Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 515. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1036  —  515. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur og Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármálaráðuneytinu, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Jónu Björk Guðnadóttur og Friðgeir Sigurðsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Harald I. Birgisson frá Viðskiptaráði Íslands og Helga K. Hjálmarsson frá Landssambandi eldri borgara. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Samtökum verslunar og þjónustu, ríkisskattstjóra, Kauphöll Íslands, Landssambandi eldri borgara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, KPMG Endurskoðun hf., Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, PriceWaterhouseCoopers hf., Byggðastofnun, Viðskiptaráði Íslands, Félagi löggiltra endurskoðenda, Alþýðusambandi Íslands, Ríkisendurskoðun, Seðlabanka Íslands og Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga. Þá hefur nefndinni borist tilkynning frá Hagstofu Íslands.
    Meginefni frumvarpsins varðar yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út í tengslum við kjarasamninga aðila almenna vinnumarkaðarins 17. febrúar 2008. Yfirlýsingin var kynnt efnahags- og skattanefnd á fundi 26. febrúar að viðstöddum fulltrúum frá fjármálaráðuneyti, Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins.
    Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu varða hækkun persónuafsláttar umfram verðlag um 84 þús. kr. á ári í þremur áföngum, hækkun á tekjuskerðingarmörkum barnabóta, í tveimur áföngum, úr 100 þús. kr. á mánuði í 150 þús. kr. fyrir einstæða foreldra og sambærilegar fjárhæðir fyrir hjón hækka úr 200 þús. kr. í 300 þús. kr., enn fremur lækkun á tekjuskerðingarhlutfalli barnabóta vegna annars og þriðja barns úr 6% og 8% í 5% og 7%. Þá eru eignarviðmiðunarmörk vaxtabóta hækkuð úr neðri mörkum 5,3 millj. kr. og efri mörkum 8,4 millj. kr. í 7,1 millj. kr. og 11,4 millj. kr. fyrir einstaklinga og úr neðri mörkum 8,4 millj. kr. og efri mörkum 13,5 millj. kr. í 11,4 millj. kr. og 18,2 millj. kr. fyrir hjón. Þá er tekjuskattshlutfall lögaðila lækkað úr 18% í 15%.
    Á fundum sem nefndin hefur átt með Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins hefur komið fram að markmið kjarasamninganna hafi verið að hækka lægstu launataxta og bæta kjör þeirra launþega sem ekki hefðu notið launaskriðs. Í ljósi núverandi stöðu í efnahagsmálum hafa aðilarnir lagt áherslu á að ríkinu takist að verja stöðugleikann að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins. Samningsaðilarnir hafa bent á að hækkun verðbólgu eftir undirritun kjarasamninganna hafi orðið meiri en ráð var fyrir gert og það sé áhyggjuefni.
    Nefndin bendir á að Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins styðja frumvarpið varðandi þann þátt sem snýr að aðgerðum ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana. Seðlabankinn hvetur til aðhalds í opinberum fjármálum en af því tilefni vill nefndin árétta að frumvarpið er liður í framkvæmd skynsamlegra kjarasamninga sem í heild sinni stuðla að stöðugleika.
    Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar sem varða skattalega meðferð gengishagnaðar og gengistaps, afdráttarskatt á arðgreiðslur til erlendra aðila með takmarkaða skattskyldu og staðaruppbót starfsmanna Þróunarsamvinnustofnunar Íslands erlendis.
    Við meðferð málsins færðu Samtök fjármálafyrirtækja rök fyrir því að ákvæði 1. og 3. gr. frumvarpsins sem varða skattalega meðferð gengisbreytinga ættu að fela í sér heimild, en ekki skyldu, til að dreifa hagnaði eða tapi í þrjú ár og jafnframt að heimila ætti val um hvernig þau hátta dreifingunni innan þriggja ára tímabilsins. Með því yrði fyrirtækjum tryggður meiri stöðugleiki þótt viðurkennt væri að tekjur ríkisins yrðu að sama skapi háðar meiri óvissu. Þá fóru Samtök atvinnulífsins þess á leit við nefndina að 1. gr. frumvarpsins um skattalega meðferð gengishagnaðar tæki þegar gildi þar sem staðan í efnahagsmálum benti til þess að mörgum fyrirtækjum mundi reynast erfitt að greiða skatt af gengishagnaði síðasta árs vegna sambærilegs taps á þessu ári.
    Nefndin leggur til, með hliðsjón af umræddum athugasemdum og að höfðu samráði við fjármálaráðuneytið, að ákvæði frumvarpsins sem varða skattalega meðferð gengishagnaðar og gengistaps taki þegar gildi og komi til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2008 vegna tekna ársins 2007.
    Eftir ábendingu fjármálaráðuneytis leggur nefndin til nokkrar breytingar til viðbótar við frumvarpið en tekið skal fram að fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs óskaði eftir því við afgreiðslu málsins að ríkisskattstjóri gæfi álit sitt á þeim og enn fremur þeirri breytingu sem nefndin leggur til á ákvæðum frumvarpsins um skattalega meðferð gengisbreytinga sem áður hefur verið gerð grein fyrir.
    Fyrsta viðbótin kemur fram í b-lið 2. tölul. og a-lið 4. tölul. breytingartillagna nefndarinnar og er ætlað að árétta hvernig standa skuli að skattalegri meðferð gengishagnaðar sem myndast við innlausn hlutdeildarskírteina í erlendum gjaldmiðli í ljósi nýlegs úrskurðar yfirskattanefndar, nr. 70/2008, sem ástæða þótti til að bregðast við.
    Önnur viðbótin kemur fram í b-lið 3. tölul. breytingartillagnanna og snertir meðferð ónýtts persónuafsláttar þegar honum er ráðstafað til greiðslu fjármagnstekjuskatts samkvæmt reglum 2. mgr. A-liðar 67. gr. tekjuskattslaga. Tilgangur breytingarinnar er að gera skattleysismörk gagnvart fjármagnstekjum áþekk því sem á við um aðrar tekjur.
    Þriðja viðbótin kemur fram í b-lið 4. tölul. breytingartillagnanna en þar er lögð til breyting á skattlagningu kaupskipaútgerðar til samræmis við a-lið 6. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir að tekjuskattur hlutafélaga og einkahlutafélaga lækki úr 18% í 15%.
    Fjórða viðbótin kemur fram í a-lið 3. tölul. breytingartillagnanna og felur í sér breytingu á orðalagi í samræmi við ábendingar Svæðisskrifstofu fatlaðra á Reykjanesi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ögmundur Jónasson skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Gunnar Svavarsson og Paul Nikolov voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og styður álitið.

Alþingi, 19. maí 2008.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.



Bjarni Benediktsson.


Magnús Stefánsson.


Ragnheiður E. Árnadóttir.



Lúðvík Bergvinsson.