Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 286. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1061  —  286. mál.




Nefndarálit


um frv. til l. um framhaldsskóla.

Frá minni hluta menntamálanefndar.


Inngangur.
    Frumvarpið er eitt fjögurra frumvarpa sem menntamálaráðherra leggur fyrir 135. löggjafarþing í því skyni að endurskoða með heildstæðum hætti þrjú skólastig, leikskóla-, grunnskóla og framhaldsskólastigið, auk þess sem frumvarp um kennaramenntun fylgir með í spyrðunni. Það kom fram í máli ráðherra í 1. umræðu 7. desember 2007 að hún teldi mikilvægt að málin fylgdust að í gegnum þingið, enda væri hér um heildstæða nálgun að ræða. Þá sagði ráðherra málin afrakstur vinnu margra aðila, að þau endurspegluðu sjónarmið og hugsjónir þeirra er best þekktu til í menntamálum þjóðarinnar og að mikilvægt væri að víðtæk sátt ríkti um þau. En jafnframt sagði ráðherra að skoðanir gætu verið skiptar um leiðir að meginmarkmiði, sem væri að gera gott skólakerfi enn betra. Ráðherra vissi sem var þann 7. desember sl. að megn óánægja var með eitt þessara frumvarpa, nefnilega framhaldsskólafrumvarpið. Um þá óánægju vitnar fjöldi umsagna sem menntamálanefnd hefur borist þá liðlega fjóra mánuði sem hún hefur haft málin til meðhöndlunar og ekkert lát er á óánægjunni. Á lokaspretti vinnunnar í nefndinni streymdu inn ályktanir frá kennarafélögum framhaldsskólanna. Þegar þetta er ritað hafa borist áskoranir frá kennarafélögum í þriðjungi framhaldsskóla á landinu: Menntaskólanum í Reykjavík, Menntaskólanum á Akureyri, Verkmenntaskóla Austurlands, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Menntaskólanum við Sund, Fjölbrautaskóla Suðurlands, Kvennaskólanum í Reykjavík, Menntaskólanum á Ísafirði, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Fjölbrautaskólanum í Vestmannaeyjum.

Helstu ágreiningsefni.
    Gagnrýnin á frumvarpið byggist á nokkrum meginatriðum, sem eru talin upp á hnitmiðaðan hátt í grein eftir formann og varaformann Félags framhaldsskólakennara sem birtist í Fréttablaðinu 9. maí sl. Þar segir:
    „Félagið telur ýmislegt í frumvarpinu geta orðið efni í góða menntastefnu ef rétt er staðið að málum en leggur áherslu á að það verði lagfært með tilliti til eftirfarandi sjónarmiða:
          Fyrirætlanir um að draga eigi úr miðstýringu í námsframboði og í námskrárgerð þurfa að koma skýrt fram í nýjum lögum.
          Tilgreina þarf námseiningafjölda til stúdentsprófs svo að tryggt verði að nemendum bjóðist jafngilt og sambærilegt nám og nú er.
          Skýra þarf tilgang þess að taka upp nýtt einingakerfi fyrir framhaldsskólastigið.
          Skýra þarf tilgang þess að lengja skólaárið í framhaldsskólum um fimm daga.
          Bæta þarf forsendur skóla til þess að bjóða nemendum upp á nám við hæfi og sveigjanlega námsframvindu.
          Tryggja verður rétt nemenda og kennara til þátttöku í ákvörðunum um innra starf framhaldsskóla.
          Tryggja verður rétt nemenda til fjölbreytilegs framhaldsskólanáms.
          Tryggja verður að skólar geti axlað aukna ábyrgð á vinnustaðanámi nemenda.
          Tryggja þarf að ólögráða framhaldsskólanemendur njóti sambærilegs stuðnings, ráðgjafar og þjónustu og ólögráða nemendur á öðrum skólastigum.
          Markmið um aukna náms- og starfsráðgjöf fyrir nemendur þurfa að koma skýrar fram í nýjum lögum.
          Tryggja þarf rétt ólögráða nemenda til framhaldsskólavistar í grennd við heimili sitt.
          Setja verður gæðaviðmið um þjónustu við nemendur í fjar- og dreifnámi og að tryggja jafnan aðgang þeirra að náminu.
          Nám og námsgögn verði ólögráða nemendum að kostnaðarlausu.“
    Það er í sjálfu sér ekki undrunarefni að framhaldsskólakennarar skuli bregðast við með þeim hætti sem raun ber vitni. Í máli fulltrúa félagsins, sem mættu á fund menntamálanefndar, kom fram að vegna ágreinings um grundvallaratriði málsins hafi slitnað upp úr samstarfinu í nefndinni sem falið var að semja frumvarpið þegar sl. vor var hætt að boða þá á fundi. Þar með var sáttin um málið rofin og þannig standa málin enn í dag. Veturinn 2006 voru haldnir 11 fundir í nefndinni fullskipaðri, sá síðasti 18. apríl 2006, síðan var ekki kallaður saman fundur fyrr en 5. nóvember 2006 og var það lokafundur nefndarinnar. Á þeim fundi lögðu fulltrúar Kennarasambands Íslands fram yfirlýsingu sem fylgir nefndaráliti þessu sem fylgiskjal. Í vinnu menntamálanefndar hefur lítið sem ekkert verið gert til að koma til móts við sjónarmið félög framhaldsskólakennara, ef frá eru taldar nokkrar breytingartillögur varðandi starfsnámið. Ekki er nein tilraun gerð til að koma til móts við meginágreiningsefnin.

Samráð hunsað.
    Því er haldið fram af menntamálaráðherra að frumvarpið sé afrakstur víðtæks samráðs og að það sé byggt á störfum starfshópa hins svokallaða 10 skrefa samkomulags ráðherra og Kennarasambands Íslands. Til þess samráðs var stofnað þegar ráðherrann hafði tekið undir sjónarmið Verslunarmannafélags Reykjavíkur og fleiri aðila á vinnumarkaði um nauðsyn þess að stytta nám til stúdentsprófs, í mikilli andstöðu við fagfélög kennara og námsmenn. Stofnaðir voru nokkrir starfshópar í kjölfar 10 skrefa samkomulagsins og skiluðu þeir af sér efnismiklum niðurstöðum til ráðherra. Þegar þær niðurstöður eru bornar saman við frumvarpið sést að í veigamiklum atriðum er vikið frá leiðsögn starfshópanna. Nánar má lesa um það í umsögn Kennarasambands Íslands og sérstakri greinargerð sem sambandið vann fyrir nefndina, þar sem tíundað er hvaða tillögur starfshópanna skiluðu sér inn í frumvörpin og hverjar ekki.
    Í meðferð menntamálanefndar var ekki farið skipulega yfir þessa greinargerð KÍ, en í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar er reynt að koma inn einhverjum af tillögum starfsnámsnefndarinnar. Þær tilraunir eru allar til bóta, en ekki var hirt um að bera frumvarpið saman við tillögur starfshóps um almenna braut, eða tillögur hóps um sveigjanleika og fjölbreytni í skipulagi náms og námsframboðs. Þá eru sjónarmið starfshóps um náms- og starfsráðgjöf sniðgengin og tillögur starfshóps um fjar- og dreifnám eru hvergi nefndar. Kennarasamband Íslands segir í umsögn sinni til menntamálanefndar að sú fullyrðing sem frumvarpshöfundar setja fram í greinargerð með frumvarpinu, um að náið tillit hafi verið tekið til allra tillagna og sjónarmiða, standist ekki, frumvarpið sé að töluverðu leyti verk embættismanna menntamálaráðherra.
    Það er mat minni hlutans að í nefndarstarfinu hafi komið fram margir alvarlegir ágallar á vinnubrögðum við undirbúning framhaldsskólafrumvarpsins, sem full ástæða sé til að gagnrýna harðlega. Segja má að áform menntamálaráðherra um styttingu náms til stúdentsprófs gangi aftur í frumvarpinu og því sé allt tal um sátt orðin tóm.

Göfug markmið.
    
Í framsöguræðu menntamálaráðherra 7. desember 2007 lagði hún mikla áherslu á að frumvarpið tryggði framhaldsskóla fyrir alla, m.a. með fræðsluskyldu til 18 ára aldurs, að námsframboð yrði stóraukið, náms- og starfsráðgjöf stórefld ásamt öðrum persónubundnum stuðningi við nemendur. Í því sambandi var sérstaklega nefndur aukinn stuðningur við fatlaða nemendur og nemendur með heilsutengdar sérþarfir. Allt þetta ætti að stuðla að minna brottfalli enda mundu nú allir nemendur eiga kost á námi við hæfi. Ráðherra lofaði líka að gildi stúdentsprófs yrði óskorað þótt inntak og skipulag prófsins yrði með mismunandi hætti. Nýtt einingakerfi var sérstaklega lofað og mikilvægt að dregið yrði úr miðstýringu á námsframboði og námskrárgerð.

Sjálfstæði skóla.
    
Margt af markmiðum frumvarpsins getur minni hlutinn tekið undir, en lítur svo á að margar þeirra leiða sem gert er ráð fyrir að farnar verði í frumvarpinu vinni beinlínis gegn markmiðum þess. Þar tekur minni hlutinn undir með Kennarasambandi Íslands sem telur markmið um sjálfstæði skólanna og aukið frelsi þeirra verða marklaus ef stjórnvöld ætla að gera þrennt í senn: setja viðmið í aðalnámskrá um námsbrautarlýsingar skóla, staðfesta þær og að setja þeim viðmiðunarnámskrár. Minni hlutinn tekur undir þau sjónarmið að aðalnámskráin þurfi að fela í sér faglegar leiðbeiningar til skóla um námsbrautarlýsingar og að skólunum verði treyst fyrir þeirri vinnu.
    Þá bendir minni hlutinn á þann fjölda reglugerðarheimilda sem frumvarpið felur í sér, en þegar talin eru öll þau atriði sem gert er ráð fyrir að ráðherra mæli fyrir um í reglugerð við skólafrumvörpin fjögur, þá eru þau á fimmta tug. Það er mat minni hlutans að slíkur fjöldi reglugerðarheimilda lýsi framsali valds frá löggjafanum til framkvæmdarvaldsins umfram það sem heppilegt getur talist. Einnig að þessi fjöldi reglugerðarheimilda stríði gegn því markmiði frumvarpanna að gera skólana sjálfstæðari.

Fjármál framhaldsskóla.
    
Í gegnum árin hefur gengið erfiðlega að finna ásættanlegan fjárhagslegan grunn undir starfsemi íslenskra framhaldsskóla. Á hverju ári fara þingmenn yfir ágreiningsmál er varða reiknilíkan það sem ráðuneytið notar til að deila út fjármunum sem ætlaðir eru til starfsemi skólanna á fjárlögum, og þó að mikið hafi verið gert til að lagfæra reiknilíkanið á undanförnum árum hefur ekki fundist lausn sem hentar öllum skólunum til fulls. Í meðferð menntamálanefndar á framhaldsskólafrumvarpinu hefur umræðan um fjárhagsstöðu skólanna verið algerlega sniðgengin. Það er mat minni hlutans að slíkt hafi verið óábyrgt þar sem svo mikið veltur á fjármunum þeim sem verða til skiptanna ef takast á að efna mörg stærstu fyrirheit frumvarpsins. Má þar nefna aukið vægi náms- og starfsráðgjafar, aukinn stuðning við fatlaða nemendur og væntanlega fjölgun nemenda vegna þess nýmælis sem framhaldsskólaprófið verður. Aukinn rekstrarkostnaður við slíka braut er talinn nema a.m.k. 500 millj. kr. á ári og 120 millj. kr. betur ef aukin stoðþjónusta við slíka braut er talin með. Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytis segir í umsögn sinni að margir óvissuþættir séu í kostnaðarmatinu, m.a. sá að erfitt sé að reikna þá fjármuni sem sparast með því að einhver hluti nemenda muni ljúka stúdentsprófi á skemmri tíma en nú er.
    Þá telur minni hlutinn nauðsynlegt að vekja athygli á niðurlaginu í umsögn fjárlagaskrifstofu þar sem vakin er athygli á því að samþykkt ríkisstjórnarinnar um meðferð mála við 2. umræðu fjárlagafrumvarps geri ráð fyrir að með frumvörpum, sem leiða til aukinna útgjalda, skuli fylgja tillögur um hvernig dregið verði úr öðrum útgjöldum á móti til að útgjaldarammi raskist ekki. Tillögur um slíkar mótvægisráðstafanir vegna þessa frumvarps liggja ekki fyrir af hálfu menntamálaráðuneytisins.

Skerðing náms til stúdentsprófs.
    
Það sjónarmið var nokkuð skýrt í máli starfsmanna menntamálaráðuneytisins sem komu fyrir nefndina, að ef tækist að koma fleiri nemendum gegnum skólakerfið á skemmri tíma spöruðust fjármunir sem nota mætti til að auka gæði skólastarfs fyrir þá sem þyrftu lengri tíma til að ljúka náminu. Þetta sjónarmið endurspeglar þær áherslur sem menntamálaráðherra aðhylltist áður en 10 skrefa samkomulagið var gert við Kennarasamband Íslands. Það er mat minni hluta menntamálanefndar að stytting náms til stúdentsprófs sé innbyggð í það fyrirkomulag sem mælt er fyrir um í frumvarpinu. Það byggist á þeirri staðreynd að frumvarpið tilgreinir hvorki einingafjölda né námstíma til stúdentsprófs. Núverandi stúdentspróf eru 140 námseiningar sem miðað er við að nemendur ljúki á fjórum árum en í fyrirmælum frumvarpsins er hvorki ljóst hversu margar nýjar einingar stúdentsprófið verður né heldur hve mörg námsár eru til stúdentsprófs.
    Til þess að tryggt verði að frumvarpið leiði ekki til skerðingar náms til stúdentsprófs þyrfti a.m.k. að tilgreina lágmarkseiningafjölda sem gert væri ráð fyrir að nægði til stúdentsprófs. Þá þyrfti einnig að ganga úr skugga um það hvernig kröfur háskólanna til nýnema eru að þróast. Ekki var gerð nein tilraun til þess í vinnu menntamálanefndar við frumvarpið að grennslast fyrir um sjónarmið háskólanna hvað þennan þátt varðar. Það er mat minni hluta nefndarinnar að hætta sé á að stúdentspróf það sem frumvarpið mælir fyrir um mæti ekki kröfum háskóla hvorki hér á landi né erlendis og að það feli í sér hættu á að taka þurfi upp sérstakan undirbúning eða aðfaranám að fagnámi í háskólum. Slík niðurstaða yrði óásættanleg fyrir íslenska stúdenta og íslenska skólakerfið. Minni hlutinn telur nauðsynlegt að lög um framhaldsskóla tilgreini með hvaða hætti tengsl og samstarf framhaldsskóla og háskóla eiga að vera hvað varðar námsundirbúning stúdenta.
    Umsögn Háskóla Íslands við frumvarpið styður þessi sjónarmið, en í henni segir að þetta nýja fyrirkomulag muni kalla á sérstaka skoðun innan HÍ með hliðsjón af þeim undirbúningi sem Háskólinn telur nauðsynlegan til þess að nemendur geti tekst á við háskólanámið. Það vekur einnig athygli í umsögn Háskóla Íslands að ekki er tekin afstaða til þeirrar nýjungar sem fólgin er í því að framhaldsskólum verði heimilað að bjóða upp á viðbótarnám að loknum skilgreindum námslokum. Enda er það mat minni hlutans að sú hugmynd sé vanreifuð.

Nýtt einingakerfi.
    
Frumvarpið gerir ráð fyrir nýju einingakerfi, sem svarar til þess einingakerfis sem tekið var upp á háskólastigi með gildistöku laga nr. 63/2006, um háskóla. Rökin fyrir því eru afar veik og eiga sinn þátt í því að fullyrðingar í greinargerð um að slíkt einingakerfi sé nú í auknum mæli tekið upp í framhaldsskólum þeirra landa sem taka þátt í Bologna-ferlinu eru órökstuddar.
    Hinu nýja einingakerfi er ætlað að mæla vinnuframlag nemenda, í stað kennslustunda sem miðað hefur verið við fram að þessu, en engu er slegið föstu um tímalengd náms til stúdentsprófs í frumvarpinu. Það kemur þó fram að hið nýja framhaldsskólapróf skuli vera 90–120 einingar, eitt og hálft til tvö námsár. Af því leiðir að stúdentspróf hljóti að vera lengra en 120 einingar. Það er hins vegar ekki ljóst hvort dregið verði úr vægi kjarnagreina, en líkur benda til að svo verði. Þær líkur eru reiknaðar út í umsögn Háskóla Íslands sem fylgir nefndaráliti þessu og niðurstaðan bendir til þess að gert sé ráð fyrir því í frumvarpinu að námstími til stúdentsprófs verði einungis þrjú ár.

Jafngilding bóknáms og verknáms.
    
Eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins er að stúdentspróf af verknámsbrautum verði jafngilt prófi af bóknámsbrautum. Frumvarpið mælir hins vegar ekki í neinu fyrir um á hvern hátt þetta skuli tryggt. Í greinargerð frumvarpsins má lesa misvísandi sjónarmið hvað þetta varðar. Minni hlutinn tekur undir þau sjónarmið að efla þurfi verknám og starfstengt nám en svigrúm skóla til að móta nýjar og fjölbreyttar verknámsbrautir nægir ekki eitt og sér til að tryggja jafnstöðu stúdentsprófs af verknámsbrautum og bóknámsbrautum. Í vinnu menntamálanefndar við frumvarpið var ekki gerð nein tilraun til að svara áleitnum spurningum á borð við það hverjar „almennar kröfur“ háskóla séu? Ekki heldur hvort stúdentspróf þar sem stór hluti af náminu er verkleg þjálfun veiti aðgang að Háskóla Íslands? Ekki heldur hvort jafngilding námsgreina geti auðveldað bóknámshneigðum nemendum að ljúka starfsnámi, t.d. sveinsprófi í iðngrein? Þessum spurningum var varpað til nefndarinnar en voru ekki ræddar.

Aukið eftirlit, aukin gæði.
    
Frumvarpið gerir ráð fyrir auknu eftirliti af hálfu menntamálaráðuneytisins með skólastarfi í framhaldsskólum þ.m.t. eftirliti með gæðum náms. Með hliðsjón af auknu námsframboði og auknu frelsi skóla til að setja á fót námsbrautir má gera má ráð fyrir auknu umfangi þeirra starfa sem unnin eru í menntamálaráðuneytinu, sérstaklega hvað varðar eftirlit með gæðum námsins. Slíkt eftirlit er eðli málsins samkvæmt tímafrekt og mannfrekt verkefni. Ekki verður séð að forsendur fjárlagaskrifstofu hvað þennan þátt varðar séu raunsæjar, eitt stöðugildi í ráðuneytinu og tiltekinn fjöldi úttekta dugir skammt ef námsbrautum fjölgar verulega á skömmum tíma. Það er einnig mat minni hluta nefndarinnar að grundvöllur nýrra námsbrauta sé aukin fagmennska í skólunum sjálfum og traust milli ráðuneytis og skólasamfélagsins.

Náms- og starfsráðgjöf.
    
Frumvarpið gerir ráð fyrir auknu vægi náms- og starfsráðgjafar í framhaldsskólum, en ekki er lagt til að fara þá leið sem tryggja mundi slíkt vægi til fulls. Þar er átt við lögverndun starfsheitis náms- og starfsráðgjafa. Mikillar tregðu gætir hjá stjórnvöldum varðandi fjölgun lögverndaðra starfsheita, en þegar ásetningur er um að minnka brottfall úr framhaldsskólum og viðurkennt er að fullgildir náms- og starfsráðgjafar geti þar komið að mestu gagni með færni sinni og þekkingu, þá er óskiljanlegt að synjað skuli um slíka löggildingu. Það skortir mjög á að í frumvarpinu séu skilgreind þau viðmið sem liggja eiga til grundvallar faglegri náms- og starfsráðgjöf og að frumvarpið endurspegli þá áherslu sem látið er í veðri vaka að eigi að leggja á þennan þátt í framhaldsskólunum. Það er mat minni hluta menntamálanefndar að tímabært sé að lögvernda starfsheiti náms- og starfsráðgjafa, og slík lögverndun sé forsenda þess að markmið frumvarpsins um aukið vægi náms- og starfsráðgjafar náist. Um þessar mundir er kjörið tækifæri til að stíga þetta skref, þar sem endurskoðun MA-náms í náms- og starfsráðgjöf stendur nú yfir. Slíkt væri í samræmi við aukið vægi kennaramenntunar, sem í vændum er samkvæmt frumvarpi um kennaramenntun sem er eitt þeirra fjögurra mikilvægu frumvarpa sem nú stendur til að gera að lögum.
    Breytingartillaga meiri hlutans hvað þetta atriði varðar hefur litla þýðingu, þar sem ekki er kveðið skýrt að orði um hverjum er ætlað að annast þá ráðgjöf sem 37. gr. frumvarpsins kveður á um. Til að greinin nái tilgangi sínum þyrfti að taka það fram að nemendum standi til boða náms- og starfsráðgjöf ásamt fræðslu um nám og starfsval. Slíka þjónustu ættu náms- og starfsráðgjafar að veita. Jafnframt þyrfti að geta þess í skólanámskrá á hvern hátt skóli telji þessu hlutverki best sinnt og hvernig standa eigi að miðlun upplýsinga um nám og námsleiðir til nemenda og foreldra eða forráðamanna þeirra.

Gjaldfrjáls framhaldsskóli.
    
Þau ákvæði frumvarpsins er lúta að gjaldtöku í 45. gr. frumvarpsins uppfylla ekki kröfuna um gjaldfrjálsan framhaldsskóla. Það er mat minni hlutans að framhaldsskólinn skuli vera gjaldfrjáls fyrir alla nemendur, að allir þættir í starfi framhaldsskólanna sem leiða af lögbundinni þjónustu þeirra skuli vera án gjaldtöku. Það eru mikil vonbrigði að meiri hluti nefndarinnar skuli ekki einu sinni gera tillögu um að framhaldsskólinn verði gjaldfrjáls fyrir ólögráða nemendur, þ.e. til 18 ára aldurs. Það er mat minni hlutans að gjaldtaka sú sem frumvarpið kveður á um auki misrétti til náms og nauðsynlegt sé að gera áætlun um gjaldfrjálsan framhaldsskóla hið fyrsta. Nauðsynlegt er að þeir nemendur sem ekki eiga kost á að sækja framhaldsskóla daglega frá heimili sínu fái notið hærri dvalarstyrks og aðgengis að gjaldfrjálsu fjar- og dreifnámi. Til að ná þessum markmiðum þarf að tryggja að hvorki verði innheimt innritunargjald né efnisgjald eða gjald fyrir nám utan daglegs starfstíma eða utan reglubundins starfstíma að sumri. Ákvæði frumvarpsins hvað gjaldtökuheimildir varðar stríða því mjög gegn sjónarmiðum minni hluta menntamálanefndar.

Niðurstaða.
    
Það er mat minni hlutans að mörg af yfirlýstum markmiðum frumvarps um framhaldsskóla séu góð og gefi möguleika á endurnýjun framhaldsskólastigsins. Hins vegar liggur ljóst fyrir að margar þeirra leiða sem mælt er fyrir um í frumvarpinu stríða beinlínis gegn þeim markmiðum. Stærstu ágreiningsatriðin hafa verið talin upp hér að framan, en um önnur er vísað til fjölda efnismikilla athugasemda sem menntamálanefnd bárust á þeim tíma sem málið var til skoðunar í nefndinni. Þá er ljóst að mistekist hefur að skapa nauðsynlega sátt um frumvarpið meðal skólafólks, en slík sátt er grundvöllur þeirra róttæku breytinga sem stjórnvöld hafa hug á að gera á framhaldsskólanum. Í ljósi þessa hlýtur minni hlutinn að vara við því að málið verði keyrt með meirihlutavaldi gegnum atkvæðagreiðslu á Alþingi. Leggur minni hlutinn því til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri

RÖKSTUDDRI DAGSKRÁ:


    Þar sem færð hafa verið gild rök fyrir því að:
     a.      sú lagasetning sem í frumvarpinu felst muni ekki hafa í för með sér þá eflingu framhaldsskólastigsins sem að er stefnt,
     b.      að ekki liggur fyrir trúverðug greining á kostnaði við lagasetninguna eða fyrirheit af hálfu stjórnvalda um nægilegt fjármagn til framhaldsskólastigsins til að standa undir metnaðarfullum umbótum leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað frá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá.

Alþingi, 20. maí 2008.


Kolbrún Halldórsdóttir,

frsm.

Höskuldur Þórhallsson.

Fylgiskjal I.


Umsögn frá Kennarasambandi Íslands.
(24. janúar 2008.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.

Greinargerð frá Kennarasambandi Íslands.
(26. mars 2008.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.

Umsögn frá Háskóla Íslands.
(22. janúar 2008.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.