Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 17. febrúar 2009, kl. 22:19:41 (3911)


136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[22:19]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei. Það eru að sjálfsögðu engin áform um það enda hreyfir frumvarpið ekki á nokkurn hátt við því fyrirkomulagi sem er innan opinbera lífeyrissjóðakerfisins eða hins almenna. Þetta snýst bara um það að færa þennan hóp inn í A-deild Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna.

Þriðja greinin er til þess að taka af það mikla sérréttindafyrirkomulag sem komst á með lögunum 2003 — í þeim skilningi urðu þessi ákvæði virk miklu fyrr og ríkar en áður hafði verið mögulegt þegar opnaðist fyrir það að menn gátu hafið töku lífeyris miklu fyrr og sumir jafnvel eftir alllanga þingsetu eða ráðherradóm átt umtalsverð lífeyrisréttindi og jafnframt gegnt sendiherrastöðum eða bankastjórastöðum eða forstjórastöðum hjá hinu opinbera á fullum launum. Menn voru þá á svimandi háum kjörum borguðum úr ríkissjóði í báðum tilvikum.

Þetta ávinnslukerfi þarna, tökukerfi þarna, er gjörólíkt því sem gildir bæði í Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna og í almenna kerfinu. (PHB: Eins og í B-deildinni.) Að verulegu leyti ólíkt og miklu ríkara, (Gripið fram í.) hv. þingmaður. Það er ekki verið að hrófla við því. Enda á það sér allt sínar sögulegu rætur og sögulegu skýringar sem við höfum rætt hér í kvöld. Þó að hv. þingmaður tönnlist hér endalaust á orðinu forréttindakerfi minni ég hann á það sem ég rifjaði hér upp, og hv. þingmaður mótmælti ekki, að uppbygging lífeyrissjóðakerfis landsmanna á sér sögulegar rætur og sögulegar skýringar. Þetta hefur verið hluti af kjaraumhverfi fjölmennra stétta um áratugaskeið og það gengur ekki að hv. þingmaður tönnlist endalaust svona á þessu og sýni því fullkomna lítilsvirðingu að á þessu eru skýringar og (Forseti hringir.) sögulegur bakgrunnur í málinu. Ég verð að segja eins og er að það (Forseti hringir.) kann að vera að hv. þingmaður ætli ekki að bjóða sig fram aftur til Alþingis en hann ætlar alla vega ekki að sækja mikið fylgi til opinberra starfsmanna.