Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 17. febrúar 2009, kl. 22:12:16 (3907)


136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[22:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta síðasta atriði sem hv. þingmaður nefndi er sjálfsagt mál að skoða í þingnefnd. En það er tekið á því í greinargerð eða umsögn með frumvarpinu og það var skoðað af hálfu þeirra sérfræðinga sem það unnu. Það var ekki talin ástæða til að taka þetta fram, að það væri nægjanlegt að geta þess í lögskýringargögnum að allur áunninn réttur myndar biðrétt sem er til staðar þegar þau mörk koma til sögunnar sem menn gátu nýtt sér hann á liðnum tíma. Þannig er þetta úr garði gert og ég hvet hv. þingmann til að skoða það í greinargerð með frumvarpinu.

En komist þingnefndin að þeirri skoðun að ástæða sé til að kveða skýrar á um þetta og jafnvel færa það inn í frumvarpið sjálft þá er sjálfsagt mál að það verði athugað. En það var mat þeirra sérfræðinga sem þetta unnu að sú lögskýring sem þarna er sett fram væri nægjanleg.

Ég vil svo bara vegna þess hvernig hv. þingmaður nefnir hér aftur og aftur þetta að þeir sem tilheyra gamla hópnum verði einum meinað að gera hvort tveggja í senn að þiggja eftirlaun eða vera í launuðum störfum hjá hinu opinbera þá veit ég ekki til þess að þetta sé breyting frá gildandi lögum. Er það ekki rétt munað hjá mér að þetta hafi verið inni í stjórnarfrumvarpinu sem flutt var fyrir jólin og samþykkt með nánast hliðstæðum hætti?

Og ef svo er og ef hv. þingmaður og þáverandi stuðningsmaður ríkisstjórnar hefur greitt því atkvæði sitt þá hittir hann nú sjálfan sig fyrir þegar hann heldur sínar ræður hér. Ef ég er hér að fara með eitthvað — eða að einhverju leyti minni mitt er að bregðast mér þá biðst ég velvirðingar á því. En ég hef skilið að þetta væri svona, að þetta hefði verið aftengt í því frumvarpi sem hv. þingmaður var aðili að fyrir jólin.