Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 17. febrúar 2009, kl. 20:25:14 (3875)


136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[20:25]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hér skuli hafa verið lagt fram frumvarp til laga um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Þetta er mál sem hefur verið lengi í umræðunni á hv. Alþingi og sitt hefur hverjum sýnst í þeim efnum eins og við höfum heyrt hér á ágætum ræðum sem hafa verið fluttar í kvöld. Hér er verið að færa lífeyrisréttindi alþingismanna til þess sem gengur og gerist hjá öðrum opinberum starfsmönnum. Það er verið að færa þingmenn inn í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, þ.e. réttindaávinnslan verður sú sama. (Gripið fram í: … opinberra starfsmanna.)

Hæstv. forseti. Ég tel og almennt er það stefna okkar framsóknarmanna að við eigum að gæta jafnræðis á milli fólks, hvort sem það vinnur á almennum vinnumarkaði eða hjá hinu opinbera eða vinnur hér á hv. Alþingi. Hér er stigið skref í þá átt að samræma þessi réttindi. Það er alveg ljóst að það þarf að ganga lengra í þeim efnum eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur í mörg ár bent á og ég tel að við séum að stíga hér skref í þeirri vegferð.

Hins vegar er það svo, eins og ég sagði hér áðan, að þetta mál hefur mikið verið til umræðu. Ég man að síðast þegar við ræddum þessa breytingu á eftirlaunum æðstu embættismanna ríkisins var sérstaklega einn flokkur sem barði sér á brjóst í umræðunni og sagðist hafa skilað því máli þar sem það væri komið. Það var Samfylkingin.

Formaður Samfylkingarinnar sagði á fyrri hluta síðasta árs að þáverandi ríkisstjórn mundi afgreiða þau lög þá um vorið. Það stóðst ekki. Síðan var mikill vandræðagangur á ríkisstjórnarheimilinu þar sem hver samfylkingarkappinn, hver þingmaður Samfylkingarinnar, kom fram á eftir öðrum og talaði um að það þyrfti að afnema þessi sérréttindi alþingismanna.

Það er hægt að vitna til þess í umræðunni á þingi og ég vil vitna til nokkurra ummæla. Ég vitna til hv. þm. Árna Páls Árnasonar sem sagði hér, með leyfi forseta:

„Ég trúi því og treysti að við náum á þessu þingi samstöðu um það á hinu háa Alþingi að færa okkur aftur í rétta átt, fara í þá átt að búa til eitt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn sem hlýtur að vera hið eðlilega ástand. Það er fullkomlega óásættanlegt að löggjafinn hafi um það forgöngu að skerast úr leik í þessu efni. Ég held að það væru líka gríðarlega góð og jákvæð skilaboð til aðila vinnumarkaðarins nú þegar kjarasamningar fara í hönd að við sendum út þau skilaboð að við ætlum ekki að slíta í sundur friðinn á íslenskum vinnumarkaði til lengri tíma litið.“

Jafnframt sagði hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, með leyfi forseta:

„Lykilatriðið er að allir séu jafnir og það sé eitt lífeyrissjóðakerfi fyrir alla landsmenn. Um það snýst þetta mál.“

Hæstv. forseti. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa á undangengnum mánuðum og árum talað mikið fyrir því að þessi réttindi séu jöfnuð. Þess vegna komu okkur, hv. þingmönnum í Framsóknarflokknum og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, viðbrögðin verulega á óvart þegar við fluttum um það breytingartillögu fyrir örfáum mánuðum á Alþingi að við mundum jafna þessi réttindi því sem gengur og gerist hjá opinberum starfsmönnum. Við bárum fram breytingartillögu á Alþingi og þrátt fyrir hin digru loforð Samfylkingarinnar í umræðu um lífeyrismál almennt var sú breytingartillaga Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Framsóknarflokks felld af þingmönnum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Það er því gleðiefni þegar ný ríkisstjórn hefur tekið til starfa með fulltingi Framsóknarflokksins sem ætlar að verja hana vantrausti með hlutleysi hér á Alþingi að þetta mál skuli líta hér dagsins ljós. Ég sagði í umræðum um stefnuræðu nýs forsætisráðherra á Alþingi fyrir skömmu að við framsóknarmenn mundum styðja öll mál, sama hvort þau kæmu frá stjórn eða stjórnarandstöðu, sem væru landi og þjóð til heilla. Og ég tel að það frumvarp sem við ræðum hér sé landi og þjóð til heilla því að mjög erfiðir tímar blasa við íslenskum heimilum, okkur öllum, almenningi, og það er alveg ljóst að allir, hvar sem þeir eru í samfélaginu, munu því miður þurfa að taka á sig kjaraskerðingu, lífskjaraskerðingu jafnvel, og við þurfum því að stuðla að því hér á Alþingi Íslendinga að allir taki þátt í því.

Ég lít svo á, hæstv. forseti, að það frumvarp sem við afgreiddum fyrir jól um breytingu á lögum um kjararáð sem leiddi það af sér að laun æðstu embættismanna ríkisins hafa lækkað um 5–15% hafi verið rétt skilaboð frá stjórnvöldum út á vinnumarkaðinn í ljósi þeirra hrikalegu aðstæðna sem við okkur blasa í íslensku efnahagslífi. Eins og hæstv. fjármálaráðherra benti á hér áðan ganga þær breytingar nú líka yfir til að mynda embættismenn í ráðuneytum.

Það hefur sannað sig á undanförnum vikum og mánuðum að ef þing og þjóð ganga ekki í takt verður vík milli vina. Þá verður ákveðið rof þar á milli. Við þurfum hér í störfum okkar á Alþingi að koma til móts við þau sjónarmið úti í samfélaginu að allir standi saman og að allir séu jafnréttháir þegar kemur að því að jafna kjörin í samfélaginu. Eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, þurfa allir að taka á sig ákveðna kjaraskerðingu. Þess vegna teljum við framsóknarmenn rétt að byrja ofan frá því að ekkert réttlæti er í því að byrja á því að skerða kjör öryrkja, aldraðra og námsmanna.

Við þurfum að fara á undan með góðu fordæmi vegna þess að margir hópar í samfélaginu glíma við gríðarlega mikla erfiðleika. Ef alþingismenn ætla, hvort sem það er varðandi starfskjör eða eftirlaun, að skera sig eitthvað úr er alveg ljóst að þing og þjóð ganga ekki í takt.

Hæstv. forseti. Í ljósi bágborins efnahags ríkissjóðs og almennt í landinu er fagnaðarefni að með þessu frumvarpi erum við að lækka skuldbindingar ríkissjóðs og það um verulegar upphæðir. Samkvæmt umsögn frá fjármálaráðuneyti er talað um að eftir fjögur ár hafi skuldbindingin lækkað um 1,7 milljarða kr. sem svara til 14% af skuldbindingum í árslok 2007. Það skiptir máli að búa í haginn fyrir ríkissjóð, sérstaklega á þeim tímum sem nú ganga yfir, og þess vegna fagna ég þessu frumvarpi til laga um breytingar á eftirlaunum æðstu embættismanna ríkisins.

Ég vek athygli á því, af því að hér í salnum er sérstakur áhugamaður, hv. þm. Pétur H. Blöndal, um það að lífeyrisréttindi verði almennt jöfnuð, að síðasta ríkisstjórn, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, treysti sér ekki til að jafna lífeyrisréttindi æðstu embættismanna ríkisins við það sem gengur og gerist hjá hinu opinbera. Það er einfaldlega staðreyndin. Ég trúi ekki öðru en að hv. þm. Pétur H. Blöndal fagni því sérstaklega að menn séu — og hann gerði það í ágætri ræðu sinni áðan en ég tek eftir því að hv. þingmaður hefur beðið um fá að veita andsvar við ræðu minni og ég ætla að gefa hv. þingmanni kost á því í sínu stutta andsvari að fagna þessu sérstaklega. Sjaldan verður sú vísa of oft kveðin.

Hæstv. forseti. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með það að sú minnihlutaríkisstjórn sem starfar á Íslandi í dag skuli hafa lagt fram þetta frumvarp vitandi það að þingflokkur framsóknarmanna mun styðja það eindregið. Það verður mjög fróðlegt að sjá hver afstaða Sjálfstæðisflokksins er í þessu máli. Ég veit ekki hvað olli því að síðasta ríkisstjórn treysti sér ekki til þess að jafna eftirlaun alþingismanna og annarra opinberra starfsmanna sem þingflokkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Framsóknarflokksins gerðu breytingartillögu við og mæltu fyrir hér á Alþingi fyrir einungis nokkrum vikum.

Maður veltir fyrir sér, og ég gerði það í máli mínu hér áðan, sinnaskiptum Samfylkingarinnar í þessu efni en við hljótum að vilja fá upp á borðið hvað olli því að þáverandi ríkisstjórn lagði fram frumvarp til laga um breytingu á þessum réttindum sem gekk ekki eins langt og það frumvarp sem hér um ræðir. Við framsóknarmenn styðjum þetta frumvarp eindregið. Við munum fara yfir þetta mál á vettvangi efnahags- og skattanefndar og ég tek undir með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að það er mikilvægt að við förum ofan í alla þá útreikninga sem m.a. liggja í kostnaðarmatinu og tökum þetta vandlega til meðhöndlunar á vettvangi nefndarinnar.

Að mati okkar framsóknarmanna er mjög brýnt að við samþykkjum þetta mál. Hér er um að ræða skref í þá átt að jafna kjörin almennt í samfélaginu sem við hljótum öll að vera fylgjandi. Þingflokkur framsóknarmanna styður það og hvetur þessa ríkisstjórn og reyndar aðra stjórnarandstöðuflokka eins og Sjálfstæðisflokkinn til þess að leggja fram góð mál hér á Alþingi á þeim örstutta tíma sem við höfum fram að kosningum. Hér eru mörg brýn mál sem við þurfum að ræða út í hörgul, mörg mál sem við þurfum að vísa til nefnda og afgreiða þaðan því að það er brýnt að þetta þing starfi vel og það sé kraftur í störfum þingsins á þeim vikum sem fram undan eru.