Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 17. febrúar 2009, kl. 21:49:39 (3898)


136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:49]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta er svolítið erfið umræða því að þeim hefur tekist, flokksfélögunum hv. þm. Bjarna Benediktssyni og Pétri Blöndal, að vera gjörsamlega ósammála í þessu efni. (Gripið fram í.) Annar vill hraða réttindaávinnslu þingmanna og ráðherra sérstaklega en hinn vill borga í Lífeyrissjóð bænda. (Gripið fram í.) En báðir standa þeir á blaði sem ég prentaði út úr tölvunni áðan um þá 30 sem sögðu já árið 2003. Ég sé ekki betur en að þar séu nöfnin Bjarni Benediktsson og Pétur H. Blöndal, og ég held að þetta séu sömu mennirnir og sitja á þingi núna. Ég veit það beinlínis vegna þess að ég var viðstaddur þessa atkvæðagreiðslu eins og sjá má á nöfnum þeirra 14 sem sögðu nei.

Ég tel að það sé minni háttar mál hvort lífeyriskjör þingmanna fara að reglum sem gilda um opinbera starfsmenn eða hvort þau fara að reglum sem gilda um ... (Gripið fram í.) — minni háttar mál, já. Ég tel að aðalmálið sé að þau forréttindi þingmanna og ráðherra, þó einkum ráðherra, eftir hin frægu lög frá 2003 sem báðir hv. þingmenn Pétur Blöndal og Bjarni Benediktsson samþykktu, séu afnumin. Ég get vel ímyndað mér í framtíðinni að styðja Pétur Blöndal til þess að hann fái að borga í Lífeyrissjóð bænda eða hvaða lífeyrissjóð sem hann vill, (Gripið fram í.) ég held að það væri vel við hæfi. Ég held að framtíðin verði sú, þó að ég geri mér grein fyrir tregðulögmálinu í því og ýmsum aðstæðum sem m.a. hæstv. fjármálaráðherra rakti áðan, að lífeyriskjör allra landsmanna verði jöfnuð og þeim mun eytt sem nú er á opinberum starfsmönnum og almennum markaði í þessu efni. (Forseti hringir.) En það hefur auðvitað afleiðingar fyrir kjör opinberra starfsmanna að öðru leyti.