Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 17. febrúar 2009, kl. 19:43:44 (3867)


136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[19:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Jafnvel þó að Alþingi hafi rýmkað mörkin á milli eigna og skulda lífeyrissjóða upp í 15%, sem er mjög óvarlegt í reynd, þá held ég að flestir búist við því að það þurfi að skerða almenn réttindi í sjóðunum. Það er bara því miður, það er ekki eitthvað sem ég vil. Og þá kemur í ljós að við erum að fara með þingmenn úr einu forréttindakerfi í annað. Forréttindakerfi sem er þannig að réttindin eru föst en iðgjaldið, þ.e. iðgjald ríkisins, er breytilegt. Skatturinn — því að þetta er ekki borgað með neinu öðru en sköttum — á þjóðina verður hækkaður til að standa undir óbreyttum réttindum opinberra starfsmanna og þingmanna þar með á sama tíma og almennu sjóðirnir neyðast til að skerða lífeyrisrétt sinn.

Hv. þingmaður lagði til á fundi í gær að verðtryggingin yrði afnumin en það er einmitt það sem mundi verða enn meira högg fyrir almennu lífeyrissjóðina, til viðbótar við höggið sem þeir fengu af bankahruninu. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra finnist þetta allt í lagi. Mér finnst það ekki allt í lagi. Ég hef reyndar flutt frumvarp sem ekki var sett á dagskrá í dag þó að það hafi lægra númer en frumvarp hæstv. ráðherra, það var sem sagt á undan, en ég fékk ekki að mæla fyrir því í dag. Það frestast þá í einhvern tíma því að ég er að fara til útlanda. Það gekk út á það að þingmenn gætu valið sér sjóði eins og almenningur. 80% þjóðarinnar er í almennum lífeyrissjóðum sem þurfa að sæta skerðingu og búa ekki við það öryggi sem opinberir starfsmenn búa við og sem þingmenn eiga að fara inn í samkvæmt lögum. Ég flutti frumvarpið um áramótin um að það væri heimilt fyrir þingmenn að fara út úr þessu forréttindakerfi og það var kolfellt.