Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 651. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1341  —  651. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992 með síðari breytingum.

Frá viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Árnadóttur og Þóru M. Hjaltested frá viðskiptaráðuneytinu, Ragnhildi Helgadóttur frá Háskólanum í Reykjavík, Ásgeir Ásgeirsson og Torfa Áskelsson frá Viðlagatryggingu Íslands, Thelmu Þórðardóttur og Víði Reynisson frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Helgu Jónsdóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Ólaf Örn Haraldsson frá þjónustumiðstöð almannavarna á Selfossi.
    Frumvarp þetta er lagt fram í samræmi við 28. gr. stjórnarskrár Íslands í þeim tilgangi að staðfesta bráðabirgðalög frá 7. júní 2008 sem breyttu lögum um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992, en breytingin fól í sér lækkun eigin áhættu tjónþola. Aðdragandi að setningu bráðabirgðalaganna eru jarðskjálftarnir sem áttu sér stað á Suðurlandi 29. maí sl.
    Lög um Viðlagatryggingu Íslands gerðu ráð fyrir að eigin áhætta vátryggðs vegna tjóna á lausafé væru 40.000 kr. og að hámark sjálfsábyrgðar breyttist í takt við byggingarvísitölu. Sökum verulegrar hækkunar á byggingarvísitölu á síðustu árum var eigin áhætta orðin 90.800 kr. miðað við vísitöluna 1. júní 2008 en sjálfsábyrgð í hefðbundinni innbústryggingu vátryggingafélaganna var 10–20.000 kr. Árið 2000 nam þessi eigin áhætta 51.600 kr. Af þeirri ástæðu og til þess að tryggja tjónþolum sanngjarnar bætur þótti brýn nauðsyn til setningar bráðabirgðalaga.
    Samkvæmt bráðabirgðalögunum er reglum um eigin áhættu vátryggðs breytt til lækkunar og gert ráð fyrir því að eigin áhætta vátryggðs verði áfram 5% af hverju tjóni en hins vegar að lágmarksfjárhæð sé 20.000 kr. fyrir brunatryggt lausafé. Hvað varðar húseignir skal eigin áhætta vera að lágmarki 85.000 kr. og vegna mannvirkja sem eru vátryggð skv. 2. mgr. 5. gr. laganna skal eigin áhætta vera að lágmarki 850.000 kr. Þá er tekið fram í frumvarpinu að ráðherra sé heimilt með reglugerð að ákvarða hækkun á lágmarksfjárhæðunum og því verði afnumin sú tenging sem var við byggingarvísitölu.
    Við meðferð málsins kom í ljós að 28. ágúst sl. höfðu 3.875 tjónstilkynningar borist og skiptust þær þannig: 2.080 voru vegna íbúðarhúsnæðis, 2.220 vegna tjóns á innbúi,175 vegna atvinnuhúsnæðis, 160 vegna tjóns á lausafé og 180 vegna sumarhúsa. Alls höfðu 976 eignir verið skoðaðar og 830 milljónir kr. verið greiddar til að bæta innbústjón en 822 milljónir kr. til að bæta 314 fasteignatjón. Uppgjöri vegna 202 fasteignatjóna er rétt ólokið.
    Þá liggur fyrir að viðskiptaráðuneytið hefur skipað starfshóp sem vinnur að heildarendurskoðun laganna um Viðlagatryggingu Íslands.
    Nefndin ræddi á fundum sínum efnisatriði bráðabirgðalaganna og gerir ekki athugasemdir við þá lækkun sem orðið hefur á eigin áhættu tjónþola samkvæmt lögunum um Viðlagatryggingu Íslands.
    Enn fremur ræddi nefndin á fundum sínum um skilyrði setningar bráðabirgðalaga eins og þau koma fram í 28. gr. stjórnarskrárinnar og hvort umrædd bráðabirgðalög hafi uppfyllt þau skilyrði. Í greininni segir að bráðabirgðalög verði aðeins sett ef Alþingi er ekki að störfum og brýna nauðsyn ber til lagasetningarinnar en auk þess mega bráðabirgðalög ekki brjóta í bága við stjórnarskrá.
    Nefndin telur að breytinguna á 2. mgr. 10. gr. laga um Viðlagatryggingu Íslands, sbr. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins, sem felur í sér að ráðherra verði heimilt að ákvarða með reglugerð hækkun á lágmarksfjárhæð eigin áhættu, hafi verið óþarfi að setja í bráðabirgðalög, sérstaklega þar sem endurskoðun laganna stendur fyrir dyrum. Því leggur nefndin til að ákvæði 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins falli brott og 2. mgr. 10. gr. laga um Viðlagatryggingu Íslands gildi aftur, þ.e. að lágmarksfjárhæðir eigin ábyrgðar umreiknist til samræmis við gildandi vísitölu byggingarkostnaðar á hverjum tíma.
    Þá fjallaði nefndin um afturvirkni bráðabirgðalaganna, þau taka til tjóna sem orðið hafa frá 25. maí á þessu ári en voru sett 7. júní sl. Gerir nefndin ekki athugasemdir við þetta atriði, m.a. þar sem gætt hafi verið málefnalegra sjónarmiða.
    Þá ræddi nefndin einnig um tjónstilvik sem falla ekki undir lög um Viðlagatryggingu Íslands og möguleika til þess að víkka út hlutverk hennar. Sömuleiðis ræddi nefndin hvort bæta þyrfti eftirlit með greiðslum úr sjóðum Viðlagatryggingar. Nefndin telur að slík atriði eigi að koma til skoðunar þegar lögin verða endurskoðuð í heild sinni eins og stendur til að gera.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    2. mgr. 1. gr. falli brott.

    Birkir J. Jónsson, Árni Páll Árnason, Birgir Ármannsson og Guðfinna S. Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Jón Magnússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 9. sept. 2008.



Ágúst Ólafur Ágústsson,


form., frsm.


Björk Guðjónsdóttir.


Jón Gunnarsson.



Höskuldur Þórhallsson.


Jón Bjarnason.