Mál á dagskrá -- framhald þingfundar

Þriðjudaginn 20. janúar 2009, kl. 14:20:27 (3020)


136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

mál á dagskrá -- framhald þingfundar.

[14:20]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ítrekað hafa þingmenn talað um að mál þeirra fáist ekki rædd. Hér er ég með eitt mál á dagskrá um tóbaksvarnir ríkisins og get tekið undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að ég tel að brýnna sé að ræða ýmis önnur mál en það eða málið sem hann er 1. flutningsmaður að þannig að mér væri að meinalausu þó að önnur mál kæmu frekar í forgang. En það er einu sinni þannig að gengið er frá dagskrá Alþingis með ákveðnum fyrirvara og málefni þingmanna eiga líka rétt á því að fást rædd. Ekki er hægt að halda því fram eins og Vinstri grænir hafa gert að mál frá ríkisstjórninni eigi að hafa forgang. Hvers konar þingræði erum við að tala um? Að sjálfsögðu verða þingmenn að fá að ræða mál sín hversu mikilvæg (Gripið fram í.) eða ómerkileg sem ykkur finnst þau vera. Það er bara einu sinni þannig að þingmenn eiga þann rétt. Þetta er málstofa þingsins og þingið er rödd þjóðarinnar hvort sem fólki líkar það betur eða verr á meðan það situr að störfum.