Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 331. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 896  —  331. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til varnarmálalaga.

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.



    Að ósk undirritaðs fór frumvarp til varnarmálalaga aftur til nefndar milli 2. og 3. umræðu og komu gestir frá utanríkisráðuneyti á fund nefndarinnar til að svara spurningum. Undirritaður spurði í fyrsta lagi um umfang og eðli upplýsingasöfnunar og greiningar upplýsinga og skipta á upplýsingum sem Varnarmálastofnun er ætlað að annast. Var einkum að því spurt hvernig mörk yrðu dregin á milli hernaðarlegra upplýsinga og mats á hernaðarlegri hættu annars vegar og borgaralegrar upplýsingaöflunar og miðlunar hins vegar. Í athugasemdum við 23. gr. er tekið fram að þær upplýsingar sem Varnarmálastofnun, með þessum hætti, safni og greini geti m.a. nýst til að meta hættu þar sem Íslendingar annast friðargæslu, þar sem Íslendingar annast þróunaraðstoð og jafnvel til að greina hættur þar sem búast má við að íslenskir ríkisborgarar séu á ferð sem ferðamenn.
    Er þá nærtækt að spyrja hvernig eigi að haga tengslum eða afmörkun þessa þáttar upplýsingasöfnunar og greiningar starfsemi og hins vegar þess sem er borgaralegs eðlis og fer fram í utanríkisþjónustunni og utanríkisráðuneyti eða annars staðar á vegum lögreglu, í gegnum lögreglusamstarf eða eftir öðrum leiðum.
    Undirritaður telur þau svör sem fram komu á fundinum ófullnægjandi og þótt reglugerðarheimild sé að finna í viðkomandi grein þar sem ráðherra eigi að kveða nánar á um tilhögun þessara mála var engar upplýsingar hægt að veita um hvernig því yrði háttað enda undirbúningur að setningu reglugerða ekki hafinn samkvæmt því sem upplýst var á fundinum.
    Hér er á ferðinni enn einn þáttur þar sem markmið frumvarpsins um skýran aðskilnað hernaðartengdrar starfsemi og borgaralegrar starfsemi virðast alls ekki nást fram þegar betur er að gáð og jafnvel opnað á verulega skörun og óvissu í þeim efnum, sérstaklega þegar umsögn um 23. gr. er höfð í huga, á það þá bæði við um upplýsingasöfnunina og greiningarstarfsemina sem slíka og þó ekki síður hvernig upplýsingarnar verði nýttar. Rétt er að taka fram að samkvæmt orðanna hljóðan á Varnarmálastofnun að skiptast á upplýsingum við sambærilega setta erlenda aðila í stjórnkerfi Nató eða annarra landa, með öðrum orðum samskiptin eru gagnvirk sem felur í sér að Varnarmálastofnun er þá eftir atvikum að miðla upplýsingum héðan út fyrir landsteinana. Þennan þátt málsins hefði að sjálfsögðu þurft að skoða mun betur.
    Í öðru lagi ítrekaði undirritaður áður fram komnar spurningar sínar um kostnað og líklegt umfang rekstrar á vegum Varnarmálastofnunar og heildarkostnað sem ætla mætti að leiddi af Natóvæðingunni sem í frumvarpinu felst. Litlar viðbótarupplýsingar komu þar fram en rétt er þó að taka fram og undirstrika að svo virðist sem staða Íslands sé sú að Nató tekur eftir atvikum í samráði við eða á grundvelli samkomulags við Íslendinga, ef slíkt næst, ákvarðanir um hvað af mannvirkjum í þess eigu á Keflavíkurflugvelli skuli rekið áfram en Íslendingar greiða þá kostnaðinn, nema um annað semjist sérstaklega, enda grundvallarreglan sú að mannvirkjasjóður Nató borgar stofnkostnað en það ríki þar sem mannvirkin eru rekstrarkostnað og viðhald nema þá í undantekningartilvikum. Með öðrum orðum virðist vera í hendi Nató óútfyllt ávísun eða vald til að senda reikninginn á íslenska skattborgara gegnum utanríkisráðuneytið og Varnarmálastofnun.
    Í þriðja lagi spurði undirritaður um undirbúning reglugerðar og/eða aðrar ákvarðanir eða upplýsingar sem ráðuneytið sæi ástæðu til að koma á framfæri við nefndina og Alþingi á þessu stigi málsins, en eins og áður kom fram er undirbúningur að reglugerðarsetningu ekki hafinn þannig að engar upplýsingar lágu fyrir um það þegar málið virðist komið á stig lokaumfjöllunar á Alþingi.
    Í nefndinni kom einnig fram spurning um störf hættumatsnefndar og hvort þess væri að vænta að niðurstöður úr því mati kynnu að leiða til þess að gera þyrfti lagabreytingar eða taka ákvarðanir um breytta tilhögun mála, sbr. það að rekstur ratsjárkerfisins og einkum hins hernaðarlega hluta þess, umfang heræfinga og fleiri útgjaldafrekar og stefnumótandi ákvarðanir liggja nú þegar fyrir þegar gerð hættumats og þarfagreiningar, að þessu leyti, er á frumstigi.
    Undirritaður hefur þráfaldlega gagnrýnt að hér sé byrjað á öfugum enda og komu engar upplýsingar fram í nefndinni sem hrekja að hans mati þá fullyrðingu. Með vísan til þess ítarlega rökstuðnings sem fram kom í nefndaráliti minni hluta utanríkismálanefndar við 2. umræðu og með vísan til þeirra viðbótarupplýsinga sem hér hafa verið dregnar fram leggst undirritaður eindregið gegn því að frumvarp þetta verði samþykkt og mun greiða atkvæði gegn því.

Alþingi, 10. apríl 2008.



Steingrímur J. Sigfússon.