Tekjustofnar sveitarfélaga og gatnagerðargjald

Fimmtudaginn 12. febrúar 2009, kl. 12:05:14 (3643)


136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

tekjustofnar sveitarfélaga og gatnagerðargjald.

185. mál
[12:05]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur um að nauðsynlegt sé að sýna samstöðu í góðum málum og þetta er eitt af þeim góðu málum sem fram hafa komið.

Ég get líka tekið undir það að ekki sé skynsamlegt að eyða of miklum tíma í smámál og formsatriði. Í góðum málum og almennt bara eigum við að hefja okkur yfir flokkadrætti. Ég get líka verið sammála um þetta. Ég er sammála þessu öllu saman. Ég held að við hljótum öll á þinginu að vera sammála um þetta. Þess vegna er mér algerlega óskiljanlegt af hverju í ósköpunum verið er að gera góð mál að fáránlegum málum. Til dæmis þegar búið er að koma bankakerfinu fyrir vind, þegar búið er að fá margt gott fólki til að vinna góð störf og allir flokkarnir stóðu að því, af hverju kemur þá ekki forsætisráðherra hér og segir: „Ég bakka upp þetta fólk. Ég er mjög sátt við þetta fólk. Ég vil eindregið leggja það til að þetta ágæta fólk fái frið til að vinna sína vinnu“? Það hefði verið skynsamlegt.

Stærsta málið sem við stöndum frammi fyrir núna er endurreisn bankakerfisins. Við erum öll sammála um það. Af hverju þá að vera að skipta um hesta í miðri á? Af hverju er verið að taka út fólk og lýsa vantrausti á fólk sem búið er að koma sér inn í málin? Þarna hefðum við öll getað verið sammála um stærsta málið. En þá kemur stjórnin og hleypir þessu í loft upp. Þetta skil ég ekki.