Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 325. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
2. uppprentun.

Þskj. 938  —  325. mál.
Undirskriftir o.fl.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.



    Málinu var vísað til nefndarinnar að lokinni 2. umræðu og hefur hún fjallað um málið á ný og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur og Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármálaráðuneyti, Ingvar Rögnvaldsson, Guðrúnu Jenný Jónsdóttur og Guðmund Guðbjarnason frá ríkisskattstjóra, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Gest Steinþórsson frá skattstjóranum í Reykjavík, Steinþór Haraldsson frá skattstjóranum í Suðurlandsumdæmi, Harald Inga Birgisson frá Viðskiptaráði og Pál Harðarson og Árnínu Steinunni Kristjánsdóttur frá Kauphöll Íslands OMX. Þá hafa nefndinni borist viðbótarumsagnir frá ríkisskattstjóra, Alþýðusambandi Íslands og Eyþingi.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um kosti þess og galla að gera söluhagnað af hlutabréfum skattfrjálsan og hvort þetta væri skynsamleg leið til að hindra flutning fjármagns úr landi og laða jafnframt fyrirtæki og fjármagn til landsins. Einnig voru ræddar þær breytingar sem meiri hluti efnahags- og skattanefndar lagði til við 2. umræðu. Af því tilefni bárust nefndinni viðbótarumsagnir frá ríkisskattstjóra og Alþýðusambandi Íslands.
    Alþýðusamband Íslands leggst gegn frumvarpinu og telur brýnna að reistar verði skorður við því að eigendur fjármagns komist hjá eðlilegri skattlagningu með flutningi þess úr landi. Sambandið gagnrýnir enn fremur tímasetningu á framlagningu frumvarpsins í ljósi núverandi aðstæðna í efnahagsmálum þjóðarinnar. Hvað varðar þær breytingar sem meiri hluti efnahags- og skattanefndar lagði til við 2. umræðu frumvarpsins varar Alþýðusambandið sérstaklega við afnámi takmörkunar á heimild til að draga kostnað við öflun tekna sem undanþegnar eru skattskyldu frá öðrum tekjum.
    Bæði Viðskiptaráð og Kauphöll Íslands OMX fagna markmiðum frumvarpsins og telja að þær breytingar sem lagðar voru til við 2. umræðu hafi verið til góðs. Þessir aðilar benda á að tekjur ríkissjóðs af skatti á söluhagnað hlutabréfa hafi verið litlar vegna frestunarheimilda í lögum og að meiri ávinningur felist í því að skapa fyrirtækjum hagstætt skattaumhverfi. Þessu til stuðnings benda aðilarnir á mikinn vöxt íslenskra fjármálastofnana sem skapað hafa þjóðinni miklar tekjur.
    Meiri hlutinn telur ekki líklegt að ríkissjóður eigi að óbreyttum lögum eftir að uppskera miklar tekjur vegna frestaðra skattskuldbindinga. Meiri hlutinn bendir á að fjármagn er kvikur skattstofn og að aðilar hafi haft heimild til að fresta skattlagningu varanlega með ráðstöfun hans til kaupa á innlendum jafnt sem erlendum hlutabréfum. Umræddar frestunarheimildir eru vandmeðfarnar í skattframkvæmd. Á fundum nefndarinnar hefur í þessu sambandi verið farið yfir þann greinarmun sem gerður er á hlutabréfum sem keypt eru til fjárfestingar og veltuhlutabréfum. Frestunarheimildir laganna taka til hinna fyrrnefndu en í skattframkvæmd hefur reynst erfitt að viðhalda þessari aðgreiningu. Þá hafa fyrirtæki sem heimild hafa til að fresta skattlagningu söluhagnaðar getað dregið frá kostnað vegna söluhagnaðarins sem étið hefur upp aðrar tekjur. Frumvarpinu er ætlað að takmarka uppsöfnun á yfirfæranlegu tapi og um leið afnema þann greinarmun sem gerður hefur verið á fjárfestingarhlutabréfum og veltuhlutabréfum.
    Meiri hlutinn væntir þess að breytingarnar hvetji fyrirtæki til að setjast að hér á landi eða halda höfuðstöðvum hér og stuðli að því að fyrirtæki og fjármagn fari ekki úr landi. Í ríkjandi lagaumhverfi hefur borið á að aðilar stofni eignarhaldsfélög í ríkjum sem skattleggja ekki söluhagnað.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um þá breytingu sem meiri hlutinn lagði til við 2. umræðu frumvarpsins að láta það taka til afleiðuviðskipta. Fram kom að þáttur afleiðuviðskipta í Kauphöllinni væri vaxandi og að miklu skipti fyrir hagkvæmni slíkra viðskipta að breytingin næði fram að ganga. Einnig komu fram ábendingar um að hér væru á ferðinni flókin viðskipti og tekjuskattslög taki ekki sérstaklega á því hvernig fara eigi með þau í skattalegu tilliti. Fjármálaráðuneytið lýsti því yfir að tími væri kominn til að huga að endurskoðun tekjuskattslaga hvað afleiðuviðskipti varðar og að nýta mætti tímann fram á haust til þess. Með hliðsjón af athugasemdum ríkisskattstjóra vill meiri hlutinn undirstrika að breytingunni er ætlað að tryggja að afleiðuviðskipti sem fram fara á skipulegum verðbréfamarkaði, þar sem undirliggjandi verðmæti eru eingöngu hlutabréf, fái sömu skattalegu meðferð og sala þeirra hlutabréfa sem frumvarpið fjallar um. Breytingin tekur því ekki til afleiðna almennt heldur gildir hún aðeins um mjög afmarkaðan þátt afleiðuviðskipta.
    Loks ræddi nefndin þann þátt frumvarpsins sem varðar skattumsýslu stórfyrirtækja og töldu gestir sem komu á fund nefndarinnar að með því að koma umsýslunni fyrir á einum stað yrði eftirlit skilvirkara og þjónusta við fyrirtækin betri. Með frumvarpinu stæði ekki til að skera niður starfsemi skattstofa á landsbyggðinni.
    Að öðru leyti vísar meiri hlutinn til álits meiri hluta efnahags- og skattanefndar við frumvarpið frá 11. mars 2008.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Gunnar Svavarsson og Magnús Stefánsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Bjarni Benediktsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. maí 2008.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Gunnar Svavarsson,


með fyrirvara.



Magnús Stefánsson,


með fyrirvara.


Lúðvík Bergvinsson.


Kristján Þór Júlíusson.