Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 543. máls.

Þskj. 844  —  543. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja
Fríverslunarsamtaka Evrópu og Kanada.

(Lögð fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Kanada sem undirritaður var 26. janúar 2008 í Davos í Sviss.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (European Free Trade Association, EFTA, sem Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss eru aðilar að) og Kanada sem undirritaður var í Davos í Sviss 26. janúar 2008. Meginmál samningsins í íslenskri þýðingu og frumtextinn á ensku er prentaður sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari. Viðaukar sem fylgja samningnum munu liggja frammi á lestrarsal Alþingis.
    Samningaviðræður EFTA-ríkjanna við Kanada hófust árið 1998. Hlé var gert á viðræðunum árið 2000 þegar fyrir lá nánast fullgerður samningstexti þar sem EFTA-ríkin gátu ekki fallist á þá kröfu Kanada að skip og sjóför yrðu undanþegin ákvæðum um niðurfellingu tolla. Samningaviðræður hófust að nýju haustið 2006 og þeim lauk í júní 2007. Samningurinn er sá fyrsti sinnar tegundar sem Kanada gerir við ríki í Evrópu. EFTA-ríkin hafa nú gert fríverslunarsamninga sem ná til 16 ríkja/ríkjahópa.
    Samningurinn nær fyrst og fremst til vöruviðskipta. Samningsaðilar munu þegar við gildistöku samningsins fella niður tolla á sjávarafurðir og iðnaðarvörur, þó með þeirri undantekningu að Kanada er veittur allt að fimmtán ára aðlögunartími til niðurfellingar tolla á skip og sjóför. Jafnframt munu samningsaðilar lækka eða fella niður tolla af ýmsum unnum landbúnaðarvörum. Í samningnum eru ákvæði um að taka upp viðræður um þjónustuviðskipti innan þriggja ára. Enn fremur er í samningnum að finna ákvæði um samkeppnismál, opinber útboð, samstarf hvað varðar fjárfestingar og þjónustuviðskipti auk stofnanaákvæða og ákvæða um lausn ágreiningsmála. Með tvíhliða samningi hvers EFTA-ríkis fyrir sig við Kanada eru tollar á tilteknum óunnum landbúnaðarvörum lækkaðir eða felldir niður, t.d. fær Ísland bættan markaðsaðgang fyrir kindakjöt og skyr til Kanada.

Fylgiskjal.


FRÍVERSLUNARSAMNINGUR
MILLI
KANADA
OG
RÍKJA FRÍVERSLUNARSAMTAKA EVRÓPU
(ÍSLANDS, LIECHTENSTEINS, NOREGS OG SVISS)


Kanada og lýðveldið Ísland, Furstadæmið Liechtenstein, Konungsríkið Noregur og Ríkjasambandið Sviss („EFTA-ríkin“), sem nefnast hér á eftir „samningsaðilarnir“,

SEM EINSETJA SÉR að styrkja hin sérstöku vináttubönd og samstarf milli þjóðanna,

SEM ÁRÉTTA stuðning sinn við sáttmála Sameinuðu þjóðanna og almennu mannréttindayfirlýsinguna,

SEM ÆSKJA ÞESS að stuðla að samstilltri þróun og auknum alþjóðaviðskiptum og hvetja til víðtækari alþjóðasamvinnu og samvinnu yfir Atlantsála,


SEM ERU STAÐRÁÐIN Í að skapa aukinn og öruggan markað fyrir vörur sem eru framleiddar á yfirráðasvæðum þeirra,

SEM ÆSKJA ÞESS að mynda fríverslunarsvæði með því að afnema viðskiptahindranir,

SEM ÁSETJA SÉR að draga úr samkeppnisröskun,

SEM EINSETJA SÉR að setja skýrar reglur um viðskipti sín, öllum til hagsbóta,

SEM HYGGJAST auka samkeppnishæfni fyrirtækja sinna á heimsmörkuðum,

SEM HAFA AÐ MARKMIÐI að skapa ný atvinnutækifæri og bæta vinnuskilyrði og lífskjör á yfirráðasvæðum sínum,

SEM ERU ÁKVEÐIN Í að tryggja að ávinningur af auknu frelsi í viðskiptum glatist ekki með því að einkaaðilar komi á samkeppnishindrunum,

SEM HAFA Í HUGA samninga um viðskiptalega og efnahagslega samvinnu sem voru undirritaðir milli ríkisstjórnar Kanada og ríkisstjórnar Konungsríkisins Noregs 3. desember 1997, milli ríkisstjórnar Kanada og ríkisstjórnar Ríkjasambandsins Sviss 9. desember 1997 og milli ríkisstjórnar Kanada og ríkisstjórnar lýðveldisins Íslands 24. mars 1998,


SEM BYGGJA Á réttindum sínum og skyldum samkvæmt Marakess-samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem var undirritaður 15. apríl 1994 (hér á eftir nefndur „samningurinn um Alþjóðaviðskiptastofnunina“) og öðrum samningum á grundvelli hans og marghliða og tvíhliða gerningum um samstarf,

SEM TAKA TILLIT TIL samningsins milli Kanada og Sviss um gagnkvæma viðurkenningu á samræmismati, sem var undirritaður í Ottawa 3. desember 1998, og samningsins milli Kanada og lýðveldisins Íslands, Furstadæmisins Liechtensteins og Konungsríkisins Noregs um gagnkvæma viðurkenningu á samræmismati sem var undirritaður í Brussel 4. júlí 2000,

SEM VIÐURKENNA mikilvægi þess að greiða fyrir viðskiptum með því að stuðla að virkum og gagnsæjum aðferðum við að draga úr kostnaði og tryggja áreiðanleika að því er varðar viðskiptasvæði samningsaðilanna,

SEM ÁSETJA SÉR að vinna saman að viðurkenningu á því að ríki verði að viðhalda hæfninni til að vernda, móta og taka upp eigin menningarstefnu í því skyni að efla menningarlega fjölbreytni,

SEM VIÐURKENNA þörfina á gagnkvæmum stuðningi milli stefnu í viðskiptum og stefnu í umhverfismálum með það í huga að ná markmiðinu um sjálfbæra þróun,

SEM STAÐFESTA skuldbindingar sínar um hagþróun og félagslega þróun og virðingu fyrir grundvallarréttindum starfsmanna og meginreglunum, sem eru settar fram í yfirlýsingu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um grundvallarviðmið og réttindi við vinnu, og

SEM LÝSA SIG REIÐUBÚIN til að skoða möguleikann á að þróa og efla efnahagstengsl sín svo að þau nái til sviða sem þessi samningur tekur ekki til,


HAFA ORÐIÐ ÁSÁTT um eftirfarandi:

I MARKMIÐ OG GILDISSVIÐ
1. gr.
Markmið.

1.     Samningsaðilarnir koma hér með á fríverslunarsvæði í samræmi við þennan samning.
2.     Markmið þessa samnings eru:
a)    að efla, með auknum gagnkvæmum viðskiptum, samfellda þróun efnahagstengsla milli Kanada og EFTA-ríkjanna og stuðla þannig, bæði í Kanada og EFTA-ríkjunum, að framþróun efnahagsmála,


b)    að skapa eðlileg samkeppnisskilyrði í viðskiptum milli samningsaðilanna,
c)    að setja ramma fyrir frekara samstarf milli Kanada og EFTA-ríkjanna í ljósi þróunar efnahagslegra samskipta á alþjóðavettvangi, einkum með það að markmiði að auka frelsi í þjónustuviðskiptum og fjölga tækifærum til fjárfestinga, og
d)    að stuðla þannig, með afnámi viðskiptahindrana, að samstilltri þróun og auknum alþjóðaviðskiptum.

2. gr.
Landfræðilegt gildissvið.

1.     Með fyrirvara um viðauka C og ef ekki er kveðið á um annað í samningi þessum gildir samningur þessi um:
a)    landsvæði, loftrými, innhöf og landhelgi þar sem samningsaðili hefur fullveldisréttindi, og

b)    sérefnahagslögsögu og landgrunn samningsaðila, eins og kveðið er á um í landslögum hans, í samræmi við þjóðarétt.
2.     Viðauki A á við um Konungsríkið Noreg.


II VÖRUVIÐSKIPTI
3. gr.
Umfang.

1.     Samningur þessi gildir um vöruviðskipti samningsaðila, nema kveðið sé á um annað í samningi þessum og tvíhliða samningum um viðskipti með landbúnaðarafurðir sem um getur í 2. mgr.
2.     Samningsaðilar lýsa sig reiðubúna, að því marki sem stefna þeirra í landbúnaðarmálum leyfir, að stuðla að samstilltri þróun viðskipta með landbúnaðarafurðir. Til að ná þessum markmiðum hefur Kanada og hvert EFTA-ríki gert með sér tvíhliða samninga um viðskipti með landbúnaðarafurðir. Þeir samningar eru hluti af gerningum um að koma á fót fríverslunarsvæði Kanada og EFTA-ríkjanna.

3.     Í samningi þessum hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir:
a)     „vörur samningsaðila“: innlendar framleiðsluvörur í skilningi hins almenna samnings um tolla og viðskipti frá 1994 (hér á eftir nefndur „GATT-samningurinn frá 1994“) eða þær vörur sem samningsaðilar kunna að koma sér saman um og taka þær til upprunavara þess aðila,
b)     „upprunavörur samningsaðila“: vörur samningsaðila sem uppfylla skilyrði upprunareglnanna sem eru settar fram í viðauka C.

4. gr.
Innlend meðferð.

1.     Samningsaðilar skulu beita innlendri meðferð í samræmi við III. gr. GATT-samningsins frá 1994, sem er felldur inn í þennan samning og er hluti af honum.
2.     Ákvæði 1. mgr. eiga ekki við um ráðstafanir sem getið er í viðauka B.

5. gr.
Takmarkanir á innflutningi og útflutningi.

1.     Bönn eða takmarkanir, aðrar en tollar, skattar eða önnur gjöld, hvort sem um er að ræða kvóta, innflutnings- eða útflutningsleyfi eða aðrar ráðstafanir, skulu óheimilar í viðskiptum milli samningsaðilanna, í samræmi við XI. gr. GATT-samningsins frá 1994, sem er felldur inn í þennan samning og er hluti hans.
2.     Ákvæði 1. mgr. eiga ekki við um ráðstafanir sem getið er í viðauka B.

6. gr.
Ráðstafanir er varða hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna.

    Farið skal með réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar ráðstafanir um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna í samræmi við samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna.

7. gr.
Tæknilegar reglur.

1.     Farið skal með réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar tæknilegar reglur, staðla og samræmismat í samræmi við samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tæknilegar viðskiptahindranir (hér á eftir nefndur „samningurinn um tæknilegar viðskiptahindranir“).
2.     Þrátt fyrir 1. mgr. skal farið með réttindi og skyldur Kanada og EFTA-ríkjanna á sviði gagnkvæmrar viðurkenningar á samræmismati:

a)    milli Kanada og Ríkjasambandsins Sviss, í samræmi við samninginn um gagnkvæma viðurkenningu á samræmismati frá 3. desember 1998, og

b)    milli Kanada annars vegar og lýðveldisins Íslands, Furstadæmisins Liechtensteins og Konungsríkisins Noregs hins vegar, í samræmi við samninginn um gagnkvæma viðurkenningu á samræmismati frá 4. júlí 2000.
3.     Samningsaðilar skulu auka samvinnu sín á milli að því er varðar tæknilegar reglur, staðla og samræmismat.
4.     Samningsaðilar skulu, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., hafa samráð sín á milli í sameiginlegu nefndinni til að finna viðeigandi lausn, í samræmi við samninginn um tæknilegar viðskiptahindranir, telji Kanada eða EFTA-ríki að eitt EFTA-ríki, eða fleiri, eða Kanada hafi gert ráðstafanir sem gætu skapað eða hafi skapað viðskiptahindrun. Þessi málsgrein takmarkast við mál sem falla undir gildissvið 1. mgr. en varðar ekki málefni sem falla undir gildissvið annars hvors samningsins um gagnkvæma viðurkenningu sem tilgreindir eru í 2. mgr. Málsmeðferð samkvæmt viðeigandi samningi um gagnkvæma viðurkenningu gildir um mál sem falla undir gildissvið 2. mgr.



8. gr.
Upprunareglur og samvinna stjórnvalda.

    Í viðauka C eru ákvæði um upprunareglur og samvinnu stjórnvalda.

9. gr.
Undirnefnd um upprunareglur og vöruviðskipti

1.     Samningsaðilar koma hér með á fót undirnefnd sameiginlegu nefndarinnar um upprunareglur og vöruviðskipti.
2.     Í viðauka D er gerð grein fyrir umboði undirnefndarinnar.

10. gr.
Tollgjöld.

1.     Frá og með gildistökudegi þessa samnings skulu tollar bannaðir á eftirtöldum upprunavörum samningsaðilanna, nema kveðið sé á um annað í viðauka E:
a)    framleiðsluvörum, sem falla undir 25. til og með 97. kafla í samræmdu vörulýsingar- og vörunúmeraskránni, hér á eftir nefnd „samræmda tollskráin“, að frátöldum framleiðsluvörum í viðauka F,
b)    framleiðsluvörum, sem falla undir 1. til og með 24. kafla í samræmdu tollskránni og eru tilgreindar í viðauka G, að teknu tilhlýðilegu tilliti til ákvæða þess viðauka, og
c)    fiski og öðrum sjávarafurðum í samræmi við ákvæði í viðauka H.
2.     Til tollgjalda teljast hvers konar tollar eða gjöld, sem eru lögð á í tengslum við innflutning eða útflutning framleiðsluvöru, einnig hvers konar aukaskattar eða aukagjöld í tengslum við slíkan innflutning eða útflutning, en þó ekki:
a)    gjald sem jafngildir innlendum sköttum sem eru lagðir á skv. 4. gr.,
b)    undirboðs- eða jöfnunartollar eða
c)    þóknun eða önnur gjöld, að því tilskildu að fjárhæð þeirra takmarkist við áætlaðan kostnað veittrar þjónustu.
3.     Ákvæði 1. og 2. mgr. skulu ekki koma í veg fyrir að samningsaðili innleiði, endurinnleiði eða hækki tollgjald gagnvart öðrum samningsaðila, eins og heimilt kann að vera samkvæmt samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina eða á grundvelli hans, einkum samkvæmt reglum og málsmeðferð um lausn deilumála, en að undanskildum breytingum á skrám og tollabreytingum í samræmi við XXVIII. gr. GATT-samningsins frá 1994.

11. gr.
Grunntollar.

    Grunntollur á hverja framleiðsluvöru, sem á að fara stiglækkandi samkvæmt viðauka E, skal samsvara bestukjaratollinum (hér á eftir nefndur „bestukjaratollur“) sem í gildi var 1. janúar 2007.


III ÞJÓNUSTA OG FJÁRFESTINGAR
12. gr.
Þjónusta og fjárfestingar.

1.     Samningsaðilar viðurkenna vaxandi mikilvægi þjónustuviðskipta og fjárfestinga í hagkerfi sínu. Í viðleitni sinni til að þróa smám saman og víkka samstarf sitt munu þeir vinna saman að því markmiði að skapa sem hagstæðust skilyrði til þess að auka fjárfestingar hver hjá öðrum, að auka frelsi og opna markaði sína enn frekar hver fyrir öðrum í þjónustuviðskiptum, með hliðsjón af starfsemi á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

2.     Leggi samningsaðili fram beiðni þar um skal samningsaðilinn, sem beiðninni er beint til, leitast við að veita upplýsingar um allar sínar ráðstafanir sem kunna að hafa áhrif á þjónustuviðskipti eða fjárfestingu.
3.     Samningsaðilar skulu hvetja viðeigandi stofnanir á yfirráðasvæðum sínum til að vinna að því í sameiningu að koma á gagnkvæmri viðurkenningu á leyfi og vottun fagaðila á sviði þjónustuveitingar.
4.     Samningsaðilar skulu í sameiningu endurskoða í sameiginlegu nefndinni mál er varða þjónustu og fjárfestingar og íhuga samþykkt ráðstafana um að auka frelsi, með tilhlýðilegu tilliti til V. gr. hins almenna samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um þjónustuviðskipti og í ljósi þróunar marghliða og tvíhliða samninga. Slík endurskoðun skal fara fram eigi síðar en þremur árum eftir gildistöku þessa samnings.
5.     Allar síðari samningaviðræður um þjónustu og fjárfestingar milli Kanada og EFTA-ríkjanna skulu byggjast á meginreglunum um bann við mismunun og um gagnsæi.

13. gr.
Tímabundin heimild til komu.

1.     Samningsaðilar viðurkenna vaxandi mikilvægi fjárfestinga og þjónustustarfsemi í vöruviðskiptum. Í samræmi við gildandi lög skal hver samningsaðili:

a)    greiða fyrir tímabundinni heimild til komu ríkisborgara annars samningsaðila inn á yfirráðasvæði sitt, sem flytjast til innan viðskiptafyrirtækis (forstjórar, framkvæmdastjórar, sérfræðingar) og koma í viðskiptaerindum,
b)    greiða fyrir tímabundinni heimild til komu ríkisborgara annars samningsaðila inn á yfirráðasvæði sitt, sem veita þjónustu er beinlínis tengist útflutningi vara frá útflytjanda þess samningsaðila inn á yfirráðasvæði viðkomandi samningsaðila og
c)    greiða fyrir heimild til komu maka og barna ríkisborgara sem lýst er í a-lið hér að framan.

2.     Sameiginlega nefndin skal fylgjast með starfrækslu og framkvæmd þessarar greinar og fást við mál er varða framkvæmd eða stjórnsýslu í tengslum við tímabundna heimild til komu.
3.     Eigi síðar en einu ári eftir gildistöku þessa samnings skal hver samningsaðili hafa aðgengilegar upplýsingar um skilyrði fyrir tímabundinni heimild til komu samkvæmt þessari grein, sem eru þannig úr garði gerðar að ríkisborgarar hinna samningsaðilanna geta kynnt sér þau.
4.     Í þessari grein hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir:
a)    „tímabundin heimild til komu“: réttur til komu og dvalar í tiltekinn tíma,
b)    „ríkisborgari“: einstaklingur sem er ríkisborgari eða með fasta búsetu hjá samningsaðila og
c)    „gestir í viðskiptaerindum“: gestir til skamms tíma sem hyggja ekki á þátttöku á vinnumarkaði samningsaðila en leita eftir heimild til komu í því skyni að stunda starfsemi á borð við kaup eða sölu vara eða þjónustu, að gera samninga, ráðgast við samstarfsmenn eða sækja ráðstefnur.

IV SAMKEPPNISLÖG OG STEFNA Í SAMKEPPNISMÁLUM
14. gr.
Almennar meginreglur.

1.     Samningsaðilar eru sammála um að samkeppnishamlandi starfshættir fyrirtækja geti komið í veg fyrir að markmið þessa samnings náist. Til samræmis við það skal hver samningsaðili gera eða viðhalda ráðstöfunum til að fordæma slíka háttsemi og grípa til viðeigandi aðgerða varðandi hana og hafa jafnframt í huga að slíkum ráðstöfunum kann að vera komið á með skuldbindingum sem samningsaðili tekur á sig samkvæmt öðrum alþjóðasamningum, s.s. samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem var undirritaður í Brussel 17. mars 1993 og tiltekin EFTA-ríki eiga aðild að. Leggi samningsaðili fram beiðni þar um skulu samningsaðilar ráðgast um skilvirkni ráðstafana hvers samningsaðila.
2.     Hver samningsaðili skal sjá til þess að ráðstöfunum, sem um getur í 1. mgr., og aðgerðum sem gripið er til samkvæmt þeim, sé beitt án mismununar.

3.     Hugtakið „samkeppnishamlandi starfshættir fyrirtækja“ í þessum kafla felur í sér en takmarkast þó ekki við samkeppnishamlandi samninga, samstilltar aðgerðir eða framkvæmd samkeppnisaðila, samkeppnishamlandi starfshætti fyrirtækis sem hefur yfirburðastöðu á markaði og samruna sem hefur umtalsverð samkeppnishamlandi áhrif, nema slík háttsemi sé, beint eða óbeint, undanskilin frá landslögum samningsaðila eða heimiluð í samræmi við þau lög. Allar slíkar undanþágur og heimildir skulu vera gagnsæjar og þær skal endurskoða reglubundið til að meta hvort þær eru nauðsynlegar til þess að ná stefnumiðunum, sem vega þyngra.
4.     Enginn samningsaðili getur beitt málsmeðferð við lausn deilumála samkvæmt þessum samningi í málum er varða þennan kafla.

15. gr.
Samstarf.

1.     Samningsaðilar viðurkenna mikilvægi þess að eiga samvinnu um og samræma almenn málefni er varða stefnumið varðandi framfylgd samkeppnislaga, s.s. tilkynningar, samráð og skipti á upplýsingum um framfylgd samkeppnislaga og stefnumið í samkeppnismálum.
2.     Svo fremi það skaði ekki mikilvæga hagsmuni hans skal samningsaðili tilkynna öðrum samningsaðila um að fyrirhuguð eða raunveruleg framfylgd samkeppnislaga kunni að hafa áhrif á mikilvæga hagsmuni þess samningsaðila, og taka fullt tillit til sjónarmiða þess samningsaðila og taka þau til velviljaðrar athugunar, þ.m.t. mögulegar leiðir til að fullnægja þörfinni fyrir framfylgd án þess að skaða þessa hagsmuni.
3.     Telji samningsaðili að tilteknir samkeppnishamlandi starfshættir fyrirtækis, sem eiga sér stað á yfirráðasvæði annars samningsaðila, hafi skaðleg áhrif á mikilvæga hagsmuni, sem um getur í 2. mgr., getur sá samningsaðili tilkynnt hinum samningsaðilanum um það og farið fram á að samningsaðilinn eða samkeppnisyfirvöld hans hefji viðeigandi aðgerðir til framfylgdar lögum.
4.     Tilkynningaraðili skal setja fram nægar upplýsingar í tilkynningu sinni til þess að samningsaðili sem fær hana geti greint þá samkeppnishamlandi starfshætti fyrirtækis, sem tilkynningin fjallar um, og skal bjóða fram þær viðbótarupplýsingar og það samstarf sem hann er fær um að veita. Samningsaðili sem fær tilkynningu getur haft samráð við tilkynningaraðila og skal taka fullt tillit til og taka til velviljaðrar athugunar það sem tilkynningaraðilann fer fram á við ákvörðun þess hvort hefja skuli aðgerðir til framfylgdar lögum að því er varðar þá samkeppnishamlandi starfshætti fyrirtækis sem greina má í tilkynningunni. Samningsaðilarnir geta haft slíkt samráð með milligöngu samkeppnisyfirvalda sinna.
5.     Samningsaðili sem fær tilkynningu skal gera tilkynningaraðila grein fyrir ákvörðun sinni og má einnig rökstyðja ákvörðunina. Ef hafin er aðgerð til framfylgdar lögum skal samningsaðili sem fær tilkynningu gera tilkynningaraðila grein fyrir niðurstöðunni og mikilvægum áföngum í framvindu málsins eftir því sem unnt er. Samningsaðilar geta aðhafst samkvæmt þessari málsgrein með milligöngu samkeppnisyfirvalda sinna.

16. gr.
Upplýsingar veittar.

    Ekkert í þessum kafla skal túlka svo að unnt sé að fara fram á það við samningsaðila, þ.m.t. samkeppnisyfirvöld hans, að hann veiti upplýsingar ef það gengur þvert á lög hans sjálfs, þ.m.t. lög um afhendingu upplýsinga, trúnað eða viðskiptaleynd.


V AÐRAR SAMEIGINLEGAR REGLUR
17. gr.
Styrkir.

1.     Með fyrirvara um 2. og 3. mgr. skal farið með réttindi og skyldur samningsaðila að því er varðar styrki og beitingu jöfnunarráðstafana í samræmi við VI. og XVI. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um styrki og jöfnunarráðstafanir.
2.     Hver samningsaðili skal tilnefna og veita fullar upplýsingar um tengilið sem hinir samningsaðilarnir geta leitað til með málefni er varða styrki eða jöfnunarráðstafanir.
3.     Áður en hafin er rannsókn skv. V. hluta samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um styrki og jöfnunarráðstafanir skal lögbært rannsóknaryfirvald Kanada eða EFTA-ríkis, eftir atvikum, senda skriflega tilkynningu um það til þess samningsaðila sem vörurnar, sem rannsóknin beinist að, tilheyra og veita 25 daga frest, frá þeim degi að tilkynningin er send, til samráðs með það í huga að leita lausnar sem báðir aðilar geta sæst á. Tilkynna skal hinum samningsaðilunum um niðurstöður samráðsins eftir að ákvörðun hefur verið tekin um hvort hefja á rannsókn eða ekki.

18. gr.
Undirboð.

1.     Með fyrirvara um 2. og 3. mgr. skal farið með réttindi og skyldur samningsaðilanna, viðvíkjandi því að ráðstöfunum gegn undirboðum sé beitt, í samræmi við VI. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um framkvæmd VI. gr. GATT-samningsins frá 1994.
2.     Hver samningsaðili skal tilnefna og veita fullar upplýsingar um tengilið sem hinir samningsaðilarnir geta leitað til með málefni er varða ráðstafanir gegn undirboðum.
3.     Innan þriggja ára frá gildistöku þessa samnings skulu samningsaðilar koma saman til að endurskoða þessa grein.

19. gr.
Ríkisrekin viðskiptafyrirtæki.

    Farið skal með réttindi og skyldur samningsaðila að því er varðar ríkisrekin viðskiptafyrirtæki í samræmi við XVII. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samkomulag Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um túlkun XVII. gr. GATT-samningsins frá 1994.


20. gr.
Opinber innkaup.

1.     Hvað varðar opinber innkaup skulu ákvæði samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber innkaup gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna.
2.     Ef Kanada eða EFTA-ríkin gera alþjóðasamning eftir gildistöku þessa samnings, sem eykur gagnsæi eða aðgang að viðkomandi markaði eða mörkuðum fyrir opinber innkaup, miðað við samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber innkaup, geta EFTA-ríkin eða Kanada farið fram á að samningsaðilar hefji samningaviðræður með tilliti til þess að ná með þessum samningi jafn miklu gagnsæi eða markaðsaðgangi og gefst með hinum samningnum.

3.     Samningsaðilarnir samþykkja að starfa saman í sameiginlegu nefndinni að því að auka enn frekar frelsi sín á milli á mörkuðum opinberra innkaupa og að auka gagnsæi í opinberum innkaupum. Þeir skulu koma saman til að endurskoða þessa grein eigi síðar en þremur árum eftir gildistöku þessa samnings.

21. gr.
Greitt fyrir viðskiptum.

    Til að greiða fyrir viðskiptum milli Kanada og EFTA-ríkjanna skulu samningsaðilar:
a)    einfalda reglur um vöruviðskipti og tengda þjónustustarfsemi eftir því sem frekast er unnt,
b)    stuðla að marghliða samstarfi sín á milli í því skyni að bæta þátttöku í gerð og framkvæmd alþjóðasamninga og alþjóðlegra tilmæla um að greiða fyrir viðskiptum og

c)    starfa saman að því að greiða fyrir viðskiptum innan ramma sameiginlegu nefndarinnar,
í samræmi við ákvæðin sem eru sett fram í viðauka I.

VI UNDANTEKNINGAR OG VERNDARRÁÐSTAFANIR
22. gr.
Almennar undantekningar.

    Að því er varðar kaflann um vöruviðskipti er XX. gr. GATT-samningsins frá 1994 felld inn í samning þennan sem hluti af honum. Af hálfu samningsaðila ríkir sá skilningur að ráðstafanirnar, sem um getur í b-lið XX. gr. GATT-samningsins frá 1994, feli í sér ráðstafanir á sviði umhverfisverndar sem eru nauðsynlegar til þess að vernda líf og heilbrigði manna, dýra eða plantna og að g-liður XX. gr. GATT-samningsins frá 1994 eigi við um ráðstafanir er varða verndun lifandi, þverranlegra auðlinda og lífvana, óendurnýjanlegra auðlinda.

23. gr.
Aðrar undantekningar.

    Með fyrirvara um réttindi og skyldur samningsaðila samkvæmt samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina skal viðauki J gilda um ráðstafanir samningsaðila gagnvart menningariðnaðinum.

24. gr.
Undantekningar af öryggisástæðum.

    Ekkert í þessum samningi ber að túlka á þann hátt
a)    að krafist sé af samningsaðila að hann láti í té upplýsingar sem hann telur andstætt grundvallaröryggishagsmunum sínum að birta,
b)    að komið sé í veg fyrir að samningsaðili geri ráðstafanir sem hann telur nauðsynlegar til að vernda grundvallaröryggishagsmuni sína:
    i.    að því er snertir kjarnakleyf efni eða efni sem þau eru unnin úr;
    ii.    að því er snertir viðskipti með vopn, skotfæri og stríðsbúnað og þau viðskipti með aðrar vörur og efni sem beinlínis eða óbeinlínis eru ætluð til hernaðar eða

    iii.    á stríðstímum eða þegar neyðarástand ríkir í alþjóðasamskiptum,
    eða
c)    að komið sé í veg fyrir að aðili geti gripið til ráðstafana í samræmi við skyldur sínar á grundvelli sáttmála Sameinuðu þjóðanna til að viðhalda friði og öryggi á alþjóðavettvangi.

25. gr.
Neyðaraðgerð.

1.     Ef, á aðlögunartímabilinu sem um getur í 9. mgr., innflutningur upprunavöru frá samningsaðila inn á yfirráðasvæði annars samningsaðila eykst svo mjög, annaðhvort sem hrein aukning eða sem hlutfall af innlendri framleiðslu, á grundvelli þess að tollar hafa verið lækkaðir eða afnumdir samkvæmt þessum samningi, og við slík skilyrði að það veldur eða gæti valdið alvarlegum skaða fyrir innlenda framleiðendur sambærilegra vara eða samkeppnisvara á yfirráðasvæði samningsaðilans sem flytur inn, er honum heimilt að grípa til neyðaraðgerðar, í eins litlum mæli og unnt er að komast af með, til að ráða bót á skaðanum eða koma í veg fyrir hann, samanber þó ákvæði þessarar greinar.
2.     Hver samningsaðili skal tryggja sanngjarnt, gagnsætt og skilvirkt verklag við neyðaraðgerðarferli. Neyðaraðgerðarferli má hefja á grundvelli málaleitunar eða kæru stofnunar sem er í fyrirsvari fyrir innlenda atvinnugrein sem framleiðir vöru sem líkist eða er beinlínis samkeppnishæf við innfluttu framleiðsluvöruna. Samningsaðili, sem tekur við málaleitan eða kæru, skal tafarlaust afhenda hinum samningsaðilunum og sameiginlegu nefndinni skriflega tilkynningu um að hafið sé ferli er gæti leitt til neyðaraðgerðar. Í skriflegu tilkynningunni skulu vera upplýsingar vegna samskipta við lögbært rannsóknaryfirvald samningsaðilans.
3.     Því aðeins má grípa til neyðaraðgerðar að óyggjandi sönnun sé fyrir því að aukinn innflutningur hafi valdið alvarlegum skaða eða að hætta sé á því samkvæmt rannsókn, sem er gerð í samræmi við sambærilegar skilgreiningar og málsmeðferð og um getur í 3. og 4. gr. samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um verndarráðstafanir.
4.     Samningsaðili sem hyggst grípa til neyðaraðgerðar samkvæmt þessari grein skal tilkynna hinum samningsaðilunum og sameiginlegu nefndinni um það áður en gripið er til aðgerðarinnar. Í tilkynningunni skulu koma fram allar viðeigandi upplýsingar, m.a. sönnunargögn um alvarlegan skaða eða hættu á slíku af völdum aukins innflutnings, nákvæm lýsing á framleiðsluvörunni sem um ræðir, upplýsingar um fyrirhugaða aðgerð og frá hvaða degi og hversu lengi aðgerðin stendur yfir. Bjóða skal samningsaðila, sem slík aðgerð gæti haft áhrif á, bætur í formi aukins frelsis í viðskiptum í tengslum við innflutning frá honum sem skulu í megindráttum vera jafngildar.
5.     Ef skilyrði 1. mgr. eru uppfyllt, og í kjölfar athugunar sameiginlegu nefndarinnar, eins og sett er fram í 7. mgr., er samningsaðilanum sem flytur inn heimilt að hækka toll af framleiðsluvörunni og skal miða við þann toll sem lægri er:
a)    toll sem er lagður á samkvæmt bestukjarameðferð sem er í gildi á þeim degi þegar aðgerðin fer fram eða
b)    toll sem er lagður á samkvæmt bestukjarameðferð sem er í gildi daginn fyrir gildistöku þessa samnings.
6.     Neyðaraðgerð skal ekki vara lengur en í þrjú ár og ekki lengur en til loka aðlögunartímabilsins sem um getur í 9. mgr. Óheimilt er að grípa til aðgerða gegn innflutningi framleiðsluvöru sem áður hefur verið gripið til aðgerðar gegn.

7.     Sameiginlega nefndin skal, innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningarinnar, sem um getur í 4. mgr., rannsaka þær upplýsingar sem eru veittar samkvæmt 4. mgr. í þeim tilgangi að greiða fyrir lausn málsins með þeim hætti að báðir aðilar geti við unað. Ef engin lausn finnst er samningsaðilanum sem flytur inn heimilt að grípa til aðgerðar í samræmi við 5. mgr. og samningsaðilanum, sem ræður yfir þeirri framleiðsluvöru sem gripið er til aðgerðar gegn, er heimilt að grípa til jöfnunaraðgerða ef ekki næst gagnkvæmt samkomulag um jöfnunargreiðslur. Tilkynna skal hinum samningsaðilunum og sameiginlegu nefndinni þegar í stað um slíka neyðaraðgerð og jöfnunaraðgerð. Val á neyðaraðgerð og jöfnunaraðgerð skal miðast við að raska sem minnst framkvæmd þessa samnings. Jöfnunaraðgerð skal fela í sér niðurfellingu ívilnana samkvæmt þessum samningi sem hafa í megindráttum jafngild áhrif á viðskipti eða ívilnanir sem í megindráttum jafngilda þeim viðbótartolli sem búist er við að leiði af neyðaraðgerðinni.     Samningsaðili sem grípur til jöfnunaraðgerðar skal gera það í eins stuttan tíma og mögulegt er til að ná í meginatriðum jafngildum áhrifum á viðskipti og einungis á meðan ráðstöfun skv. 5. gr. er beitt.
8.     Þegar aðgerð lýkur skal beita þeim tolli sem hefði verið lagður á hefði ekki verið gripið til aðgerðarinnar.
9.     Nema sameiginlega nefndin ákveði framlengingu þess, eins og sett er fram í 10. mgr., fer aðlögunartímabilið, sem um getur í 1. og 6. mgr., eftir því hvort heldur varir lengur:
a)    fimm ára tímabilið sem hefst á gildistökudegi þessa samnings eða, eftir atvikum,

b)    afnám tolla eins og það er sett fram að því er varðar framleiðsluvöru í skrá samningsaðila í viðauka E.
10.     Á fimmta ári eftir gildistöku þessa samnings skulu samningsaðilar í sameiginlegu nefndinni íhuga hvort þörf er á að framlengja aðlögunartímabilið að því er tilteknar framleiðsluvörur varðar. Sameiginlega nefndinni er heimilt að framlengja aðlögunartímabilið að því er tiltekna framleiðsluvöru varðar en í því tilviki skal aðlögunartímabilið fyrir þá framleiðsluvöru vera í samræmi við ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar.
11.     Hver samningsaðili heldur réttindum sínum og skyldum skv. XIX. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um verndarráðstafanir.

VII STOFNANAÁKVÆÐI
26. gr.
Sameiginlega nefndin.

1.     Samningsaðilarnir koma hér með á fót sameiginlegri nefnd Kanada og EFTA-ríkjanna sem er skipuð fulltrúum hvers samningsaðila.
2.     Sameiginlega nefndin skal:
a)    hafa yfirumsjón með framkvæmd þessa samnings,
b)    endurskoða reglulega möguleikann á því að afnema enn frekar viðskiptahindranir og aðrar takmarkandi reglur í viðskiptum milli Kanada og EFTA-ríkjanna,
c)    hafa umsjón með frekari þróun þessa samnings,

d)    hafa yfirumsjón með starfi allra undirnefnda og vinnuhópa sem komið er á fót samkvæmt þessum samningi,
e)    leggi samningsaðili fram beiðni þar um, fjalla um ráðstafanir sem varða menningariðnaðinn og er viðhaldið eða eru samþykktar samkvæmt viðauka J,
f)    leggi samningsaðili fram beiðni þar um, fjalla um beitingu neyðaraðgerðar sem gripið er til samkvæmt 25. gr.,
g)    leitast við að leysa deilumál sem upp kunna að koma í tengslum við túlkun eða beitingu þessa samnings og
h)    taka til umfjöllunar hvert það málefni sem haft gæti áhrif á framkvæmd þessa samnings.
3.     Sameiginlega nefndin getur ákveðið að skipa undirnefndir og vinnuhópa sem hún telur þörf á sér til aðstoðar við störfin. Undirnefndirnar og vinnuhóparnir skulu starfa í umboði sameiginlegu nefndarinnar, nema kveðið sé sérstaklega á um annað í þessum samningi.

4.     Sameiginlega nefndin getur tekið ákvarðanir eins og kveðið er á um í þessum samningi. Í öðrum málum er sameiginlegu nefndinni heimilt að setja fram tilmæli.
5.     Ákvarðanir og tilmæli sameiginlegu nefndarinnar skulu samþykkt samhljóða.
6.     Sameiginlega nefndin er alla jafna kölluð saman einu sinni á ári. Kanada og eitt EFTA-ríkjanna skulu stýra sameiginlega reglulegum fundum sameiginlegu nefndarinnar. Sameiginlega nefndin setur sér starfsreglur.
7.     Samningsaðili getur, hvenær sem er, farið fram á sérstakan fund í sameiginlegu nefndinni með skriflegri tilkynningu til hinna samningsaðilanna. Slíkur fundur skal haldinn innan 30 daga frá því að beiðnin berst.

VIII LAUSN DEILUMÁLA
27. gr.
Vettvangur valinn.

1.     Með fyrirvara um 2. mgr. og ef ekki er kveðið á um annað í þessum samningi er heimilt að leysa deilur vegna máls er varðar bæði þennan samning og samninginn um Alþjóðaviðskiptastofnunina, á vettvangi hvors þeirra sem er að ákvörðun kæruaðila.

2.     Áður en Kanada hefur málsmeðferð til lausnar deilu við EFTA-ríki eða áður en EFTA-ríki hefur málsmeðferð til lausnar deilu við Kanada á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar miðað við forsendur, sem í meginatriðum jafngilda þeim sem hlutaðeigandi aðili að þessum samningi getur gengið út frá, skal sá samningsaðili tilkynna hinum samningsaðilunum um fyrirætlan sína. Ef EFTA-ríki hefur málsmeðferð til lausnar deilu við Kanada og annað EFTA-ríki æskir þess einnig að nýta sér málsmeðferð til lausnar deilu við Kanada í sama máli sem kærandi, samkvæmt þessum samningi, skal það þegar í stað upplýsa þann samningsaðila sem tilkynnir um slíka málsmeðferð um það og skulu þessir samningsaðilar ráðgast sín á milli í því augnamiði að ná samkomulagi um einn vettvang. Ef fyrrnefndir samningsaðilar ná ekki samkomulagi skal leysa deiluna samkvæmt þessum samningi.
3.     Þegar málsmeðferð við lausn deilumáls er hafin samkvæmt þessum samningi skv. 29. gr. eða þegar málsmeðferð við lausn deilumáls er hafin samkvæmt samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina skal sá vettvangur, sem er valinn, notaður eingöngu.
4.     Að því er þessa grein varðar telst málsmeðferð við lausn deilumáls samkvæmt samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina hafin þegar samningsaðili fer fram á stofnun gerðardóms, t.d. skv. 6. gr. samkomulags Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um reglur og málsmeðferð við lausn deilumála.
5.     Ákvæði þessa kafla eiga ekki við um málefni sem falla undir gildissvið einhvers af eftirtöldum ákvæðum: 6. gr., 1. og 2. mgr. 7. gr., öll ákvæði IV. kafla (samkeppnislög og stefna í samkeppnismálum), 1. mgr. 17. gr., 1.mgr. 18. gr., 19. gr., 1. mgr. 20. gr. eða 11. mgr. 25. gr.


28. gr.
Samráð.

1.     Samningsaðilar skulu ætíð leitast við að ná samkomulagi um túlkun og beitingu þessa samnings og gera sitt ítrasta með samvinnu og samráði til að finna lausn sem allir aðilar geta sætt sig við í hverju því máli sem getur haft áhrif á framkvæmd hans.

2.     Kanada getur lagt fram skriflega beiðni um samráð við sérhvert EFTA-ríkjanna og hvaða EFTA-ríki sem er getur lagt fram skriflega beiðni um samráð við Kanada varðandi gildandi eða fyrirhugaðar ráðstafanir eða hvert það málefni sem það telur að haft geti áhrif á starfrækslu þessa samnings. Samningsaðili, sem fer fram á samráð, skal jafnframt tilkynna hinum samningsaðilunum skriflega um það og veita allar viðeigandi upplýsingar. Hafi EFTA-ríki farið fram á samráð við Kanada getur annað EFTA-ríki tekið þátt í slíkri beiðni sem meðkærandi.
3.     Fari einhver annar samningsaðili fram á að taka þátt í samráðinu, innan tíu daga frá viðtöku tilkynningarinnar sem um getur í 2. mgr., skal hann eiga rétt á því.
4.     Samráð skal hefjast innan 30 daga frá því að beiðni um samráð var veitt móttaka.

5.     Samningsaðilar skulu tilkynna sameiginlegu nefndinni um alla umfjöllun og ákvarðanir sem eru teknar.

29. gr.
Gerðardómsmeðferð.

1.     Rísi deila milli samningsaðila samkvæmt þessum samningi og hún er ekki leyst með samráði innan 90 daga frá því að beiðni um samráð berst, er einum eða fleiri aðilum að deilunni heimilt að vísa henni til gerðardóms með skriflegri tilkynningu til þess samningsaðila sem kærunni er beint gegn. Senda ber öllum samningsaðilum afrit af tilkynningunni. Ef fleiri samningsaðilar en einn deila við einn og sama samningsaðila um sama úrlausnarefni og fara fram á að deilan verði lögð í gerð skal koma á fót einum gerðardómi til að taka slík deilumál fyrir sé þess kostur.

2.     Ákvæði viðauka K gilda um stofnun og starfsemi gerðardóms.
3.     Erindisbréf er sem hér segir, nema deiluaðilar komi sér saman um annað innan 30 daga frá því að beiðni um stofnun gerðardóms berst:

    „að rannsaka, í ljósi viðeigandi ákvæða þessa samnings, það mál sem vísað er til gerðardóms (eins og lýst er í tilkynningunni sem um getur í 1. mgr.) og komast að niðurstöðum, taka ákvarðanir og gefa út tilmæli eins og kveðið er á um í 6. mgr. 29. gr. þessa samnings.“

4.     Telji kæruaðili að ráðstöfun, sem er ekki ósamrýmanleg þessum samningi, geri að engu eða skerði ávinning, sem hann af sanngirni gat búist við að hafa, beint eða óbeint, af 4., 5., 8., 10. eða 11. gr., skal það tilgreint í skipunarbréfinu.


5.     Gerðardómur skal túlka ákvæði þessa samnings í samræmi við hefðbundnar reglur um túlkun þjóðaréttar.
6.     Í úrskurði sínum skal gerðardómurinn setja fram:
a)    rökstudda niðurstöðu á grundvelli laga og staðreynda,
b)    ákvörðun sína um það hvort viðkomandi ráðstöfun sé eða muni verða í ósamræmi við skuldbindingar samkvæmt þessum samningi eða muni gera að engu eða skerða ávinning í skilningi 4. mgr., eða aðra ákvörðun sem farið er fram á í skipunarbréfinu og
c)    tilmæli sín, ef einhver eru, um lausn deilunnar og framkvæmd gerðardómsúrskurðarins.

7.     Þeir hlutar gerðardómsúrskurðar, sem um getur í a- og b-lið 6. mgr., eru endanlegir og bindandi fyrir deiluaðila.


30. gr.
Framkvæmd gerðardómsúrskurðar.

1.     Þegar deiluaðilar fá úrskurð gerðardóms í hendur skulu þeir koma sér saman um framkvæmd úrskurðarins í samræmi við ákvarðanir og tilmæli gerðardómsins nema þeir geri með sér samkomulag um annað. Deiluaðilar skulu tilkynna hinum samningsaðilunum um hverja þá lausn sem þeir samþykkja til að leysa deiluna.

2.     Þegar því verður við komið skal lausnin fela það í sér að ráðstöfun, sem samræmist ekki þessum samningi eða gerir að engu eða skerðir ávinning í skilningi 4. mgr. 29. gr., kemur ekki til framkvæmda eða að hætt er við hana, ella séu greiddar bætur.


31. gr.
Úrskurður kemur ekki til framkvæmda – ávinningi frestað.

1.     Ef deiluaðilar eru ósammála um það hvort ráðstöfun til framkvæmdar úrskurði gerðardómsins hefur verið gerð eða henni viðhaldið í samræmi við ákvarðanir og tilmæli gerðardómsins skal sami gerðardómur fella úrskurð í deilunni áður en unnt er að sækja um bætur eða fresta ávinningi í samræmi við 3. til 5. mgr. Ef einn eða fleiri gerðarmenn upprunalega gerðardómsins eru ekki tiltækir skal stofna nýjan gerðardóm í samræmi við viðauka K, til að taka þessa ákvörðun.

2.     Kæruaðilanum er ekki heimilt að hefja gerðardómsmeðferð samkvæmt fyrri málsgrein fyrr en 12 mánuðum eftir að úrskurður samkvæmt 6. mgr. 29. gr. er felldur. Alla jafna skal gerðardómurinn fella úrskurði, sem um getur í fyrri málsgrein, innan þriggja mánaða frá því að beiðni um gerðardómsmeðferð berst.
3.     Ef gerðardómur hefur, í samræmi við 1. mgr., ákveðið að ráðstöfun til framkvæmdar úrskurði samræmist ekki ákvörðunum og tilmælum upprunalega gerðardómsins, eða ekki hefur verið gerð nein ráðstöfun til framkvæmdar úrskurðinum, og samningsaðilinn, sem kæra beinist gegn, hefur ekki náð samkomulagi við kæruaðilann um lausn sem báðir aðilar geta sætt sig við innan 30 daga frá því að úrskurður gerðardómsins barst þeim, er kæruaðilanum, þar til deiluaðilar hafa komið sér saman um lausn deilunnar, heimilt að:
a)    leita eftir samkomulagi við aðildarríkið, sem kæra beinist gegn, um greiðslu bóta eða
b)    fresta ávinningi, sem hefur samsvarandi áhrif, til handa samningsaðilanum, sem kæra beinist gegn.
4.     Berist skrifleg beiðni frá deiluaðila til hins samningsaðilans eða samningsaðilanna skal á ný kalla til sama gerðardóminn til að ákveða hvort að sá ávinningur, sem aðildarríki frestar samkvæmt 3. mgr., hafi samsvarandi áhrif. Ef einn eða fleiri gerðarmenn upprunalega gerðardómsins eru ekki tiltækir skal stofna nýjan gerðardóm í samræmi við viðauka K, til að taka þessa ákvörðun.

5.     Málsmeðferð fyrir gerðardómi, sem er kallaður til á ný eða komið á fót skv. 4. mgr., skal fara fram í samræmi við 3. mgr. viðauka K. Gerðardómurinn skal setja fram ákvörðun sína innan 60 daga frá því að beiðni, sem um getur í 4. mgr., berst eða innan þess frests sem deiluaðilar koma sér saman um.


IX LOKAÁKVÆÐI
32. gr.
Þróunarákvæði.

    Með fyrirvara um þá skyldu að endurskoða tilteknar greinar þessa samnings skuldbinda samningsaðilar sig til að endurskoða þennan samning í ljósi frekari þróunar efnahagslegra samskipta á alþjóðavettvangi, svo sem innan ramma Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og kanna, í ljósi þeirra þátta sem máli skipta, möguleika á að þróa og styrkja frekar þá samvinnu sem til hefur verið stofnað með þessum samningi og færa hana til sviða sem hann tekur ekki til. Samningsaðilar geta falið sameiginlegu nefndinni að kanna þennan kost og eftir því sem við á, hefja samningsviðræður.

33. gr.
Viðskipta- og efnahagstengsl sem falla undir þennan samning.

    Ákvæði þessa samnings eiga við um viðskipta- og efnahagstengsl milli Kanada annars vegar og einstakra EFTA-ríkja hins vegar, en eiga ekki við um viðskiptatengsl milli einstakra EFTA-ríkja, nema kveðið sé á um annað í þessum samningi.


34. gr.
Tengsl þessa samnings við óviðkomandi samninga.

    Ef þessi samningur vísar til eða fellir inn með tilvísun óviðkomandi samninga eða lagagerninga, eða sérákvæði í þeim, er slíkum tilvísunum ætlað að taka til tengdra athugasemda um túlkun og skýringar.


35. gr.
Svæðisbundnar stofnanir.

    Hver samningsaðili ber fulla ábyrgð á því að öll ákvæði þessa samnings séu uppfyllt og skal gera þær réttmætu ráðstafanir sem völ er á til þess að tryggja að héraðsstjórnir, sveitarfélög og yfirvöld á yfirráðasvæði hans geri það einnig.


36. gr.
Viðaukar.

1.     Viðaukarnir við samning þennan eru óaðskiljanlegur hluti hans.
2.     Samningsaðilunum er heimilt að breyta viðaukunum á grundvelli draga að ákvörðun sem sameiginlega nefndin leggur til. Samningsaðilarnir skulu afhenda vörsluaðila skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki slíkrar breytingar. Breytingin öðlast gildi á þeim degi þegar síðasta skjalinu hefur verið komið í vörslu nema samningsaðilar komi sér saman um annað.

37. gr.
Gagnsæi.

1.     Samningsaðilar skulu birta eða veita almenningi aðgang með öðrum hætti að lögum sínum, reglugerðum, reglum um málsmeðferð, stjórnsýsluúrskurðum og dómsniðurstöðum sem hafa almennt gildi, svo og alþjóðasamningum sem geta haft áhrif á framkvæmd þessa samnings.
2.     Samningsaðilarnir skulu þegar í stað svara sértækum spurningum og veita hver öðrum, að fenginni beiðni, upplýsingar um málefni sem um getur í 1. mgr.

38. gr.
Breytingar.

1.     Samningsaðilunum er heimilt að breyta þessum samningi á grundvelli draga að ákvörðun sem sameiginlega nefndin leggur til. Samningsaðilarnir skulu afhenda vörsluaðila skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki slíkrar breytingar.
2.     Breytingarnar skulu öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að síðasta skjali um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki hefur verið komið í vörslu.

39. gr.
Nýir samningsaðilar.

    Sérhvert ríki getur orðið aðili að þessum samningi að fengu boði frá samningsaðilunum. Skilmálar og skilyrði fyrir þátttöku nýrra samningsaðila skal setja í samning milli samningsaðilanna og ríkisins sem er boðin aðild.

40. gr.
Uppsögn og slit samningsins.

1.     Kanada, EFTA-ríki eða annað ríki sem hefur öðlast aðild að þessum samningi getur sagt upp samningi þessum með því að tilkynna vörsluaðila það skriflega. Uppsögnin tekur gildi á fyrsta degi sjötta mánaðar eftir að tilkynningin berst vörsluaðila.


2.     Dragi Kanada aðild sína til baka fellur þessi samningur úr gildi þann dag sem tilgreindur er í 1. mgr.
3.     Ef eitthvert EFTA-ríki eða annað ríki sem hefur öðlast aðild að þessum samningi segir upp samningi þessum skulu aðrir samningsaðilar boðaðir til fundar til að ræða framhald þessa samnings.


41. gr.
Ákvæðum samningsins beitt til bráðabirgða.

    Ef innlend skilyrði þeirra leyfa það er Kanada og hvaða EFTA-ríki sem er heimilt að beita til bráðabirgða ákvæðum þessa samnings og ákvæðum tvíhliða samninga um viðskipti með landbúnaðarafurðir. Slík bráðabirgðabeiting skal hefjast á gildistökudegi þessa samnings milli Kanada og minnst tveggja EFTA-ríkja, í samræmi við 2. mgr. 42. gr. Vörsluaðila skal tilkynnt um bráðabirgðabeitingu slíkra samninga samkvæmt þessari grein.


42. gr.
Gildistaka.

1.     Samningur þessi er með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skulu afhent vörsluaðila.
2.     Samningur þessi öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að skjöl Kanada og minnst tveggja EFTA-ríkja um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki hafa verið afhent vörsluaðila, að því tilskildu að sömu samningsaðilar hafi skipst á skjölum um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki vegna viðkomandi tvíhliða samninga um viðskipti með landbúnaðarafurðir.

3.     Samningur þessi öðlast gildi að því er varðar önnur EFTA-ríki á þeim degi þegar skjöl þeirra um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki hafa verið afhent vörsluaðila, að því tilskildu að Kanada og hlutaðeigandi EFTA-ríki hafi skipst á skjölum um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki vegna samsvarandi tvíhliða samninga um viðskipti með landbúnaðarafurðir.
4.     Ef Kanada og Liechtenstein beita þessum samningi til bráðabirgða sín á milli öðlast samningur þessi gildi sama dag og á við um Sviss, eftir að Liechtenstein hefur afhent vörsluaðila skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki.


43. gr.
Vörsluaðili.

    Konungsríkið Noregur skal vera vörsluaðili.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

Gjört í Davos, hinn 26. janúar 2008, í tvíriti á ensku og frönsku og eru báðir textarnir jafngildir. EFTA- ríkin skulu afhenda vörsluaðila eitt frumrit.



Fyrir hönd Kanada

    

Fyrir hönd lýðveldisins Íslands

    

Fyrir hönd Furstadæmisins Liechtensteins

    

Fyrir hönd Konungsríkisins Noregs

    

Fyrir hönd Ríkjasambandsins Sviss

    

FREE TRADE AGREEMENT
BETWEEN
CANADA
AND
THE STATES OF THE
EUROPEAN FREE TRADE ASSOCIATION
(ICELAND, LIECHTENSTEIN, NORWAY AND SWITZERLAND)


Canada, and the Republic of Iceland, the Principality of Liechtenstein, the Kingdom of Norway and the Swiss Confederation (the “EFTA States”), hereinafter collectively referred to as the “Parties”,

RESOLVED to strengthen the special bonds of friendship and co-operation among their nations;

REAFFIRMING their commitment to the United Nations Charter and the Universal Declaration of Human Rights;

DESIRING to contribute to the harmonious development and expansion of world trade and provide a catalyst to broader international and transatlantic co- operation;

DETERMINED to create an expanded and secure market for the goods produced in their territories;


WISHING to establish a free trade area through the removal of trade barriers;

COMMITTED to reduce distortions of trade;

RESOLVED to establish clear and mutually advantageous rules governing their trade;

INTENDING to enhance the competitiveness of their firms in global markets;

AIMING to create new employment opportunities and improve working conditions and
living standards in their respective territories;

DETERMINED to ensure that the gains from trade liberalisation are not offset by the erection of private, anti-competitive barriers;

RECALLING the Arrangements on Trade and Economic Co-operation that were signed: between the Government of Canada and the Government of the Kingdom of Norway, on 3 December 1997; between the Government of Canada and the Government of the Swiss Confederation, on 9 December 1997; and between the Government of Canada and the Government of the Republic of Iceland, on 24 March 1998;

BUILDING on their respective rights and obligations under the Marrakesh Agreement Establishing the World Trade Organization, done on 15 April 1994 (hereinafter referred to as the “WTO Agreement”), the other agreements negotiated thereunder and other multilateral and bilateral instruments of co-operation;

TAKING INTO ACCOUNT the Agreement on Mutual Recognition in Relation to Conformity Assessment between Canada and Switzerland, done at Ottawa on 3 December 1998; and the Agreement on Mutual Recognition in Relation to Conformity Assessment between Canada and the Republic of Iceland, the Principality of Liechtenstein, and the Kingdom of Norway, done at Brussels on 4 July 2000;

RECOGNISING the importance of trade facilitation in promoting efficient and transparent procedures to reduce costs and ensure predictability for the Parties' respective trading communities;


COMMITTED to co-operate in promoting recognition that States must maintain the ability to preserve, develop and implement their cultural policies for the purpose of strengthening cultural diversity;

RECOGNISING the need for mutually supportive trade and environmental policies in order to achieve the objective of sustainable development;


AFFIRMING their commitment to economic and social development and the respect for the fundamental rights of workers and the principles set out in the International Labour Organization's Declaration on Fundamental Principles and Rights at Work; and


DECLARING their readiness to examine the possibility of developing and deepening their economic relations in order to extend them to fields not covered by this Agreement;

HAVE AGREED as follows:

I OBJECTIVES AND SCOPE
Article 1
Objectives

1.     The Parties hereby establish a free trade area in accordance with this Agreement.
2.     The objectives of this Agreement are:
(a)    to promote, through the expansion of reciprocal trade, the harmonious development of the economic relations between Canada and the EFTA States and thus to foster in Canada and in the EFTA States the advancement of economic activity;
(b)    to provide fair conditions of competition affecting trade between the Parties;
(c)    to establish a framework for further co-operation between Canada and the EFTA States in the light of developments in international economic relations, in particular with the aim of liberalising trade in services and increasing investment opportunities; and
(d)    to contribute in this way, by the removal of barriers to trade, to the harmonious development and expansion of world trade.

Article 2
Geographical scope

1.     Without prejudice to Annex C and except as otherwise provided elsewhere in this Agreement, this Agreement shall apply to:
a)    the land territory, air space, internal waters and territorial sea over which a Party exercises sovereignty; and
b)    the exclusive economic zone and the continental shelf of a Party, as determined by its domestic law, consistent with international law.
2.     Annex A applies with respect to the Kingdom of Norway.

II TRADE IN GOODS
Article 3
Coverage

1.     This Agreement applies to trade in goods of a Party, except as otherwise provided in this Agreement and in the bilateral Agreements on trade in agricultural products referred to in paragraph 2.
2.     The Parties declare their readiness to foster, in so far as their agricultural policies allow, harmonious development of trade in agricultural products. In pursuance of this objective, Canada and each individual EFTA State have concluded bilateral Agreements on trade in agricultural products. These Agreements shall form part of the instruments establishing the free trade area between Canada and the EFTA States.
3.     In this Agreement:

(a)    “goods of a Party” means domestic products as these are understood in the General Agreement on Tariffs and Trade 1994 (hereinafter referred to as the “GATT 1994”), or such goods as the Parties may agree, and includes originating products of that Party;
(b)    “originating products of a Party” means goods of a Party qualifying under the rules of origin set out in Annex C.

Article 4
National treatment

1.     The Parties shall apply national treatment in accordance with Article III of the GATT 1994, which is incorporated into and made part of this Agreement.
2.     Paragraph 1 does not apply to the measures set out in Annex B.

Article 5
Import and export restrictions

1.     Prohibitions or restrictions other than duties, taxes or other charges, whether made effective through quotas, import or export licences or other measures, shall be prohibited in trade between the Parties in accordance with Article XI of the GATT 1994, which is incorporated into and made part of this Agreement.
2.     Paragraph 1 does not apply to the measures set out in Annex B.

Article 6
Sanitary and phytosanitary measures

    The rights and obligations of the Parties in respect of sanitary and phytosanitary measures shall be governed by the WTO Agreement on the Application of Sanitary and Phytosanitary Measures.


Article 7
Technical regulations

1.     The rights and obligations of the Parties in respect of technical regulations, standards and conformity assessment shall be governed by the WTO Agreement on Technical Barriers to Trade (hereinafter referred to as the “WTO TBT Agreement”).

2.     Notwithstanding paragraph 1, the rights and obligations of Canada and the EFTA States in the field of mutual recognition of conformity assessment shall be governed:
(a)    as between Canada and the Swiss Confederation, by the Agreement on Mutual Recognition in Relation to Conformity Assessment of 3 December 1998; and
(b)    as between Canada, on the one hand, and the Republic of Iceland, the Principality of Liechtenstein and the Kingdom of Norway, on the other, by the Agreement on Mutual Recognition in Relation to Conformity Assessment of 4 July 2000.
3.     The Parties shall strengthen their co-operation in the field of technical regulations, standards and conformity assessment.
4.     Without prejudice to paragraph 1, where Canada or an EFTA State considers that one or more EFTA States or Canada have taken a measure that is likely to create, or has created, an obstacle to trade, the Parties concerned shall hold consultations under the framework of the Joint Committee in order to attempt to find an appropriate solution in conformity with the WTO TBT Agreement. This paragraph is limited to matters falling within the scope of paragraph 1 and does not apply to matters falling within the scope of either of the Agreements on Mutual Recognition listed in paragraph 2. In matters falling within the scope of paragraph 2, the procedures of the applicable Agreement on Mutual Recognition shall apply.

Article 8
Rules of origin and administrative co-operation

    The provisions on rules of origin and administrative co-operation are set out in Annex C.

Article 9
Sub-Committee on Rules of Origin and Trade in Goods

1.     The Parties hereby establish a Sub-Committee on Rules of Origin and Trade in Goods of the Joint Committee.
2.     The mandate of the Sub-Committee is set out in Annex D.

Article 10
Customs duties

1.     Customs duties shall be prohibited in respect of the following originating products of the Parties as of the date of entry into force of this Agreement, except as otherwise provided for in Annex E:
(a)    products falling within Chapters 25 through 97 of the Harmonized Commodity Description and Coding System (hereinafter referred to as the “Harmonized System”), excluding the products listed in Annex F;
(b)    products falling within Chapters 1 through 24 of the Harmonized System specified in Annex G, with due regard to the provisions of that Annex; and
(c)    fish and other marine products as provided for in Annex H.
2.     A customs duty includes any duty or charge of any kind imposed in connection with the importation or exportation of a product, including any form of surtax or surcharge in connection with such importation or exportation, but does not include any:
(a)    charge equivalent to an internal tax imposed consistently with Article 4;
(b)    anti-dumping or countervailing duty; or
(c)    fee or other charge, provided that it is limited in amount to the approximate cost of services rendered.
3.     Paragraphs 1 and 2 shall not prevent any Party from introducing, reintroducing or increasing a customs duty vis-à-vis another Party, as may be authorized by or pursuant to the WTO Agreement, in particular pursuant to the rules and procedures on dispute settlement, but excluding any modification of schedules and tariff modifications in accordance with Article XXVIII of the GATT 1994.


Article 11
Base rate of customs duties

    For each product, the base rate of customs duties, to which the successive reductions set out in Annex E are to be applied, shall be the most-favoured nation (hereinafter referred to as “MFN”) customs duty rate applied on 1 January 2007.

III SERVICES AND INVESTMENT
Article 12
Services and investment

1.     The Parties recognise the increasing importance of trade in services and investment in their economies. In their efforts to gradually develop and broaden their co-operation, they will work together with the aim of creating the most favourable conditions for expanding investment between them and achieving further liberalisation and additional mutual opening of markets for trade in services, taking into account on-going work under the auspices of the WTO.
2.     Upon request of a Party, the requested Party shall endeavour to provide information on any of its measures that may have an impact on trade in services or investment.

3.     The Parties shall encourage the relevant bodies in their respective territories to co-operate with a view to achieving mutual recognition for licensing and certification of professional service suppliers.
4.     The Parties shall jointly review issues related to services and investment in the Joint Committee and consider the adoption of liberalisation measures with due regard to Article V of the WTO General Agreement on Trade in Services and in the light of developments in multilateral and bilateral agreements. Such a review shall take place no later than three years after the entry into force of this Agreement.

5.     Any future negotiation on services and investment between Canada and the EFTA States shall be based on the principles of non-discrimination and transparency.

Article 13
Temporary entry

1.     The Parties recognise that investment and services are growing in importance in relation to trade in goods. Each Party shall, in accordance with its applicable laws:
(a)    facilitate the temporary entry into its territory of nationals of another Party who are intra-corporate transferees (managers, executives, specialists) and business visitors;

(b)    facilitate the temporary entry into its territory of nationals of another Party who render services directly related to the exportation of goods by an exporter of that same Party into the territory of the Party concerned; and

(c)    facilitate the entry into its territory of spouses and children of nationals described in sub-paragraph (a) above.
2.     The Joint Committee shall monitor the operation and implementation of this Article and deal with issues of implementation or administration related to temporary entry.
3.     No later than one year after the date of entry into force of this Agreement, each Party shall make available explanatory material regarding the requirements for temporary entry under this Article, in such a manner as will enable nationals of the other Parties to become acquainted with them.
4.     For the purposes of this Article:

(a)    “temporary entry” means the right to enter and remain for the period authorised;
(b)    “national” means a natural person who is a citizen or a permanent resident of a Party; and
(c)    “business visitors” means short term visitors who do not intend to enter the labour market of the Parties, but seek entry to engage in activities such as buying or selling goods or services, ne gotiating contracts, conferring with colleagues, or attending conferences.

IV COMPETITION LAW AND POLICY
Article 14
General principles

1.     The Parties agree that anti-competitive business conduct can hinder the fulfilment of the objectives of this Agreement. Accordingly, each Party shall adopt or maintain measures to proscribe such conduct and take appropriate action with respect thereto, acknowledging that such measures may be brought about by a Party's obligations entered into through other international agreements, such as the Agreement on the European Economic Area, done at Brussels on 17 March 1993, to which certain EFTA States are party. The Parties shall, upon request of a Party, consult about the effectiveness of measures undertaken by each Party.

2.     Each Party shall ensure that the measures referred to in paragraph 1, and the actions it takes pursuant to those measures, are applied on a non- discriminatory basis.
3.     For the purpose of this Chapter, “anti-competitive business conduct” includes, but is not limited to, anti-competitive agreements, concerted practices or arrangements by competitors, anti-competitive practices by an enterprise that is dominant in a market and mergers with substantial anti-competitive effects, unless such conduct is excluded directly or indirectly from the coverage of a Party's own laws or authorised in accordance with those laws. All such exclusions and authorisations should be transparent and should be reviewed periodically to assess whether they are necessary to achieve their overriding policy objectives.
4.     No Party may have recourse to dispute settlement under this Agreement for any matter arising under this Chapter.

Article 15
Co-operation

1.     The Parties recognise the importance of co-operation and co-ordination on general issues relating to competition law enforcement policy, such as notification, consultation and exchange of information relating to the enforcement of competition laws and policies.
2.     Unless providing notice would harm its important interests, a Party shall notify another Party when a proposed or actual competition law enforcement action may have an effect on that other Party's important interests, and give full and sympathetic con sideration to the views expressed by that other Party, including possible ways of fulfilling its enforcement needs without harming those interests.

3.     If a Party considers that any specified anti-competitive business conduct carried out within the territory of another Party is adversely affecting an important interest referred to in paragraph 2, that Party may notify the other Party and may request that the Party or its competition authority initiate appropriate enforcement action.

4.     The notifying Party shall include in its notification sufficient information to permit the notified Party to identify the anti-competitive business conduct that is the subject of the notification and shall include an offer to provide such further information and co-operation as the notifying Party is able to provide. The notified Party may consult with the notifying Party and shall accord full and sympathetic consideration to the request of the notifying Party in deciding whether to initiate enforcement action with respect to the anti-competitive business conduct identified in the notification. The Parties may conduct such consultations through their respective competition authorities.

5.     The notified Party shall inform the notifying Party of its decision and may include the grounds for the decision. If enforcement action is initiated, the notified Party shall advise the notifying Party of its outcome and, to the extent possible, of any significant interim development. The Parties may act under this paragraph through their respective competition authorities.


Article 16
Communication of information

    Nothing in this Chapter shall require the communication of information by a Party, including its competition authority, if such communication is prohibited by its laws, including those regarding disclosure of information, confidentiality and business secrecy.

V OTHER COMMON RULES
Article 17
Subsidies

1.     Subject to paragraphs 2 and 3, the rights and obligations of the Parties in respect of subsidies and the application of countervailing measures shall be governed by Articles VI and XVI of the GATT 1994 and the WTO Agreement on Subsidies and Countervailing Measures.
2.     Each Party shall designate, and provide full contact information for, a person that the other Parties can contact with respect to any matter concerning subsidies or countervailing measures.
3.     Before initiating an investigation under Part V of the WTO Agreement on Subsidies and Countervailing Measures, the competent investigating authority of Canada or the EFTA State, as the case may be, shall notify, in writing, the Party whose goods would be subject to the investigation and allow such Party a period of 25 days from the date upon which notification was given, for consultations, with a view to finding a mutually acceptable solution. The outcome of such consultations shall be communicated to the other Parties after the decision has been made on whether or not to initiate the investigation.

Article 18
Anti-dumping

1.     Subject to paragraphs 2 and 3, the rights and obligations of the Parties in respect of the application of anti-dumping measures shall be governed by Article VI of the GATT 1994 and the WTO Agreement on Implementation of Article VI of the General Agreement on Tariffs and Trade 1994.
2.     Each Party shall designate, and provide full contact information for, a person that the other Party may contact with respect to any matter concerning anti-dumping measures.
3.     The Parties shall, within three years after the entry into force of this Agreement, meet to review this Article.

Article 19
State trading enterprises

    The rights and obligations of the Parties in respect of State trading enterprises shall be governed by Article XVII of the GATT 1994 and the WTO Understanding on the Interpretation of Article XVII of the General Agreement on Tariffs and Trade 1994.

Article 20
Public procurement

1.     The rights and obligations of the Parties in respect of public procurement shall be governed by the WTO Agreement on Government Procurement.

2.     If, after the entry into force of this Agreement, Canada or the EFTA States enter into an international agreement that provides greater transparency or access to the procurement market or markets concerned than is provided under the WTO Agreement on Government Procurement, Canada or the EFTA States may request that the Parties enter into negotia tions with a view to achieving a level of transparency or market access through this Agreement that is equivalent to that provided in the other agreement.
3.     The Parties agree to co-operate in the Joint Committee, with the aim of achieving further liberalisation among them, of public procurement markets and greater transparency in public procurement. They shall meet to review this Article no later than three years after the entry into force of this Agreement.

Article 21
Trade facilitation

    To facilitate trade between Canada and the EFTA States, the Parties shall:
(a)    simplify, to the greatest extent possible, procedures for trade in goods and related services;
(b)    promote multilateral co-operation among them in order to enhance their participation in the development and implementation of international conventions and recommendations on trade facilitation; and
(c)    co-operate on trade facilitation within the framework of the Joint Committee,
in accordance with the provisions set out in Annex I.

VI EXCEPTIONS AND SAFEGUARDS
Article 22
General exceptions

    For purposes of the Chapter on Trade in Goods, Article XX of the GATT 1994 is incorporated into and made part of this Agreement. The Parties understand that the measures referred to in Article XX(b) of the GATT 1994 include environmental measures necessary to protect human, animal or plant life or health, and that Article XX(g) of the GATT 1994 applies to measures relating to the conservation of living and non-living exhaustible natural resources.



Article 23
Other exceptions

    Without prejudice to the rights and obligations of the Parties pursuant to the WTO Agreement, Annex J shall apply to measures of a Party with respect to cultural industries.

Article 24
Security exceptions

    Nothing in this Agreement shall be construed:

(a)    to require any Party to furnish any information the disclosure of which it considers contrary to its essential security interests;
(b)    to prevent any Party from taking any action which it considers necessary for the protection of its essential security interests:
    (i)    relating to fissionable materials or the materials from which they are derived;
    (ii)    relating to the traffic in arms, ammunition and implements of war and to such traffic in other goods and materials as is carried on directly or indirectly for the purpose of supplying a military establishment; or
    (iii)    taken in time of war or other emergency in international relations;
    or
(c)    to prevent any Party from taking any action in pursuance of its obligations under the United Nations Charter for the maintenance of international peace and security.

Article 25
Emergency action

1.     Where, during the transition period referred to in paragraph 9, as a result of the reduction or elimination of a customs duty under this Agreement, an originating product of a Party is being imported into the territory of another Party in such increased quantities, in absolute terms or relative to domestic production, and under such conditions as to constitute a substantial cause of serious injury or threat thereof to the domestic industry of like or directly competitive products in the importing Party, the importing Party may take emergency action to the minimum extent necessary to remedy or prevent the injury, subject to the provisions of this Article.

2.     Each Party shall ensure equitable, transparent and effective procedures for emergency action proceedings. An emergency action proceeding may be instituted by a petition or a complaint by an entity representing the domestic industry producing a good like or directly competitive with the imported product. The Party receiving a petition or a complaint shall, without delay, deliver to the other Parties and the Joint Committee written notice of the institution of a proceeding that could result in the application of emergency action. The written notice shall contain the contact information of the Party's competent investigating authority.
3.     An emergency action shall only be taken upon clear evidence that increased imports have caused or are threatening to cause serious injury pursuant to an investigation conducted in accordance with defini tions and procedures equivalent to those of Articles 3 and 4 of the WTO Agreement on Safeguards.

4.     The Party intending to take an emergency action under this Article shall, before taking an action, notify the other Parties and the Joint Committee. The notification shall contain all pertinent information, including evidence of serious injury or threat thereof caused by increased imports, a precise description of the product involved, and the proposed action, as well as the proposed date of introduction, and expected duration of the action. A Party that may be affected by the action shall be offered compensation in the form of substantially equivalent trade liberalization in relation to the imports from such Party.


5.     If the conditions in paragraph 1 are met, and following an examination by the Joint Committee as set out in paragraph 7, the importing Party may increase the rate of customs duty for the product to a level not to exceed the lesser of:
(a)    the MFN rate of duty applied at the time the action is taken; or

(b)    the MFN rate of duty applied on the day immediately preceding the date of the entry into force of this Agreement.
6.     An emergency action shall be taken for a period not exceeding three years, and shall not extend beyond the end of the transition period referred to in paragraph 9. No action shall be applied to the import of a product that has previously been the subject of such an action.
7.     The Joint Committee shall, within 30 days from the date of notification referred to in paragraph 4, examine the information provided under paragraph 4 in order to facilitate a mutually acceptable resolution of the matter. In the absence of such resolution, the importing Party may take an action in accordance with paragraph 5 and, in the absence of mutually agreed compensation, the Party against whose product the action is taken may take compensatory action. The emergency action and the compensatory action shall be immediately notified to the other Parties and the Joint Committee. In the selection of the emergency action and the compensatory action, priority must be given to the action which least disturbs the functioning of this Agreement. The compensatory action shall consist of suspension of tariff concessions under this Agreement having substantially equivalent trade effects or concessions substantially equivalent to the value of the additional duties expected to result from the emergency action. The Party taking compensatory action shall apply the action only for the minimum period necessary to achieve the substantially equivalent trade effects and in any event, only while the measure under paragraph 5 is being applied.
8.     Upon the termination of the emergency action, the rate of customs duty shall be the rate that would have been in effect but for the action.
9.     Unless extended by the Joint Committee as set out in paragraph 10, the transition period referred to in paragraphs 1 and 6 is the longer of:

(a)    the five-year period beginning on the date of entry into force of this Agreement; or, where applicable,
(b)    the staged tariff elimination set out for a product in a Party's schedule in Annex E.

10.     In the fifth year after the date of entry into force of this Agreement, the Parties shall consider, in the Joint Committee, whether there is a need to extend the transition period for certain products. The Joint Committee may extend the transition period for a certain product, in which case the transition period for that product shall be in accordance with the decision of the Joint Committee.

11.     Each Party retains its rights and obligations under Article XIX of the GATT 1994 and the WTO Agreement on Safeguards.


VII INSTITUTIONAL PROVISIONS
Article 26
The Joint Committee

1.     The Parties hereby establish the Canada-EFTA Joint Committee which shall be composed of representatives of the Parties.
2.     The Joint Committee shall:
(a)    supervise the implementation of this Agreement;

(b)    keep under review the possibility of further removal of barriers to trade and other restrictive regulations of commerce between Canada and the EFTA States;
(c)    oversee the further elaboration of this Agreement;
(d)    supervise the work of all sub-committees and working groups established under this Agreement;
(e)    discuss, upon request by a Party, measures with respect to cultural industries maintained or adopted under Annex J;

(f)    discuss, upon request by a Party, the application of an emergency action taken under Article 25;

(g)    endeavour to resolve disputes that may arise regarding the interpretation or application of this Agreement; and
(h)    consider any other matter that may affect the operation of this Agreement.
3.     The Joint Committee may decide to set up such sub-committees and working groups as it considers necessary to assist it in accomplishing its tasks. Except where specifically provided for in this Agreement, the sub-committees and working groups shall work under a mandate established by the Joint Committee.
4.     The Joint Committee may take decisions as provided in this Agreement. On other matters the Joint Committee may make recommendations.

5.     The Joint Committee shall take decisions and make recommendations by consensus.
6.     The Joint Committee shall normally convene once a year in a regular meeting. The regular meetings of the Joint Committee shall be chaired jointly by Canada and one of the EFTA States. The Joint Committee shall establish its rules of procedure.
7.     Each Party may request at any time, through a notice in writing to the other Parties, that a special meeting of the Joint Committee be held. Such a meeting shall take place within 30 days of receipt of the request.

VIII DISPUTE SETTLEMENT
Article 27
Choice of forum

1.     Subject to paragraph 2 and except as otherwise provided elsewhere in this Agreement, any dispute regarding any matter arising under both this Agreement and the WTO Agreement may be settled in either forum at the discretion of the complaining Party.
2.     Before Canada initiates against an EFTA State or an EFTA State initiates against Canada a dispute settlement proceeding in the WTO on grounds that are substantially equivalent to those available to that Party under this Agreement, that Party shall notify the other Parties of its intention. If an EFTA State initiates a dispute settlement proceeding against Canada and another EFTA State wishes also to have recourse to dispute settlement procedures against Canada as a complainant under this Agreement regarding the same matter, it shall inform promptly the notifying Party and those Parties shall consult with a view to agreeing on a single forum. If those Parties cannot agree, the dispute shall be settled under this Agreement.



3.     Once dispute settlement procedures have been initiated under this Agreement pursuant to Article 29 or dispute settlement proceedings have been initiated under the WTO Agreement, the forum selected shall be used to the exclusion of the other.
4.     For purposes of this Article, dispute settlement proceedings under the WTO Agreement are deemed to be initiated by a Party's request for the establishment of a panel, such as under Article 6 of the WTO Understanding on Rules and Procedures Governing the Settlement of Disputes.
5.     The provisions of this Chapter do not apply to any matters falling within the scope of any one of the following provisions: Article 6; paragraphs 1 and 2 of Article 7; any provision of Chapter IV (Competition Law and Policy); paragraph 1 of Article 17; paragraph 1 of Article 18; Article 19; paragraph 1 of Article 20; or paragraph 11 of Article 25.

Article 28
Consultations

1.     The Parties shall at all times endeavour to agree on the interpretation and application of this Agreement, and shall make every attempt through co-operation and consultations to arrive at a mutually satisfactory resolution of any matter that might affect its operation.
2.     Canada may request in writing consultations with any EFTA State, and any EFTA State may request in writing consultations with Canada, regarding any actual or proposed measure or any other matter that it considers might affect the operation of this Agreement. The Party requesting consultations shall at the same time notify the other Parties in writing thereof and supply all relevant information. Where an EFTA State has requested consultations with Canada, any other EFTA State may join in such a request as a co- complainant.
3.     If any other Party so requests within ten days from the receipt of the notification referred to in paragraph 2, such Party shall be entitled to participate in the consultations.
4.     The consultations shall commence within 30 days from the date of receipt of the request for consultations.
5.     The Parties shall inform the Joint Committee of any discussions and decisions arrived at.


Article 29
Arbitration

1.     Any dispute arising between Parties under this Agreement which has not been settled through consultations within 90 days from the date of the receipt of the request for consultation, may be referred to arbitration by one or more Parties to the dispute by means of a written notification addressed to the Party complained against. A copy of this notification shall be communicated to all Parties to this Agreement. Where more than one Party requests the submission to an arbitral tribunal of a dispute with the same Party relating to the same question, a single arbitral tribunal should be established to consider such disputes whenever feasible.
2.     The establishment and functioning of the arbitral tribunal are governed by Annex K.
3.     Unless the Parties otherwise agree within 30 days from the date of the receipt of the notification referring the dispute to arbitration, the terms of reference shall be:
    “To examine, in the light of the relevant provisions of this Agreement, the matter referred to arbitration (as described in the notification referred to in paragraph 1) and to make such findings, determinations and recommendations as provided in paragraph 6 of Article 29 of this Agreement.”
4.     If the complaining Party alleges that any benefit it could reasonably have expected to accrue to it directly or indirectly under Articles 4, 5, 8, 10 or 11, is being nullified or impaired as a result of the application of any measure that is not inconsistent with this Agreement, the terms of reference shall so indicate.
5.     The arbitral tribunal shall interpret this Agreement in accordance with customary rules of interpretation of public international law.
6.     The arbitral tribunal, in its award, shall set out:
(a)    its findings of law and fact, together with the reasons therefor;
(b)    its determination as to whether the measure at issue is or would be inconsistent with the obligations of this Agreement or cause nullification or impairment of benefits within the meaning of paragraph 4, or any other determination requested in the terms of reference; and
(c)    its recommendations, if any, for the resolution of the dispute and the implementation of the arbitral award.
7.     The parts of the award of the arbitral tribunal referred to in sub-paragraphs (a) and (b) of paragraph 6 shall be final and binding upon the Parties to the dispute.

Article 30
Implementation of the arbitral award

1.     On receipt of the arbitral award, the disputing Parties shall seek to agree on the implementation of the arbitral award, which, unless they decide otherwise by common accord, shall conform with the determinations and any recommendations of the arbitral tribunal. The disputing Parties shall notify the other Parties of any agreed resolution of the dispute.
2.     Wherever possible, the resolution shall be non- implementation or removal of a measure not conforming with this Agreement or causing nullification or impairment of benefits within the meaning of paragraph 4 of Article 29 or, failing such a resolution, compensation.

Article 31
Non-implementation – suspension of benefits

1.     In case of disagreement as to the existence or consistency of a measure implementing the arbitral award with the determinations and any recommendations of the arbitral tribunal, such dispute shall be decided by the same arbitral tribunal before compensation can be sought or suspension of benefits can be applied in accordance with paragraphs 3 through 5. If one or more members of the original arbitral tribunal are not available, a new arbitral tribunal shall be established in accordance with Annex K, to make this determination.
2.     The complaining Party may not initiate arbitration under the preceding paragraph before a period of 12 months has expired following the rendering of the award pursuant to paragraph 6 of Article 29. The award of the tribunal referred to in the preceding paragraph shall normally be rendered within three months of the request for arbitration.
3.     If the arbitral tribunal, in accordance with paragraph 1 has determined that an implementing measure is inconsistent with the determinations and any recommendations of the original arbitral tribunal, or that no implementing measures have been taken, and the Party complained against has not reached agreement with a complaining Party on a mutually satisfactory resolution within 30 days of receiving this award, the complaining Party may, until such time as the disputing Parties have reached agreement on a resolution of the dispute:
(a)    seek compensation through an agreement with the Party complained against; or
(b)    suspend the application to the Party complained against of benefits of equivalent effect.
4.     Upon written request of any disputing Party delivered to the other Party or Parties, the same arbitral tribunal shall be reconvened to determine whether the level of benefits suspended by a Party pursuant to paragraph 3 is of equivalent effect. If one or more members of the original arbitral tribunal are not available, a new arbitral tribunal shall be established in accordance with Annex K, to make this determination.
5.     The proceedings of the arbitral tribunal reconvened or established under paragraph 4 shall be conducted in accordance with paragraph 3 of Annex K. The arbitral tribunal shall present its determination within 60 days after the date of the request referred to in paragraph 4, or such other period as the disputing Parties may agree.

IX FINAL CLAUSES
Article 32
Evolutionary clause

    Without prejudice to the obligation to review specific Articles of this Agreement, the Parties undertake to review this Agreement in the light of further developments in international economic relations, including in the framework of the WTO, and to examine in this context and in the light of any relevant factors, the possibility of further developing and deepening the co-operation under this Agreement and to extend it to areas not covered therein. The Parties may examine this possibility through the Joint Committee and, where appropriate, open negotiations.

Article 33
Trade and economic relations governed by this Agreement

    The provisions of this Agreement apply to the trade and economic relations between, on the one side, Canada and, on the other side, the individual EFTA States, but not to the trade relations between individual EFTA States, unless otherwise provided in this Agreement.

Article 34
Relationship of this Agreement to extraneous agreements

    Where this Agreement refers to or incorporates by reference extraneous agreements or legal instruments, or specific provisions therein, such references are intended to include related interpretative and explanatory notes.

Article 35
Sub-national entities

    Each Party is fully responsible for the observance of all provisions of this Agreement and shall take such reasonable measures as may be available to it to ensure observance of the provisions of this Agreement by the regional and local governments and authorities within its territory.

Article 36
Annexes

1.     The Annexes to this Agreement constitute an integral part of it.
2.     The Annexes may be amended by the Parties on the basis of a draft decision proposed by the Joint Committee. The Parties shall deposit their respective instruments of ratification, acceptance or approval of any such amendment with the Depositary. The amendment shall enter into force on the date of the deposit of the last instrument with the Depositary, unless the Parties agree otherwise.

Article 37
Transparency

1.     The Parties shall publish, or otherwise make publicly available, their laws, regulations, procedures and administrative rulings and judicial decisions of general application as well as the international agreements which may affect the operation of this Agreement.
2.     The Parties shall promptly respond to specific questions and provide, upon request, information to each other on matters referred to in paragraph 1.


Article 38
Amendments

1.     This Agreement may be amended by the Parties on the basis of a draft decision proposed by the Joint Committee. The Parties shall deposit their respective instruments of ratification, acceptance or approval of any such amendment with the Depositary.
2.     Amendments shall enter into force on the first day of the third month following the deposit of the last instrument of ratification, acceptance or approval.

Article 39
Additional Parties

    The Parties may invite any State to become a Party to this Agreement. The terms and conditions of the participation by the additional Party shall be the subject of an agreement between the Parties and the invited State.

Article 40
Withdrawal and termination

1.     Canada, an EFTA State or any State that has become a Party to this Agreement may withdraw from this Agreement by means of a written notifica tion to the Depositary. The withdrawal shall take effect on the first day of the sixth month after the date on which the notification was received by the Depositary.
2.     If Canada withdraws, the Agreement shall expire on the date specified in paragraph 1.

3.     If one of the EFTA States, or any State that has become a Party to this Agreement, withdraws from this Agreement, a meeting of the remaining Parties shall be convened to discuss the issue of the continued existence of this Agreement.

Article 41
Provisional application

    If their domestic requirements permit, Canada and any EFTA State may apply this Agreement and the bilateral Agreements on trade in agricultural products provisionally. Such provisional application shall commence as of the date of the entry into force of this Agreement between Canada and at least two EFTA States, in accordance with paragraph 2 of Article 42. Provisional application of such Agreements under this Article shall be notified to the Depositary.

Article 42
Entry into force

1.     This Agreement is subject to ratification, acceptance or approval. The instruments of ratification, acceptance or approval shall be deposited with the Depositary.
2.     This Agreement shall enter into force on the first day of the third month following the deposit by Canada and at least two of the EFTA States of their respective instruments of ratification, acceptance or approval with the Depositary, provided that the same Parties have exchanged their instruments of ratification, acceptance or approval in respect of the bilateral Agreement on trade in agricultural products concerned.
3.     This Agreement shall enter into force for the other EFTA States at the date of the deposit of their respective instruments of ratification, acceptance or approval with the Depositary, provided Canada and the EFTA States concerned have exchanged instruments of ratification, acceptance or approval in respect of the corresponding bilateral Agreements on trade in agricultural products.
4.     Should Canada and Liechtenstein apply this Agreement provisionally between them, this Agreement shall enter into force on the same date as for Switzerland, following Liechtenstein's deposit of its instrument of ratification, acceptance or approval with the Depositary.

Article 43
Depositary

    The Kingdom of Norway shall act as Depositary.

IN WITNESS WHEREOF the undersigned, being duly authorised thereto, have signed this Agreement.

Done in duplicate at Davos, this 26 th day of January 2008, in the English and French languages, each version being equally authentic. One original shall be deposited by the EFTA States with the Depositary.

For Canada

    

For the Republic of Iceland

    

For the Principality of Liechtenstein

    

For the Kingdom of Norway

    

For the Swiss Confederation