Mál á dagskrá -- framhald þingfundar

Þriðjudaginn 20. janúar 2009, kl. 14:18:49 (3018)


136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

mál á dagskrá -- framhald þingfundar.

[14:18]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson vera mann að meiri að hafa komið í ræðustól Alþingis og óskað eftir því sjálfur að þetta fáránlega mál, vil ég segja, sem hér um ræðir verði tekið af dagskrá.

Ég vil segja við hæstv. forseta að umræðan það sem af er fundinum færir mér heim sanninn um það að hæstv. forseti geri það eitt rétt í málinu, eins og ástandið er nú fyrir utan húsið og inni í því, að fresta fundinum í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra hefur gefið yfirlýsingu um að ríkisstjórnin hafi nýtt jólaleyfið vel og undirbúið fjölmörg mál. Ég tel að Alþingi og þjóðinni yrði sýndur sómi og virðing, eins og hæstv. forsætisráðherra bað um að yrði gert, með því að fresta fundinum og taka fyrir þau brýnu mál sem þjóðin vill að verði rædd þegar og ef þetta Alþingi kemur saman aftur. Eða forseti setjist niður með ríkisstjórninni og leiði henni fyrir sjónir (Forseti hringir.) að hún er rúin trausti og henni ber að víkja.