Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 538. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1104  —  538. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breytingu á lögum er varða verðbréfaviðskipti.

Frá viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Árnýju Guðmundsdóttur og Írisi Björk Hreinsdóttur frá Fjármálaeftirlitinu, Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Áslaugu Árnadóttur og Sigríði Rafnar Pétursdóttur frá viðskiptaráðuneyti.
    Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti, lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa og lögum um kauphallir.
    Lög um verðbréfaviðskipti öðluðust gildi 1. nóvember 2007 en með þeim voru m.a. innleidd ákvæði svonefndra MiFID- og gagnsæistilskipana. Þær breytingar á lögunum sem í frumvarpinu felast, sbr. I. kafla, snúa að ákvæði XIII. kafla laganna um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja. Þá er í II. kafla frumvarpsins lögð til breyting á 30. gr. laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði um fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða. Eftir gildistöku nýrra laga um verðbréfaviðskipti er skilgreining hugtaksins skipulegur verðbréfamarkaður þrengri en áður og er verðbréfasjóðum því samkvæmt gildandi lögum ekki heimilt að eiga viðskipti á mörkuðum utan EES. Þetta stangast á við verðbréfasjóðatilskipun nr. 85/611/EB en ákvæði hennar hafa verið tekin upp í íslenskan rétt, sbr. lög nr. 30/2003. Í III. kafla frumvarpsins er lagt til að 10. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa verði breytt í þá veru að kauphallir öðlist rétt til að hafa milligöngu um eignarskráningar í verðbréfamiðstöð. Loks er í IV. kafla frumvarpsins lagt til að gerð verði breyting á lögum um kauphallir. Er annars vegar lagt til að kauphöll sé heimilt að hafa milligöngu um eignarskráningar í verðbréfamiðstöð og hins vegar að mælt verði fyrir um að skýrsla stjórnar fylgi endurskoðuðum ársreikningi kauphallar til Fjármálaeftirlitsins skv. 16. gr., í stað ársskýrslu. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru m.a. komnar til vegna ábendinga fjármálafyrirtækja og ríkisskattstjóra og með hliðsjón af þróun í norrænum rétti.
    Nefndin leggur til breytingu á frumvarpinu. Er lagt til að við frumvarpið bætist nýr kafli um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Tillagan lýtur að 106. gr. þeirra laga sem fjallar um samruna. Breytingunum sem lagðar eru til er annars vegar ætlað að auka skýrleika framangreinds ákvæðis og hins vegar að taka af allan vafa um að sparisjóðir geti eignast einstaka rekstrarhluta annarra fjármálafyrirtækja en sparisjóða, án þess að þeim hafi áður verið breytt í hlutafélag. Miða breytingarnar þannig að því að jafna stöðu sparisjóðanna gagnvart öðrum fjármálafyrirtækjum svo að þeir geti stækkað með því að kaupa rekstrareiningar frá öðrum fjármálafyrirtækjum í stað þess að þeir geti aðeins selt rekstrareiningar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við bætist nýr kafli, V. kafli, Lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, með einni nýrri grein, 11. gr., svohljóðandi:
    Eftirfarandi breytingar verða á 106. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. mgr. komi tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             Samruni fjármálafyrirtækis við annað fyrirtæki er aðeins heimill að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Yfirfærsla einstakra rekstrarhluta fjármálafyrirtækis til annars fyrirtækis með öðrum hætti, svo sem sölu, er einnig háð samþykki Fjármálaeftirlitsins. Með rekstrarhluta er í ákvæði þessu átt við starfhæfa einingu innan fjármálafyrirtækis, t.d. útibú.
             Samruni fjármálafyrirtækis við annað fyrirtæki er aðeins heimill ef ákvörðun þar að lútandi hefur hlotið samþykki hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda í yfirtekna fyrirtækinu með minnst 2 / 3hlutum greiddra atkvæða og samþykki hluthafa eða stofnfjáreigenda í yfirtekna fyrirtækinu sem ráða yfir minnst 2 / 3hlutum þess hlutafjár eða stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundum eða fundum stofnfjáreigenda. Ef hið yfirtekna fyrirtæki er alfarið í eigu yfirtökufélags þarf ekki að koma til atkvæðagreiðslu skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar í yfirtekna félaginu.
     b.      2. mgr., er verður 3. mgr., orðast svo:
             Samruni sparisjóðs við annað fyrirtæki er því aðeins heimill að sparisjóðnum hafi áður verið breytt í hlutafélag samkvæmt ákvæðum VIII. kafla, nema þegar um er að ræða samruna tveggja eða fleiri sparisjóða sem ekki hefur verið breytt í hlutafélag eða hlutafélög.
     c.      5. mgr., er verður 6. mgr., orðast svo:
             Fjármálaeftirlitið skal auglýsa samruna og yfirfærslu rekstrarhluta fjármálafyrirtækja í Lögbirtingablaði. Í auglýsingu skal tilgreina hvenær samruninn eða yfirfærslan tekur gildi, nöfn hlutaðeigandi fyrirtækja, frest til að gera athugasemdir við yfirfærslu innlánsreikninga, hugsanlegar breytingar á greiðslustöðum skuldaskjala og annað sem kunngera þarf viðskiptamönnum sérstaklega.

    Jón Bjarnason skrifar undir álit þetta með fyrirvara og áskilur sér rétt til að leggja fram breytingartillögur.
    Höskuldur Þórhallsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Jón Magnússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 23. maí 2008.



Ágúst Ólafur Ágústsson,


form., frsm.


Guðfinna S. Bjarnadóttir.


Jón Bjarnason,


með fyrirvara.



Birgir Ármannsson.


Árni Páll Árnason.


Birkir J. Jónsson.



Jón Gunnarsson.


Björk Guðjónsdóttir.