyrgð vegna galla í lengri tíma.
    Í 17. gr. laga nr. 42/2000, um tilkynningarskyldu neytanda vegna galla á seldri þjónustu, segir að vilji neytandi bera fyrir sig galla á keyptri þjónustu skuli hann tilkynna seljanda það innan sanngjarns frests eftir að neytandinn vissi eða mátti hafa verið ljóst að hún væri gölluð. Hafi neytandi ekki gætt þess glatar hann rétti sínum til að bera fyrir sig gallann.
    Ef neytandi kvartar ekki innan tveggja ára frá afhendingardegi hinnar seldu þjónustu getur hann ekki síðar borið gallann fyrir sig. Þetta gildir þó ekki ef seljandi þjónustu hefur í ábyrgðaryfirlýsingu eða öðrum samningi tekið á sig ábyrgð vegna galla í lengri tíma.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 121/1994,
um neytendalán, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum í því skyni að efla neytendavernd. Skorður eru settar við gjaldtöku vegna óheimils yfirdráttar af tékkareikningi, skyldur lánveitanda til upplýsingagjafar gagnvart neytanda eru auknar, takmarkanir settar á heimildir lánveitanda til að krefjast uppgreiðslugjalds og lengdur frestur neytanda til að gera kröfu um greiðslu tryggingafjár vegna vanefnda seljanda.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs.