Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 17. febrúar 2009, kl. 21:07:02 (3884)


136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikið gagn að þingmönnum eins og þeim sem kom hér síðast upp til þess að túlka ræður þingmanna og sérstaklega út frá bókmenntafræðilegri nálgun eins og hann beitir að eigin sögn.

Ég held að þetta sé alveg skýrt og ætti að vera hv. þingmanni skýrt hvert ég er að fara. Ég er að vekja athygli á því að okkar fyrirkomulag hefur verið hið sama og hjá nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndunum og til að mynda í Þýskalandi þar sem réttindaávinnslan er hraðari. Það eru gild rök til þess. Þau voru rakin með því máli og ég studdi það sjónarmið sem frumvarpið frá 2003 fjallaði um, þ.e. að jafna kjör þeirra sem málið tók til. Þá var ekki verið að breyta eftirlaunaréttindum hæstaréttardómara eða forseta svo neinu skipti, það var verið að aðlaga aðra sambærilega aðila að þeirra kjörum.

Með þessu frumvarpi er t.d. verið að breyta kjörum forsetans verulega. Hann mun ekki geta farið á eftirlaun eins og gilt hefur samkvæmt íslenskum lögum, óháð aldri eftir að hafa setið tiltekinn tíma sem forseti. Hann mun þurfa að bíða þangað til hann hefur náð rúmlega 60 ára aldri til þess að byrja töku lífeyris. Við erum að gera slíka grundvallarbreytingu með þessu frumvarpi.

Það kann vel að vera að það sé skynsamlegt en ég vil þá bara fá það skýrt frá þeim sem tefla fram þessu máli hér hvort þeir eru að horfa til heildarkjaranna, hvort þeir ætlast til þess að það verði gert í framhaldi af setningu þessara laga, í framhaldi af því að kjörin eru skert. Á að horfa til þess með því að færa upp launin, á að hækka þingfararkaupið? Ég vil að það sé gert.

Ég er ekki í neinu kapphlaupi við aðra þingmenn eins og þann sem hér kemur upp í andsvar til þess að lækka kjör þingmanna. Ég ætla ekki að taka þátt í því kapphlaupi en ég sé að hv. þingmaður skammast sín fyrir þau kjör sem hann nýtur og vill endilega draga úr þeim eins og mest má verða. (Gripið fram í.)