Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 03. mars 2009, kl. 16:57:57 (4505)


136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[16:57]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er sjálfsagt að taka þetta upp við næsta tækifæri sem býðst, á næsta kjörtímabili, að fara yfir starfskostnaðinn eða núna þess vegna ef menn vilja, mér finnst alveg sjálfsagt að gera það. Ég tek undir efasemdir Péturs H. Blöndals um það að hann standi undir nafni og lýk þar með þeirri umræðu.

Um lífeyrissjóðakerfið almennt verð ég að segja það, ég gleymdi að segja það í síðasta andsvari, að ég tipla ekkert í kringum það eins og köttur í kringum heitan graut. Það geta menn ekki lesið út úr ræðu minni áðan þegar ég, eins og vinur sem segir til vamms, talaði um bæði kjör þeirra sem þarna starfa, um takmarkað umboð þeirra og um ráðstafanir þeirra síðustu árin, hvernig þeir vörðu fé almennings og hvernig þeir tóku þátt í þeirri skrúfu sem að lokum leiddi okkur á barm glötunar.

Ég vil hins vegar segja að við verðum að fara varlega í miklar breytingar á þessu. Hér er í fyrsta lagi um mikla fjármuni að ræða, á blaði eru þeir a.m.k. miklir. Við höfum hingað til talið að þetta væri eitthvað það jákvæðasta í fjármálum okkar Íslendinga, að hafa þó tekist að koma upp þessu lífeyrissjóðakerfi og verið þar skrefi á undan ýmsum öðrum þjóðum af því að við erum með þetta uppsöfnunarkerfi en ekki gegnumstreymiskerfi.

Nú tek ég reyndar eftir því t.d. í frönskum blöðum að þar eru menn komnir á aðra skoðun. Þar segja menn: Við erum heppnir að vera með gegnumstreymissjóði en ekki uppsöfnunarsjóði vegna þess að það er þá þannig að við töpuðum engum peningum í þessari miklu krísu, og það er sjónarmið sem við þurfum að athuga.

Hingað til hefur þetta verið þannig að það voru verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur sem bjuggu þessa lífeyrissjóði til í samningunum 1969, og fyrr og síðar, og þeir aðilar hafa kannski fengið að (Forseti hringir.) njóta þess í gagnrýnisleysi stjórnvalda og almennings að þeir gerðu (Forseti hringir.) okkur þennan greiða. Ég tel að hafa verði samráð við þessar hreyfingar, verkalýðshreyfinguna og atvinnurekendur, um breytingar (Forseti hringir.) á þessu, það sé verkefni næstu ára að gera það.