Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 17. febrúar 2009, kl. 21:27:13 (3892)


136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:27]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við sem hlustuðum hér til hliðar á hv. þingmann vorum farin að velta því fyrir okkur hvort eina lausnin á þessu máli væri ekki að setja bara sérlög um lífeyrisaðgang hv. þm. Péturs H. Blöndals þannig að hann gæti fengið það sem hann vill ótruflaður af öðrum.

Almenna reglan er sú, sem hv. þingmaður þekkir auðvitað, að menn skipast þar í lífeyrissjóði sem starfsstétt þeirra og/eða vinnuveitandi segir til um. Það er hin almenna skipan á lífeyrismarkaðnum eins og kunnugt er, með því svigrúmi eða þeim frávikum sem val býður upp á í þeim tilvikum sem það er mögulegt.

Með breytingunni hér verður þetta allt algerlega gagnsætt að minnsta kosti hvað þennan þátt málsins varðar, að sá hópur sem hér á undir, forsetinn, hæstaréttardómarar, ráðherrar og alþingismenn verða eins og hverjir aðrir félagsmenn í A-deild Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna. Og vel að merkja, þegar menn ræða þessi mál hér tala menn alltaf eins og Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna sé bara B-deildin, sé bara gamli tíminn, sem enn lifir að sjálfsögðu. Við erum að tala hér um að þeir gangi inn í nýja fyrirkomulagið, inn í A-deildina sem er reiknuð út og tryggingafræðilega uppbyggð eins og aðrir lífeyrissjóðir og þannig lagað séð tel ég að menn séu að færa þetta til rétts vegar. Hluti þessa hóps, hæstaréttardómarar ef ég veit rétt, eru opinberir embættismenn, þeir eru skilgreindir opinberir embættismenn. Það eru vissulega þingmenn, ráðherrar og forseti Íslands ekki í sama skilningi því að þeir eru kjörnir og um þá gegnir öðru máli. Þannig er það en ég held að það sé að mörgu leyti eðlilegast og liggi næst að sá hópur fylgi þá embættismönnunum inn í Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Mér finnst þetta vera tiltölulega hrein skipan sem kemst á með (Forseti hringir.) þessu frumvarpi.