Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 530. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1131  —  530. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um fiskeldi.

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingimar Jóhannsson og Sigríði Norðmann frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Jón Gíslason og Halldór Runólfsson frá Matvælastofnun, Jón Kjartan Jónsson og Guðberg Rúnarsson frá Landssambandi fiskeldisstöðva, Óðin Sigþórsson frá Landssambandi veiðifélaga, Jóhannes Sturlaugsson frá Laxfiskum ehf. og Þórð Ásgeirsson frá Fiskistofu.
    Umsagnir bárust frá Landsvirkjun, Landssambandi veiðifélaga, Matvælastofnun, Fiskistofu, Landssambandi fiskeldisstöðva, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Náttúrufræðistofnun Íslands, Bændasamtökum Íslands, Norðurorku, Orkuveitu Reykjavíkur, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fiskvinnslustöðva, Umhverfisstofnun, Veiðimálastofnun og Alþýðusambandi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að eftirlit og stjórnsýsla fiskeldismála verði að mestu leyti flutt til Fiskistofu frá Matvælastofnun. Eftirliti verður þó skipt milli þessara stofnana þannig að Fiskistofa mun hafa eftirlit með þeim þáttum er snúa að rekstrarleyfum, veiðistjórnun ferskvatnsfiska, rekstri og fiskeldisfræði en Matvælastofnun með þeim er snúa að matvælaeftirliti og heilbrigði vatnafiska. Markmiðið er að skapa skilyrði til uppbyggingar eldi vatnafisks og nytjastofna sjávar og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu.
    Á fundum sínum ræddi nefndin fjölmörg atriði og leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu og þá fyrst að skilgreiningu frumvarpsins á hafbeit verði breytt til samræmis við skilgreiningar hafbeitar í lögum um lax- og silungsveiði og lögum um fiskrækt.
    Nefndin ræddi um aðkomu sveitarfélaga að þeim stjórnsýsluákvörðunum sem í frumvarpinu felast og varða m.a. svæðaskiptingu fiskeldis, staðsetningu fiskeldisstarfsemi og útgáfu rekstrarleyfa en á fundum nefndarinnar komu fram athugasemdir um að aðkoma þeirra væri ekki nægilega vel tryggð og að það skipti sveitarfélög og íbúa þeirra miklu máli hvort starfsemi á borð við fiskeldi væri leyfð við strönd eða á fjörðum í sveitarfélögum og því væri nauðsynlegt að tryggja þátttöku þeirra í ákvörðunum um það. Fellst nefndin á þau sjónarmið og leggur til breytingu á frumvarpinu í þá veru að leitað verði umsagnar viðkomandi sveitarfélags við svæðaskiptingu fiskeldis, við staðbundið bann við starfsemi og loks við veitingu rekstrarleyfis. Þá leggur nefndin enn fremur til að við setningu reglugerða skv. 4. gr. frumvarpsins verði leitað álits Sambands íslenskra sveitarfélaga, Landssambands fiskeldisstöðva og Landssambands veiðifélaga til þess að sjónarmið þessara hagsmunaaðila liggi fyrir.
    Í samræmi við framangreinda breytingu telur nefndin nauðsynlegt að leggja til breytingar á ákvæði til bráðabirgða um að Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefni fulltrúa í samráðsnefnd um framkvæmd laganna, og verða fulltrúarnir þá tólf talsins, og að atkvæði formanns ráði úrslitum ef ágreiningur verður í nefndinni. Samráðsnefndin hefur það hlutverk að fylgjast með og stuðla að greiðri framkvæmd og virkum skoðanaskiptum þeirra er lög um fiskrækt, lög um Veiðimálastofnun, lög um varnir gegn fisksjúkdómum og lög um lax- og silungsveiði varða helst. Tillagan felur því einnig í sér að nauðsynlegt er að leggja til sambærilegar breytingar á ákvæðum til bráðabirgða í þeim lögum og leggur nefndin því til breytingar á frumvarpi sem varðar breytingar á lögum vegna flutnings stjórnsýslu- og eftirlitsverkefna á sviði lax- og silungsveiði, fiskræktar o.fl. til Fiskistofu, sbr. 531. mál á þskj. 832.
    Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir um að hugtakið „neikvæð vistfræðileg áhrif“ sé óljóst og ekki nægilega vel skilgreint í frumvarpinu og geti því verið íþyngjandi fyrir umsækjendur um rekstrarleyfi til fiskeldis sem fjallað er um í III. kafla frumvarpsins. Í 7. gr. kemur fram að áður en leyfi er veitt skuli afla umsagnar Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunarinnar eftir því sem við á um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldisstöðvar eða fyrirhugaðar eldistegundir, eldisstofnar eða eldisaðferðir gefi tilefni til hættu á neikvæðum vistfræði- eða erfðafræðiáhrifum sem leitt getur af leyfisskyldri starfsemi. Þá er í 9. gr. þar sem fjallað er um málsmeðferð Fiskistofu heimild til að leggja fyrir umsækjanda að rannsaka á eigin kostnað hvort fyrirhuguð starfsemi fiskeldisstöðvar feli í sér aukna hættu á fisksjúkdómum eða hvort um neikvæð vistfræðileg áhrif geti orðið að ræða. Hugtakið „neikvæð vistfræðileg áhrif “ hefur ekki verið skýrt skilgreint í lögum og getur náð yfir mjög vítt svið og telur nefndin því að vinna við skilgreiningu hugtaksins gæti tekið mjög langan tíma en nauðsynlegt yrði að samræma skilgreininguna í fjölda laga og taka mið af alþjóðlegum samningum, svo sem alþjóðasamningi um líffræðilega fjölbreytni. Leggur nefndin því áherslu á að við skilgreininguna beri að beita meðalhófsreglu og almennum ákvæðum stjórnsýslulaga.
    Þá var því einnig hreyft fyrir nefndinni að greinar þessar gætu verið óþarflega íþyngjandi fyrir umsækjendur um rekstrarleyfi og telur nefndin rétt að taka fram að þessi ákvæði eru að mestu leyti í samræmi við gildandi lög. Jafnframt leggur nefndin áherslu á að með ákvæðum frumvarpsins er ekki ætlunin að stöðva fiskeldi eða gera umsækjendum erfitt fyrir heldur er verið að leggja mat á sjúkdómstengda þætti og minnir sérstaklega á í því sambandi að reglur stjórnsýslulaga gilda um framkvæmd laganna, svo sem meðalhófsreglan og andmælarétturinn.
    Einnig komu fram athugasemdir fyrir nefndinni að ekki væri nægilega skýrt kveðið á um sjónarmið náttúru- og umhverfisverndar í frumvarpinu og telur nefndin því rétt að benda á að áður en rekstrarleyfi er gefið út þarf Umhverfisstofnun að gefa út starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir eins og verið hefur.
    Nefndin ræddi einnig ákvæði frumvarpsins um eldisbúnað í 20. gr. sem felur í sér að innflutningur á notuðum eldisbúnaði sé óheimill. Telur nefndin að slíkt bann sé of strangt og geti falið í sér viðskiptahindrun auk þess sem það er ekki í samræmi við 2. mgr. 30. gr. frumvarps til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 frá 28. janúar 2002 auk afleiddra gerða, 524. mál á þskj. 825. Leggur því nefndin til að við 20. gr. bætist nýr málsliður, um að Matvælastofnun geti heimilað innflutning á öðrum eldisbúnaði sem sannanlega sé hægt að sótthreinsa enda þyki sannað að ekki berist smitefni með honum sem valda dýrasjúkdómum.
    Nefndin telur frumvarpið eðlilegt framhald þess að yfirstjórn allrar stjórnsýslu varðandi nýtingarstjórnun á fiskum fer nú fram í einu og sama ráðuneyti, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, og að við þessa einföldun verði stefnumótun í málaflokknum skilvirkari en áður.
     Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Helgi Hjörvar var fjarverandi við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 22. maí 2008.

Arnbjörg Sveinsdóttir,
form., frsm.
Karl V. Matthíasson.
Gunnar Svavarsson.

Atli Gíslason,
með fyrirvara.
Kjartan Ólafsson.
Birkir J. Jónsson.

Jón Gunnarsson.
Grétar Mar Jónsson.