Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 03. mars 2009, kl. 16:53:32 (4503)


136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[16:53]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Af því að þetta er dagur hinna miklu uppljóstrana á þingi þá get ég viðurkennt að ég hef tekið við þessum starfskostnaðargreiðslum á þeim forsendum að verið sé að greiða, að vísu með ákaflega ónákvæmum hætti, einhvern þann kostnað sem ég varð fyrir þegar ég gegndi starfi alþingismanns og verð að einhverju leyti fyrir í þessum innhlaupum mínum sem varaþingmaður núna.

Ég hef aldrei notað þessa vildarpunkta og vil eiginlega ekkert við þá kannast satt að segja, gerði það ekki þegar ég var hér á síðasta kjörtímabili. Ég vil taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal um vildarpunktana og fleiri af slíkum „fiffum“ sem ég tel að við eigum að berjast á móti og reyna að draga niður. Það er alveg rétt hjá honum að það er einmitt þannig að þeir sem kaupa vöruna eru líka að borga „fiffin“ fyrir hina. Það á að vera þannig, og þar styðst ég við stefnu neytendasamtaka hér og erlendis, að þetta sé útilokað og verð vörunnar miðist við það sem varan kostar fyrir þann neytanda sem hana fær, ekki þannig að menn séu að kaupa eitthvað annað þegar þeir eru að kaupa þessa vöru, hvorki handa sjálfum sér né öðrum. Þannig á það að vera. Því miður hefur þetta verið þáttur í ruglinu undanfarna áratugi.

Síðan er hollt fyrir hv. þm. Pétur Blöndal að gera það upp við sig og hann hefur með einhverjum hætti getað lægt veðrin í kolli sínum varðandi það sem hann gerði árið 2003 þegar hann tók þátt í þessari afgreiðslu á eftirlaununum Það er í sjálfu sér rétt hjá honum að hvað þingmennina varðaði var verið að jafna kjör eða lagfæra með einhverjum hætti, þó þannig að þau héldust sem forréttindakjör. Með ráðherrana er það hins vegar þannig, og það hlýtur hv. þingmaður að samþykkja eða viðurkenna, að verið var að bæta eftirlaunakjör þeirra með slíkum hætti að uppreisn varð í samfélaginu á eftir.