Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 553. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1202  —  553. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, með síðari breytingum, og lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, með síðari breytingum.

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.



    Í frumvarpinu er lagt til að iðnaðarráðherra verði veitt heimild til að fela Orkustofnun leyfisveitingarvald til auðlindarannsókna og auðlindanýtingar á grundvelli tvennra laga, annars vegar laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, og hins vegar laga nr. 73/1990, um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins. Rökin eru tvíþætt: annars vegar að einfalda stjórnsýsluna og hins vegar að flýta umhverfismati, en orkufyrirtækin hafa kvartað undan því að það taki of langan tíma. Tveir fyrrverandi iðnaðarráðherrar, Jón Sigurðsson og Valgerður Sverrisdóttir, hafa á fyrri löggjafarþingum lagt fram svipuð frumvörp (sbr. 542. mál 133. löggjafarþings, og 374. mál 131. löggjafarþings). Málin mættu mikilli andstöðu og urðu ekki útrædd. Ekki verður séð að frumvarpið sem hér er til umræðu takmarki leyfisveitingarvald Orkustofnunar með sama hætti og í fyrri frumvörpum sem nefnd eru hér að framan og er það miður. Þau frumvörp gerðu m.a. ráð fyrir að Orkustofnun bæri að afla umsagna frá tilgreindum aðilum.
    Minni hlutinn bendir á að núgildandi lög eru um margt ófullkomin varðandi leyfisveitingar til rannsókna og nýtingar auðlinda og má um það vísa til skýrslu auðlindanefndar sem skipuð var samkvæmt bráðabirgðaákvæði laga nr. 5/2006, um breytingu á lögum nr. 57/1998. Skýrslan var gefin út í október 2006 og ber heitið Framtíðarsýn um verndun og nýtingu auðlinda í jörðu og vatnsafls.
    Það er stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að rannsóknir á náttúruauðlindum lands og sjávar, rétt eins og verndun þeirra og áætlanir um nýtingu, eigi að vera á forræði umhverfisráðuneytis, en ekki hjá nýtingarráðuneytinu. Minni hlutinn gagnrýnir sérstaklega að opnað sé fyrir það að Orkustofnun, sem ekki ber pólitíska ábyrgð, geti haft frumkvæði að og veitt leyfi til rannsókna og nýtingar auðlinda án þess að um leið séu settar skýrar reglur um meðferð umsókna og úthlutun leyfa.
    Á undanförnum árum hafa sprottið miklar deilur af úthlutun leyfa til rannsókna á viðkvæmum jarðhitasvæðum enda spilla fyrstu rannsóknir, sýnataka og tilraunaboranir ásýnd og náttúru slíkra svæða umtalsvert. Í ljósi þess að stefnumörkun um auðlindanýtingu er í verkahring stjórnvalda, þ.e. ríkisstjórnar á hverjum tíma, hlýtur úthlutun leyfa til rannsókna og nýtingar auðlinda að vera pólitísk ákvörðun, a.m.k. að hluta, og hlýtur þar af leiðandi að eiga heima á borði ráðherra sem fari með vald sitt samkvæmt stefnumörkun sem nauðsyn er að fái umfjöllun og samþykki Alþingis Íslendinga.
    Í störfum iðnaðarnefndar náðist sá árangur að kærufrestur til ráðherra er samkvæmt tillögum meiri hlutans lengdur úr 30 dögum í 90 daga til samræmis við stjórnsýslulög. Almenningi er hins vegar ekki tryggð bein aðkoma að málum sem þessum þar sem ákvæði Árósasamningsins um aðgang almennings að upplýsingum, þátttöku í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum hafa enn ekki verið lögfest hér á landi nema að litlu leyti.
    Miðað við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar, um að ekki verði gefin út ný rannsóknaleyfi á óröskuðum svæðum meðan vinnu við 2. áfanga rammaáætlunar hefur ekki verið lokið, hlýtur að gefast svigrúm til að vanda betur til verka en hér er gert. Minni hlutinn telur að gera eigi hlé á stóriðjuframkvæmdum og stöðva útgáfu rannsókna- og nýtingarleyfa til raforkuvinnslu þar til heildarstefna um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hefur verið útfærð og samþykkt á Alþingi. Af þessu tilefni bendir minni hlutinn á leiðara Morgunblaðsins 22. og 23. maí sl. um nýtingu auðlinda og eftirspurn og framboð á raforku. Þar er kallað eftir því að stjórnmálamenn taki í taumana og geri tilraun til að öðlast heildarsýn á stöðu okkar og hagsmuni í orkumálum í alþjóðlegu samhengi. Sú endurskoðun fari fram á grunni lýðræðislegra vinnubragða, m.a. með aðkomu stjórnarandstöðunnar. Undir þá hvatningu tekur minni hlutinn sem leggst gegn samþykkt frumvarpsins.


Alþingi, 26. maí 2008.



Álfheiður Ingadóttir.