Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 17. febrúar 2009, kl. 19:30:55 (3864)


136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[19:30]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um afnám laga nr. 141/2003, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, með síðari breytingum, og breytingu á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta er lagt fram í samræmi við verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar, frá 1. febrúar 2009, en þar kemur fram að lög nr. 141/2003, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, verði afnumin og að eftirleiðis skuli gilda um alþingismenn, ráðherra, hæstaréttardómara og forseta Íslands almennar reglur um lífeyriskjör opinberra starfsmanna.

Með lögum þessum, nr. 141/2003, sem leystu af hólmi enn eldri ákvæði í nokkrum sérlögum, voru æðstu embættismönnum þjóðarinnar veitt betri eftirlaunaréttindi en almennt tíðkast og þeim tryggð ákveðin lágmarksréttindi til eftirlauna umfram þau réttindi sem opinberir starfsmenn njóta samkvæmt lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Reyndar höfðu umtalsverð sérkjör verið til staðar í eldri lögum eins og áður sagði. Yfirlýstur tilgangur þeirra laga var m.a. að gera alþingismönnum og ráðherrum sem verið hafa lengi í störfum á opinberum vettvangi betur kleift að draga sig í hlé og stuðla þannig að meiri endurnýjun í þjóðmálum að því leyti. En það er skemmst frá því að segja og er vel kunnugt að lögin hafa hins vegar sætt margs konar og harðri gagnrýni frá byrjun. Til að mæta henni var lögunum loks breytt á nýliðnu haustþingi og dregið nokkuð úr réttindum án þess að þau væru þó afnumin að fullu. Þrátt fyrir þær breytingar er engu að síður ljóst að ýmsir þættir í eftirlaunakerfi æðstu embættismanna þjóðarinnar víkja eftir sem áður frá almennum lífeyrisréttindum og segja má að eftirlaunakerfi æðstu embættismanna þjóðarinnar mæti ekki almennum skilningi eða stuðningi í þjóðfélaginu heldur þvert á móti. Við því þarf að bregðast, m.a. til að varðveita nauðsynlegt traust milli almennings og ráðamanna. Í þessu frumvarpi er því lagt til að gengið sé hreint til verks og að lög nr. 141/2003, verði afnumin og þannig komið á fullu samræmi í lífeyrismálum ráðamanna og almennings.

Í fyrsta kafla frumvarps þess sem ég mæli hér fyrir er lagt til að frá og með 1. apríl nk., auðnist Alþingi að ljúka afgreiðslu málsins vel fyrir þann tíma, falli úr gildi lög nr. 141/2003, en þau haldi þó gildi sínu gagnvart hæstaréttardómurum sem skipaðir hafa verið fyrir gildistöku laganna sem og gagnvart núverandi forseta Íslands á yfirstandandi kjörtímabili. Er því um sólarlagsákvæði að ræða fyrir viðkomandi einstaklinga á meðan þeir gegna þeim embættum sem þeir gera í dag.

Verði frumvarpið að lögum hefur afnám laga nr. 141/2003 ekki í för með sér að þau réttindi sem einstaklingar hafa áunnið sér á gildistíma laganna skerðist afturvirkt, heldur haldast þau óbreytt sem geymd réttindi.

Með vísan til 19. gr. laga nr. 141/2003 er með frumvarpinu jafnframt kveðið á um að ef sá sem fær greidd eftirlaun samkvæmt lögum nr. 141/2003 eða samkvæmt eldri lögum er giltu um eftirlaun alþingismanna og ráðherra fyrir 30. desember 2003, og gegni starfi á vegum ríkisins, stofnana þess eða félaga í meirihlutaeigu þess, komi launagreiðslur fyrir það starf að fullu til frádráttar eftirlaunum. Regla þessi er til samræmis við þá umræðu sem farið hefur fram í þjóðfélaginu, allt frá gildistöku laga nr. 141/2003, að ekki þyki forsvaranlegt að greiða óskert eftirlaun samhliða störfum á vegum ríkisins.

Í öðrum kafla frumvarpsins er lagt til að gerð verði nauðsynleg breyting á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, til að tryggja að þeir aðilar sem lög nr. 141/2003 ná til, eigi við brottfall laganna aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þar sem umræddir einstaklingar eru, að frátöldum hæstaréttardómurum, ekki starfsmenn ríkisins í skilningi laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er lagt til að viðkomandi aðilar verði sérstaklega tilgreindir í aðildargrein 3. gr. laga nr. 1/1997, við hlið annarra starfsmanna ríkisins. Um starfsmenn ríkisins og þá aðila sem tilgreindir eru í lögum nr. 141/2003, gilda þá sömu reglur samkvæmt lögum nr. 1/1997, verði frumvarp þetta að lögum.

Lög nr. 141/2003 ná að jafnaði til innvinnslu eftirlaunaréttinda 77 starfandi einstaklinga, auk geymdra réttinda þeirra sem áður hafa gegnt þessum störfum. Alls áttu 633 einstaklingar réttindi samkvæmt lögunum í árslok 2007 og nam áfallin eftirlaunaskuldbinding ríkissjóðs vegna þeirra rúmlega 12 milljörðum kr. Samkvæmt frumvarpinu eru áunnin réttindi varðveitt og því munu áhrif þess á skuldbindingar ríkissjóðs koma fram smám saman eftir því sem árin líða. Þó að frumvarpið verði að lögum er ekki gert ráð fyrir að það leiði til mikillar lækkunar á eftirlaunagreiðslum ríkissjóðs næstu árin, heldur munu áhrif þess fyrst og fremst koma fram í lækkun á gjaldfærðri eftirlaunaskuldbindingu ríkissjóðs í ríkisreikningi. Megináhrif frumvarpsins á útgjöld ríkissjóðs felast í því að réttindaávinnsla samkvæmt lögum nr. 141/2003 hættir og bindur ríkissjóði ekki þyngri bagga en orðið er.

Unnið hefur verið tryggingafræðilegt mat fyrir fjármálaráðuneytið á áhrifum frumvarpsins. Þar er gengið út frá hópnum sem átti réttindi samkvæmt gildandi lögum í árslok 2007 og skuldbindingar vegna hópsins reiknaðar fram í tímann að öðru óbreyttu. Til langs tíma litið mun afnám laganna leiða til þess að þessi sérstaka skuldbinding vegna alþingismanna og ráðherra mun fjara alveg út. Samkvæmt þessu mati er áætlað að verði frumvarpið að lögum megi að öðru óbreyttu gera ráð fyrir að strax við gildistöku laganna lækki heildarskuldbinding ríkissjóðs vegna alls hópsins sem lögin ná til og verði 356 millj. kr. lægri en í árslok 2007 og að eftir fjögur ár hafi skuldbindingin lækkað um 1.689 millj. kr., eða sem svarar til 14% af skuldbindingunni í árslok 2007. Ef eingöngu er litið á hóp starfandi alþingismanna og ráðherra þá námu þessar sérstöku skuldbindingar vegna þeirra um 1,8 milljörðum kr. í árslok 2007 en eru taldar lækka um tæp 4% við gildistöku, verði frumvarpið að lögum, og um nálægt 40% eða hátt í 700 millj. kr. að fjórum árum liðnum.

Frú forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu. Ég segi að lokum að mér er sérstök ánægja að mæla fyrir þessu frumvarpi og vona að með því og afgreiðslu þess hér á Alþingi ljúki tiltekinni sögu sem lítil eftirsjá er að og að betri sátt komist á milli þings og þjóðar, að minnsta kosti hvað þennan þátt varðar.