Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 17. febrúar 2009, kl. 21:11:37 (3886)


136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:11]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók það skýrt fram í máli mínu áðan að ég taldi það hafa verið skynsamlegt skref hjá fyrri ríkisstjórn að mælast til þess við kjararáð, þrátt fyrir prinsippið um að kjararáð eigi að fara með þessi málefni en ekki þingið sjálft, að mælast til þess við kjararáð að það lækkaði laun þingmanna, þ.e. þingfararkaupið, strax. Ástæðan er sú að það er algjörlega fyrirsjáanlegt að fram undan eru verulegar launalækkanir á almennum markaði. Þess vegna var það skynsamlegt hjá ríkisstjórninni að mælast til þess strax til þess að liðka fyrir samningum sem fram undan eru, m.a. hjá opinberum starfsmönnum og auðvitað á almennum vinnumarkaði að launin yrðu lækkuð, þ.e. þingfararkaupið.

Þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni að það er auðvitað alveg ómögulegt að við skulum vera sett í þá stöðu aftur og aftur að vera að fjalla um okkar eigin kjör. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég tel að þetta vald að fjalla um lífeyrisréttindi og þingfararkaup þingmanna eigi að fara héðan út úr þingsalnum og það eigi að færa þetta almennt yfir til kjararáðs.

Síðan er hitt meginatriðið varðandi þetta mál, þeir sem standa að því skulda okkur skýringu á því hvort þeir líti á þetta sem mál þar sem verið er að skerða heildarkjör þingmanna, ráðherra, hæstaréttardómara og forseta Íslands vegna þess að það sé einhver brýn þörf á því eða hvort þetta mál sé einungis til þess hugsað að jafna lífeyrisréttindi þessara hópa við lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Þá situr eftir spurningin um hvort taka eigi tillit til þessa við ákvörðun á öðrum kjörum viðkomandi hópa. Ef svo er ekki gengur þetta frumvarp út á það — án þess að segja það — að skera verulega niður réttindi forsetans, hæstaréttardómara, ráðherra, þar með talið forsætisráðherra og þingmanna. Þá skulu menn bara segja það hér vegna þess að það þarf að koma fram.