Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 17. febrúar 2009, kl. 21:53:48 (3900)


136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:53]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Um kjör forseta Íslands er það að segja af minni hálfu að mér eru þau ókunn. Ég hef ekki sett mig inn í kjör forseta Íslands, hvorki launakjör hans sérstaklega né önnur kjör. (BjarnB: Frumvarpið fjallar um hann.) Þó að ég hafi talað hér um frumvarpið í heild sinni var ég hvorki sérstaklega að mæla með né á móti þessum breytingum ef um breytingar er að ræða.

Ég tel hins vegar ósköp eðlilegt að ef forseti Íslands lætur af störfum löngu fyrir aldur fram — sem ekki hefur verið venjan um forseta Íslands — bíði hann hefðbundins tíma í samfélaginu með að fara á lífeyri. Það er hægt að kjósa forseta Íslands 35 ára gamlan, ef ég man rétt, og hann gæti þess vegna setið til 39 ára aldurs. Mér þætti óeðlilegt ef t.d. hv. þm. Bjarni Benediktsson væri í þeirri stöðu að hann nyti síðan lífeyriskjara frá 39 ára aldri til sjötugs eða hvað það væri.

Hvað hitt efnið varðar geri ég ráð fyrir að menn fjalli um það í nefnd. Mér þykir ekki eðlilegt að menn njóti lífeyris áður en þeir eru komnir á aldur, það er ósköp einfalt.

Um yfirlæti þingmanns, þess sem hér stendur, og dómhörku hans og dómgirni er það að segja að í þessu máli er hún fullkomlega viðurkennd og ég tel að hún eigi á sér fullan rétt gagnvart þeim 30 sem sögðu já í þessu máli og gagnvart þeim sem féllust á það óréttlæti og beittu sér fyrir því sem þarna var haft í frammi. Ég er stoltur af því annars vegar að hafa sagt nei við því frumvarpi sem þá var í afgreiðslu (Forseti hringir.) og hins vegar því að mæla með frumvarpi til afnáms þessara laga sem hér er flutt.