Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 558. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1024  —  558. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 49/2007, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Högna S. Kristjánsson, Nínu Björk Jónsdóttur og Katrínu Einarsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Lárus Ólafsson frá iðnaðarráðuneyti. Minnisblað barst um málið frá iðnaðarráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 49/2007 frá 8. júní 2007 um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/89/EB frá 18. janúar 2006 um ráðstafanir til að tryggja öruggt framboð raforku og um fjárfestingar í grunnvirkjum.
    Tilskipuninni er ætlað að mæla fyrir um aðgerðir til að tryggja öryggi í orkuöflun og fjárfestingum í flutningi og dreifingu á raforku. Hún leggur áherslu á nauðsyn þess að tryggja jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar raforku og leggur skyldur á aðila til að tryggja setningu og staðfestingu viðbragðsáætlana og þess að gripið verði til aðgerða til að mæta frávikum í raforkukerfinu.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi. Við meðferð málsins í nefndinni komu fram athugasemdir um að ekki lægi fyrir hversu ítarlegar breytingar þyrfti að gera á raforkulögum, nr. 65/2003, og hugsanlega reglugerð um framkvæmd raforkulaga, nr. 1040/2005, vegna innleiðingar tilskipunarinnar. Með vísan til mikilvægis þess að upplýsingar um áhrif tilskipana lægju fyrir áður en stjórnskipulegum fyrirvara væri aflétt af ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar óskaði nefndin eftir því við iðnaðarráðuneyti að megináhrifum tilskipunarinnar á íslenskt lagaumhverfi og markað væri lýst og þau greind. Í svari iðnaðarráðuneytis kom fram að innleiðingin kallaði á endurmat á löggjöf til að tryggja afhendingaröryggi raforku. Meðal þess sem taka þyrfti til athugunar væri hvernig skyldur að þessu leyti væru lagðar á flutningsaðila eða framleiðendur. Þá þyrfti að taka afstöðu til úrvinnslu þátta á borð við raforkuframleiðslu vegna jöfnunarorku, hömlur í orkusölusamningum um að selja raforku áfram og fjárfestingarmöguleika flutningsfyrirtækja. Meiri hlutinn telur þessar upplýsingar fullnægjandi og leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Bjarni Benediktsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 19. maí 2008.



Árni Páll Árnason,


varaform., frsm.


Ragnheiður E. Árnadóttir.


Ásta R. Jóhannesdóttir.



Siv Friðleifsdóttir.


Guðfinna S. Bjarnadóttir.


Lúðvík Bergvinsson.



Kristinn H. Gunnarsson.